17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

Almennar stjórnmálaumræður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það var haustið 1959, sem núv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., hlutu meiri hl. fylgis þjóðarinnar í kosningum til Alþingis, og á þeim meiri hl. hafa þeir byggt völd sín hin síðustu 4 árin. Nú við lok kjörtímabilsins er því vert að gefa því gætur annars vegar, á hvaða forsendum meiri hl. stjórnarflokkanna er fenginn, og hins vegar, til hverra hluta hann hefur verið notaður.

Forsaga síðustu kosninga var sú, að Framsfl. sleit vinstri stjórninni, sem hann hafði staðið að ásamt Alþb. og Alþfl. frá miðju ári 1956 þar til í desembermánuði 1958. Því stjórnarsamstarfi sleit Framsókn vegna þess, að ekki var fallizt á eftirgjöf á samningsbundnu kaupi verkamanna, eins og Framsókn krafðist. Þegar kauplækkunarkröfunni hafði verið hafnað, sagði Framsókn vinstri stjórninni slitið, þótt í ríkissjóði og útflutningssjóði væru nokkur hundruð millj. kr. af óráðstöfuðum umframtekjum. Á Þorláksmessudag 1958 settist svo á valdastóla ríkisstj. Alþfl. studd af Sjálfstfl. Sú stjórn notaði allan tekjuafganginn, sem vinstri stjórnin eftirlét henni, og raunar nokkurt lánsfé að auki til þess að stemma stigu við dýrtíðarvexti í augnablikinu og sagðist hafa frelsað þjóðina frá ásælni dýrtíðardraugsins og gat talið sumum skammsýnum mönnum trú um, að hér hefði verið unnið varanlegt afrek. En auk hins ímyndaða sigurs yfir dýrtíðinni vann Alþfl.-stjórnin annað afrek, sem óneitanlega var miklu raunverulegra. Það var sú ráðstöfun hennar að lækka allt kaup hjá daglaunamönnum, fastlaunamönnum og bændum. Það gerði hún með lögum frá Alþingi á öndverðu ári 1959. Með þeirri ráðstöfun var í rauninni stigið inn á þá braut, sem er núv. stjórnarstefna, og þetta fyrsta skref var á sinni tíð þeim mun meira afrek sem það var óframkvæmanlegt með liðstyrk þeirra flokka einna, sem að stjórninni stóðu. Stjórnarandstöðuflokkarnir, Alþb. og Framsókn, höfðu vald á að stöðva þessa ráðstöfun í Ed. Alþingis, ef þeir beittu sér báðir gegn henni. En Framsfl. var þá enn svo haldinn af þeirri skammsýni sinni og fyrirmunun, að kaupgjaldið væri of hátt, að hann tryggði þeirri stjórnarsamsteypu, sem enn ríkir, framgang kaupránsins með hlutleysi sínu. Þótt það kostaði allar launastéttir landsins og bændur einnig stórlega skertar tekjur, lét Framsókn sér það ekki fyrir brjósti brenna. Stjórnin kom þessu fyrsta óþurftarverki sínu í gegn eingöngu gegn andstöðu Alþb. og ekki annarra stjórnmálaflokka.

Stefnuskrárnar, sem stjórnarflokkarnir birtu kjósendum fyrir síðustu kosningar, voru um flest efnislega samhljóða. Fyrsta boðorð þeirra var samkv. Morgunblaðinu 2. okt. 1959 „stöðvun verðbólgunnar“, og fylgdu þar með ýmsir undirliðir, svo sem um samkomulag milli launþega og framleiðenda, sparnað í opinberum rekstri o.s.frv., allt fagur boðskapur á sinni tíð.

Stöðvun dýrtíðarinnar hefur hjá stjórninni orðið sú í reynd, að tvívegis á kjörtímabilinu hefur hún fellt gengi íslenzkrar krónu, þannig að miðað við skráð gengi þarf nú 260 ísl. kr. til að greiða með þann erlenda gjaldeyri, sem áður kostaði 100 kr. Samhliða þessum gengisfellingum hafa raunar orðið breytingar á ýmsum aðflutningsgjöldum. Hafa þar sum verið felld niður, svo sem hin mismunandi háu yfirfærslugjöld, en önnur ný hafa verið upp tekin, eins og söluskattarnir nýju, sem að nokkru voru á lagðir í upphafi sem bráðabirgðaskattar, sem gilda áttu aðeins eitt ár, en hafa síðan verið framlengdir til eins árs í senn, þar til nú í hinu nýja tollskrárlagafrv., að gert er ráð fyrir að lögfesta þá til varanlegrar frambúðar.

