18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

Almennar stjórnmálaumræður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þótt stjórnin tali illa um stjórnarandstæðinga, hefur hún samt ótvírætt dálæti á einum þm. stjórnarandstöðunnar, hv. 3. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, sem nú var að ljúka máli sínu. Hún hefur kosið hann bæði í Sogsvirkjunarstjórn og Norðurlandaráð. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefur með klofningsstarfi sínu verið íhaldinu betri þjónn en nokkur maður annar. Þetta þjónsverk lék hann líka dyggilega hér rétt áðan, er hann tók undir róg stjórnarinnar um Framsfl.

Vegna stóryrða Jóhanns Hafsteins um það, að aldrei hafi hvarflað að ríkisstj. að auka rétt útlendinga til fiskvinnslu hér á landi, vil ég aðeins lesa upp ummæli eins ráðh., sem sögð voru á fundi Verzlunarráðs Íslands í júlí 1961. Þau hljóða þannig, með leyfi forseta:

„Hins vegar komumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstrar fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðru móti, að breyting á henni leiddi ekki til ofveiði.”

Hér kemur eins glöggt fram og verða má, að ekki er talið neitt athugavert í ummælum þessa ráðh. að leyfa útlendingum rétt til fisklöndunar og fiskverkunar, aðeins ef hamlað yrði gegn ofveiði. Við framsóknarmenn höfum því ekkert ofsagt um fyrirætlanir ríkisstj. í þessum efnum.

Það hefur vakið athygli, að fjmrh. hefur í þessum umr, ekki minnzt einu orði á hin 59 sparnaðarloforð sín. Á þessu er þó enginn hissa, sem þekkir efndirnar á þessum loforðum. En rétt væri fyrir ráðh. að skruma heldur minna. Ráðh. er annars frægastur fyrir Íslandsmet í skatta- og tollaálögum og þar næst fyrir að slíta út úr reikningsuppgjöri ríkissjóðs til að gera útkomuna betri en hún er. Nú hefur hann tekið að sér að umsemja ríkisreikningana fyrir árin 1950–58 á sama hátt, og hann snýr greiðsluafgangi í halla. Slíkar aðfarir dæma sig sjálfar.

Það var fróðlegt að heyra Gylfa Þ. Gíslason halda því fram, að lífskjör væru nú svipuð hér og annars staðar á Norðurlöndum. Hann benti á, að verðlag væri heldur lægra hér á landbúnaðarvörum, en hins vegar heldur hærra á öðrum vörum, hvort tveggja miðað við íslenzkar krónur. Af þessu vildi hann draga þá ályktun, að lífskjörin væru svipuð hér og þar. Hinu gleymdi hann, að húsnæðiskostnaðurinn er miklu hærri hér og kaupgjaldið miklu lægra hér. Ég nefni sem dæmi, að járniðnaðarmenn í Kaupmannahöfn hafa frá 9–10 d. kr. í tímakaup eða 54–62 ísl. kr., en hér er tímakaup járnsmiða 31–36 kr. Svipað er hlutfallið milli annarra iðnaðarmanna hér og í Kaupmannahöfn. Í Kaupmannahöfn er tímakaup hafnarverkamanna tæpar 8 d. kr. eða um 48 ísl. kr., en tímakaup Dagsbrúnarmanna er um 26–27 kr. Á þessu sést bezt, hversu gífurlegur munur er á kjörum danskra og íslenzkra launþega, en fyrir gengisfellinguna 1960 var þessi munur sáralítill. Svo grátlega hefur viðreisnarstefnan leikið íslenzka launþega.

Það eru einkum þrjú skrautblóm, sem stjórnarflokkarnir hafa reynt að hampa hér viðreisninni til ágætis.

Fyrsta skrautblómið er það, að atvinna sé næg. Lítið verður hins vegar úr þessu blómi, þegar sýnt er, að þetta er að þakka óvenjulega hagstæðu árferði ásamt útfærslu landhelginnar 1958. Atvinna er næg þrátt fyrir viðreisnina, en ekki vegna hennar.

