23.11.1962
Sameinað þing: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

Efnahagsbandalagsmálið

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan segja nokkur orð í viðbót um þetta mikla mál, og sumpart þá í tilefni af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið af hendi hæstv. ráðh.

Hæstv. viðskmrh. kvartaði yfir, að ég hefði ekki í minni ræðu fagnað yfir stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, ekki látið í ljós neinn fögnuð yfir því, að þessi þjóðasamtök hefðu risið á legg. Ég vil einlæglega vona, að þessi samtök þjóðanna í Vestur-Evrópu verði til blessunar fyrir þær þjóðir, sem þau hafa stofnað, og það hefði gjarnan mátt vera í minni ræðu og það segi ég af heilum hug núna, ef einhverjum hefur þótt það á skorta.

En það er mál út af fyrir sig, hvað þessum þjóðum finnst sér henta og vera lífsnauðsyn, og annað er svo hitt, hvað íslenzku þjóðinni hentar og hvernig þessi mál koma við hana. Má þá hver sem vill lá mér, þó að minn fögnuður yfir þessari þróun málanna sé nokkuð blandinn frá íslenzku sjónarmiði skoðað. Leyfi ég mér þá einnig að vísa til sumra þeirra ummæla, sem fram hafa komið úr herbúðum stjórnarinnar í þá átt, án þess að hæstv. viðskmrh. hafi talið sér nauðsynlegt að flytja af því tilefni nokkrar aðfinnslur.

Ég vil minna á, að rétt áður en hæstv. viðskmrh. stóð upp úr sæti sínu, hafði hæstv. forsrh. setzt, eftir að hafa lýst yfir m.a., að samvinna eða sameining sex- og sjöveldanna í Evrópu mundi ekki greiða götu íslenzkra hagsmuna, og eftir að hafa líka strikað undir það, að greiða mundi þurfa allríflegan inngangseyri í þessi nýju samtök, ef til kæmi, og gæti jafnvel orðið íslenzku þjóðinni um megn, eftir að hafa einnig minnst á, að sumt af því, sem þar gæti komið til greina, gæti reynzt okkur banvænt, jafnvel þjóðfrelsinu sjálfu, eins og hæstv. forsrh. orðaði það.

Eitthvað held ég, að hæstv. viðskmrh. ætti að endurskoða hug sinn í þessu efni og skilja, að það er ekkert undarlegt, þó að fögnuður Íslendinga í þessu sambandi geti verið nokkuð blandaður. En hugsunarháttur hæstv. viðskmrh. í þessu máli virðist vera nokkuð undarlegur á ýmsan hátt, því að eftir að hafa minnzt á þetta, sagði hæstv. viðskmrh. efnislega þetta: Hvernig er hægt annað en að fagna lækkun tolla og afnámi hafta? — Frá hvaða sjónarmiði er þetta sagt? Frá hvaða sjónarmiði segir hæstv. viðskmrh. þetta? Hann hefur sjálfur haldið hér tvær ræður í þessu stóra máli, og þær ræður hafa mest fjallað um að mála sem svartasta mynd af því, hvað þetta bandalag muni hafa stórfellda verndartolla gagnvart þeim þjóðum, sem sjá sér ekki fært að ganga inn í það, og muni þar að auki beita verulegum viðskiptahöftum og viðskiptaþvingunum gagnvart þeim. Frá hvaða sjónarmiði talar svo hæstv. viðskmrh., þegar hann síðan stígur hér í ræðustólinn og segir: Hvernig er hægt annað en að fagna lækkun tolla og afnámi hafta? — Er það þetta, sem skeð hefur? Því miður ekki þetta, heldur hitt, að eins og horfir nú í dag, lítur út fyrir, að þarna eigi að innleiða í heimsviðskiptin verulega verndartolla og veruleg viðskiptahöft og ganga öfugt á þá þróun til lægri tolla og frjálsari viðskipta á milli þjóða, sem áður hefur átt sér stað. Ég neyðist til að segja, að hæstv. viðskmrh. lítur ekki á þetta mál frá íslenzkum sjónarhól þá stundina, sem hann segir þessi orð: Hvernig er hægt annað en að fagna lækkun tolla og afnámi hafta?

