14.11.1962
Sameinað þing: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

Efnahagsbandalagsmálið

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur skýrt þetta mikla mál svo vel frá öllum hliðum, að ég þarf í rauninni litlu eða engu þar við að bæta. Mér hefur þótt rétt að skýra frá því, að innan ríkisstj. hefur enginn ágreiningur verið, hvorki um efnishlið málsins né um málsmeðferðina, enda þótt menn kunni að vera mismunandi bjartsýnir á, hverra kosta við Íslendingar kunnum að eiga völ, þegar þar að kemur.

Ég get ekki neitað því, að allt frá því að mér fyrst bárust fréttirnar um stofnun Efnahagsbandalagsins og myndun fríverzlunarsvæðisins, hef ég óttazt, að nýr og mikill vandi yrði af þeim sökum færður að —dyrum okkar Íslendinga. Og ég tel, að sú þróun málsins, að samræmi verði á milli Efnahagsbandalagsins og sjöveldanna svonefndu að mestu eða öllu leyti, greiði ekki götu íslenzkra hagsmuna. Fari svo, að allar þær Vestur-Evrópuþjóðir, sem Íslendingar eiga mest viðskipti við, þjóðir, sem við á s.l. ári seldum meira en 3/5 hluta allra útflutningsafurða okkar, girði sig háum tollmúrum, er Íslendingum ekki vænlegt að standa utan garðs og að heldur fyrir það, að innan veggja eru þá ekki einvörðungu flestar beztu viðskiptaþjóðir okkar, heldur og allar aðalfiskframleiðsluþjóðir Vestur-Evrópu, að Íslendingum einum undanskildum. Verður þá samkeppnisaðstaða okkar við þær mjög örðug, svo að ekki sé fastara að orði kveðið, og hætt við, að þessar þjóðir auki þá fiskframleiðslu sína svo mikið, að lítil eða engin þörf verði fyrir íslenzkan fisk í þessum löndum.

Ég þarf ekki að fjölyrða um, hvað af þessu mundi leiða. Allir hljóta að skilja, að þótt lítið væri á fjárhaginn einan, er okkur mikil nauðsyn á að komast inn fyrir þennan múr, og hníga þó að því fleiri og ekki siður mikilvæg rök, svo sem fram kom í ræðu hæstv. viðskmrh. og ég skal ekki endurtaka hér.

Þetta viðhorf hefur lengi blasað við núv. ríkisstj. og í æ skýrara ljósi. Við gerðum okkur strax í öndverðu ljóst, að okkur bar skylda til í fyrsta lagi að kynna okkur þetta flókna vandamál frá öllum hliðum, til þess þannig að geta myndað okkur sem gleggsta skoðun á því, hver áhrif þess yrðu á íslenzka hagsmuni. Í öðru lagi að kynna öllum helztu valdamönnum Efnahagsbandalagsins málstað okkar, til þess með því að freista þess að skapa samúð með okkur og girða fyrir, að teknar yrðu ákvarðanir, sem á síðara stigi málsins yrðu þess valdandi, að ekki reyndist auðið að taka fullt tillit til sérstöðu Íslands í þessum efnum. Og loks í þriðja lagi að binda ekki hendur okkar, fyrr en Alþingi hefði fjallað um málið, þegar að því kemur, að Íslendingar þurfa að ákveða sig, en það er að dómi stjórnarinnar vart fyrr en búið er að ganga frá samningum við þær Evrópuþjóðir, sem nú hafa sótt um aðild eða aukaaðild að bandalaginu.

Þessi boðorð höfum við haft að leiðarljósi í allri meðferð málsins. Við höfum kynnt okkur ákvarðanir og skoðanir valdhafa bandalagsins, við höfum kynnt þeim þarfir og vandkvæði okkar Íslendinga, og við höfum forðazt að binda hendur þjóðarinnar beint eða óbeint. Hygg ég, að allir, sem vilja samstarf við vestrænar þjóðir, muni að lokum viðurkenna og fagna því, að með þessu höfum við gert það, sem í okkar valdi hefur staðið til að tryggja hagsmuni Íslands. Hitt er eðlilegt, að þeir, sem vilja rjúfa þau bönd, amist við öllu, sem gert er til að reyna að styrkja þau.

Við ráðh. Sjálfstfl. í ríkisstj. erum, eins og ég raunar þegar er búinn að taka fram, sammála þeim sjónarmiðum, sem fram komu í ræðu hæstv. viðskmrh. Við teljum Íslendingum brýna nauðsyn að ná hagkvæmum tengslum við Efnahagsbandalagið, en gerum okkur, eins og öll ríkisstj., fulla grein fyrir því, að geta okkar til að greiða inngangseyrinn er mjög takmörkuð. Verður í þeim efnum fyrst og fremst að treysta á samúð ráðamanna Efnahagsbandalagsins og skilninginn á því, að mörg þau höfuðskilyrði, sem bandalagið setur meðlimum sínum, færa margfalt meiri hættu yfir Íslendinga en þjóðir bandalagsins, og það svo, að sumt, sem öðrum er léttbært, getur reynzt banvænt íslenzkum hagsmunum og jafnvel þjóðarfrelsinu sjálfu. Verðum við að byggja vonir okkar á því, að vinaþjóðir okkar skilji sérstöðu okkar og geri sér einnig grein fyrir því, hvaða áhrif það hefur, ef Ísland verður skilið eftir utan dyra.

Í ræðum hv. stjórnarandstæðinga gætir nokkurs misskilnings, sem ég þó leiði hjá mér að svara, vegna þess að hæstv. viðskmrh, mun gera það nú, þegar ég lýk máli mínu, en til hans beindu hv. ræðumenn fsp. sínum. Ég leiði einnig hjá mér að benda á veilurnar í málflutningi andstæðinganna, sem sumar hverjar eru þó býsna furðulegar, vegna þess að ég tel farsælast að forðast eftir föngum heitar deilur um þetta mikla mál, sem þjóðin á svo mikið undir, að farsællega leysist.