Annað skrautblómið er það, að bankarnir hafi hagstæða gjaldeyrisafstöðu út á við. Hins vegar er sleppt að gera grein fyrir, hve mikið erlendar skuldir annarra aðila hafa hækkað á undanförnum árum. Þegar dæmið er gert upp þannig, að allar skuldir eru teknar með, kemur í ljós, að heildarstaða þjóðarinnar út á við hefur ekkert batnað síðan í árslok 1958, er vinstri stjórnin fór frá völdum.

Þriðja skrautblómið er það, að sparifjársöfnunin hafi aukizt, talið í hinum verðlitlu viðreisnarkrónum. Þegar sparifjárinneignin er hins vegar miðuð við raunverulegt verðgildi, kemur í ljós, að sparifjáraukningin er nær engin. Þetta er aum útkoma eftir hið mesta góðæri og mikinn samdrátt framkvæmda, og þó er þetta aðalskrautblóm ríkisstj.

Af hálfu hæstv. ríkisstj. hefur í þessum umr. verið reynt að gera mikið númer úr hinni svokölluðu framkvæmdaáætlun, sem nýlega hefur verið lögð fyrir Alþingi. Sagt er, að hún lýsi miklum stórhug o.s.frv. Það er rétt, að í þessari framkvæmdaáætlun felst mikið skrum um opinberar framkvæmdir á næstu mánuðum, og því er hér um kosningaplagg að ræða. Þegar lengra er horft, kemur hins vegar í ljós, að markið er sett allt of lágt. Í áætluninni er gert ráð fyrir, að hagvöxturinn, þ.e. aukning þjóðartekna, verði hér um 4% á ári, eða eins og hann er í þeim nágrannalöndum okkar, sem lengst eru á veg komin, en þar er hann eðlilega hlutfallslega minnstur. Nú er það svo, að mikill munur er í dag á lífskjörum hér og í þessum löndum, þ.e., lífskjörin eru stórum lakari hér. Ef við gerum ráð fyrir, að hagvöxtur verði ekki meiri hér en í þessum löndum, þá mun bilið haldast, sem nú er á lífskjörum hjá okkur og þessum þjóðum. Það, sem við eigum að stefna að, er að komast jafnfætis þessum þjóðum í lífskjörum, en til þess þarf hagvöxturinn að vera hlutfallslega meiri hjá okkur en þeim. Það er líka takmark allra þjóða, sem eru með hálfþróaða atvinnuvegi, eins og Íslendingar, að hafa hagvöxtinn meiri en hjá þeim þjóðum, sem lengra eru komnar, og komast þannig smátt og smátt jafnfætis þeim. Af þessum ástæðum þurfum við að setja framtíðarmarkið miklu hærra en gert er í framkvæmdaáætlun ríkisstj., þ.e.a.s. efling atvinnuveganna þarf að vera meiri og hraðari en þar er gert ráð fyrir. Við eigum að stefna að því að komast jafnfætis nágrannaþjóðunum í lífskjörum, en ekki láta bilið milli þeirra og okkar haldast, eins og stjórnin gerir ráð fyrir.

Það er hins vegar skiljanlegt, að ríkisstj. skuli setja framtíðarmarkið svona lágt í þessum efnum. Með þeirri samdráttarstefnu, sem ríkisstj. fylgir, þ.e. lánsfjárhöftum, vaxtaokri og gengisfellingum, verður ekki náð eins hröðum vexti atvinnuveganna og annars væri hægt. Um þetta vitnar bezt hinn stórfelldi samdráttur, sem orðið hefur í þessum efnum í stjórnartíð núv. ríkisstj. Samkv. grg. ríkisstj. um framkvæmdaáætlunina á bls. 72–73 sést, að á árunum 1961 og 1962 hefur fjárfesting í landbúnaði verið til jafnaðar 12% minni en á árinu 1958, í sjávarútvegi 25% minni, í fiskiðnaði 2% minni, í öðrum iðnaði 25% minni, í íbúðabyggingum 23% minni og í raforkuframkvæmdum 58% minni. Þetta eru ófagrar tölur, þegar þess er gætt, að þjóðartekjur urðu stórum meiri á árunum 1961 og 1962 en á árinu 1958. Þær lýsa því, hvernig stjórnarstefnan, þ.e. dýrtíðaraukningin, lánsfjárhöftin og vaxtaokrið, hefur lagt dauða hönd á eflingu atvinnuveganna.