Hitt er svo annað mál, að við erum mörg og áreiðanlega mjög mörg, sem vonumst eftir því, að það verði alls ekki í framkvæmdinni haldið á þessum málum eins og út gæti litið fyrir nú í dag og eins og hæstv. viðskmrh. vill spá með því að mála þessa ljótu mynd af verndartollum og viðskiptahöftum á vegum bandalagsins. Við erum mörg, sem höfum þá bjargföstu skoðun og sannfæringu, að þetta muni verða öðruvísi í reyndinni og það muni fara svo, að með margs konar samningum og ráðstöfunum verði þessir ytri tollar í bandalaginu lækkaðir og samið um niðurfellingu þeirra með ýmsum hætti við margar þjóðir, og við bendum í því sambandi til þeirrar merku þróunar, sem á sér stað og áreiðanlega verður í viðskiptum þessa bandalags við Bandaríki Norður-Ameríku. Og ég trúi því alls ekki, að niðurstaðan í þessum efnum verði eins og í fljótfærni mætti álykta í dag. Ég trúi því ekki, að hinn vestræni heimur eigi eftir að kljúfa sig niður í bandalög, sem beita viðskiptahöftum og verndartollum hvert gegn öðru. Ég trúi því ekki. Og þetta er einmitt ein aðalástæðan fyrir því, hvað við framsóknarmenn leggjum mikla áherzlu á einmitt þá stefnu í málinu, sem við höfum talað fyrir og ég mun koma ofur lítið nánar að.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að málflutningur minn hefði verið á ýmsan hátt neikvæður. Það má vel vera, að frá sjónarmiði hans hafi hann að sumu leyti verið neikvæður, því að hans sjónarmið kemur mér furðulega fyrir. En ég tel, að hann hafi ekki verið neikvæður. Ég tel það t.d. ekki neikvætt að mæla fyrir því, að Íslendingar geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til að komast hjá því að veita erlendum aðilum rétt til atvinnurekstrar á Íslandi. Ég tel það ekki neikvætt. Ég tel það jákvætt að berjast fyrir því, að til slíks þurfi ekki að koma. Ég tel það ekki heldur neikvætt frá íslenzku sjónarmiði að vilja komast hjá því, að íslenzka þjóðin gangi undir samstjórn í efnahagsmálum eða skuldbindi sig til að hafa sömu stefnu í þeim málum og aðrar þjóðir, þar sem ólíkt er ástatt á svo margan hátt. Ég tel það ekki heldur neikvætt að vilja vinna þannig að þessu máli, að það komi ekki til greina, að íslenzka þjóðin, sem nýlega hefur fengið sjálfstæði sitt, sogist inn í ríkjasamsteypu í Vestur-Evrópu. Ég tel það ekki neikvætt. Og hvernig ættum við að geta snúið aftur, ef við í ógætni tengdumst þessari ríkjasamsteypu á þá lund, að við gætum ekki aftur losað þau tengsl? Ég held, að það mundi verða býsna erfitt fyrir okkur að snúa til baka og það sé þess vegna aldrei of varlega farið í þessu máli. Ég held, að sá málflutningur, sem beinist í þá átt að fara varlega í þessu, sé ekki neikvæður frá íslenzku sjónarmiði, heldur jákvæður. En aftur á móti hlýtur slíkur málflutningur að vera neikvæður í eyrum þeirra, sem vilja, að Íslendingar tengist sem mest Efnahagsbandalaginu eða þjóðasamsteypunni í Vestur-Evrópu. Í augum þeirra er slíkur málflutningur neikvæður. En ég vil vona, að það verði hægt að fá samtök sem allra flestra um að líta á þennan málflutning einmitt sem jákvæðan.

Ég sagði í ræðu minni um daginn, að ég teldi, að markmið okkar ætti að vera tolla- og viðskiptasamningur án annarra tengsla við bandalagið. Eitthvað hafði hæstv. viðskmrh. orð á því, að þessi niðurstaða hefði komið einhverjum á óvart. En það hlýtur að vera á algerum misskilningi byggt hjá hæstv. ráðh., því að þessi hefur verið tónninn í öllu því, sem frá Framsfl. hefur komið í þessu efni frá fyrstu tíð. Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að miðstjórn Framsfl. ályktaði í fyrravetur um þessi efni og benti þá strax á þessa leið, að leitast við að tengjast Efnahagsbandalaginu með samningum um tolla- og viðskiptamál, gagnkvæmum niðurfellingum og tilslökunum í því efni. Á ráðstefnu Frjálsrar menningar, sem haldin var í fyrravetur, hélt ég líka þessari skoðun talsvert eindregið fram, að það væri á þessa lund, sem við ættum að reyna að leysa okkar samskipti við Efnahagsbandalagið. En þá fannst hæstv. ráðh. það vera fjarstæða, að slíkt væri með nokkrum sæmilegum hætti mögulegt. En ég varaði þá eindregið við þeirri skoðun að tala þannig, því að það væri óhugsandi að vita um það þá, hvaða möguleikar mundu verða í þessu efni, og varaði því hæstv. ráðh. eindregið við því þá að láta uppi slíkar skoðanir. Og nú er strax komið á daginn, að ríkisstj. sjálf gerir einmitt ráð fyrir því núna, að þessi leið — að taka upp samninga við bandalagið um tolla- og viðskiptamál — sé önnur af þeim leiðum, sem til greina komi. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur látið þetta í ljós og hefur þessa leið alveg opna. Ég vil mega vonast eftir því, að smátt og smátt muni þessi mál þróast þannig, að fleiri og fleiri geti staðið saman um að taka málin upp einmitt eftir þessari leið.

Hitt verð ég að segja, að mér kemur það dálítið einkennilega fyrir, í hvaða tón hæstv. ráðherrar tala um afstöðu Framsfl. í þessu tilliti, þegar þess er gætt, að við höfum lýst því eindregið yfir, að við vildum leggja áherzlu á aðra þá leið, sem ríkisstj. telur koma til mála. Og ég vil vona, að sú tortryggni, sem kemur upp í hugann vegna þess, reynist með öllu ástæðulaus.

