23.11.1962
Sameinað þing: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

Efnahagsbandalagsmálið

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur að vonum mjög skýrzt við þá rækilegu athugun, sem á því hefur verið gerð hin síðustu missiri. Það hefur bæði skýrzt í hugum manna hér innanlands, þeirra sem um það hafa fjallað, og eins hefur málstaður okkar áreiðanlega mjög til góðs verið skýrður fyrir aðilum Efnahagsbandalagsins og ýmsum þeim ríkisstj., sem nú hyggja á eða leita eftir inngöngu í það bandalag.

Það er að vonum, að þær umr., sem áttu sér stað í upphafi málsmeðferðar, voru með nokkuð öðrum blæ en þær a.m.k. ættu að verða, eftir að sú ýtarlega rannsókn á öllum aðstæðum hefur farið fram, sem átt hefur sér stað.

Um margt af því, sem um er deilt, má þó enn segja, að það þurfi nokkru nánari skýringar í hugum manna, eða a.m.k. virðist mér deilt um keisarans skegg. Það er t.d. sá mikli munur, sem hv. framsóknarmenn vilja gera á aukaaðild og tolla- og viðskiptasamningi. Hv. 1. þm. Austf. sagði alveg réttilega áðan, að í raun og veru mætti kalla tolla- og viðskiptasamning aukaaðild með nokkrum rétti eða a.m.k. kæmi slík leið undir aukaaðild, ef það væri rétt, sem fram hefur verið haldið æ ofan í æ, að aukaaðild gæti verið allt frá 1% Rómarsamningsins upp í 99%. Ég er honum alveg sammála um það, að það er nánast orðaleikur, hvort menn vilja kalla viðskipta- og tollasamning visst form aukaaðildar eða hvort menn vilja telja það þriðju sjálfstæðu leiðina. Á þessu er í raun og veru enginn eðlismunur, ef aukaaðildin er nógu óveruleg. En engu að síður virðist svo sem hv. framsóknarmenn vilji í öðru orðinu gera á þessu meginmun og magna það sem allra mest.

Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) hélt því fram, að á þessu væri gersamlegur eðlismunur, á aukaaðild og viðskipta- og tollasamningi. Hann byggði þann eðlismun á þeirri fullyrðingu, sem er gersamlega ásönnuð og meira að segja afsönnuð eftir þá athugun, sem fram hefur farið, að allir aukaaðildarsamningar hlytu að lokum að leiða til fullrar aðildar. Það er yfirlýst, að hlutlausu þjóðirnar svokölluðu, Svíar, Austurríkismenn og Svisslendingar, sem allar eru ákafar í það að fá aukaaðildarsamning, hugsa sér, að slík aukaaðild standi að eilífu, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um eilífðina í þessu sambandi, en breyti ekki um eðli og leiði ekki til fullrar aðildar. Þess vegna á sér alls ekki stað sá eðlismunur á aukaaðild og tolla- og viðskiptasamningi, sem hv. framsóknarmenn í öðru orðinu halda fram, en hv. 1. þm. Austf, alveg réttilega tók fram að væri í raun og veru ekki, vegna þess að tolla- og viðskiptasamningur væri í eðli sínu ekki annað en eitt form aukaaðildar.

Það er rétt að hafa þessa ábendingu hv. 1. þm. Austf. í huga, þegar við athugum það, sem fram hefur farið í málinu áður, til að skilja réttilega þær ýmsu tillögur og umsagnir, sem átt hafa sér stað. Nú er það út af fyrir sig fjarstæða að halda því fram, að nokkur væri ámælisverður fyrir það, þó að hann hefði að einhverju leyti skipt um skoðun í þessu mikla máli við rækilegri íhugun. Það væri þvert á móti vítavert, ef menn hefðu ekki reynt að læra af þeim athugunum, sem átt hafa sér stað, og tekið þær sér til inntekta, látið þær móta skoðanir sínar með eðlilegum hætti. En það merkilega er, að a.m.k. af hálfu stjórnarsinna og þá einkanlega Sjálfstfl. staðfesta þær athuganir, sem átt hafa sér stað, að við sáum strax í upphafi rétt um meginatriði málsins, og það er algerlega rangt, sem einkanlega hv. 7. þm. Reykv. hélt hér fram, að þessi íhugun, sem fram hefur farið, hafi leitt til einhverra skoðanaskipta Sjálfstfl. og ríkisstj. í heild. Ég ítreka, að það eftirtektarverða er, að við bentum strax á meginatriði málsins, og þau eru óhögguð enn í dag og um þau á að mínu viti ekki sér stað sá skoðanamunur, sem einkanlega hv. 7. þm. Reykv. og raunar hv. 1. þm. Austf. í öðru orðinu vilja vera láta.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni á dögunum, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:

