12.11.1962
Sameinað þing: 12. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

Efnahagsbandalagsmálið

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Áður en ég minnist á þau afskipti, sem við framsóknarmenn höfum haft af efnahagsbandalagsmálinu, vil ég fara örfáum orðum almennt um málið, ef verða mætti til að skýra okkar viðhorf.

Ekki verður betur séð en stefnt sé að því, að Efnahagsbandalagið verði bandaríki á meginlandi Evrópu. Rómarsáttmálinn sjálfur er á því byggður, að þjóðir bandalagsins gangi undir sameiginlega stjórn, sem nær í raun réttri til meginþátta efnahagsmála, atvinnumála og viðskiptamála. Enn fremur á því, að þjóðirnar opni auðlindir sínar til lands og sjávar hver fyrir annarri og allir hafi sama rétt í öllum löndunum til að notfæra sér þær. Atvinnurekstur megi allir þegnar þessara landa setja upp að vild í hverju landanna sem er og hafi einnig jafnrétti alls staðar til að leita sér atvinnu. Það er því ljóst og ekki um deilt, að þær þjóðir, sem í bandalagið ganga, afsala sér sjálfstjórn á ýmsum veigamestu þáttum í þjóðarbúskap sínum.

Annað mál er svo það, af hverju þjóðir í Vestur-Evrópu gera þetta. Út í það fer ég lítið. En þungt mun sennilega á metunum að freista þess að steypa saman þjóðum meginlandsins, sem illa hefur gengið að halda friðnum innbyrðis, svo að það sé hógværlega orðað.

Líklegt þykir mér einnig; að þessi stórbylting hafi reynzt framkvæmanleg m.a. vegna þess, hve atvinnukerfi þessara landa hafa í ýmsu tilliti samtvinnazt áður með samstarfi ýmissa stórfyrirtækja margra landa í þýðingarmiklum greinum. Enn fremur hefur það greitt fyrir, á hve líku stigi flest af sexveldunum eru í atvinnulegu tilliti og að ekkert landanna á öðru fremur ónotaðar náttúruauðlindir í stórum stíl.

En hvað um það, Efnahagsbandalag Evrópu er orðið staðreynd, sem smáþjóðir og einnig dvergþjóð eins og við þarf að taka afstöðu til. Þarf þó margt að íhuga, og verður fæst af því nefnt af mér í þessari stuttu ræðu.

Íslendingar eru ein fámennasta þjóð heimsins, 180 þúsundir, ef ekki sú fámennasta, en eiga gott og gjöfult land. Þjóðin hefur nýlega heimt sjálfsforræði sitt til baka eftir aldalanga kúgun og erlend yfirráð, sem höfðu nær riðið þjóðinni að fullu. Íslenzka þjóðin er ekki fjölmennari en lítil borg eða bær eða byggðarlag í þeim löndum, sem eru í Efnahagsbandalaginu. En þessar fáu sálir hér hafa vafalaust meira umleikis en nokkrar aðrar jafnfáar á jörðinni. Ég held, að það sé ekki of mikið sagt.

Síðan Íslendingar fengu aðstöðu á ný til að ráða málum sínum sjálfir, hefur þjóðin rifið sig upp efnalega og menningarlega. Rétt er að gera sér þess fulla grein, að velmegun og uppbygging Íslendinga byggist fyrst og fremst, að öllu öðru ólöstuðu, á auðugustu fiskimiðum heimsins umhverfis landið, í landhelginni og utan hennar, og ekki síður á aðstöðunni í landi til að verka sjávaraflann. Og þjóðarbúskapur okkar hefur mikið grundvallazt á því, að þessa aðstöðu höfum við notað fyrir okkur eina.

Það mundi ekki lengi verða að koma upp í talsverðan tollamismun á fiski, ef Íslendingar afsöluðu sér þessari sérstöðu og hleyptu útlendingum að til að notfæra sér aðstöðuna hér til fiskiðnaðar og fiskveiða, svo að bara sé minnzt á sjávarútveginn, en ekki vikið að öðrum auðlindum landsins.

