14.11.1962
Sameinað þing: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

Efnahagsbandalagsmálið

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. vildi í ræðu sinni í dag neita því, að hann hefði áður lýst því yfir, að í rauninni væri aðeins um tvær leiðir að ræða fyrir Íslendinga til þess að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu, og að því leyti væri það nýtt í upplýsingum hans, sem fram kom í ræðu hans s.l. mánudag, að einnig gæti verið um þriðju leið að ræða. Mér kom það nokkuð einkennilega fyrir að heyra, að hæstv. ráðh. skyldi neita þessu hér úr þessum ræðustóli.

Ég hef, eins og eflaust fleiri hv. þm., lesið bókarpésa, sem gefinn var út af Frjálsri menningu og kallaður er Sjálfstæði Íslands, en er frá umr., sem þessi samtök efndu til einmitt um efnahagsbandalagsmálið. Í þessari bók kemur það mjög greinilega fram, að hæstv. viðskmrh. hefur haldið þessu fram mjög skýrt og ákveðið í þeim umr., sem þar fóru fram, að það væri aðeins um tvær leiðir fyrir Íslendinga að gera til þess að tengjast Efnahagsbandalaginu, annaðhvort að sækja um fulla aðild eða aukaaðild, og um annað gæti varla verið að ræða. Í þessari bók er haft eftir hæstv. ráðh. um þetta efni m.a. orðrétt sem hér segir:

„Þess vegna held ég,” sagði hæstv. ráðh., „að við getum ekki gert okkur von um, að okkar vandi geti leystst á svona einfaldan hátt eins og að fara tollasamningsleið” — sem þá var verið að ræða. „Staðreyndir málsins,” sagði ráðh., „eru þær, að það er ekki hægt að ræða um tengsl við Efnahagsbandalagið nema á tvennan hátt, annaðhvort samkv. 237. gr. um fulla aðild eða samkv. 238. gr. um aukaaðild. Í báðum tilfellunum hljóta tengslin í grundvallaratriðum að vera á grundvelli Rómarsamningsins. Þetta er vandinn, sem okkur er á höndum, ekki bara okkur, heldur öllum öðrum þjóðum, sem leitað hafa tengsla við Efnahagsbandalagið.”

Og það var ekki aðeins hæstv. ráðh. einn, sem hélt þessari skoðun fram á þessum umræðufundi. Einn af fremstu sérfræðingum ríkisstj. í þessum málum, Jóhannes Nordal bankastjóri, staðfesti einnig á þessum fundi þessa sömu skoðun og undirstrikaði það, að í raun og sannleika væri ekki nema um þessar tvær leiðir að velja. Það, sem Jóhannes Nordal sagði um málið, var á þessa leið:

„Í þessu efni er eitt alveg ljóst, en það er, að Rómarsamningurinn gerir ekki ráð fyrir nema tvenns konar umsóknum, umsókn um fulla aðild samkv. 237. gr. og umsókn um aukaaðild samkv. 238. gr. Efnislega gæti umsókn um aukaaðild verið mjög lík þeirri tegund af umsókn eða samningi, sem Eysteinn Jónsson nefndi áðan (en hann hafði einmitt rætt um tollasamningsleiðina). Hins vegar yrði samningurinn að vera gerður samkv. 238. gr., og slíkur tvíhliða samningur og án formlegrar aukaaðildar kemur áreiðanlega ekki til greina.“

Það var ekkert verið að skera þar við nögl sér af þeim, sem bezt þekktu til um þetta mál á þessum tíma, að svona lægju hlutirnir. Það var því fyllilega ástæða til þess að minnast á það hér í þessum umr., að nú, þegar hæstv. viðskmrh. gefur skýrslu í nafni allrar ríkisstj. um þetta mál, þá kom vissulega fram einn nýr þáttur, það er hin svonefnda þriðja leið. Út af fyrir sig mundi ég segja, að hér sé ekki um neitt ýkjamerkilegt atriði í þessu máli að ræða, annað en það, að mér sýnist á þessu eins og ýmsu fleiru, sem ég mun koma hér að nánar síðar, að það sé ekki alls kostar áreiðanlegt allt, sem sagt er á hinum einstöku tímum af hæstv. ríkisstj. og ráðunautum hennar um einstök atriði þessa máls. (Gripið fram í.) Jú, jú, það sakar ekki. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. segir í þessu, sem ég las upp, að það gæti ekki verið um önnur tengsl við Efnahagsbandalagið að ræða, svo að það fór ekkert á milli mála, að hann notaði nákvæmlega sama orðið þá og hann notar nú í sinni nýju skýrslu. (Menntmrh.:) Þarna er átt við aðild.) En það er eins og ég segi og mun koma að nánar síðar, að mér sýnist þetta fyrst og fremst merkilegt í sambandi við það, að það verði að trúa ýmsu því, sem sagt er um þessi mál, heldur varlega.