„Og það gerðist svo einnig í framhaldi af þessu á þingi, sem ungir sjálfstæðismenn héldu í september 1961, að samþykkt var, að Ísland skyldi sækja um upptöku í Efnahagsbandalagið, og á landsfundi, sem Sjálfstfl. hélt í októbermánuði s.l. haust, var samþykkt að vinna að því að tryggja aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu. Það kemur glöggt fram af öllu þessu, að í fyrrasumar og fyrrahaust var það stefna Sjálfstfl. og þar af leiðandi líka stefna ríkisstj., því að það er hann, sem ræður stefnu ríkisstj., að þá þegar skyldi sótt um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu og hafður sem mestur hraði á. Þegar þetta er íhugað, finnst mér sérstök ástæða til þess að lýsa ánægju yfir því, sem felst í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., að ríkisstj. telji sig nú orðna afhuga því, að sótt skuli um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu, og enn fremur sé hún orðin þeirrar skoðunar, að í stað þess að hafa hraðan á í málinu, þá sé rétt að bíða átekta.“

Þetta sagði hv. 7. þm. Reykv. við fyrri hluta þessarar umr. Af þessu tilefni er sérstök ástæða til þess að benda á, að menn töldu, — og ekki að ástæðulausu, — að eina ráðið eða a.m.k. öruggasta ráðið til þess að kanna til hlítar, hverjir kostir væru fáanlegir um tengsl við bandalagið, svo að ég noti það orð, sem við nú orðið erum farnir að nota í þessu sambandi, væri sá að sækja um aðild að því, að nauðsynlegar upplýsingar og viðræður væru ekki fáanlegar, án þess að þvílík umsókn um aðild hefði átt sér stað. Sú athugun, sem fram hefur farið af hálfu ríkisstj., hefur leitt í ljós, að þessu er ekki svona farið. Ég segi ekki, að hin skoðunin hafi verið misskilningur á sínum tíma, heldur er mér nær að halda, að það hafi um skeið verið viðhorf forráðamanna Efnahagsbandalagsins, að þeir léðu ekki öðrum fangs á sér til viðræðna eða könnunar en þeim, sem höfðu sótt um aðild eða lýst vilja sínum til þess, síðan hafi þeir breytt um afstöðu í þessu. En það skiptir ekki öllu máli fyrir okkur. Aðalatriðið er, að þau viðtöl, sem hafa átt sér stað af hálfu ríkisstj., frá því að hæstv. fjmrh. og viðskmrh, áttu viðræður við fulltrúa þýzku ríkisstj. í sept. í fyrra, hafa leitt í ljós, að við höfum bæði getað komið okkar skoðunum að við forráðamenn bandalagsins, án þess að sækja um aðild, og fengið hjá þeim margháttaðar, mjög gagnlegar upplýsingar. En þetta breytta viðhorf verður vissulega að hafa í huga. Og það er líka rétt, eins og hæstv. viðskmrh. sagði í frumræðu sinni hér á dögunum og ég vil nú leyfa mér að vitna til með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þeirra nýju viðhorfa, sem voru að skapast í þessum málum, ákvað ríkisstj. í maí 1961 að leita um þau samráðs við helztu hagsmunasamtök í landinu. Hafa síðan verið haldnir fundir með fulltrúum þessara samtaka, þar sem þeim hefur verið kynnt viðhorf málanna og þeir hafa gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Um mitt s.l. ár, þegar vitað var, að Bretar og Danir hefðu afráðið að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu, var ekki álitið ósennilegt, að hinar ýmsu þjóðir Vestur-Evrópu mundu eiga samleið í viðræðum sínum við Efnahagsbandalagið og þær færu fram samtímis. Ríkisstj. taldi rétt, að Íslendingar byggju sig undir að geta tekið þátt í slíkum viðræðum, ef til kæmi. Þess vegna var leitað álits hagsmunasamtakanna á því, hvort Ísland ætti að leita viðræðna um tengsl við bandalagið, að sjálfsögðu þó án allra skuldbindinga. Voru fulltrúar hagsmunasamtakanna, að undanskildum fulltrúa A.S.Í., hlynntir því, að svo yrði gert. Reyndin varð hins vegar sú, að engar sameiginlegar viðræður fóru fram, heldur viðræður milli Efnahagsbandalagsins og hvers einstaks ríkis, sem um aðild eða önnur tengsl hefur sótt. Ríkisstj. taldi því ekki ástæðu til þess að hafast frekar að í málinu að þessu sinni.“