Dýrtíðin hefur því ekki stöðvazt fyrir aðgerðir núv. stjórnarvalda, heldur vaxið örar en dæmi eru til um nokkru sinni áður á sambærilegu tímabili.

Samkomulagið á milli launþega og framleiðenda, sem heitið var, hefur svo verið framkvæmt á þá lund, að þegar atvinnurekendur hafa stöðvað atvinnutækin án þess að boða verkbann að lögum, þá hleypur ríkisstj. til þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar um, að allar vinnudeilur verði aðilar að jafna með sér án afskipta ríkisvaldsins, og setur lög, sem leiða til þess, að um 200—250 þús. kr. rýrna tekjur hverrar skipshafnar á síldveiðiflotanum á einu sumarúthaldi.

Sparnaðinn í opinbera rekstrinum hefur stjórnin sýnt með því að stofna til fjölda nýrra embætta og auka fjárveitingar til allra þeirra, sem fyrir voru, og sýna fjárlögin þess greinileg merki, að þau hafa þrátt fyrir hlutfallslega lækkandi framlög til framkvæmda hækkað úr 1 milljarðs kr. áætluðum ríkisútgjöldum 1929 í 2.2 milljarða kr. á þessu yfirstandandi ári.

Með reynslu hinna síðustu ára að baki verður því ljóst, að öll fyrirheit hins fyrsta liðar kosningastefnuskrár Sjálfstfl. frá haustinu 1959 væru óaðfinnanleg revíuatriði í dag. í þeirri revíu hefur skúrkinum svo sannarlega tekizt að láta trúgjarna aðdáendur sína gína við skrautflugu, sem reynzt hefur önnur en hún sýndist.

Engum blöðum er um það að fletta, að fremur öllu öðru var það blekkingin um stöðvun dýrtíðarinnar, sem færði stjórnarflokkunum meirihlutaaðstöðu í síðustu kosningum. Þeir áttu því ekki alls kostar auðvelt með að segja alveg upp úr þurru: Nú erum við hættir við alla dýrtíðarstöðvun og munum þess í stað gera ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina. — Utan um þá ákvörðun varð auðvitað að vefa einhvern hjúp, og það gerði stjórnin líka. Þann vefnað nefndi hún viðreisn og taldi vera nýtt efnahagskerfi, laust við styrki og uppbætur, en nákvæmlega sniðið eftir vísindalega útreiknuðum þörfum þjóðfélagsins, þar sem hin eina sanna tekjuskipting þjóðfélagsstéttanna væri tryggð. Og í rökréttu framhaldi af þessum hugmyndum hefur stjórnin jafnan talið það vera fráleitast af öllu fráleitu, þegar einhverjar atvinnustéttir hafa gert tilraunir til að semja um einhverjar breytingar á kaupi sínu, því að slíkt gæti raskað hinu útvalda jafnvægi.

Hverjar eru nú hinar helztu kenningar, sem fram eru færðar því til réttlætingar, að horfið var frá stöðvun dýrtíðarinnar, sem stjórnarflokkarnir boðuðu í kosningabaráttunni, yfir á braut viðreisnarinnar, sem er alger andstaða þeirrar leiðar, sem boðuð var? Það vantar ekki, að ýmsir ráðunautar, doktorar og aðrir hátitlamenn hafa stigið í ræðustóla og fullyrt ýmislegt, t. d, að skuldir okkar við útlönd hafi verið orðnar svo miklar, að þar á yrði að binda endi, og því hefði viðreisnin verið nauðsynleg. Þeir hafa raunar líka skýrt frá því viðreisnarkerfinu til réttlætingar, að gömlu atvinnuvegirnir okkar, landbúnaður og sjávarútvegur, séu þess ekki umkomnir lengur að leggja Íslendingum til þann árlega tekjuauka, sem nauðsynlegur sé. Tveir helztu sérfræðingar stjórnarinnar, þeir Jóhannes. Nordal bankastjóri og Jónas Haralz ráðuneytisstjóri, hafa báðir lýst þessu yfir, hinn fyrrnefndi við blöð í Danmörku og Bretlandi, en hinn síðarnefndi orðaði þetta svo í opinberri ræðu hér heima fyrir: „Vegna þeirra aðstæðna, sem ég hef hér nefnt, má ekki gera ráð fyrir, að framleiðsla sjávarútvegsins, fiskveiða og fiskvinnslu, aukist samanlagt um meira en 4.5% árlega að meðaltali á næstu árum.“ Og í samræmi við þetta lét þessi sami talsmaður ríkisstj. þessi orð falla í annarri ræðu um framtíð aðalatvinnuvega landsins: „Eigi Ísland á komandi árum að ná þeim efnahagslegu framförum, sem telja verður eðlilegar og nauðsynlegar, verður landið að færa sér í nyt sérmenntað, erlent vinnuaft og erlent fjármagn, bæði opinbert fjármagn og einkafjármagn.“ Hér hafa verið tilfærð orð aðalráðunautar ríkisstj, í efnahagsmálum, en þau hafa oft reynzt skýrari og réttari túlkanir á stefnumiðum stjórnarinnar en ráðh. hafa sjálfir þorað að láta hafa eftir sér. Þó hafa ráðh. úr báðum stjórnarflokkunum staðfest, að þær hugmyndir, sem ráðunauturinn setur hér fram um innflutning erlends fjármagns og vinnuafls, séu einnig þeirra hugmyndir.