Þá vil ég minnast á, að í afstöðu okkar framsóknarmanna hefur komið fram, að við teljum Íslendinga ekki geta gengið í Efnahagsbandalagið. Við getum ekki gengið undir samstjórn í einu eða öðru formi á þá lund, sem þar er ráðgert, eins og segir í ályktun miðstjórnar Framsfl. um þessi efni. Og við verðum að halda fast á því, að Íslendingar verði að hafa á sínu valdi, hvort og með hvaða skilmálum erlendir aðilar megi hafa hér atvinnurekstur eða leita sér hér atvinnu.

Og við höfum sagt, að við höfum þegar gert okkur grein fyrir því, að markmið okkar ætti að vera að ná tolla- og viðskiptasamningum án annarra tengsla. Þetta ætti að vera það, sem við stefndum að.

Nú segja sumir, að þetta sé allt of fljótræðislegt, að ætla sér að taka þessa stefnu nú þegar, og það eigi að halda því opnu að taka málin upp á grundvelli aðildar í einu eða öðru formi.

En þá kemur frá okkar sjónarmiði til skoðunar, og um það verða menn að ræða í hreinskilni: Hvað er það, sem gæti verið ástæða fyrir Íslendinga að sækjast eftir í sambandi við Efnahagsbandalag Evrópu annað en tolla- og viðskiptasamningur? Hvað er það annað, sem Íslendingar gætu haft ástæðu til að sækjast eftir en t.d. gagnkvæm niðurfelling á tollum á þýðingarmestu vörutegundum — gagnkvæm segi ég — og eðlilegir viðskiptasamningar? Hvað er það annað, sem Íslendingar gætu haft ástæðu til að sækjast eftir, þannig að það væri frá íslenzku sjónarmiði réttara að taka málið upp á öðrum grundvelli en þeim að óska eftir tolla- og viðskiptasamningi? Þeir, sem ekki hafa nú þegar gert það upp við sig, að það sé sú rétta aðferð til að taka upp málið, þeir hljóta að hafa í huga, að eitthvað annað geti verið eftirsóknarvert frá íslenzku sjónarmiði í þessum málum en að komast inn fyrir tollmúrana með sérstökum samningum.

Hvað getur það verið, sem Íslendingar ættu þannig að sækjast eftir umfram það? Ekki geta það verið réttindi til að reka atvinnu í öðrum löndum. Íslendingar sækjast yfirleitt ekki eftir því að fá réttindi til að reka atvinnu í öðrum löndum, og þeirra hluta vegna þurfum við ekki að gera meira. Ekki sækjumst við eftir réttindum til að flytja fjármagn okkar í önnur lönd. Ekki sækjumst við eftir réttindum til að flytja okkar fólk í önnur lönd. Ekki sækjumst við eftir því að þurfa að samræma efnahags- og atvinnumálastefnu okkar stefnu annarra landa. Við höfum á svo margan hátt sérkennilegan þjóðarbúskap vegna okkar dvergsmæðar og sérstakra ástæðna, að því fer auðvitað víðs fjarri, að við sækjumst eftir því að þurfa að binda okkur í þessu efni. Ekki sækjumst við eftir því að ganga undir samstjórnina í efnahagsmálum, því að þar getum við bókstaflega engu ráðið. Ekki þurfum við að sameinast þjóðum Efnahagsbandalagsins til að fyrirbyggja stríð milli þeirra og okkar. En þessi atriði, sem ég nú hef rakið, eru eftirsóknarverð, mörg af þeim, einmitt frá sjónarmiði margra þeirra þjóða, sem í bandalaginu eru, en ekki frá okkar sjónarmiði. Við höfum sem sé allt öðruvísi aðstöðu á allan hátt en þær þjóðir, sem hafa efnt til bandalagsins.

Ýmsar af þeim þjóðum, sem hafa efnt til bandalagsins, hafa brennandi áhuga á því að geta haft réttindi fyrir sína menn til þess að hafa stórfelldan atvinnurekstur í öðrum löndum. Sumar af þjóðunum hafa brennandi áhuga á því að geta haft möguleika fyrir sitt fólk til að flytja út úr sínu eigin landi og inn í hin löndin. Og margar þessar þjóðir hafa brennandi áhuga á því að geta verið frjálsar með fjármagn sitt og til að flytja það inn í hin löndin. Og sumar af þessum þjóðum virðast beinlínis vilja vera í bandalaginu til að geta haft áhrif á gang mála í Evrópu, eins og Bretar fara ekkert dult með núna, að þeir vilja fyrst og fremst komast inn í samstjórnina, inn í bandalagið til þess að geta ráðið pólitískum gangi mála í Evrópu: Engu af þessu sækjumst við eftir.