Í umr. þeim, sem átt hafa sér stað um hugsanlega aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu, hefur því mjög verið haldið fram af ýmsum aðilum, að í rauninni væri Íslandi nauðugur einn kostur að gerast þátttakandi í bandalaginu með einum eða öðrum hætti vegna mikilla viðskiptatengsla við lönd bandalagsins. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í ýmsu því, sem komið hefur fram hjá hæstv. ríkisstj. um málið, frá ráðunautum hennar í efnahagsmálum, frá einstökum ráðh. og frá stuðningsblöðum stjórnarinnar. Sá háttur hefur sem sagt verið hafður á í umr. um þetta mál af hálfu þessara aðila að gera sem allra mest úr þeim erfiðleikum, sem Íslendingar yrðu að glíma við, og mikla sem mest það tjón, sem íslenzkur þjóðarbúskapur yrði fyrir, ef landið stendur utan þess efnahagsbandalags, sem talið er víst að koma muni. Erfiðleikarnir, sem þannig er spáð, og tjónið, sem reiknað er út í tölum, eiga síðan að duga sem röksemdir fyrir því, að Ísland verði, hvað sem öllu öðru líður, að gerast aðili að bandalaginu með einhverjum hætti, eða eins og nú er farið að orða það í einni tíð: tengjast bandalaginu á einhvern hátt. Vegna þeirrar áherzlu, sem talsmenn aðildar að bandalaginu hafa lagt á þennan þátt umr., þ.e.a.s. að reyna að sanna, að Ísland sé svo að segja nauðbeygt af viðskiptalegum ástæðum að tengjast bandalaginu, vil ég ræða hér nokkru nánar um þessa hlið málsins.

Í skýrslu þeirri, sem hæstv. viðskmrh. hefur nú flutt Alþingi um þetta mál, segir hann m.a., að útflutningur Íslands til þeirra landa, sem telja megi líklegt að verði í Efnahagsbandalaginu, hafi verið 40–50% undanfarin ár, en 61% s.l. ár, þ.e.a.s. árið 1961. Þetta sama segir Jónas Haralz, aðalsérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, í grein, sem hann skrifar um málið í fyrsta hefti Fjármálatíðinda 1962. Í þeirri grein segir Jónas, að hann telji rétt að leggja útflutninginn árið 1961 til grundvallar við útreikninga á því, hve mikið tjón íslenzkur þjóðarbúskapur mundi hafa af ráðgerðum tollahækkunum Efnahagsbandalagsins, ef Ísland stæði utan þess. Í stuðningsblöðum ríkisstj. hefur einnig hvað eftir annað verið sagt, að 50–60% af útflutningi landsins fari til þeirra landa, sem innan tíðar muni verða í Efnahagsbandalaginu, og jafnframt hefur svo verið bent á, að það gæfi auga leið, að land, sem væri þannig statt viðskiptalega, gæti ekki þolað almennan innflutningstoll í bandalagslöndunum, sem næmi 13–15% á flestum útflutningsvörum sínum. Til þess að gera þetta dæmi um vandamál útflutningsins sem allra stærst, hefur svo Jónas Haralz reiknað út í krónum, hve mikið tjón sjávarútvegsins yrði miðað við útflutning ársins 1961 og fulla tolla Efnahagsbandalagsins. Jónas kemst að eftirfarandi niðurstöðu orðrétt, tekið úr grein hans í Fjármálatíðindum:

„Reiknað í krónum og miðað við núv. gengi eru þetta 188 millj. kr. af fob-verðmæti útflutnings, er nam 1646 millj. kr. Þessi upphæð er sá tekjumissir, sem útflytjendur sjávarafurða verða fyrir, standi Ísland utan bandalagsins, samanborið við það, að landið tengist bandalaginu á einhvern þann hátt, að það komist inn fyrir tollmúrinn.”

Þetta var orðrétt tekið upp eftir Jónasi Haralz. Síðar í greininni segir Jónas, að tjón sjávarútvegsins frá því ástandi, sem verið hefur, muni að vísu ekki verða svona mikið, vegna þess að í gildi hafi verið allmiklir tollar í markaðslöndunum áður. Tjón sjávarútflutningsins, miðað við útflutning ársins 1961 og núv. ástand, núv, tolla, telur Jónas þó að mundi verða 83 millj. kr.

Útreikningar Jónasar Haralz, ráðunautar ríkisstj. í efnahagsmálum, eru í mikilvægum atriðum rangir og villandi. Svipað er að segja um tölur hæstv. viðskmrh. um, að 50–60% af útflutningi landsins fari til þeirra landa, sem muni verða í Efnahagsbandalagi Evrópu. Hvað er það, sem er rangt og villandi í málflutningi þeirra Jónasar Haralz og hæstv. viðskmrh. í þessum efnum? Í fyrsta lagi er þess að geta að báðir setja þeir dæmið þannig upp, að öll lönd Vestur-Evrópu, að undanteknu Finnlandi einu, verði aðilar að bandalaginu og muni öll beita tollaákvæðum þess til fulls gagnvart þjóðum utan bandalagsins. Þannig slá þeir því föstu, að Svíþjóð tilheyri bandalaginu, sömuleiðis Spánn og Portúgal. En eins og nú standa sakir, er þetta þó mjög ósennilegt hvað Svíþjóð viðvíkur, og um aðild Spánar og Portúgals verður ekkert sagt á þessu stigi málsins. Í öðru lagi er í útreikningum Jónasar og í röksemdum hæstv. ráðh. fyrst og fremst miðað við útflutning ársins 1961, en forðazt að líta á lengra tímabil, þó að augljóst sé við nánari athugun, að útflutningur ársins 1961 er mjög sérstæður og gefur ranga mynd af útflutningsmálunum almennt séð. Í þriðja lagi er svo það, að útflutningur til hugsanlegra Efnahagsbandalagslanda er ranglega talinn samkv. eðli þess máls, sem hér er rætt um, í tölum hæstv. ráðh. og Jónasar Haralz. Með útflutningi til landa Efnahagsbandalagsins er talinn útflutningur, sem aðeins að forminu til telst til þeirra landa, en raunverulega fer þangað aldrei, heldur á allt aðra markaði. Ég skal nú víkja nokkru nánar að þessum atriðum og rökstyðja mál mitt betur.