Hvernig hafa þá hinar fræðilegu undirstöður viðreisnarkerfisins staðizt. Um skuldbindingarnar og skuldasöfnunina við útlönd má auðvitað segja, að ekki þurfi neina spekinga til að sjá, að það verður að vera hóf á þeirri skuldasöfnun eins og annarri skuldasöfnun. En hitt er jafnaugljóst, að erlent lánsfé, sem notað er til að byggja upp arðbær raforkuver, sementsverksmiðju og hentug fiskiskip, eins og gert var í tíð vinstri stjórnarinnar, verða ekki þjóðinni fjötur um fót. En hitt virðist í meira lagi vafasamt og koma öldungis þvert á fyrri röksemdafærslu stjórnarinnar, að í hinu nýja plaggi hennar, sem nefnt hefur verið: Þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963–1966, stendur skýrum stöfum sem tiltekið áætlunaratriði: Aflað sé erlendra lána á næstu árum að upphæð um 600 millj. kr. að meðaltali á ári. — En þar er ekki tilgreind ein einasta meiri háttar arðbær framkvæmd, sem þessar árlegu stórlántökur eru ætlaðar til að hrinda í framkvæmd.

Fullyrðingarnar um magnleysi hinna gamalreyndu atvinnuvega reynast ekki heldur í samræmi við fengna reynslu, því að tvö hin síðustu ár hefur sjávarútvegurinn ekki aðeins skilað 4.5% verðmætaaukningu á ári, heldur 14% verðmætaaukningu hvort árið um sig, og vita þó allir, sem til þess atvinnuvegar þekkja, að sökum vantrúar stjórnarvaldanna á fiskveiðar og einstaks sinnuleysis þeirra um útvegun markaða, svo og vegna þess, að heildarviðskiptastefna stjórnarinnar er þessari atvinnugrein einkar fjandsamleg, þá hefur okkur ekki nýtzt til verðmæta sá afli, sem skip okkar fengu, nema að mjög takmörkuðu leyti. Mundi það sízt ofmælt, að verðmætaaukningin í sjávarútvegi hefði með hægu móti getað orðið 20% hvort hinna tveggja síðustu ára, ef ekki hefði ríkt í landinu stjórn, sem búin var að vísa þeirri hugmynd á bug, að hægt væri að auka verðmæti sjávarafla meira en í hæsta lagi um 41/2 % á ári.

Í landbúnaði hefur verðmætaaukningin á hvern mann, sem við hann vinnur, einnig orðið meiri en ætlað var, og það þótt ríkisstj. haldi enn þeim hluta uppbótakerfisins, sem verðbætir erlendar og innfluttar búvörur til samkeppni við innlenda búvöru, sem engra verðbóta nýtur, eins og t.d. er gert um kornvörur og ekki fæst nein leiðrétting á, því að þetta virðist vera stefnuatriði þeirrar sömu stjórnar, sem taldi sig ætla að afnema styrki og uppbætur, en gerir þó áætlanir um að verja 430 millj. kr. til þeirrar starfsemi á yfirstandandi ári.

Þótt freistandi sé að rekja enn í einstökum atriðum, hvernig það, sem kölluð voru rök fyrir viðreisninni, hefur á flestum sviðum reynzt haldlaust skraf eða hreinar fjarstæður, þá verða þau dæmi, sem hér hafa nefnd verið, að nægja, enda sanna þau það fullkomlega, að viðreisnarkerfið þjónar ekki þeim tilgangi, sem sagt var að það ætti að gera. En hver er þá tilgangurinn með því, og hvernig hefur það reynzt?