Á þessu sjáum við, hversu þetta dvergríki okkar er gersamlega ósambærilegt við þær þjóðir, sem byggja upp þetta bandalag eða þetta ríki, — ef hér verður ríki sett á fót. Frumhvötin í þessu bandalagsmáli er ef til vill einmitt sú að fyrirbyggja í framtíðinni stríð á milli þessara þjóða. En engin slík hvöt getur verið ráðandi hjá okkur í sambandi við inngöngu í slíkt þjóðasamfélag eða ríki.

Á þessu sjáum við, að það, sem við fyrst og fremst þurfum að sækjast eftir, er að geta haft við þetta bandalag, við þetta ríki, ef það verður ríki, eðlileg viðskipti, að við getum komið málum þannig fyrir, að viðskipti okkar biði ekki hnekki, að það verði ekki lokað fyrir þau með tollmúrum og við getum fengið við þessi lönd eðlilega viðskiptasamninga, síðan haldið áfram að hafa við þau margs konar menningarsamskipti, eins og leiðir af því, að þessi lönd eru okkar næstu nágrannar og þau lönd, sem við sækjumst áreiðanlega mest eftir samvinnu við, og ég segi: jafnhliða því, sem við sækjumst eftir samvinnu við aðra hluta hins vestræna heims og aðrar lýðræðisþjóðir, eins og t.d. þjóðir Norður-Ameríku.

Það er alveg vonlaust mál að kenna þessa stefnu og þennan málflutning, þ.e. að sýna fram á sérstöðu okkar í þessu efni, að kenna þetta við einangrunartilhneigingu, telja allt að því hálfgerða ónáttúru að vilja ekki svo að segja skilyrðislaust taka þátt í þessu þjóðasamfélagi Vestur-Evrópu. Menn mega alls ekki gera sig seka, um slíkan málflutning. Hann er ekki sæmilegur í sambandi við mál eins og þetta, sem snertir grundvöllinn undir framtíðarlífi íslenzku þjóðarinnar. Það er ekki heldur sæmilegt í þessu máli að bera mönnum á brýn annarleg sjónarmið, að menn leyfi sér í þessu máli t.d. að taka afstöðu eftir því, hvernig pólitíska viðhorfið kann að vera nú á þessari stundu á Íslandi. Það er ósæmilegt að bera mönnum slíkt á brýn það væri ósæmilegt, ef nokkur maður reyndi að gera slíkt.

Það er út frá þessum hugsanagangi, sem ég hef enn verið að reyna að lýsa nánar en áður, sem við í Framsfl. höfum lagt áherzlu einmitt á þetta, að við ættum að óska eftir samningum við Efnahagsbandalagið, þegar það verður tímabært, á grundvelli tolla- og viðskiptasamninga, en ekki á grundvelli aðildar, því að það, sem við einmitt þurfum að komast hjá, er að veita þessi réttindi eða vefjast inn í bandalagið með einum eða öðrum hætti, ekki láta málin taka allt aðra stefnu en við raunverulega viljum, þannig að við vöknuðum upp einn góðan veðurdag og værum þá búnir að sameina þjóð okkar öðrum þjóðum án þess að hafa gert okkur ljóst, hvað við værum raunverulega að gera. Við þurfum fyrst og fremst að leggja áherzlu á að komast inn fyrir tollmúrana, ef þessir tollmúrar þá hrynja ekki eða lækka stórkostlega alveg á næstunni, jafnvel án okkar tilverknaðar, sem ég hef verulega trú á.

Ég vil alvarlega vara við því, að menn hlaupi á sig í þessu tilliti og fari t.d. fyrir mönnum eins og hæstv. forsrh. Það hryggði mig að heyra hæstv. forsrh. kalla það frekju, ef Íslendingar færu fram á að fá samninga Við Efnahagsbandalagið um, að þar yrðu felldir niður tollar á ýmsum þýðingarmiklum vörum okkar gegn því, að við felldum aftur niður á móti toll á vörum þeirra. Þetta má alls ekki segja, vegna þess að hér er alls ekki um neina frekju að ræða, heldur eðlilega gagnkvæmni á fullkomlega eðlilegan hátt. Og ég vil biðja menn að athuga, að önnur sú leið, sem hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, hlyti einmitt að byggjast á því, að grundvöllurinn væri slíkir samningar.

Enginn okkar getur fullyrt neitt um, hvaða samningum er hægt að ná við Efnahagsbandalagið. En ég hef sagt og segi það enn, að ég tel, að tíminn vinni með okkur í þessu efni, ef við bíðum átekta, þá muni verða léttara fyrir okkur að koma okkar sjónarmiði fram einmitt á grundvelli tolla- og viðskiptasamninga og það munt hjálpa okkur á margvíslegan hátt margt af því, sem aðrar þjóðir eiga eftir að gera á næstunni.

Ég held, að þetta eigi eftir að breytast enn. Og alveg eins og hæstv. viðskmrh. var ákaflega svartsýnn á þessar leiðir í fyrravetur, en nú miklu bjartsýnni, þá trúi ég því, að þetta eigi enn eftir að þróast í sömu átt. Það eigi eftir að aukast möguleikar fyrir því að koma einmitt fram málum okkar eftir þessari leið, ef við bara hlaupum ekki á okkur, tölum ekki af okkur og flýtum okkur ekki.