Það er því vafalaust rétt, að að óbreyttri stjórnarstefnu er ekki hægt að ná meiri hagvexti en framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir. Með breyttri stjórnarstefnu, með afnámi lánsfjár- og vaxtahafta og stöðvun dýrtíðar yrði hægt að ná miklu meiri árangri, enda var hagvöxturinn líka talsvert meiri en 4% á seinustu árunum fyrir viðreisnina. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er þannig sönnun þess, að breyta þarf um stjórnarstefnu, ef hér á að ná þeim árangri, að lífskjörin geti orðið svipuð hér og í nágrannalöndunum.

Stjórnarsinnar hafa mjög reynt í þessum umr. að halda því fram, að þær spár hafi ekki rætzt, sem við framsóknarmenn höfðum kveðið upp um viðreisnina í upphafi. Ég hef nú þegar lesið upp úr sjálfri skýrslu stjórnarinnar, hve stórfelldur samdráttur hefur átt sér stað í uppbyggingu atvinnuveganna seinustu árin, og þarf því ekki að ræða það meira, hvernig spádómur okkar um samdrátt uppbyggingar atvinnuveganna hefur rætzt. En við spáðum því einnig, að viðreisnin mundi leiða til stórfelldustu dýrtíðar og stórum ranglátari skiptingar á þjóðareignum og þjóðartekjum. Hefur þetta kannske ekki rætzt? Ég vil í framhaldi af því bera fram nokkrar spurningar til ykkar, hlustenda minna, og bið ykkur sjálfa að svara.

Er það rangt, að dýrtíð hafi vaxið hér meira síðustu 4 árin en nokkru sinni fyrr á 4 árum áður? Er það rangt, að Ísland hafi á þessum 4 árum átt algert Evrópumet í aukinni dýrtíð, gengisfellingum og vaxtaokri? Er það rangt, að menn þurfi nú vegna hinnar stórauknu dýrtíðar að vinna miklu lengri vinnutíma en áður? Er það rangt, að það sé miklu örðugra nú fyrir ungt fólk en það var fyrir 5 árum að reisa eigið heimili eða koma fótum undir atvinnurekstur? Er það rangt, að svo gífurlega hafi viðreisnin verðfellt spariféð, að fyrir þær krónur, sem menn gátu fengið fyrir 100 sterlingspund árið 1958, fá þeir ekki nema 50 sterlingspund nú? Er það rangt, að þeir, sem skulduðu mest, hafi raunverulega verið gerðir stóreignamenn með gengisfellingunum, en hinum efnaminni hefur aftur á móti verið gert miklu örðugra fyrir að koma undir sig fótunum? Er það rangt, að á undanförnum árum hafi vissir milliliðir og stóratvinnurekendur grætt stærri upphæðir en nokkru sinni fyrr, meðan fjöldi manna verður að stórlengja vinnutíma sinn til þess að geta haft rétt til hnífs og skeiðar? Og ég spyr ykkur enn: Eru sjáanlegar nokkrar horfur á því, að því dýrtíðarflóði, sem núv. stjórnarstefna hefur valdið, sé að linna, — þessu dýrtíðarflóði, sem gert hefur nokkra menn að auðkóngum, en skert sjálfsbjargarmöguleika fjöldans stórlega frá því, sem áður var? Eru ekki nær allir kaupsamningar lausir af ótta launþega við það, að þeir verði að vera reiðubúnir til að mæta nýjum kjaraskerðingaraðgerðum af hálfu stjórnarvaldanna? Við hverju búast menn nú fremur að óbreyttri stjórnarstefnu en nýrri gengisfellingu innan fárra mánaða?