Ég hygg, að flestir þeir, sem á hlutlægan hátt reyna að gera sér grein fyrir þeim vanda, sem líklegt er að íslenzkur þjóðarbúskapur standi frammi fyrir með tilkomu Efnahagsbandalagsins og sennilega inngöngu nokkurra Vestur-Evrópuþjóða í það bandalag, muni viðurkenna, að ástæðulaust sé að reikna með því, eins og enn standa sakir, að Svíþjóð gerist aðili að bandalaginu. Þó að Svíþjóð hafi samþykkt að leita eftir samningum við bandalagið, hafa forustumenn þar í landi undirstrikað þá stefnu sína mjög ákveðið, að þeir vilji að engum skilyrðum ganga, sem skert geti hlutleysisafstöðu landsins og fullt frelsi þess í viðskiptum við aðrar þjóðir. Samningar, sem leiddu til þess, að Svíþjóð tæki upp stefnu bandalagsins í viðskiptamálum gagnvart öðrum þjóðum, brytu algerlega í bága við hlutleysisafstöðu þá, sem Svíar hafa reynt að fylgja. Ég tel því mjög villandi að setja upp þannig dæmi varðandi viðskipti við lönd innan bandalagsins og utan, að reiknað sé með Svíþjóð sem bandalagslandi. Svipað má segja um lönd eins og Portúgal og Spán. Enn sem komið er ríkir fullkomin óvissa um, hvort þau taka upp tolla bandalagsins eða tengjast því yfirleitt á nokkurn hátt. Þetta voru atriði, sem sérstaklega varða stærð bandalagsins, sem leggja ber til grundvallar til að reyna að gera sér grein fyrir þessum vanda.

En komum þá að öðrum atriðum. Árið 1961 varð óvenjulegt um útflutning á margan hátt af Íslands hálfu. Það ár féll útflutningur á frosnum fiski til Rússlands úr um 30 þús. tonnum, sem hann hafði verið í mörg ár, niður í um 7 þús. tonn. Útflutningur á frosnum fiski jókst hins vegar þetta ár til Bretlands mjög mikið. Þeir, sem þekktu til, vissu, að hér var um tímabundna breytingu að ræða, enda hefur reynslan sýnt það, þar sem freðfisksmarkaðurinn í Bretlandi hefur nú dregizt saman aftur, en Rússlandsmarkaðurinn aftur á móti aukizt á ný. Þær hugmyndir, sem aðdáendur Efnahagsbandalagsins höfðu um nýjan stórmarkað fyrir frosinn fisk í Bretlandi og Hollandi, hafa gersamlega farið út um þúfur. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem hafði í krafti slíkra hugmynda ráðizt í mikinn undirbúning að markaðsöflun í þessum löndum, hefur nú gersamlega gefizt upp við þessi plön sín. Hún hefur stöðvað allar framkvæmdir í Hollandi og lagt niður fiskverksmiðjur sínar í London eftir mjög kostnaðarsamar tilraunir. Í dag eru horfurnar þær, að stórlega muni draga úr sölu á frosnum fiski héðan til Bretlands, a.m.k. á næsta ári. Á þessu leikur enginn vafi hjá framleiðendum í dag. Viðmiðun, sem byggist eingöngu á útflutningi landsins árið 1961, er því mjög villandi.

Í 2. hefti Fjármálatíðinda árið 1961 er birt skýrsla um útflutning Íslands til einstakra landa árin 1957–1960 eða yfir fjögurra ára tímabil. Samkv. þeirri skýrslu var útflutningur Íslands til allra landa Vestur-Evrópu, annarra en Finnlands og Svíþjóðar, sem hér segir: Árið 1957 var þessi útflutningur 33.6% af heildarútflutningi, árið 1958 var hann 33.7%, árið 1959 var hann 29.3%, en árið 1960 var hann 44.2% og var óvenjuhár það ár, m.a. vegna þess, að talsvert af útflutningi ársins 1959 færðist yfir á árið 1960 af sérstökum markaðsástæðum. En segja má á sama hátt, að útflutningurinn 1959 hafi verið óvenjulágur, þar sem hann var aðeins, 29.3%. Sé útflutningurinn til Portúgals dreginn frá líka, verða tölurnar þessar: Árið 1957 hefði þá útflutningurinn verið 29.4% árið 1958 29.6%, árið 1959 25.9% og árið 1960 40.7%. Þessar tölur sýna allmikið annað en þær tölur, sem hæstv. ríkisstj. og sérfræðingar hennar telja sér bezt að flagga með í þessum efnum.

