19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

6. mál, almannavarnir

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. hélt hér mjög langan og fróðlegan fyrirlestur í mannkynssögu, og það, sem raunverulega stóð eftir af hans röksemdum fyrir hervörnunum svokölluðu á Íslandi, var, að það væri svo mikill árásarhugur í Sovétríkjunum, að þaðan mætti alltaf við árásum búast, og þess vegna yrðum við hér á Íslandi að hafa hervarnir og draga að okkur alla þá hættu, sem í sambandi við þær væri.

Mér kom í hug, þegar hæstv, dómsmrh. var að tala allt sitt langa mál að anzi væri hart að hafa ekki meira en athugasemdartíma til þess að taka þetta fyrir. Mér lá við að segja við hann: Nýtur þess Bjarni, að nú er ég dauður. — En það verður kannske tækifæri til þess í staðinn einhvern tíma seinna. En á meðan mun ég reyna á þolinmæði hæstv. forseta, hve löng athugasemdin verður, án þess samt að misnota það tækifæri, sem mér er gefið.

Ég held, að það sé mjög nytsamlegt, að við ræðum þetta mál, ef við getum, ofan í kjölinn, vegna þess að það er greinilegt í sambandi við þá miklu deilu, sem hér stendur um nytsemi almannavarna og um hættuna af herstöðvunum, að þessi spurning einmitt um ímyndaða árásarhættu frá Sovétríkjunum er vafalaust ekki aðeins hjá hæstv. dómsmrh., heldur líka hjá mörgum af hans fylgísmönnum höfuðröksemd þeirra fyrir því, að við verðum að hafa hér svokölluðu hervarnirnar og draga þannig að okkur, að okkar áliti, hætturnar af kjarnorkustyrjöld. Og nú síðast var svo komið, að í staðinn fyrir, að menn hafa hingað til haldið því fram, að hér þyrfti að staðsetja flugvélar, til þess að þær gætu varizt hugsanlegum árásum á landið, þá er því nú lýst yfir, að höfuðatriðið hér á Íslandi frá sjónarmiði Bandaríkjanna sé orðið kafbátastöð, og engum dettur í hug að ætla hana eða kafbátana hér sem einhverja sérstaka vörn fyrir fólkið á Íslandi. Það er m.ö.o. orðið alveg greinilegt, að með þeim herstöðvum, sem hér eru, ekki sízt kafbátastöðvunum, sem verið er að undirbúa, er gildi Íslands fyrst og fremst orðið hernaðarlegt gildi fyrir Bandaríkin í þeirra hugsanlegu stríði, en ekki hervarnir fyrir Íslendinga. Það getur víst engum dottið í hug, að kafbátastöð hér á Íslandi eigi að draga úr hættunni, sem hins vegar hæstv. dómsmrh. fannst að herstöðvar á Keflavíkurflugvelli og flugvélar jafnvel með kjarnorkuskeytum þar mundu gera.