Það hefur verið mikið talað um aukaaðild í sambandi við þessi mál, og það er rétt, að það er ekki hægt með neinni vissu að segja um, hvað aukaaðild verður. Og á tímabili var talað um, að aukaaðild gæti verið frá 1-99%. Ég er hræddur um, að þetta tal hafi haft litla stoð í veruleikanum. En ef þetta hefði verið rétt, þá hefði t.d. átt að rúmast undir aukaaðild tollsamningar og viðskiptasamningar svona hér um bil venjulegir. Ég held, að það skýri ekki mikið málið, svona tal um aukaaðild, enda er nú hætt að tala um aukaaðild á þessa lund.

Það eina, sem við vitum um aukaaðild fyrir víst, er gríski samningurinn, sem jafngildir inngöngu í Efnahagsbandalagið. Og svo heyrum við hæstv. viðskmrh. segja, að aukaaðild þýði, að samningar yrðu teknir upp á aðildargrundvelli að sjálfsögðu, og yrði þá að fá undanþágur frá Rómarsáttmálanum og í því sambandi að taka upp samninga um atvinnurekstrarréttindi, fjármagnsflutninga, atvinnuréttindi, um sameiginlegu stjórnina og sameiginlegu stofnanirnar og stefnuna í efnahags- og atvinnumálum. Allt þetta yrði að taka til meðferðar og ræða, að því er manni skilst, á undanþágugrundvelli, þar sem aðalgrundvöllurinn í umr. yrði, eftir því sem bezt verður vitað, sjálfur Rómarsamningurinn.

Á þennan hátt teljum við alveg skakkt að taka upp málefni Íslands við bandalagið. Og það virðist okkur nú þegar augljóst, að ekki sé rétt né skynsamlegt að taka málin upp á þennan hátt með Rómarsáttmálann sem grundvöll og semja um undanþágur. Hitt sé alveg augljóst nú þegar, að fyrir okkur Íslendinga sé um að gera að taka, þegar þar að kemur, málið upp á grundvelli samninga um tolla- og viðskiptamál, gera sér grein fyrir málinu á þá lund, sem við höfum verið að reyna að gera, hvað það sé, sem Ísland þurfi að sækjast eftir, og taka samningana upp á þeim grundvelli. Þetta teljum við hægt að sjá nú þegar.

Það er ekki hægt að taka þetta mál upp við bandalagið, þegar þar að kemur, bæði á grundvelli samninga um tolla og viðskiptamál án annarra tengsla og á grundvelli aðildar. Það verður að velja á milli þessara tveggja leiða. Og við teljum okkur hafa sterk og fullgild rök fyrir því, að það beri að taka upp samninga við Efnahagsbandalagið á grundvelli tolla- og viðskiptasamninga án frekari tengsla.

Hæstv. ríkisstj. segist sjá, að full aðild sé ófær, en hún segist ekki sjá, hvort stefna beri að aukaaðild eða tolla- og viðskiptasamningum, væntanlega af því, að hæstv. ríkisstj. telur sig ekki sjá, hvort heppilegra sé fyrir Ísland. En við segjumst sjá nú þegar, að markmið Íslendinga eiga að vera tolla- og viðskiptasamningur án annarra tengsla og um það beri að sækja, þegar tímabært verður, en alls ekki um aðildina. Við þykjumst sjá það alveg greinilega, að ef við sækjum um aðildina, þótt kölluð sé aukaaðild, þá er þar með lokað tolla- og viðskiptasamningsleiðinni. Þetta er aðalatriði málsins.

Ef menn gera það ekki upp við sig, að þeir stefni að tolla- og viðskiptasamningsleiðinni, og halda áfram að slá úr og í í þessum efnum og sækja svo um aukaaðildina, þá er alveg augljóst, að með því er tolla- og viðskiptasamningsleiðinni raunverulega lokað. Þannig lítum við á þetta mál. Við teljum, að Íslendingum muni takast að ná hagfelldum samningum eftir tolla- og viðskiptasamningsleiðinni, og viljum ekki eiga þátt í því að ræða um val ú milli verri eða lakari kosta. Við teljum, að við munum ná hagfelldum samningum eftir þessari leið, ef við berum gæfu til þess að sameinast um hana og fylgja henni fram nægilega sterkt, en tvístígum ekki eða spillum fyrir möguleikunum með því að ræða aðra kosti alltaf jöfnum höndum en þá, sem beztir eru fyrir Ísland frá okkar sjónarmiði:

Þetta er sú leið, sem við höfum sjálfir trú á, að sé bezt fyrir Ísland og sé fullkomlega frambærileg og sanngjörn í allra garð, og við teljum, að verði að taka hiklaust fram yfir og beita sér fyrir og stefna að: Annaðhvort verða menn að vilja sækja um aðild eða tolla- og viðskiptasamninga við bandalagið, nema þá auðvitað þeir, sem vilja rjúfa viðskiptatengslin við Vestur-Evrópu. Þeir vilja náttúrlega raunverulega hvorugt. Það er ekki hægt að vilja hvort tveggja. Það er ekki hægt að taka málið upp með hvoru tveggja mótinu. Og við erum reiðubúnir með þeim rökum, sem við höfum fyrir því fært, að segja nú, hvora stefnuna við viljum taka, þegar tímabært er að taka málið upp. Hér er um það að ræða, um hvað eigi að sækja og að hverju eigi að vinna.