En það, sem þó skiptir enn metra máli en þessar almennu prósentutölur, er að íhuga, hvað á bak við þessar tölur stendur. Við fyrstu sýn virðist svo, að þessar tölur segi, að um 30% og jafnvel 40% sum árin af heildarútflutningi landsins hafi um nokkurra ára skeið farið til þeirra landa í Vestur-Evrópu, sem nú hugsa sér að leggja háa tolla á innfluttar vörur frá löndum utan Efnahagsbandalagsins. En svona er þessu ekki varið. Í þessum tölum yfir útflutninginn er meðtalinn allmikill útflutningur, sem aðeins telst reikningslega til Vestur-Evrópulanda, en raunverulega hefur farið til annarra landa, einkum til Afríku. Ég skal nefna dæmi þessu til skýringar. Í skráðum útflutningi til Bretlands árið 1959 eru t.d. talin 2710 tonn af saltfiski og 2220 tonn af skreið. Skreiðin fer aldrei til Bretlands, og saltfiskurinn er allur endurútfluttur — það af honum, sem þá fer nokkurn tíma inn í Bretland. Ástæðan til þess, að skreiðin er talin seld til Bretlands, en ekki til Afríku, þangað sem hún fer, er eingöngu sú, að hún er seld í gegnum brezkan millilið. útflutningur þessi nam tæpum 40% af heildarútflutningi okkar til Bretlands á sjávarafurðum þetta ár, svo að það er auðséð, að hér er ekki um neinar smáræðistölur að ræða. Auðvitað er algerlega rangt að telja þennan útflutning með þeim útflutningi til Bretlands, sem hætta er á að geti lent undir tolla Efnahagsbandalagsins. Útflutningur þessarar vöru mundi allur fara fram hjá tolli bandalagsins, og sennilegast er auðvitað, að við færðum þessi viðskipti beint til hinna raunverulegu markaðslanda milliliðalaust.

Þetta dæmi um útflutninginn til Bretlands er ekki það eina. Eins er ástatt í mörgum öðrum tilfellum. Talsvert af þeim vörum, sem við seljum til Vestur-Þýzkalands, er endurútflutt þaðan. Það sama er að segja um Noreg og einnig Holland. Tölurnar um útflutning til Vestur-Evrópulanda eru því of háar, ef miða á við þær varðandi sameiginlega tolla Efnahagsbandalagsins og gera sér grein fyrir því tjóni, sem þeir gætu haft fyrir útflutning okkar. Enn er svo það, að prósentutölur um útflutning, eins og 30% eða 40% af heildarútflutningi, segja ekki nema hálfa sögu um þann vanda, sem við er að glíma. Til þess að átta sig á vandanum er nauðsynlegt að glöggva sig á því, hvaða vörur það eru, sem fylla þessi 30 eða 40% útflutningsins.

Ástæðan til þess, að nauðsynlegt er að átta sig á því, hvaða vörur hér er um að ræða, er fyrst og fremst sú, að útflutningsvörurnar eru misjafnlega erfiðar í sölu. Sumar vörur er alltaf erfitt að selja, en aðrar eru eftirsóttar og auðseldar. Þegar nánar er athugað, hvaða vörur það eru, sem við einkum flytjum út til sennilegra Efnahagsbandalagslanda, þá kemur í ljós, að til þeirra flytjum við aðallega út 4 vöruflokka. Þessir vöruflokkar eru lýsi, mjöl, þ.e.a.s. allar tegundir af fiskimjöli, saltfiskur og ísvarinn fiskur. Auk þessara vöruflokka má að vísu nefna dilkakjötið til Bretlands, en um það er varla hægt að ræða í þessu sambandi, þar sem algerlega er enn ókunnugt um toll á því eða innflutningsreglur bandalagsins á þeirri vöru, og ég sleppi því að ræða um það sérstaklega: Til þessa svæðis Efnahagsbandalagsins flytjum við lítið af frosnum fiski, sáralítið af saltsíld, lítið af frosinni síld og mjög lítið af skreið. Það er því ljóst, að þær vörur, sem við mundum einkum lenda í einhverjum vandkvæðum með vegna innflutningstolla bandalagsins, eru lýsi, mjöl, saltfiskur og ísvarinn fiskur. Þetta eru vöruflokkarnir, sem um getur verið að ræða og fylla mestallan útflutninginn inn á þetta svæði. Athugum nú nokkru nánar, hvernig ástatt er með sölu á þessum vöruflokkum og hversu miklar líkur eru til þess, að tollur bandalagsins geti orðið okkur þungur á þeim.

Tollur á ísvörðum fiski hefur lengi verið um 10%, en nú er ráðgert, að hann verði 15%. Hér er því um nokkra hækkun að ræða, en ekki mikla. Getur þessi tollahækkun á ísvörðum fiski orðið hættuleg íslenzkum þjóðarbúskap? Nei, alls ekki. Lítill vafi er á því, að ísvarinn fiskur mun smám saman minnka og innan tíðar hverfa sem útflutningsvara frá Íslandi. Þjóðhagslega væri miklu hagkvæmara að vinna fiskinn í þeim fiskverkunarstöðvum, sem við eigum fyrir, en flytja hann út sem algerlega óunnið hráefni. Vandi sá, sem að okkur steðjar vegna ísfiskstollsins, er því harla lítill og lítið vit væri í því að láta af hendi dýrmæt réttindi þjóðarinnar til þess að halda í ísfisksmarkaðinn í Bretlandi og Þýzkalandi.