Það á ekki að koma til mála, að örsmá þjóð eins og við Íslendingar gangi undir samstjórn á veigamiklum þáttum efnahags-, atvinnu- og viðskiptamála með háþróuðum iðnaðarstórveldum Evrópu. Það jafngilti því að afsala sér alveg yfirráðum í þeim málum sem samstjórnin fjallaði um, því að augljóst er, að Íslendingar gætu alls engin áhrif haft í stjórn þessa tröllaukna bandalags. Öðru máli gegnir með stórveldin, sem í bandalagið ganga, því að sum ganga þau í bandalagið beinlínis með það fyrir augum að geta ráðið í bandalaginu.

Jafnrétti útlendinga við okkur hér í atvinnurekstrar- og atvinnumálum gæti hæglega leitt til þess og mundi vafalaust leiða til þess, að Íslendingar misstu, áður en nokkur vissi hvaðan á sig stæði veðrið, gersamlega tökin á atvinnu-, viðskipta- og félagsmálalífi landsins.

Í þessu sambandi nægir að minna á, að í þeim löndum, sem mynda Efnahagsbandalagið, úir og grúir af fyrirtækjum, sem hvert um sig hefur meiri veltu en nemur allri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Þar fyrir utan koma svo margvísleg tengsl á milli slíkra fyrirtækja, svo að úr verða hrein stórveldi.

Í atvinnurekstrar- og atvinnumálum getur því aldrei orðið um neitt raunverulega gagnkvæmt að ræða milli Íslendinga og annarra þjóða. Það sama á raunar við um fjölmargt annað en þessi réttindi, því að Íslendingar hafa í grundvallaratriðum sérstöðu meðal þjóða heimsins, jafnvel hinar smæstu aðrar eru ekki á nokkurn hátt sambærilegar við okkur vegna stærðarmunar og aðstöðumunar á margvíslegan hátt.

En hver er þá vandinn, sem Íslendingum ber að höndum við stofnun Efnahagsbandalagsins og þó einkum stækkun þess, ef t.d. Bretar og Norðmenn ganga í bandalagið? Sannleikurinn er sá, að það vitum við ekki enn þá alveg til fulls, hver sá vandi er eða verður. En eins og horft hefur, lítur út fyrir, að Efnahagsbandalagið muni hafa talsvert háa ytri tolla, og ef það yrði áfram og fleiri lönd bættust í hópinn, t.d. Bretar og Norðmenn, gæti það orðið okkur erfitt, því að þau lönd, sem þá yrðu í bandalaginu, hafa verið meðal okkar beztu viðskiptalanda og eru í hópi þeirra, sem eðlilegast er fyrir okkur að skipta við, vegna legu þeirra og annarra aðstæðna. Við þurfum því að reyna að finna leiðir til þess, að viðskiptatengsl okkar og menningartengsl við þessi lönd rofni ekki, enda þótt þessi ríki stofni nýtt bandalag, ríkjasamsteypu, jafnvel bandaríki, sem við getum ekki gengið í. Því verður að treysta, að þessu verði unnt að ná með sérsamningum um tolla- og viðskiptamál. Hin leiðin, að taka upp samninga um aðild með svo og svo miklum undanþágum frá Rómarsamningnum, yrði alveg ófær.

Þessi hugsanagangur, sem ég nú hef aðeins lauslega rakið, hefur, frá því að fyrst var farið að íhuga þessi mál, gert okkur framsóknarmenn að talsmönnum þess að bíða átekta í því trausti, að jarðvegur verði fyrir lausn á þessum grundvelli, — á þeim grundvelli að ganga ekki í bandalagið, en ná við það viðunandi samningum um tolla- og viðskiptamál.