Svo að ég hverfi svolítið að sögunni, sem hæstv. ráðh. kom inn á, vil ég minna á, að við höfum áður deilt hér um sögu í þessu sambandi. Hann spurði mig einu sinni að því, hvort ég gæti bent á nokkurt lýðræðisríki, sem hefði gerzt árásarríki, og ég rakti fyrir hann alla sögu 19. aldarinnar um, hvernig einmitt þessi frægustu og beztu lýðræðisríki Vestur-Evrópu hefðu verið harðvítugustu árásarríki heimsins, sem lagt hefðu undir sig meginhlutann af jörðinni og haldið því í byrjun þessarar aldar. Ég skal ekki fara að rifja það nú upp. En hæstv. ráðh. viðurkenndi, að kenningar mínar 1939 og 1940 hefðu reynzt réttar, — þær kenningar, að hlutleysi og friðhelgi Íslands ættum við að reyna að fá styrkt með því móti að fá þau stórveldi, sem síðan urðu að Sameinuðu þjóðunum, til þess að viðurkenna þetta hlutleysi og þessa friðhelgi og ábyrgjast það með yfirlýsingum, sameiginlegum yfirlýsingum þessara stórvelda, sem seinna meir áttu eftir að standa saman og verða kjarninn í hinum Sameinuðu þjóðum. Það er rétt, að sagan hefur sýnt, að ég hafði á réttu að standa þá. En hvað var sagt um mig þá? Hvað var sagt um þessar kenningar minar þá? Þá var sagt, að þetta væri allt saman þjónkun við Rússa. Og ég vil nú spyrja hæstv. dómsmrh. og hv. þm., sem honum fylgja: Er nú ekki tími til kominn, að þið lærið eitthvað af þessu? Nú viðurkennið þið, að ég hafi haft á réttu að standa þá. Nú hef ég tillögur að gera í þessum málum og hef gert og hef sýnt fram á, hve nauðsynlegt væri, að Ísland héldi sínu hlutleysi og friðhelgi og reyndi að tryggja sig, t.d. með ábyrgð stórveldanna og yfirlýsingu þeirra um, að þau virði þetta á sama hátt og þau hafa gert, er þau viðurkenndu Austurríki. Ég efast ekki um, að ég hef rétt fyrir mér í þessu í dag, og mér þykir leiðinlegt, ef það þurfa að liða 20 ár, þangað til menn sjá það, eða kannske enginn okkar lifi það af að sjá, að ég hef haft á réttu að standa. En ég hafði á réttu að standa í fleiru en hvað snerti okkar innanríkísmál og öryggi Íslands þá. Eg hafði líka á réttu að standa um mína skilgreiningu á alþjóðamálum. Hvernig var afstaða mín þá, þegar München-samningurinn var gerður og þegar einmitt allar þessar umr. fóru fram? Hann var gerður í sept. 1938. Hvað var München-samningurinn, og hvernig skilgreindi ég hann þá? Eg skilgreindi hann sem samsæri helztu auðvaldsríkjanna í Evrópu, Þýzkalands og Ítalíu, Englands og Frakklands, samsæri þeirra gegn Sovétríkjunum og smáríkjunum í Evrópu, samsæri þeirra um, eftir að hafa fórnað Austurríki, ákveðið að fórna Tékkóslóvakíu og fórna Spáni, samsæri þessara miklu auðvelda á móti lýðræðinu og sósíalismanum í Evrópu. Og hvernig skilgreindi ég þá Chamberlain og hans framkomu í sambandi við München? Ég skilgreindi hana sem rýtingsstungu í bakið á lýðræðinu í Evrópu. Ég skilgreindi hann sem Júdas gagnvart lýðræðinu í Evrópu. Hvernig tók Morgunblaðið Chamberlain þá og München? Morgunblaðið fagnaði. Það fagnaði þessu, og það gekk svo langt, að það líkti Chamberlain næstum því við Jesú Krist og hélt því fram, að með þessu illvirki, sem þýddi það að ofurselja eitt sterkasta lýðræðisríkið í Evrópu, Tékkóslóvakíu, væri verið að tryggja friðinn. Hvert er álit sögunnar og allra sagnaritara í dag á því, hvað München var? München er orðið mesta skammaryrði sögunnar í dag. Og Chamberlain, já, aumingja Chamberlain, það er víst enginn, sem dettur í hug að þakka honum neitt í dag.

Hvernig stóðu hlutirnir þá? Hlutirnir stóðu þá þannig, að Sovétríkin buðust til þess, er München-samningurinn var gerður, við forseta Tékkóslóvakíu að standa með Tékkóslóvakíu í stríði á móti Hitler. Og þetta haust, 1938, var Tékkóslóvakía eitt bezt vígbúna landið í Evrópu, og þá var Hitler og hans þýzki her ekki reiðubúinn, eins og hans herforingjar hafa staðfest seinna, til þess að byrja heimsstríð, þannig að hefði þá verið lagt til stríðs, þá hefði Þýzkaland undireins beðið ósigur. Það, sem skorti á þá, var, að forseti og stjórn Tékkóslóvakíu þorðu ekki að leggja í það að berjast við hliðina á Sovétríkjunum einum á móti Hitlers-Þýzkalandi, vegna þess að þeir, sem lengst stóðu til hægri í Tékkáslóvakíu, sögðust þá mundu gera uppreisn og standa í stríði með Hitler, svo framarlega sem Tékkóslóvakía og Sovétríkin ættu ein að standa í styrjöld, eftir að vesturveldin hefðu svikið þau. En eins og kunnugt er, hafði Frakkland tekið ábyrgð á Tékkóslóvakíu og sveik þá ábyrgð í Münchensamningnum, en Sovétríkin höfðu tekið ábyrgð líka, en buðust til að standa við hana. Og það nákvæmlega sama, sem ég sagði þá, var líka það, sem Winston Churchill hélt fram í brezka þinginu, og það, sem síðar meir var viðurkennt að hefði verið rétt. Hver var hins vegar skoðun Morgunblaðsins hér á Íslandi þá? Hún var, að það hefði verið alveg sjálfsagt að fórna Austurríki, sjálfsagt að fórna Tékkóslóvakíu. Og hvernig var litið á lýðræðið á Spáni? Hvað voru lýðræðissinnarnir á Spáni kallaðir í Morgunblaðinu allan þennan tíma? Þeir voru kallaðir rauðliðar, og samúðin var öll með Franco, með fasismanum.