Ég vík þá að sölunni á lýsi og mjöli, sem er uppistaðan í því, sem Ísland hefur selt á undanförnum árum á markaði Vestur-Evrópulanda. Samkv. því, sem hæstv. viðskmrh. sagði í skýrslu sinni, verður tollur bandalagsins á þessum vörum, þ.e.a.s. á lýsi og mjöli, ekki hærri en —5%. En hann hefur verið í sumum löndunum upp í 10% fram til þessa. Hér er því ekki um mikinn toll að ræða, og ótrúlegt er, að hann muni skipta okkur nokkru máli, eins og markaðurinn hefur verið á þessum vörum. Ástæðan til þess, að tollur bandalagsins er ráðgerður svona lágur á þessum vörum, byggist á því, að þær eru eftirsóttar og lönd bandalagsins þurfa mjög á þeim að halda. Þetta höfum við lengi vitað, enda höfum við hvað eftir annað í samningum við erlend ríki notað mjölið okkar og lýsið til þess að greiða fyrir sölu á þeim útflutningsvörum okkar, sem erfiðara er að selja. Um það eru mörg dæmi í viðskiptasamningum okkar, að þannig hefur verið haldið á málum. Þá er þess einnig að gæta, að litlar líkur eru til þess, að tollur bandalagsins á þessum vörum muni nokkurn tíma lenda á okkur. Vegna mikillar eftirspurnar á þessum vörum og fjölda kaupenda í mörgum löndum og vegna þess, að hugsanleg lönd bandalagsins munu alls ekki sjálf geta fullnægt eftirspurn bandalagsins á þessum vörum, má telja víst, að sameiginlegi tollurinn verði að greiðast af bandalagslöndunum sjálfum, en ekki seljendum þessara vara. Það má því telja nokkurn veginn víst, að tollur bandalagsins á mjöl- og lýsisvörum muni ekki skipta okkur Íslendinga miklu máli.

Sameiginlegi tollur bandalagsins á saltfiski er ráðgerður 13%. Verði Portúgal og Spánn með í bandalaginu ásamt Ítalíu og Grikklandi, mundu aðalsaltfisksmarkaðslönd okkar taka upp þennan toll. Hér gæti því verið um nokkurn vanda að ræða. Mjög er þó vafasamt, hvort tollurinn lenti raunverulega á okkur eða á kaupendum fisksins. Reynslan, sem fengin er síðan Efnahagsbandalagslönd þau, sem nú eru í Efnahagsbandalaginu, byrjuðu á því að taka upp þennan toll, bendir til þess, að við munum ekki þurfa að greiða tollinn, heldur kaupendurnir í viðskiptalöndunum. Innflytjendur saltfisks á Ítalíu sáu strax, að þeir höfðu enga aðstöðu til þess að láta okkur greiða þennan toll, og af þeim ástæðum fengu þeir leyfi bandalagsins til þess að sleppa tollinum á tilteknu magni af innfluttum saltfiski, og var þá miðað við svipaðan innflutning og verið hafði til Ítalíu um allangt skeið. Okkur er lítil hætta búin af aukinni samkeppni á saltfisksmörkuðunum. Færi svo, að Norðmenn og aðrir saltfisksframleiðendur legðu sig meir eftir mörkuðum í Suður-Evrópu en þeir hafa gert hingað til, mundu aðrir markaðir, sem þeir hafa nýtt fram að þessu, opnast okkur um leið. En líkur til slíkra breytinga eru ekki miklar í sannleika sagt.

Þegar rætt er um hættur þær, sem okkur gátu stafað af nýjum tollum bandalagsins, er nauðsynlegt að athuga nokkru nánar eðli þessara tolla og það, hvort líklegt sé, að þeir muni fremur bitna á okkur sem útflytjendum en innflytjendum bandalagsins. Jónas Haralz og hæstv. viðskmrh. virðast ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut, að tollurinn muni allur og óskiptur lenda á okkur. Jónas Haralz reiknar í krónum út alla tollupphæðina og segir, að við munum fá sem henni nemur minna fyrir vörur okkar. Hér er tvímælalaust villandi skýrt frá. Á þessu stigi málsins er ógjörningur að segja til um það, hver raunverulega verður að borga þennan nýja toll. Ég er fullkomlega sammála dr. Benjamín Eiríkssyni varðandi mat á þessu atriði. En hann sagði á viðræðufundi Frjálsrar menningar í janúarmánuði s.l., þar sem þetta atriði var rætt sérstaklega, orðrétt á þessa leið:

„Þá er augljóst mál um þennan toll, eins og alla aðra tolla og skatta, að þar með er ekki svarað spurningunni um, hvar skattbyrðin að lokum lendir, hver að síðustu borgar skattinn. Kaupmaðurinn, sem afhendir söluskattinn, borgar hann ekki af sínum tekjum. Sennilegt er, að svona tollur á fisk þýði hærra fiskverð í Evrópu.”