Fyrir rúmu ári, í ágústmánuði 1961, fóru að berast fréttir um, að verið væri að athuga afstöðu Íslands til Efnahagsbandalagsins á vegum ríkisstj., og upplýst, að ýmsum félagssamtökum hefði verið gefinn frestur að tilteknum degi í ágúst í fyrra til að segja til um, hvort þau vildu, að Ísland sækti um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Þegar þessi tíðindi bárust, varð okkur satt að segja ekki um sel, og sneri Framsfl. sér til ríkisstj, og óskaði eftir því, að fulltrúar frá flokknum fengju aðstöðu til að fylgjast með því, sem unnið væri að athugun málsins. Var á það fallizt, að við skyldum fá frá stjórninni upplýsingar hennar um það, sem gerðist, og tveimur af ráðh. ríkisstj. falið að hafa samband við okkur Hermann Jónasson, en við vorum til þessara samtala kjörnir af Framsfl. hendi.

Í samræmi við þann hugsunarhátt, sem að framan er lýst, höfum við lagt höfuðáherzluna á, að öllu þessu máli yrði gersamlega frestað og beðið átekta. Enn fremur höfum við lagt til, að umr. við erlenda aðila um hugsanlegar leiðir í málefnum Íslands og Efnahagsbandalagsins færu þar af leiðandi ekki fram, þar sem slíkt væri ekki tímabært. Um þessa málsmeðferð hefur á hinn bóginn ekki náðst samkomulag við hæstv. ríkisstj., eins og fram kom af skýrslu viðskmrh. Rök okkar fyrir algerri frestun og bið í þessu máli eru og hafa verið í aðalatriðum þessi:

Enginn veit enn, hvernig fer um samninga þeirra landa við Efnahagsbandalagið, sem nú hafa sótt um aðild, og því ekki vitað, hve víðtækt bandalagið verður.

Þá er það um tollmúrana og tollverndina. Hæstv. viðskmrh. dró hér að vísu áðan upp fremur ljóta mynd af nýrri þjóðasamsteypu í Vestur-Evrópu, sem girti sig háum tollmúrum og beitti höftum og öðrum viðskiptatálmunum, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Stingur þetta illa í stúf við það, sem haft hefur verið á oddinum, að einmitt þessar þjóðir og aðrar fleiri stefndu að frjálsum viðskiptum, og sterk öfl vinna raunverulega að því, að svo verði. Óvíst er því, hve mikla tollvernd Efnahagsbandalagið muni veita þeim þjóðum, sem í því verða. Stefnt er að samningum Bandaríkjanna og Efnahagsbandalagsins, eins og hæstv. viðskmrh. raunar gat um, um tollalækkun og frjáls viðskipti, og allt stefnir að lækkun tolla og frjálsari viðskiptum þjóða í milli, en ekki auknum verndartollum og höftum: Sú almenna tilhneiging gengur í frelsisáttina, í þá átt að eyða tollum, og ég trúi því ekki, að útflutningsvörur Íslendinga verði þær einu, sem eftir verða skildar að lokum.

Óvíst er, hvaða breytingar verða á bandalaginu, ef Bretar ganga í það, og þá hvaða samningar verða gerðir um sérmál samveldislandanna.

Óhugsandi virðist annað en bandalagið muni gera viðskipta- og tollasamninga við ýmis lönd, ekki sízt ef ytri tollar þess verða háir, því að engin ástæða er til þess að ímynda sér, að ætlunin sé að hrekja öll þau lönd úr viðskiptatengslum við bandalagið, við Vestur-Evrópu, sem geta ekki gerzt aðilar þar á meðal t.d. ýmis þau lönd, sem hafa sótt um samninga við bandalagið, eins og Ísrael o.fl. en ekki sótt um neins konar aðild. Það hljóta því að verða ýmsir samningar gerðir, sem geta orðið stuðningur við okkar málstað. Bandalagið á vafalaust eftir að gera mikið til, að ýmis lönd, sem ekki geta gengið í það, slitni ekki úr viðskiptatengslum. Samningar af þessu tagi geta tæpast orðið gerðir eða komið alvarlega til álita eða meðferðar, meðan forráðamenn bandalagsins og þjóða þess eru önnum kafnir við að fjalla um málefni þeirra þjóða, sem sótt hafa um aðild að Efnahagsbandalaginu, annaðhvort það, sem kölluð er full aðild, eða aukaaðild. Möguleikarnir til að ná þess háttar samningum við bandalagið geta því alls ekki orðið kannaðir, hvað þá meir, eins og nú standa sakir, né dæmdar líkur um þá á nokkurn hátt.