Ég spyr ykkur, hlustendur góðir: Haldið þið, að það sé leiðin til velfarnaðar, að dýrtíðin hækki áfram á svipaðan hátt og á undanförnum 4 árum? Haldið þið, að það sé leiðin til velfarnaðar að halda því áfram að fella krónuna í verði? Haldið þið, að það sé grundvöllur til að byggja á vaxandi framfarir og blómlegt efnahagslíf að láta óðaverðbólgu halda áfram að leika lausum hala, eins og hún hefur gert á undanförnum árum? Haldið þið, að það sé leiðin til að byggja réttlátt og heilbrigt þjóðfélag, að taumlaus dýrtíðarstefna haldi áfram að gera þá ríku ríkari og fátæku fátækari, haldi áfram að skerða möguleika efnalítils fólks og uppvaxandi fólks til efnalegs sjálfstæðis og sjálfsbjargar? Er það ykkar draumur, að þjóðfélag hinna fáu ríku og mörgu fátæku verði þjóðfélag framtíðarinnar á Íslandi? Trúið þið því, að stjórnarflokkunum takist eitthvað betur í þessum efnum á næstu 4 árum, ef þeir halda völdum, en þeim hefur tekizt á undanförnum árum?

Nú kunnið þið að segja, hlustendur góðir, að þið viljið ekki þetta, þið viljið hins vegar fá að heyra, hvort framsóknarmenn hafi upp á eitthvað annað að bjóða, — kunnið þið framsóknarmenn kannske ráð til að draga úr dýrtíðarhættunni? Ég svara því fyrst til, að við viljum gera ýmsar ráðstafanir til lækkunar, og nefni ég þar fyrst vaxtalækkun. Við höfum á Alþingi borið fram till. um mikla lækkun tolla, enda eru álögur ríkisins nú orðnar meira en tvöfalt meiri en þegar framsóknarmenn sátu í stjórn. Á þennan hátt viljum við vinna gegn nýjum verðhækkunum og að bættum kjörum launþega án kauphækkana. Fyrst og fremst leggjum við svo áherzlu á, að tekið sé upp miklu nánara samstarf milli stéttanna. Í stað þess, að núv. ríkisstj. hefur í öllum kaupdeilum undanfarið staðið með stóratvinnurekendum og jafnvel hvatt þá til óbilgirni, eins og vorið 1961, viljum við, að ríkisvaldið vinni að sáttum og samkomulagi milli stétta. Ég minni á í þessu sambandi, að það voru norðlenzkir framsóknarmenn, sem áttu meginþátt í að leysa hin stórfelldu verkföll sumarið 1961 og lögðu með því grundvöll að hóflegum kjarabótum, jafnvægi í efnahagsmálum og tveggja ára vinnufriði, ef ríkisstj. hefði ekki spillt honum með gengisfellingunni. Aftur voru það norðlenzkir framsóknarmenn, sem með sanngjörnum kaupsamningum komu í veg fyrir vinnudeilur á s.l. vori og aftur nú í vetur með 5% kauphækkun til hinna lægst launuðu. Það fordæmi, sem hér hefur verið gefið, sýnir það og sannar, að það er hægt að leysa þessi mál sanngjarnlega og skapa efnahagslegt jafnvægi, ef ósanngjörn ríkisstj., sem dregur taum stórgróðamanna og stóratvinnurekenda, eyðileggur ekki samvinnu stéttanna með óbilgirni og ranglátum ráðstöfunum.

