17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

Almennar stjórnmálaumræður

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Um langan aldur hefur það verið eitt höfuðatriðíð í baráttu íslenzkrar verkalýðshreyfingar að krefjast atvinnu handa öllum vinnufærum höndum. Við upphaf þessa stjórnarsamstarfs, sem nú hefur varað nálega eitt kjörtímabil, var því óspart spáð af hv. stjórnarandstæðingum, að sérstaklega þessi krafa verkalýðssamtakanna yrði fótum troðin og nú mundi í hönd fara sú tíð, sem atvinnurekendum væri æskilegust, þ.e. atvinnuleysi og allt illt, sem í kjölfar þess óhjákvæmilega fylgir, hvers konar kúgun hins vinnandi fólks í skjóli neyðar, sem fyrst og fremst stafaði af verkefnaskorti þeirra, sem framfæri sitt hafa af daglaunavinnu. Óþarft er að vitna í einstaka spádóma þessum fullyrðingum hv. stjórnarandstæðinga til sönnunar. Til þess eru þeir öllum landsmönnum of ferskir í minni, sér í lagi spádómar hins spaka framsóknarmanns, er spáði fyrir móðuharðindum af manna völdum við upphaf þessa kjörtímabils. Þessir spádómar um voða atvinnuleysisins hafa á stjórnarárum hæstv. núv. ríkisstj. breytzt í það að vera umr. um ofþrælkun vegna of lítils vinnuframboðs á vinnumarkaðinum um land allt.

Nú vil ég á engan hátt gera lítið úr of miklu vinnuálagi fólks, sem að sjálfsögðu hefur einnig sínar alvarlegu afleiðingar, því að öllum eru sín orkutakmörk sett. Hitt er ljóst, að hrakspárnar um atvinnuleysi og verkefnaskort vinnandi fólks annars vegar og vinnuþrælkun vegna of mikils vinnuframboðs hins vegar fara ekki saman við þá óskhyggju hv. stjórnarandstæðinga, sem þeir boðuðu þjóðinni í upphafi þess kjörtímabils, sem nú er að ljúka með alþingiskosningum 9. júní n. k. Stöðugar og sífelldar auglýsingar atvinnurekenda í blöðum og útvarpi eftir meira vinnuafli vitna ljósast um, að þessar bölsýnisspár stjórnarandstæðinga hafa ekki orðið að veruleika, — og frá sjónarmiði verkalýðssamtakanna sem betur fer. Þarf þó enginn landsmaður að efast um, að þeir aðilar í hópi stjórnarandstæðinga, sem einhvers mega sín í þessum efnum, hafa ekki látið sitt eftir liggja að gera atvinnuleysisspár sínar að veruleika, treystandi því, að þá yrðu til fullnustu nýttir þeir möguleikar, sem skapast með slíku árferði, og þannig gæti þeim stjórnarandstæðingum á ný opnazt hlið til hinna langþráðu ráðherrastóla með falli núv. ríkisstj.

Með þá reynslu, sem íslenzk verkalýðssamtök hafa af nálega 50 ára starfi sínu hér á landi í skipulögðum samtökum, er ljóst, að meginorka þeirra hefur farið í að berjast fyrir þeim frumstæða rétti, að atvinnuöryggið yrði tryggt. Væri hægt að tryggja atvinnuöryggið, skapaðist verkalýðssamtökunum aðstaða til að vinna að flestum öðrum hagsmunamálum sínum á mun æskilegri grundvelli en ella. Enginn getur með sanni sagt, að atvinnuöryggis hafi, það sem af er kjörtímabilinu, ekki verið gætt.

Samhliða kröfunni um fulla atvinnu handa öllum hafa verkalýðssamtökin ávallt haft uppi þá réttlátu kröfu, að sem flestum væru skapaðir möguleikar til að búa í mannsæmandi íbúðum. Alþfl. hefur frá upphafi starfs síns dyggilega barizt fyrir framgangi þessarar kröfu verkalýðssamtakanna. Nægir í því sambandi að minna á baráttu flokksins fyrir setningu laganna um verkamannabústaði og forustu flokksins í núv. stjórnarsamstarfi fyrir endurskoðun opinberra afskipta af húsnæðismálum og stórauknu fjármagni til þeirra hluta, en þar hlýtur fjármagnið ávallt að vera ein af höfuðundirstöðum aukinna framkvæmda samfara hagnýtingu aukinnar tækni í öllum byggingarframkvæmdum.