Eins og kemur fram í þessum orðum hæstv. viðskmrh., voru viðhorfin á miðju s.l. sumri, þ.e.a.s. sumrinu 1961, þau, að menn hugðu, að sameiginlegar viðræður stæðu fyrir dyrum, og eins og ég áðan gerði grein fyrir, töldu menn, að forsenda þeirra hlyti að vera sú, að um aðild væri sótt, jafnvel þótt það væri einungis gert til könnunar og áður en menn gerðu upp til hlítar hug sinn um það, hvort þeir að lokum treystu sér til þess að verða fullgildir aðilar eða ekki.

Hv. 7. þm. Reykv. færði til sönnunar fullyrðingum sínum sem sem ég áðan las upp, til viðbótar tilvitnum í samþykktir flokksins, ýmis ummæli úr Morgunblaðinu frá því í ágúst 1961. Ég hef ekki kynnt mér allar þær tilvitnanir, en ein þeirra, sem hann lagði mest upp úr, var í Morgunblaðinu hinn 19. ágúst 1961 og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæðan til þess, að kunnáttumenn telja, að ekki megi lengi draga að leggja inn inntökubeiðni, er fyrst og fremst sú, að framtíðarskipan Efnahagsbandalagsins er nú í mótun. Með því að sækja nú um inngöngu geta Íslendingar haft áhrif á það, hvernig einstökum málum verður háttað, en ef við leggjum ekki fram inntökubeiðni, erum við frá upphafi einangraðir.“

Þetta las hv. þm. upp úr Morgunblaðinu frá 19. ágúst 1961. En einhvern veginn hefur honum skotizt yfir bæði upphaf og endi þessarar sömu greinar. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar upphaf greinarinnar svo:

„Morgunblaðið flutti í gær þá frétt, að samtök allra meginatvinnuvega Íslendinga væru hlynnt því, að við legðum fljótlega fram inntökubeiðni í Efnahagsbandalag Evrópu (Sameiginlega markaðinn). Fulltrúi Alþýðusambands Íslands lagðist einn gegn því, að við sæktum um upptöku. Af þessu er ljóst, að mjög almennur stuðningur er við umsókn okkar meðal þeirra, sem kynnt hafa sér málin og bezt þekkja þarfir atvinnuveganna.“

Hin tilvitnuðu ummæli, sem hv. 7. þm. Reykv. hafði eftir Morgunblaðinu, komu fyrst eftir þennan inngang og eru skýring á þessari afstöðu fulltrúa atvinnuveganna. En þ. á m. var, eins. og raunar hv. 4. þm. Austf. vakti athygli á hér á dögunum, einnig fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga og að því er ég hygg bændasamtakanna og ýmsir fleiri. En Morgunblaðið segir þennan dag einnig meira um málið, því að í niðurlagi þessarar greinar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„En málin mundu horfa erfiðlega við, ef við værum síðastir til að sækja um inngöngu, og líklegt væri þá, að lítið tillit yrði hægt að taka til sérsjónarmiða okkar, heldur yrðum við að hlíta þeim reglum, sem þegar hefði verið samið um. Þannig er það beinlínis þjóðhættulegt að draga að gæta hagsmuna okkar, einkum þegar það er haft í huga, sð við getum á hvaða stigi sem er hætt samningaumræðum og verðum ekki aðilar að Efnahagsbandalaginu fyrr en eftir að viðræður hafa staðið yfir í langan tíma, líklega 1½–2 ár.“

Þessi ummæli sanna, að þarna var einungis verið að tala um könnunarviðræður og síður en svo ráðgert, að ætlazt væri til þess, að tekin yrði skyndiákvörðun að óíhuguðu máli. Ég vil því eindregið halda því fram, að hv. 7. þm. Reykv. hafi illilega misséð sig, þegar hann hljóp yfir þá tilvitnuðu kafla Morgunblaðsgreinarinnar, sem ég las hér upp.