Þessa daga eru sumir talsmenn stjórnarinnar útbelgdir af því, að viðreisnin hafi reynzt ágætlega. Er ekki allt í blóma? segja þeir og vilja þakka viðreisninni það góðæri, sem við búum við um þessar mundir. Það er hverju orði sannara, að árgæzka og aflaföng eru svo mikil og ágæt um þessar mundir, að ekkert hagkerfi er til, sem megnar að yfirbuga þau uppgrip verðmæta, sem Íslendingar nú búa við, ekki einu sinni viðreisnin. Hinn mikli afli er að langmestu leyti fenginn með tækjum, sem keypt voru, áður en núverandi kerfi var upp tekið. Viðreisnin stöðvaði öll fiskiskipakaup um langt skeið og verkaði því sem óeðlilegur hemill á viðhald og endurnýjun fiskiskipaflotans. Í minni heimabyggð, sem er mest bátaútvegsstöð þessa lands, er t.d. yngsta skipið frá árinu 1960, svo grátt lék viðreisnin þann stað, að þar hefur flotinn rýrnað án teljandi endurnýjunar í 3 ár, og það er fyrst seint á yfirstandandi ári, sem von er til, að ný skip bætist í einhver skörð fyrir þau, sem fallið hafa úr notkun. En framan af stjórnartímabili þessarar stjórnar streymdu hins vegar að ný fiskiskip, sem áður hafði verið lagður grundvöllur að. Viðreisnarstjórnin hefur því notið þess, sem áður hafði verið gert, en sjálf hafði hún verið dragbítur á eðlilega framþróun í þeirri atvinnugreininni, sem borið hefur uppi framfarir okkar á liðnum áratugum og gerir enn þrátt fyrir það, að ríkisstj. og allir hennar hagspekingar hafa vanmetið og afneitað möguleikum hennar.

Það er óneitanlega dálitið fróðlegt að bera þá fullyrðingu stjórnarmanna nú, að viðreisnin skapi hér gullöld án tillits til árferðis og aflasældar, saman við það ramakvein, sem sömu aðilar höfðu uppi, rétt áður en síldveiðarnar fóru að ganga eins greiðlega og nú. Þá var allt dauflegra, þegar ágæti viðreisnarinnar átti eitt saman að vera helzta von þessarar þjóðar. En viðreisnarkerfið var þá afsakað með hinu gífurlega verðfalli á lýsi og mjöll. Eða hvort man ekki einhver eftir þessu orðalagi enn, svo margtuggið sem það var fyrir tveimur árum, þegar tiltölulega ómerkileg verðsveifla á tveimur hliðarframleiðsluvörum okkar var notuð til að afsaka vanmegun hagkerfisins gagnvart venjulegustu aðstæðum þessarar þjóðar.

Því er hins vegar engan veginn að neita, að viðreisnin hefur í veigamiklum atriðum náð því marki, sem kaupsýslu- og peningavald þessa lands hefur frá upphafi ætlað henni. Núv. ríkisstj. hefur skipulega unnið að því og til þess er kerfi hennar að byggja hér upp þjóðfélag hinna ríku, þjóðfélag, sem stjórnast af lögmáli einkagróðans. Til þjónustu við einkagróðann hafa gengisfellingarnar verið framkvæmdar. Í hans þjónustu hefur ríkisvaldinu verið beitt til að halda vinnulaunum óeðlilega niðri. Og í hans þágu var skattalögum breytt á síðasta ári í það horf, að tekjuskattur gróðafélaga var stórlega lækkaður og ný regla sett um fyrningarafskriftir, þannig að gróðaaðilarnir fá stórrýmkaða aðstöðu til auðsöfnunar á kostnað almennings. Fyrir tíð núv. stjórnar voru beinir skattar 20.7% af ríkistekjunum. Þeir voru á lagðir eftir efnahag aðila, þannig að auðugir og tekjuháir aðilar báru þar meginþungann. Nú er talið, að beinu skattarnir nemi 7% ríkisteknanna, en söluskattarnir til ríkissjóðs, sem allir verða að greiða að jöfnu, ríkir sem fátækir, þar sem þeir eru hluti almenns vöruverðs, voru því sem næst jafnháir beinu sköttunum að fjárhæð 1959, en eru nú næstum því fimmfalt hærri en þeir, og má glöggt af þessu sjá, hvort skattabreytingar stjórnarinnar muni gerðar til hagræðis auðmönnum eða almenningi.