Þessar ástæður hafa m.a. verið grundvöllur þess, að við höfum talið, að það ætti að bíða átekta, og erum einnig þeirrar skoðunar, að viðræður þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur efnt til, hefðu átt að bíða.

Málstað Íslands er ekki hægt að skýra, nema búið sé að ákveða, eftir hverju á að sækjast fyrir Ísland í viðskiptum og samskiptum við bandalagið. Sé það ekki ljóst, eftir hverju menn eru að sækjast, hvert menn stefna sjálfir, snúast slíkar viðræður upp í spurningar um, hvaða leiðir hinir erlendu aðilar sjái í málefnum Íslands og bandalagsins. Er þá áður en varir farið að ræða um leiðir, en þá á þann hátt, sem líklegastur er til þess, að hinir erlendu aðilar móti hugsanagang beggja aðila.

Hætta er á því, að í slíkum viðræðum mótist ótímabærar hugmyndir á báða bóga, sem valdið geta miklum erfiðleikum og misskilningi síðar, þegar tímabært er fyrir Íslendinga að taka upp samninga um það, sem þeir sækjast eftir. Á þetta höfum við lagt áherzlu frá fyrstu tíð, að við fórum að hafa hin minnstu afskipti af þessu máli. Við höfum því verið og erum mótfallnir umr. við einstakar ríkisstjórnir og forráðamenn Efnahagsbandalagsins um leiðir í málefnum Íslands og bandalagsins, fyrr en Íslendingar hafa gert, upp við sig, hverju þeir vilja ná í samningum við bandalagið. Þetta teljum við mjög þýðingarmikið, því að aldrei fæst úr því skorið, hverju hægt er að ná, nema þannig sé farið að. Lausleg samtöl um það, hvað hægt sé eða ekki hægt, geta enga hugmynd gefið um, hvernig endanlega verði mögulegt að leysa þessi mál.

Ýmislegt af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði hér, sýnir glöggt, að því er mér virðist, að í þessu höfum við haft rétt fyrir okkur. Ráðh. kvaðst gera grein fyrir því, hvernig tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið gætu hugsanlega orðið. Fljótt kom í ljós á hinn bóginn, sem vitað er, að þetta er ekki mögulegt á grundvelli þeirra samtala, sem fram hafa farið, og alls ekki tímabært eða unnt að kryfja hina þýðingarmestu málaflokka í því sambandi til mergjar. Varð ráðh. að fylla mál sitt fyrirvörum í þessu sambandi. Þegar kom t.d. að tollasamningsleiðinni, gerði ráðh. ótal ágizkanir með fororðunum: hugsanlegt, sennilegt, ef svo færi o.s.frv., um hin þýðingarmestu atriði. Sama var í raun og veru að segja að nokkru leyti um aukaaðildarleiðina svokölluðu.

En illa þekki ég til, ef þessar ágizkanir ráðh. með fyrirvörunum, t.d. um, hverju ekki muni vera hægt að ná með tollasamningum, sem enginn getur neitt um sagt og réttast hefði verið að segja ekkert um, — illa þekki ég til, ef þær verða ekki, þessar ágizkanir, mjög notaðar fyrirvaralaust af þeim, sem vilja koma Íslandi inn í þjóðasamsteypuna í Vestur-Evrópu.