Núv. stjórnarandstæðingar hafa í framangreindum efnum hlotið sitt reynslutímabil, og er það landsmönnum enn fullljóst í stórum dráttum, það er stjórnartímabil hinnar svokölluðu vinstri stjórnar. Þá var stjórnað að þeirra eigin sögn í samráði við verkalýðssamtökin. Þau samráð hafa áður verið til umræðu á þessum vettvangi og óþarfi að endurtaka það nú. Hitt er ljóst, að hv. núv. stjórnarandstæðingar kvörtuðu þá ekki um framlag hins opinbera til húsnæðismála, en fóru þá með yfirstjórn þeirra, og má af því ætla, að frekar yrði ekki að gert í þeim málum. í stjórnartíð þeirra frá árinu 7.956 til og með árinu 1953 var ráðstafað af hálfu húsnæðismálastjórnar 138.1 millj. kr., til verkamannabústaða var ráðstafað 17 millj. 527 þús. kr. og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis 11.4 millj., eða samtals á kjörtímabili vinstri stjórnarinnar 167 millj. 99 þús. kr. Til samanburðar hefur núv. ríkisstj. ráðstafað til húsnæðismála frá valdatöku sinni við árslok 1959 til þessa dags 368 millj. 667 þús. kr. Fjárframlög þessi skiptast þannig, að á vegum hins almenna veðlánakerfis húsnæðismálastjórnar eru 308 millj. 727 þús. kr., til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis 14 millj. 860 þús. og ráðstafað til verkamannabústaða 42 millj. kr. Hér er þó ekki með reiknað árið 1959, sem minnihlutastjórn Alþfl. var við völd, en það ár ráðstafaði húsnæðismálastjórn 35 millj. kr., og til verkamannabústaða var ráðstafað 12.1 millj. og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis rúmum 3 millj. kr., eða samtals rúmum 50 millj. kr. Frá því að Alþfl. tók við húsbóndavaldi í félmrn. og þar með húsnæðismálunum við áramótin 1958 og 1959, hefur af hálfu ríkisins því verið ráðstafað til húsnæðismála rúmlega 419 millj. kr.

Þær tölur, sem hér hafa verið nefndar, tala skýru máli um það, hvor aðilinn, ríkisstj. eða stjórnarandstæðingar, hefur gengið betur til móts við kröfur verkalýðssamtakanna um mannsæmandi íbúðir fyrir sem flesta, þegar þeir hafa haft ráðin í sinni hendi.

Þrátt fyrir þann árangur, sem náðst hefur í núv. stjórnarsamstarfi í þessum málum, er mikið starf óunnið. Lausn þeirra verkefna, sem fram undan eru, verður ákveðin af kjósendum í þeim kosningum, sem háðar verða að lokinni þeirri kosningabaráttu, sem nú er hafin. Þessari kosningabaráttu mun endanlega ljúka með úrskurði um það, hverjir halda muni um stjórnvöl íslenzkra þjóðmála næsta kjörtímabil. Alþfl. mun ekki fremur nú en áður viðhafa neinar fullyrðingar um, hver úrslit þessarar baráttu verða. Þar verða tölurnar að tala sínu máli. Hins vegar fer það ekki á milli mála í öllum undirbúningi þeirrar kosningabaráttu, sem nú er hafin, að stjórnarandstöðubandalagið, framsóknarmenn og kommúnistar, mun fyrst og fremst beina geirum sínum að Alþfl., treystandi því, að þannig muni bezt verða höggvið skarð í núv. stjórnarsamstarf. Alþfl. leggur ótrauður til sjálfrar kosningabaráttunnar og skorar á alla meðlimi og velunnara sína að taka hvarvetna nú þegar til starfa að kosningaundirbúningnum og kosningabaráttunni. Minnumst þess, Alþýðuflokksfólk og aðrir stuðningsmenn flokksins, að sóknin er bezta vörnin.