En þótt viðreisnin hæfi vel innlendum fyrirmönnum í verzlun og peningastofnunum, eiga þó aðrir og okkur fjarlægari aðilar mestan þáttinn í smíði viðreisnarinnar og framkvæmd. Eitt af því, sem flaggað var með sem göfugu stefnumiði núv. stjórnar í síðustu kosningum, var, að við skyldum öðlast hlutdeild í frjálsum viðskiptaheimi, eins og þeir orðuðu það. Það var nógu fallegur boðskapur þeim til handa, sem vissu ekki, hvað það átti að þýða. En nokkuð kann hann að hafa skipt um svip í ljósi þeirrar reynslu, að það er einmitt hinn frjálsi viðskiptaheimur, sem verið er að laða okkur að með viðreisnarkerfinu, og það var líka verið að laða okkur að þeim heimi, þegar stjórnin þrengdi landhelgi okkar úr 12 mílum í 6 mílur, en af því var einmitt hæstv. forsrh. að gorta sem sérstökum sigri stjórnarinnar hér rétt áðan. En nú um skeið hefur það fyrirbæri, sem fyrir síðustu kosningar hét „hinn frjálsi viðskiptaheimur“, verið nefnt sínu rétta nafni, og þá heitir það Efnahagsbandalag Evrópu.

Efnahagsbandalagið er samsteypa sex Evrópuríkja, sem í raun réttri slá sér saman í eitt ríki, að því er til verzlunar- og atvinnumála tekur. Um skeið leit út fyrir, að fleiri ríki mundu bætast í samsteypu þessa. Einkum var það sumarið 1961, sem mikil þensla þessarar ríkjasamsteypu þótti líkleg. A.m.k. fékk íslenzka ríkisstj. þá alvarlegt flog og krafðist svars frá helztu samtökum atvinnulífsins á Íslandi um það, hvort þau væru því samþykk, að Ísland sækti um aðild að þeim samtökum, og slík umsókn var áform stjórnarinnar. Með inngöngu Íslands í bandalag þetta væri öllum aðilum bandalagsþjóðanna gefinn kostur á að nýta íslenzkar auðlindir til jafns við Íslendinga sjálfa. Þeir mættu virkja okkar fossa, okkar hveri. Þeir mættu veiða í okkar landhelgi, ekki bara á ytri sex mílunum, heldur í henni allri til jafns við okkur. Þeir mættu byggja sér fiskiðjuver og hefðu allan hinn sama rétt og landsmenn sjálfir. Þeir mættu flytja inn verkafólk ótakmarkað. Þeir gætu gert Íslendinga að litlum minni hluta í sínu eigin landi, sem þá væri raunar ekki lengur orðið þeirra land fremur en Frakkland, Ítalía eða Þýzkaland. Þá væri Ísland orðið sameign allra þessara þjóðlanda eða allra þessara þjóða. En ríkisstj. fékk ekki neitun frá neinum aðspurðum aðila við því að senda inngöngubeiðni frá Íslandi í þetta bandalag nema frá Alþýðusambandi Íslands. Enginn þingflokkur mótmælti þessum áformum í blöðum sínum nema Alþb. Ráðherrar landsins og ráðunautar þeirra fóru utan til að vinna að inngöngu Íslands í samtök þessi. En þeim var sagt að bíða, þar til Bretar og aðrir umsækjendur, sem hefðu orðið fyrri til, hefðu fengið sín mál samþykkt, og því lá málið í salti um skeið. Sá tími var þó notaður til að reka hér áróður fyrir aðild Íslands að ríkjasamsteypunni. Varðberg, félagsskapur til stuðnings vestrænum hernaðarsamtökum, sendi boðbera sína í allar áttir til að vinna að efnahagsbandalagsmálinu, hersetu Bandaríkjanna og aðildinni að NATO. En allt voru þetta taldar greinar og það göfugar greinar á hinum sama stofni. Loks kom að því, að Bretum var neitað um inngöngu í Efnahagsbandalagið og ljóst varð, að Íslendingum stóð innganga þar ekki heldur til boða um sinn. Þá sneri stjórnin við blaðinu. Nú stóð hún vonsvikin og rassskellt með allt á hælunum við þær dyr, sem skollið höfðu aftur við nefið á henni. Síðan reynir hún að hysja upp um sig og telja mönnum trú um, að eiginlega hafi hún aldrei neitt meint alvarlega með fyrirætluninni um aðildarumsókn, en jafnframt skimar hún eftir því, hvort ekki opnist dyrnar að nýju.