Eitthvað er um það rætt, að Íslendingar geti fengið að senda greinargerð um afstöðu sína í sjávarútvegsmálum á fund bandalagsins um þau efni. Komi það til, verður að vera tryggt, að á slíkan fund sé ekki farið með né þangað sent annað erindi um sjávarútvegsmál Íslendinga en samræmist stefnu Alþingis eða m.ö.o. íslenzkri löggjöf um fiskveiðar, fiskverkun, fiskveiðilandhelgi og önnur málefni sjávarútvegsins, og að sýnt sé fram á, hvílík höfuðnauðsyn Íslendingum er að halda þeirri stefnu í sjávarútvegsmálum, sem við höfum haft.

Sú skoðun okkar framsóknarmanna, að Ísland geti ekki gengið í Efnahagsbandalag Evrópu, eins og ég sagði áðan, — ekki af því, að Ísland eigi ekki samleið með vestrænum lýðræðisþjóðum, og ég á þá ekki bara við þjóðir Vestur-Evrópu, heldur engu síður við lýðræðisþjóðir Norður-Ameríku, heldur af því, að það samrýmist ekki sjálfstæðri tilveru svo fámennrar þjóðar að sameinast stórþjóðum í Efnahagsbandalagi, sem flest bendir til að eigi að verða að ríki, — bandalagi, sem nú þegar byggist á því, að gengið sé undir samstjórn í meginþáttum efnahags-, viðskipta- og atvinnumála og hundruðum milljóna manna með ótakmörkuð fjárráð veittur aðgangur að lands- og sjávargæðum landanna.

Ísland getur ekki gengið undir samstjórn þessara þjóða í einu eða öðru formi eða veitt slík réttindi. Það verður að vera á valdi Íslendinga sjálfra, hvort og með hvaða skilyrðum erlendum aðilum er leyft að reka atvinnu, eiga eignir eða leita sér atvinnu á Íslandi, og má gjarnan nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því, að hvað sem Efnahagsbandalaginu líður, ber brýna nauðsyn til þess að setja skýrari og strangari reglur um rétt útlendinga í þessum efnum en nú eru í lögum.

Hæstv. viðskmrh. sagði í ræðu sinni, að misskilningur væri, að við þyrftum að geta haldið frá landinu erlendu fjármagni og vinnuafli, og óraunhæft, að tengsl við Efnahagsbandalagið mundu leiða til ásóknar erlendra aðila til að reka hér atvinnufyrirtæki. Um þetta er ég á allt annarri skoðun, eins og fram hefur komið í því, sem ég hef sagt, og hér er sýnilega um grundvallarskoðanamun að ræða. Það er lífsnauðsyn, að þessi mál séu á okkar valdi, og geigvænleg hætta, ef svo er ekki.

Ég hef ekki talað hér um fulla aðild og aukaaðild, enda vitum við ekki, hver munur verður á þessu tvennu. Ég hef á hinn bóginn rætt, hvort fært er fyrir Íslendinga að ganga í bandalagið, og lýst þeirri skoðun, að það sé ófært. Í 238. gr. Rómarsáttmálans, sem gerir ráð fyrir sérsamningum, sem menn eiga víst við, þegar talað er um aukaaðild, sést ekki, hvað við er átt með aukaaðild. Það eina, sem mér vitanlega liggur fyrir af þessu tagi, er samningurinn við Grikki.

Frá sjónarmiði okkar Íslendinga sýnist mér ekki hægt að gera mun á gríska samningnum og inngöngu í bandalagið. Hann er beinn vegur inn í bandalagið, og þangað ætla Grikkir.

Stundum hefur verið sagt, að aukaaðild gæti þýtt allt frá 1% upp í 99% af skuldbindingum Rómarsamningsins. Hæstv. viðskmrh. talaði einnig um, að í aukaaðild gæti kannske verið mikið eða lítið eftir atvikum. Þetta er því eitthvað á reiki. En það eina, sem við þekkjum, er Grikklandssamningurinn, sem jafngildir alveg inngöngu í bandalagið.