Ráðherrar hafa sagt, að það væri ósamræmi í því að leggja ofurkapp á að bíða átekta annars vegar, en segja þó strax, að markmiðið eigi að vera tolla- og viðskiptasamningar. Ég hef nú fært rök fyrir því enn á ný, hvers vegna við teljum tímabært að taka þessa stefnu. En út af því, að við jafnframt leggjum mikla áherzlu á að bíða átekta, vil ég aðeins segja örfá orð.

Ég held, að hæstv. ráðh. viti, að í þessu er ekkert ósamræmi, því að ómögulegt er að ná slíkum samningum, sem við höfum talið heppilegasta fyrir Ísland, fyrr en síðar. Það er óhugsandi að ná slíkum samningum, eins og mál standa nú, og enginn okkar veit, hversu lengi það getur dregizt, að réttur jarðvegur myndist. Fyrir þessu höfum við fært pottþétt rök, sem ekki hefur verið reynt að hnekkja og allir eru nú sammála um, að það sé alls ekki tímabært að reyna að fá neina niðurstöðu í þessum málum.

Og einmitt vegna þess, að nú er ekki hægt að fá neina niðurstöðu í þessum málum, þá er ekki tímabært, eins og nú stendur, að ræða um leiðir við þjóðir Efnahagsbandalagsins, ræða um leiðir, því að það er rangfærsla því miður að túlka þær viðræður, sem nú gætu átt sér stað, eingöngu sem öflun upplýsinga. Það er rangfærsla að túlka þær þannig. Það eru viðræður um leiðir, án þess að Íslendingar hafi stefnu í málinu. Það er það, sem þær eru. Ekkert er kannske jafnþýðingarmikið og það að koma fram með málstað sinn á réttan hátt á réttum tíma. Og ekkert er hættulegra en að flytja mál sitt villandi í ótíma. Og ekkert er háskalegra en að halda þannig á málum, að hinn samningsaðilinn misskilji, hvað verið er að fara, og haldi máske, að verið sé að fara allt annað en endanlega verður ofan á: Ég veit, að hver einasti maður, sem hefur tekið þátt í samningum, og það eru flestir, skilur þessar einföldu staðreyndir, og það er ekki hægt að rugla menn í þessu rími.

Hæstv. ráðh. segja, að það sé um að gera að tala, það sé með öllu óeðlilegt að vilja ekki tala t.d. við forráðaþjóðir bandalagsins. Og í sambandi við þetta segja hæstv. ráðh. einnig, að það eigi að fá upplýsingar og skýra málstaðinn. En hvað á að segja? Er það ekki aðalatriðið í þessu sambandi, hvað á að segja. Og hver er málstaðurinn? Það er ekki aðalatriðið að tala, heldur ætla ég, að aðalatriðið sé að segja það, sem þarf að segja, og segja það á réttum tíma. Það ætla ég að sé aðalatriðið, en hitt sé háskalegt, að segja það, sem ekki á að segja, og segja það á röngum tíma.

Í sambandi við þessi atriði, hvenær eigi að taka þessi málefni fyrir og hvernig eigi að flytja málstað Íslands, þá vil ég meina, að hafi einhver verið í vafa um, að sú skoðun okkar framsóknarmanna væri rétt, að það ætti að bíða átekta, líka með viðtölin, þá vil ég meina, að þeir, sem hafa hlustað á þær umr., sem hér hafa farið fram, séu áreiðanlega allir sannfærðir um, að það er ekki út í bláinn, sem við höfum lagt áherzlu á, að viðtöl um leiðir, ég segi: viðtöl um leiðir af Íslands hendi í þessum málum, — væru ekki tímabær, því að spurningin kemur upp um það, hvernig á að flytja málstað Íslands í viðræðunum. Á t.d. að halda á málum eins og hæstv. forsrh. gerði hér — og ég vona nú í fljótræði, að það sé óeðlilegt og frekja af hálfu Íslendinga að gera ráð fyrir því, að gagnkvæmir samningar um tollalækkanir og frjáls viðskipti séu eðlilegir og fullkomlega sanngjarnt að fara fram á slíkt. Þetta sjónarmið á ekki rétt á sér, og einmitt þetta atriði þarf að gera upp og kryfja til mergjar hér heima fyrir, áður en við tölum um leiðir eða nokkuð það, sem hægt er að kalla samninga, kemur til greina.