Þetta sagði dr. Benjamín Eiríksson. Þetta er áreiðanlega rétt. Enda hefur reynslan af hinum nýja tolli Efnahagsbandalagsins, það sem af er, staðfest þetta. Efnahagsbandalagslöndin hafa þegar hækkað sína tolla á ýmsum vörum, sem við flytjum út til þeirra. Þannig hefur tollur á frosnum fiski í Hollandi verið hækkaður. Og hið sama er að segja um toll á frosinni síld til Vestur-Þýzkalands. En hver hefur reynslan orðið um þessa nýju tolla? Hver hefur raunverulega borgað þá? Í báðum þessum tilfellum, sem ég nefndi, hafa markaðslöndin orðið að greiða tollinn að fullu og öllu. Kaupendur frosna fisksins í Hollandi tóku á sig allan tollinn, því að annars hefðu þeir ekki fengið fiskinn keyptan. Í Vestur-Þýzkalandi urðu kaupendurnir einnig að taka á sig tollinn af frosnu síldinni og þó meira en það. Þeir urðu að hækka síldarverðið um leið vegna þess að hinn almenni markaður í öðrum löndum á frosinni síld var hærri, svo að þeir þurftu fyrst að hækka verðið og þar að auki að taka á sig allan nýja tollinn.

Þessi dæmi sýna, að það er fjarstæða að taka þessi mál eins og hæstv. viðskmrh. og Jónas Haralz gera. Sannleikur málsins er sá, að það eru litlar líkur til þess, að tollurinn á þeim vörum, sem eru auðseljanlegar, lendi á okkur, en nokkur hætta á því, að við verðum að bera þann toll, sem lagður er á þær vörur, sem erfiðast er að selja.

Ég hef áður sýnt fram á, að þær vörur, sem fylla aðallega útflutning okkar til hugsanlegra Efnahagsbandalagslanda, eru einmitt þær útflutningsvörur okkar, sem eru auðseldastar. Ég tel því háskann sem að okkur steðjar af ráðgerðum tollum Efnahagsbandalagsins, ekki mikinn. Útreikningar eins og þeir, sem Jónas Haralz hefur birt um tjón okkar af tollunum, eru rangir og mjög villandi. Almennar prósentutölur eins og þær, sem hæstv. viðskmrh. nefndi hér um, að 50 eða 60% af útflutningi okkar fari til sennilegra Efnahagsbandalagslanda, segja mjög lítið til um þann raunverulega vanda, sem við er að eiga. Það þarf að skyggnast á bak við tölurnar og íhuga málið hlutlægt og hleypidómalaust, til þess að unnt sé að átta sig á vandamálinu.

Ég hef gerzt nokkuð langorður um þennan þátt vandamálsins, þ.e.a.s. þann vanda, sem tilkoma Efnahagsbandalagsins gæti haft fyrir okkur. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að mér finnst, að hæstv. ríkisstj. og ráðunautar hennar hafi dregið upp alranga mynd af þessum vanda. Þeir hafa augljóslega reynt að gera sem mest úr þeim vanda, sem okkar biði, ef við stæðum utan bandalagsins, og síðan hefur allur málflutningur stjórnarliðsins verið við það miðaður að notfæra sér hinn ímyndaða vanda sem rök fyrir því, að Ísland verði, hvað sem öðrum ókostum bandalagsins liði, að gerast aðili að því eða tengjast því með einhverjum hætti.

Tilhneigingin í þessum málflutningi er alveg augljós, ekki sízt þegar þess er gætt, að á sama tíma, sem þessi mikla áherzla er lögð á útskýringarnar á því, hve miklu máli skipti fyrir okkur að koma 50% af útflutningi okkar inn fyrir tollmúr bandalagsins til þess að forða frá hinu mikla tjóni, þá er aldrei minnzt einu orði á þann vanda, sem þjóðin gæti orðið fyrir með sölu á hinum 50% útflutningsins, ef hún gerðist aðili að bandalaginu. Hugsunin virðist öll snúast um Efnahagsbandalagið og það að komast undir reglur þess. Nú er það vitað, að þeir, sem gangast undir reglur bandalagsins, hljóta að lenda í miklum viðskiptalegum truflunum við lönd utan þess, og í ýmsum tilfellum, þegar vörurnar, sem um er að ræða, eru þess eðlis, þá mundu viðskiptin á milli landa utan bandalagsins og innan beinlínis falla niður. Sú spurning hlyti því að rísa, ef við tengdumst bandalaginu, hvernig þá færi fyrir okkur með þann útflutning, sem hingað til hefur verið seldur til landa, sem telja má alveg víst að verði ekki í bandalaginu. Eins og ég hef áður bent á, háttar einmitt þannig til, að sá hluti útflutnings okkar, sem nú fer til landa utan bandalagsins, er erfiðari í sölu en hinn hlutinn, sem fer til bandalagssvæðisins: Til landa utan bandalagsins seljum við mestallan frosna fiskinn, þýðingarmestu útflutningsvöru þjóðarinnar. Þangað seljum við svo að segja alla saltsíldina og mest af frosnu síldinni. Hvað yrði um söluna á þessum vörum, ef Ísland gerðist aðili að Efnahagsbandalaginu eða tæki upp viðskiptastefnu þess, sem miðar t.d. að útþurrkun austurviðskiptanna? Það væri auðvitað fjarstæða að búast við því, að við gætum haldið sömu mörkuðum í löndum utan bandalagsins og verið hefur, eftir að við hefðum tekið upp viðskiptareglur, sem svo að segja útilokuðu vörur frá öðrum löndum en bandalagslöndunum hér á landi. Tengsl okkar við Efnahagsbandalagið, mundu veita vörum frá löndum þess forgangsréttaraðstöðu hér. Það má því telja mjög líklegt, að viðskiptalönd okkar utan bandalagsins settu einhverjar reglur sér til varnar á móti slíkum reglum okkar. Líklega yrði afleiðingin sú, að þau lækkuðu fiskverðið til okkar á móti hækkun tolla hér á þeirra vörum eða þá að þau gripu til einhverra annarra hliðstæðra ráðstafana. Vandi getur því augljóslega einnig steðjað að okkur vegna sölunnar á þeim 50% útflutningsins, sem fara til annarra landa en til bandalagslandanna.