Svo heyrum við einnig, að hæstv. ráðh. fór ekki dult með, að aukaaðild mundu m.a. fylgja atvinnurekstrarréttindi útlendingum til handa eða samningar um þau viðkvæmu mál. Getur það varla verið eða má vera nokkurt feimnismál, að þar er í fremstu röð, þótt fleira komi til, um að tefla fiskiðnaðinn íslenzka og aðstöðuna til, að útlendingar notfæri sér landið við fiskveiðar. En ég hef áður drepið á þýðingu þeirra mála.

Þá var ljóst af máli hæstv. ráðh., að hann taldi, að aukaaðild jafngilti þátttöku í bandalaginu, því að tollasamningar þýddu það að vera utan við, sagði hæstv. ráðh.

Ég tel, að markmið Íslendinga eigi að vera samningar um tolla- og viðskiptamál án annarra tengsla við bandalagið. Ég trúi því, að við náum hagkvæmum samningum á þessum grundvelli við þær þjóðir sem að bandalaginu standa og eru okkur sérstaklega vinveittar og hafa allra þjóða bezta aðstöðu til að skilja okkar afstöðu og sérstöðu, til að skilja baráttu 180 þúsund manna, sem vilja halda uppi sjálfstæðu ríki, þótt lítið sé, og telja sig hafa til þess fullan rétt, sögulegan og menningarlegan, og telja sig engum troða um tær, þótt þeir haldi yfirráðum yfir lands- og sjávargæðum sínum, sem sjálfstæð tilvera þjóðarinnar byggist á.

Ég vil ekki gera ráð fyrir því, að ætlunin sé að loka Vestur-Evrópulöndunum fyrir okkur með háum tollmúrum, þótt við getum ekki allra aðstæðna vegna gengið í Efnahagsbandalagið, enda heyrði ég, að hæstv. ráðh. gerði í sínu máli einmitt ráð fyrir þeirri leið að semja um tolla- og viðskiptamál við Efnahagsbandalagið, og taldi hana aðra þeirra leiða, sem til greina kæmu.

Ég vil líka benda á, að ef Norðmenn og Bretar fara inn í Efnahagsbandalagið, þá yrði verndartollum og innflutningshöftum á fiski í Vestur-Evrópu eingöngu haldið uppi til þess að útiloka íslenzkan fisk, og ég vil ekki trúa því, að slíkt geti komið til greina. Ég vil ekki trúa því, að þjóðir Vestur-Evrópu muni halda uppi þeirri tollapólitík og höftum á fiski eingöngu til að loka markaði sínum fyrir íslenzka fiskinum. Og ég tel, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., að einmitt þessi aðstaða verði okkur mjög þýðingarmikil í samningunum, þegar þar að kemur.

Að lokum vil ég svo aðeins segja um meðferð málsins og leggja áherzlu á, að nú verði ákveðið að bíða átekta, eins og hæstv. ríkisstj. hefur raunverulega lýst yfir, og vona ég, að það verði þá raunverulega beðið átekta. Ég legg áherzlu á, að það þýði, að viðræður um leiðir í málefnum Íslands og bandalagsins verði stöðvaðar og ekki látnar fara fram, fyrr en ríkisstj. og Alþingi hafa gert upp við sig, eftir hverju Ísland ætlar að sækjast í samningum við bandalagið, enn fremur, að ekki verði frá slíkum samningstillögum gengið af Íslands hálfu, fyrr en skýrzt hefur, hvernig fer um samninga þá, sem ýmsar þjóðir austan hafs og vestan hyggjast gera við bandalagið nú í náinni framtíð. Loks legg ég áherzlu á, að engar greinargerðir um stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum verði sendar á ráðstefnur erlendis, munnlegar né skriflegar, nema í samráði við Alþingi.