Sama má segja um ýmislegt af því, sem hér hefur komið fram varðandi smáþjóðirnar og veru þeirra í bandalaginu. Það gæti sannarlega margt af því orðið misskilið í sambandi við þessi mál. Á að flytja málstað Íslands varðandi atvinnurekstur útlendinga og fjármagnsflutninga útlendinga inn í landið á eitthvað svipaða lund og hæstv. viðskmrh, flytur þau mál hér, þar sem hann hefur í blöðum og ræðum bent á, að Íslendingar muni að vísu verða að standa fast á því, að útlendingar fái ekki að fiska í landhelginni, en verði á hinn bóginn að gera sér grein fyrir því, að meiri og minni breytingar verði að eiga sér stað á þeirri pólitík, sem nú er rekin varðandi fiskiðnaðinn í landinu. Eins hefur hæstv. viðskmrh. haldið því hér fram í framsöguræðu sinni í þessu máli, að það væri hinn mesti misskilningur að bera nokkurn kvíðboga fyrir því, þó að útlendingar fengju hér veruleg réttindi til atvinnu. Þetta eru allt önnur sjónarmið en við úr Framsfl. höfum flutt í þessu máli.

Ég er að benda á þetta til að sýna, hver lífsnauðsyn er, að þessi mál séu gerð upp hér innanlands, reynt að ná sem víðtækustu samkomulagi um þau og reynt að ákveða stefnuna sæmilega glöggt, áður en til kemur, að þessi mál séu flutt út á við. Það er lífsnauðsyn að gera þetta, og það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því, hvorki ríkisstj. né aðrir, hver málstaður Íslands er, fyrr en stefnan hefur verið tekin.

Ég bendi á þetta ósamræmi, sem hefur komið fram í málflutningnum, ekki til að reyna að breikka bilið á milli manna, því að ég álít, að það eigi alls ekki að gera, heldur eigi að reyna að ná sem mestri samstöðu og hægt er um þetta mál. Ég bendi á þennan skoðanamun, sem komið hefur fram í þessum umr., sem að sumu leyti hefur verið snúið upp í kappræður, til að sýna, hver lífsnauðsyn á því er, að það sé gert upp hér heima fyrir, hver málstaður Íslands er, eftir hverju eigi að sækjast, hvaða stefnu beri að hafa í viðræðunum við bandalagið, áður en viðræður eiga sér stað um leiðir í málinu.

Einmitt af þessum ástæðum, að það hefur ekki verið tekin stefna í málinu af hendi Íslands og ekki er tímabært að taka málið upp út á við, þótt menn geti þegar haft stefnu í málinu, eins og við höfum tekið, þá leggjum við áherzlu á, að samningaumræður eða viðræður um leiðir í málefnum Íslands og bandalagsins eigi sér ekki stað, fyrr en tímabært er og þessi mál hafa verið gerð upp heima fyrir.

Í ræðu sinni um daginn minntist hæstv. viðskmrh. á, að málflutningur stjórnarandstæðinga hefði verið nokkuð líkur. Það var eftirtektarvert, að hæstv. viðskmrh. skyldi sérstaklega benda á þetta. Aftur á móti benti hæstv. viðskmrh. ekki á, að við framsóknarmenn lýstum því yfir, að við vildum aðra þá leið, sem einmitt hæstv. ríkisstj. telur koma til mála í þessu sambandi. Og sannast að segja fannst mér dálítið einkennilegt, að hæstv. viðskmrh. skyldi kalla það neikvæða afstöðu, að við tókum einmitt undir aðra þá leið, sem hæstv. ríkisstj. telur mjög koma til mála. Og enn meira undrandi hef ég verið á því, að allur blærinn á málflutningi hæstv. ríkisstj. bendir í þá átt, að henni finnist þessi leið, sem hún sjálf hefur bent á til jafns við aðra leið, a.m.k. ekki vera jafngild hinni. Það virðist koma greinilega fram.

Ég vona, að þetta þýði ekki, að ríkisstj. meini það ekki, að tolla- og viðskiptasamningur við Efnahagsbandalagið geti verið leið í málinu. Ég vona, að þetta þýði ekki það, vegna þess að ég álít það ákaflega þýðingarmikið, að sem flestir gætu staðið saman í þessu máli og eftir því væru meiri líkur fyrir góðri samninganiðurstöðu, sem fleiri gætu staðið saman.

En það kom fljótt í ljós utan þingsins, hvernig á því stóð, að hæstv. viðskmrh. valdi þann kost að draga það sérstaklega fram, að stjórnarandstæðingar hefðu verið sammála, að málflutningur stjórnarandstæðinga hefði verið líkur, eins og ráðh. mun hafa orðað það. Það hefur sem sagt komið í ljós í blöðum, að þetta mun hafa átt að vera grundvöllur fyrir að halda því fram, að Framsfl. mundi einmitt vilja stefna að viðskipta- og tollasamningaleiðinni vegna þess, að hún væri fremur að skapi kommúnista en hin leiðin, að sækja um aðild.