En hvað er þá til bragðs? munu einhverjir spyrja. Jú, svar þeirra, sem eru raunverulegir forsvarsmenn tengsla við bandalagið, er skýrt og ákveðið. Þeirra svar er það, að við verðum að miða framleiðslu okkar og útflutning fyrst og fremst við þarfir Efnahagsbandalagslandanna. Afleiðingin af því yrði svo auðvitað sú, að Ísland yrði þá að draga úr síldarframleiðslu sinni, minnka fiskfrystingu og leggja fremur kapp á framleiðslu ísfisks og alúminíums og annarrar slíkrar framleiðslu. Þeir, sem eru mestir áhugamenn um að koma Íslandi á einn eða annan hátt inn í Efnahagsbandalagið, hafa séð þetta fyrir löngu. Það er af þeim ástæðum, sem Jóhannes Nordal bankastjóri og Jónas Haralz ráðuneytisstjóri eru sífellt að klifa á nauðsyn þess að koma upp nýjum atvinnugreinum, eins og alúminíumframleiðslu, en halda því hins vegar stíft fram, að sjávarútvegurinn geti ekki lengur dugað sem aðalatvinnuvegur þjóðarinnar og á hann megi ekki treysta í framtíðinni. Þeir eru lítið hrifnir af vaxandi síldveiðum og telja, að aðrar útflutningsvörur séu heppilegri en síldarafurðir fyrir það framtíðarland, sem þeir stefna á.

Ég hef haldið mig hér nær eingöngu við efnahagshlið þessa máls. Ég tel, að hún sýni, að óhyggilegt væri fyrir Ísland að gerast aðili að bandalaginu, beinlínis séð frá efnahagslegu sjónarmiði. Önnur atriði þessa máls, þau sem varða sjálfstæði landsins, menningu þjóðarinnar, efnahagslegt sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar í landinu, eru auðvitað ekki minna virði, heldur þvert á móti þau atriði, sem setja ber ofar öllum öðrum, þegar afstaða er tekin í þessu máli.

Í skýrslu þeirri, sem hæstv. viðskmrh. flutti Alþingi s.l. mánudag, um Efnahagsbandalagsmálið sagði hann, að um þrjár leiðir væri að ræða til þess að tengjast bandalaginu. Fyrstu leiðina, fulla aðild, taldi hann útilokaða. Um aðra leiðina, aukaaðild, sagði ráðh., að hún gæti leyst okkar viðskiptalegu vandamál að fullu, en að slíkt kostaði samninga um viðkvæm mál eins og atvinnurekstraraðstöðu útlendinga hér, erlent fjármagn og erlent vinnuafl. Um þriðju leiðina, tollasamningsleiðina, sagði ráðh., að hún gæti ekki leyst tollavandamálið að fullu, þar sem samkv. henni yrði varla um annað að ræða en nokkra lækkun á tollum bandalagsins á innflutningi frá okkur. En jafnframt þessum yfirlýsingum sagði svo hæstv. ráðh., að það væri skoðun ríkisstj., og nú tek ég upp orðrétt úr yfirlýsingu hæstv. ráðh., „að Íslandi sé á því brýn nauðsyn að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu með einhverjum þeim hætti, sem geri okkur kleift að selja afurðir okkar til Vestur-Evrópu á grundvelli jafnréttis við aðra framleiðendur álfunnar. Ef ekki verður um slík tengsl að ræða, hlýtur efnahagur okkar að verða fyrir miklu áfalli og horfur á aukinni velmegun og bættum lífskjörum hér á landi á komandi áratugum að verða stórum verri en ella,” sagði hæstv. ráðh. Mér sýnist, að þessi yfirlýsing, sem gefin er í nafni ríkisstj. í heild og gefin er jafnhliða þeim upplýsingum, sem ég minntist á áður um leiðirnar þrjár, sýni það ótvírætt, að hæstv. ríkisstj. stefnir nú að því, að upp verði teknir samningar um hin viðkvæmu mál, atvinnurekstraraðstöðu útlendinga, erlent fjármagn og erlent vinnuafl og aukaaðildartengsl Íslands við bandalagið. Samkv. upplýsingum viðskmrh. getur varla orðið um jafnréttisaðstöðu Íslendinga að ræða til innflutnings á vörum til bandalagslandanna á við aðrar þjóðir Vestur-Evrópu, nema Ísland gerist a.m.k. aukaaðili að bandalaginu. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu og þann greinilega tón, sem var í ræðu viðskmrh. um kosti aukaaðildarinnar, hefur ríkisstj. valið þá leið að vilja bíða með endanlega afstöðu í málinu. Hún telur sér hagkvæmara, eins og nú standa sakir, að bíða og fresta opinberri ákvörðun.