Síðan fór hæstv. dómsmrh. að rekja, hvað hefði gerzt 1939. Við skulum átta okkur á því, og það gera flestir sagnaritarar nútímans, að örlögin um stríðið voru ákveðin í München. Það, sem gerðist þá, var, að auðvald Evrópu sameinaðist á móti lýðræðinu og sósíalismanum, á sama hátt og það er að reyna að sameinast í Atlantshafsbandalaginu í dag. Hver var þá bardagaaðferð Sovétríkjanna? Nú skulum við muna eftir því, að Sovétríkin höfðu 20 árum áður staðið á móti öllum þessum ríkjum sameinuðum. Þau höfðu öllsömun 1918–1919 ráðizt inn í Sovétríkin til þess að reyna að slá byltinguna niður. Bardagaaðferð Sovétríkjanna var þess vegna eðlilega sú að reyna að kljúfa þessa andstæðinga sína til þess seinna meir að ná samstarfi við lýðræðisríkin í Vestur-Evrópu. Og það, sem gerðist sumarið 1939, var, — og það væri kannske þægilegast að vitna einmitt í Churchill til þess að sýna fram á, hvað þá var að gerast, — það voru sýndarsamningar, sem Chamberlain og þeir náðu við Sovétríkin þá. Það voru sendir menn af lægri gráðum úr ráðuneytunum brezku til þess að semja um það, sem átti að vera, að því er talað var um, samningar um varnarbandalag, og það var aldrei af hálfu vesturveldanna lýst yfir neinum vilja til að taka þátt í því að standa með Sovétríkjunum, ef Hitler réðist á þau. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á, að það var aðeins aths., sem hann átti rétt á að gera hér, og hann man væntanlega eftir þeirri grein þingskapa, þar sem segir, að heimilt sé að gera stutta aths. um atkvgr., um gæzlu þingskapa eða bera af sér sakir.) Já, ég skal sjá um það. Ég er víst búinn að vera 10 mínútur.

Það er alveg greinilegt, að það verður ekki tækifæri til þess, eftir að maður er dauður, að rekja allt það, sem hæstv. dómsmrh. gat sagt, og kannske gefst tækifæri til þess seinna. Ég ætla þó aðeins að lokum að minna hann á, að það, sem var aðferð auðvaldsins í VesturEvrópu þá, var að reyna að siga Hitler á Sovétríkin og láta þessum tveim aðilum blæða út í styrjöld. Og hann man kannske eftir, hvað Truman Bandaríkjaforseti, sem síðar var, lýsti yfir í júlí 1941, þegar hann var spurður um stríðíð á milli Þjóðverja og Rússa. Þá lýsti hann yfir þeirri afstöðu sinni, að það væri bezt að láta þá tvo eigast við og hjálpa síðan þeim, sem ætlaði að verða undir. Hæstv. dómsmrh. verður að muna, að aðferð auðvaldsins í Vestur-Evrópu var að siga Hitler á Sovétríkin og ætlast til þess, að hann berði þau niður. Þeim varð ekki að von sinni. Þeir biðu með að koma upp öðrum vígstöðvum, sem þeir höfðu þó lofað. Þeir gerðu það ekki 1942. Þeir gerðu það ekki 1943. Þeir gerðu það ekki fyrr en þeir sáu, að Rauði herinn var að sigra Hitler, sem þeir höfðu ekki búizt við. Kalda stríðið byrjaði raunverulega strax 1942 með því, að það var svikizt um að koma upp tvennum vígstöðvum, og kalda stríðið hélt áfram, þegar atómsprengjunni var kastað á Japan. Það var til þess að sýna einokun Bandaríkjanna á þessu voðavopni. Og kalda stríðið á rót sína að rekja til þess, að auðvald VesturEvrópu hefur alltaf sett mótsetningarnar milli auðvalds og sósíalisma hærra en alla möguleika á því að verja lýðræðið, líka lýðræði Vestur-Evrópu. Þess vegna gafst franska stjórnin upp fyrir Hitler og fórnaði lýðræðinu í Frakklandi, af því að hún var aldrei að hugsa um að verja það, heldur aðeins auðvaldið í Evrópu. Og þess vegna stóð Chamberlain eins og hann stóð, að hann setti hagsmuni alþjóðaauðvaldsins upp fyrir hagsmuni brezka imperialismans. Og það, sem var munurinn á hans afstöðu og afstöðu Churchills, var, að Churchill hafði þó manndáð í sér til þess að verja England, enska imperíalismann, en fórna því ekki fyrir alþjóðaauðvaldið.

Ég veit, að það þýðir ekki að ætla að fara að nota þennan litla aths.-tíma, og ég mun ekki misnota þolinmæði forseta, til þess að rekja þetta allt saman, og verð þess vegna að láta mér nægja það litla, sem ég nú hef sagt, og nota þá kannske tækifæri betur til þess síðar. En greinilegt er orðið, að það að uppræta þennan ótta og þennan misskilning og þessa ímyndun hjá hæstv. dómsmrh., hvaðan árásarhættan stafi, það er grundvöllurinn fyrir því að fá þá til þess að skilja, að okkur Íslendingum er nauðsynlegt til þess að tryggja líf okkar þjóðar einmitt að fjarlægja þær herstöðvar, sem draga að okkur hættuna, en hins vegar engin vernd er í.