Ég vil alvarlega vara hæstv. ríkisstj. við því að færa umr. um þetta eitt hið vandasamasta mál, sem þjóðin hefur fengið til meðferðar, niður á allra lægsta plan. Ég vil alvarlega vara hæstv. ríkisstj. við því að draga þetta mál niður í svaðið á þann hátt, — alvarlega vara við því. Ég tel það, eins og ég sagði hér áðan, gersamlega ósæmilegt að drótta því að nokkrum manni, að hann leyfi sér að taka afstöðu til þessa máls miðað við það, hvað einhver annar vill, eða miðað við, hvernig ástatt er þá og þá í þeirri pólitísku taflstöðu hér í landinu. Ég vara hæstv. ríkisstj. enn við því að draga þetta mál niður í svaðið með því að gera slíkt. Ég held slíkt vera til stórtjóns fyrir málið og áreiðanlega ekki til neins ávinnings fyrir þá, sem tækju upp þann hátt. Þetta er álíka málflutningur hjá þeim, sem á honum hafa imprað, eins og ef við héldum því fram, að stjórnin mundi ætla sér að yfirgefa alveg tolla- og viðskiptasamningsleiðina, vegna þess að svo virtist í umr. um daginn, að eitthvað væri nær því, að Alþýðubandalagið eða kommúnistarnir vildu hana fremur en aðild.

Ég vil ekki gera hæstv. ríkisstj. slíkar getsakir.

Við þekkjum öfgarnar og ofstækið. Við vitum það t.d., að kommúnistar mundu vera óðir talsmenn þess, — alveg óðir talsmenn þess að ganga í efnahagsbandalag og jafnvel ríkjasamsteypu í Austur-Evrópu, ef slíkt gæti komið til greina. Þetta er auðvitað algerlega ljóst. Og það er enn ómögulegt að sjá af því sem fram hefur komið hér, hvað Alþb.-menn raunverulega vilja, t.d. hvort þeir mundu vilja nokkurn raunverulegan tolla- og viðskiptasamning við Efnahagsbandalagið. Það verður ekkert um það ráðið í raun og veru af því, sem fram hefur komið, og skiptir ekki heldur öllu máli í þessu sambandi.

Við vitum líka, að í landinu er því miður talsvert mikið af öfga- og ofstopamönnum á hinum jaðrinum, sem gjarnan vildu sjá Ísland hreinlega innlimað og hikuðu ekkert við að ganga með fullri aðild að Efnahagsbandalaginu — eða innlima Ísland í nýtt ríki á meginlandi Vestur-Evrópu. Við vitum, að þessir menn eru til. Við vitum um þessar öfgar á báða bóga og þetta ofstæki. En það verður að taka afstöðu í þessu máli gersamlega án tillits til slíkra öfga og slíks ofstækis á báða bóga. Og ég vil einlæglega vona, að það verði nægilega margir, sem finna rétta leið í þessu máli og þá án tillits til þess, sem þeir vilja, sem öfgunum vilja hlíta á báða bóga.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, eins og ég gerði raunar áðan, að hæstv. ríkisstj. hefur opna þá stefnu að taka upp samninga við Efnahagsbandalagið á grundvelli tolla- og viðskiptasamningsleiðarinnar. Og ég vona, að það sé af heilum hug, sem hæstv. ríkisstj. hefur þá leið opna.

Ég vil láta í ljós von um, að nægileg samstaða náist um það, sem bezt er frá íslenzku sjónarmiði, og að nægilega öflug samstaða náist um að berjast fyrir því til þrautar.

Við framsóknarmenn trúum því, að fullnægjandi lausn muni nást eftir tolla- og viðskiptasamningsleiðinni, ef möguleikunum er ekki spillt með bollaleggingum og ráðagerðum um ýmislegt allt annað, sem okkur er óhagstæðara. Á þessu byggist okkar afstaða. Og við vildum helzt, að það næðist samkomulag um að taka stefnuna í rétta átt strax í þessu máli, þó að aðgerðir verði að sjálfsögðu að biða. Við viljum, eins og ég sagði áðan, ekki taka þátt í því að velja á milli lakari kosta, en reyna að gera það, sem við getum, til þess að fylkja mönnum saman um að leita eftir því bezta og hagfelldasta.

Við fáum aldrei fullnægjandi tolla- og viðskiptasamninga við Efnahagsbandalagið með lauslegum bollaleggingum fram og aftur um þá leið og jafnframt um ýmsar aðrar leiðir, svo sem einhvers konar aðild, og ekki heldur ef við tökum þá leið fram yfir að sækja um aðild og byrjum með því að reyna að toga út undanþágur frá Rómarsamningnum. Með því mundum við loka tolla- og viðskiptasamningsleiðinni.

Þess vegna sýnist okkur, að það ætti að liggja beint við fyrir þá, sem ekki telja Ísland geta gengið beint inn í bandalagið, að ákveða það nú þegar, taka þá stefnu að sækja um umræður á tolla- og viðskiptasamningsgrundvelli á réttum tíma, ekki núna, heldur síðar.

Að lokum vil ég svo minna á, að ég lét í ljós þá skoðun í fyrri ræðu minni, að það væri eðlilegt, að ekki væru sendar neinar grg. um sjávarútvegsmál á ráðstefnur erlendis, án þess að Alþingi fengi að fylgjast með, hvernig slíkar grg. væru. Og ég vil leyfa mér að fara fram á, að hæstv. ríkisstj. lýsi því yfir, að þannig verði á því máli haldið.