Stækkandi hluti þjóðarinnar skilur nú, að hér er ekkert meinlaust spaug á ferðum. Hér var ríkisstj. að leiða þjóðina til glötunar, og það var ekki íslenzku ríkisstj. að þakka, þótt það mistækist í þessari fyrstu atrennu. Þjóðin hefur nú líka fengið að sjá, að Framsfl. er ekki treystandi í þessu máli fremur en raunar mörgum öðrum. Sá flokkur virðist nú helzt fylgja þeirri reglu í hinum mikilvægustu málum að vera með orsökinni og á móti afleiðingunni. Hann var með kauplækkununum 1959, en á móti kjararýrnununum, sem af þeim stöfuðu. Hann sendi flokksmenn sína í fylkingum Varðbergsmanna til þess að boða hersetu, Atlantshafsbandalag og Efnahagsbandalag. En hann segist vera á móti hersetu á friðartímum, og alveg eins og ríkisstj. segist hann nú vera á móti aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu, þótt fulltrúi SÍS samþykkti að senda þangað inntökubeiðni, þegar málið var á hættulegasta stigi, og blöð og fyrirmenn Framsfl. tóku beint og óbeint undir tilburði stjórnarinnar í máli þessu. Það er því auðsætt, að í Framsókn togast á öfl gagnstæðra áforma, og það, hvort hin betri eða hin íhaldssamari öfl verða þar ráðandi eftir næstu kosningar, fer algerlega eftir því, hversu sterk og öflug fylking verður vinstra megin við hana að þeim kosningum loknum.

Því er ekki að neita, að vinstri öflin í landinu hafa drepið kröftum sínum um of á dreif á undanförnum árum. Afleiðing þess er núv. ríkisstj., sem varðar veg sinn kaupkúgun vinnustéttanna, vaxandi dýrtíð, afsali íslenzkra auðlinda í hendur útlendingum og ógnun við tilveru þjóðarinnar sem slíkrar. En einmitt nú, þegar taumlaus auðhyggja, sem Sjálfstfl. er málsvari fyrir, hefur með öllu blindað Alþfl. og glapið Framsókn svo sýn, að henni er ekki treystandi til varðstöðu um íslenzkt sjálfstæði, þá hefur góðu heilli svo skipazt, að breiðari samstaða vinstri manna hefur náðst við undirbúning komandi kosninga en nokkru sinni áður um langt árabil. Að undanförnu hafa staðið yfir samningar milli Alþb. og Þjóðvarnarmanna um, að þessir aðilar standi sameiginlega að framboðum við kosningarnar 9. júní n. k. Þjóðvarnarflokkurinn gerði Alþb. tilboð um laustengd kosningasamtök, þannig að Þjóðvarnarflokkurinn yrði ekki beinn aðili að Alþb., en stæði hins vegar að sameiginlegum framboðum með því á grundvelli stefnuyfirlýsingar, sem starfað yrði eftir á kjörtímabilinu. Samningar um þetta hafa nú tekizt og verið undirritaðir í dag. Okkur Alþb.-mönnum er þetta mikið fagnaðarefni, og svo mun og vera öllum þeim, sem af einlægni vilja spyrna gegn þeim hættum, sem við þjóð okkar blasa, ef haldið yrði áfram á þeim brautum, sem núv. ríkisstj. hefur markað sér.

Okkur Alþb.- mönnum er það vel ljóst, að mörgum framsæknum fylgismanni okkar hefur þegar fundizt of lengi dragast, að við tækjum að birta framboðslista á vegum okkar hreyfingar. Nú væntum við þess, að þeir skilji, að sú bið var vel tilvinnandi, af því að hún leiddi til þeirrar sameiningar vinstri aflanna, sem nú eru orðin. Framboðslistar Alþb. munu nú taka að birtast hver á fætur öðrum. Á þeim öllum munu þjóðvarnarmenn skipa ýmis sæti, enda standa þeir að þeim og vinna að framgangi þeirra við okkar hlið í öllum kjördæmum landsins.

Alþýðubandalagsmenn, þjóðvarnarmenn og aðrir vinstri menn um land allt! Biðinni eftir aukinni samstöðu þeirra afla, sem áður voru dreifð og ósamtaka, er lokið. Við hefjum kosningaundirbúninginn af meiri þrótti og á breiðari grundvelli en áður. Samtök okkar munu reynast sigursæl, enda þarf þjóðin þess fremur við nú en oft áður. — Góða nótt.