Stefna ríkisstj. nú um aukaaðild er að vísu nokkur undansláttur frá stefnu ríkisstj. áður í málinu. Fyrir um það bil ári var ríkisstj. óðfús að sækja um beina aðild að bandalaginu. Það var í ágústmánuði s.l. ár, eins og hér hefur verið minnzt á áður, að ríkisstj. setti þeim félagasamtökum í landinu, sem hún hafði rætt við um málið, aðeins tveggja vikna frest til þess að svara því, hvort þau væru fylgjandi umsókn um aðild að bandalaginu eða ekki. Ríkisstj. fékk þá öll félagasamtökin, sem stuðningsmenn hennar réðu yfir, til þess að svara játandi. Aðeins Alþýðusamband Íslands eitt svaraði þá neitandi. Um þetta leyti komu einnig fram frá ýmsum öðrum fylgismönnum ríkisstj. kröfur um, að sótt yrði um aðild að bandalaginu, og aðalmálgögn stjórnarinnar settu hiklaust fram þessa kröfu og hófu mikinn áróður fyrir réttmæti þess, að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið. Hik ríkisstj. nú ber því vott um, að um nokkurn undanslátt frá fyrri stefnu sé að ræða, þó að enn sé augljóst, að hún hugsar sér, að hægt sé að taka upp samninga við bandalagið um hin viðkvæmu mál, atvinnurekstrarréttindi útlendinga hér, erlent fjármagn og erlent vinnuafl. Það er rétt, að hér er um nokkra stefnubreytingu að ræða hjá hæstv. ríkisstj., og ég tek undir það, sem kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv., að ég fagna því, að hér sést nokkurt undanhald hjá hæstv. ríkisstj. Ég fagna því líka, að þeir eru fleiri, sem hafa verið að breyta talsvert til um stefnu í þessu máli. Ég fagna þeirri stefnu, sem hér var lýst yfir af hálfu Framsfl. nú um eindregna afstöðu gegn aukaaðild og fullri aðild, því að ég minnist þess, að áður var það birt í Tímanum, að aukaaðild væri leiðin. Og ég minnist þess líka, að framarlega standandi menn hjá Framsfl. stóðu að því, að fulltrúar Sambands ísl. samvinnufélaga mæltu beinlínis með því, að sótt yrði um fulla aðild. Og mig minnir, að ég hafi séð það nú fyrir ekki alllöngu, að einn hv. þm. úr liði Framsfl, hafi verið nýlega sendur á vegum samtaka Varðbergs suður til Evrópulanda til þess að kynna sér sérstaklega málefni Efnahagsbandalagsins. En sem sagt stefna Framsfl. hefur nú komið fram allskýrt í málinu, og hún er ótvíræð og því ber að fagna. Hér er því um nokkuð almenna stefnubreytingu að ræða hjá fleiri en einum. Og það þyrfti að verða sem gagngerust breyting hjá enn fleirum.

Ég vil að lokum draga hér saman nokkur þau atriði varðandi þá efnahagslegu hlið þessa máls, sem ég hef gert að umtalsefni og ég tel að skipti verulegu máli.

Í fyrsta lagi tel ég, að ríkisstj. og ráðunautar hennar hafi dregið upp mjög villandi mynd af þeim erfiðleikum í viðskiptum þjóðarinnar, sem við yrði að etja, ef Ísland stæði utan Efnahagsbandalagsins. Í öðru lagi tel ég, að raunverulegur útflutningur okkar til Efnahagsbandalagssvæðisins sé talinn of hár, miðað við reynslu síðustu 5–6 ára. Í þriðja lagi tel ég, að undan sé dregin sú staðreynd, að til Efnahagsbandalagssvæðisins flytji Íslendingar út fyrst og fremst þær vörur, sem eru auðseljanlegar og því ólíklegt, að tollur bandalagsins á þær muni nokkurn tíma bitna á Íslendingum. Og í fjórða lagi tel ég, að undan sé dregin sú staðreynd, að þátttaka Íslands í Efnahagsbandalaginu og upptaka sameiginlega tollsins gagnvart öðrum þjóðum mundi skapa Íslendingum alvarlega erfiðleika með sölu á þeim hluta framleiðslunnar, sem selja þarf til landa utan bandalagsins.

Að síðustu vil ég undirstrika, að við Alþb.-menn erum algerlega mótfallnir allri aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu, jafnt aukaaðild sem fullkominni aðild. Við teljum, að aukaaðild sé aðeins skref í áttina til fullrar aðildar síðar. Við teljum, að Ísland eigi að hafa gagnkvæm og eðlileg viðskipti við lönd Vestur-Evrópu eins og áður, og teljum, að það eigi að vera hægt í öllum aðalatriðum þrátt fyrir bandalagsstofnun þeirra. Við Alþb.-menn vörum sérstaklega við öllum hugmyndum um samninga varðandi rétt útlendinga til atvinnurekstrar í landinu og sérstakan rétt erlends fjármagns og vinnuafls, og í þeim efnum tek ég að fullu og öllu undir allt það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan í þeim efnum, enda hef ég rætt um það á sama veg oftsinnis áður. Það er stefna Alþb., að Ísland standi utan pólitískra bandalaga eins og Efnahagsbandalags Evrópu, sem hefur það að yfirlýstu markmiði að koma á fót stórveldi Vestur-Evrópu.

Með það í huga, sem hér hefur verið sagt, erum við Alþb.-menn mótfallnir því, að hæstv. ríkisstj. sé í samningamakki við forráðamenn Efnahagsbandalagsins eða stofnanir þess og því teljum við, að slíkum samtölum öllum eigi að hætta sem fyrst.