Hæstv. forsrh. var að segja það í umr. í gærkvöld, að það yrði ekki haft að neinu, ef Framsfl. ynni á í kosningunum, stjórnarflokkarnir mundu halda dauðahaldi í viðreisnina, þ.e. stefnu gengisfellinga, vaxtaokurs og kjaraskerðingar, hvað sem tautaði. En hlustendur góðir, hafið þið ekki heyrt hæstv. forsrh. og flokksbræður hans gefa stóryrtar yfirlýsingar fyrr og beygja sig svo fyrir óttanum við kjósendur, þegar þeir sáu, hver vilji kjósenda var? Í fyrravor skorti ekki á þær hótanir af hálfu stjórnarflokkanna, að kauphækkun yrði mætt með gengisfellingu, líkt og gert var 1961. Eftir úrslit bæjar- og sveitarstjórnarkosninganna féllu stjórnarflokkarnir hins vegar frá þessum hótunum. Það varð ekki af gengislækkuninni. Sigur Framsfl. í bæjarstjórnarkosningunum í fyrra var það mál, sem þeir skildu og beygðu sig fyrir. Svo mun enn fara, ef Framsfl. vinnur á í þessum kosningum.

Það er staðreynd, að tvö seinustu árin hafa þjóðartekjurnar stóraukizt af völdum óvenjulegs góðæris. Það er einnig staðreynd, að kjör meginþorra launþega og meginhluta bændastéttarinnar hafa versnað á þessum tíma, ef miðað er við óbreyttan vinnudag. Stjórnarstefnan hefur verið andstæð þessum meginstéttum þjóðfélagsins. Þetta á að vera þessum stéttum, sem eiga svo margt sameiginlegt, aukin hvatning um að taka betur höndum saman og efla ítök sín og áhrif á þingi þjóðarinnar, þar sem hagsmunamál þeirra eru endanlega ráðin. Þessi áhrif og ítök treysta þessar stéttir bezt með því að fylkja sér saman um einn öflugan flokk, er skiptir ekki liði sínu. Þessi skilningur kom vel í ljós í bæjarstjórnarkosningunum seinustu, en úrslit þeirra sýndu, að Framsfl. er orðinn annar stærsti flokkurinn í kauptúnum og kaupstöðum landsins, jafnhliða því að vera stærsti flokkurinn í sveitunum. Með því að efla einn öflugan flokk, en skipta sér ekki, styrkja launastéttir og bændur því fordæmi, sem bezt hefur gefizt þessum stéttum í öðrum löndum.

Jafnframt því að stöðva dýrtíðina, tryggja verðgildi krónunnar, er varðveizla sjálfstæðisins nú sem fyrr höfuðmál þjóðarinnar. Þar hljóta að gerast mörg tíðindi á því kjörtímabili, sem fram undan er. Áður en ár er liðið, munu áhrifamikil öfl í Bretlandi krefjast þess, að undanþágurnar, sem brezkir togarar hafa nú til veiða innan fiskiveiðilandhelginnar, verði framlengdar. Er þá kannske hægt að treysta þeim flokki, sem neitaði að standa með hinum flokkunum að útfærslu fiskveiðilandhelginnar vorið 1958? Er þá hægt að treysta þeim flokkum, sem veittu undanþágurnar, þótt þeir hefðu lofað því hátíðlega fyrir seinustu kosningar, að slíkt skyldi ekki gert. Og áður en gengið verður til næstu kosninga, mun afstaða Íslands til Efnahagsbandalags Evrópu verða endanlega ráðin. Er í þeim samningum, sem þar eru fram undan, hægt að treysta þeim flokkum, sem hafa bersýnilega unnið að því leynt og ljóst að innlima okkur sem nánast í þetta bandalag?

Þær kosningar, sem fram fara innan tveggja mánaða, munu verða einhverjar þær örlagaríkustu í sögu þjóðarinnar. Þann dag, 9. júní, verða örlög þjóðarinnar í þínum höndum, góði kjósandi. Við skulum vona, að 9. júní 1963 verði íslenzku þjóðinni hamingjudagur.