En enn þá óskiljanlegri er glámskyggni hv. þm., þegar hann segir það skýringarlaust, að ungir sjálfstæðismenn hafi í september 1961 samþykkt, að Ísland skyldi sækja um upptöku í Efnahagsbandalagið, og gefur ekki aðrar skýringar á þessu heldur en að þá hafi þar verið hugur sjálfstæðismanna, að þá þegar skyldi sótt um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu og hafður sem mestur hraði á. Sú ályktun ungra sjálfstæðismanna, sem um þetta fjallar, hljóðar — með leyfi hæstv. forseta svo:

„Þingið telur rétt, að Ísland sæki um upptöku í Efnahagsbandalag Evrópu, svo að unnt sé að fá sem gleggstar upplýsingar og viðræður um réttindi og skyldur vegna slíkrar upptöku. Síðan skuli metið, hvort æskilegt sé að óska aðildar að þessu bandalagi.“

Þessi ályktun hinna ungu manna segir svo skýrt sem á verður kosið það, sem þá var í hugum allra, að hér væri einungis um að ræða könnunarviðræður og það væri engin skuldbinding fólgin í umsókninni um aðild, menn yrðu algerlega frjálst að meta afstöðu sína til málsins, eftir að þær nauðsynlegu upplýsingar hefðu fengizt.

Með sama hætti sleppti hv. 7. þm. Reykv. að geta aðalatriðisins, a.m.k. annars, úr samþykkt landsfundar Sjálfstfl. í okt. 1961, sem hann einnig vitnaði til. Hv. þm. segir um þetta, að þar hafi verið samþykkt að vinna að því að tryggja aðild Íslands að Efnahagsbanda. laginu, og hann gefur ekki aðra skýringu á þessu heldur en að þá hafi verið ætlunin að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu og hafður sem mestur hraði á. En ályktun landsfundar hljóðaði — með leyfi hæstv. forseta — svo:

„Þjóðir Vestur-Evrópu, sem Íslendingar hafa frá fornu fari haft mest og bezt viðskipti við, efla nú mjög samvinnu sína í efnahagsmálum, og er Íslandi brýn nauðsyn á að slitna ekki úr tengslum við þá þróun. Þess vegna ber að leitast. við að tryggja aðild okkar að Efnahagsbandalagi Evrópu án þess að undirgangast samningsákvæði, sem hér geta með engu móti átt við.“

Þessu aðalatriði samþykktarinnar sleppir hv. 7. þm. Reykv., þegar hann þykist vera að gera grein fyrir stefnu Sjálfstfl. og þar með ríkisstj. í málinu. En að þetta hafi verið mikilvægt atriði í ályktun landsfundar, kemur m.a. fram í ræðu, sem ég flutti þá á fundinum um þetta og sagði um þetta efni m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Efnahagsbandalag Evrópu, sexveldin, hefur nú þegar styrkt svo aðstöðu sína með ótrúlega skjótum framförum og almennri velmegun, er skapast fyrir sameiginleg átök og stóran markað, að aðra fýsir til samvinnu við það. Sennilega geta Íslendingar með engu móti tryggt sér örari umbætur á lífskjörum né tryggari grundvöll fyrir efnahag sinn en með því að gerast aðili bandalagsins. En málið er ekki svo einfalt. Í Rómarsamningnum, stofnskrá bandalagsins, eru ýmis ákvæði, sem eru skynsamleg frá sjónarmiði þeirra þjóða, sem búa í þéttbýlum, fullnýttum löndum, en skapa mikinn vanda fyrir fámenna þjóð, sem lifir í stóru, lítt nýttu landi. Af þeim sökum getur skilyrðislaus aðild Íslands að þessu bandalagi ekki komið til mála. Og hætt er við, að skilyrðin verði svo mörg og skapi slík fordæmi, að aðrir aðilar eigi erfitt með að una þeim.

En með því að hafna samstarfi við bandalagið missum við ekki einungis af möguleikunum til bættra lífskjara og aukins öryggis, er því kynni að vera samfara, heldur mundum við og eiga á hættu, að við misstum markaði okkar í þessum löndum. Af því yrði óbætanlegt tjón. Kommúnistar horfa ekki í það, því að með þessu eygja þeir enn einn möguleika til að einangra okkur fyrst og hrekja okkur síðan í faðminn á sínum austrænu húsbændum. Þar af kemur hiklaus andstaða þeirra, ekki einungis gegn aðild okkar að Efnahagsbandalaginu, heldur og samstarfi við það.

Öllum öðrum er ljóst, að hér er um mikið vandamál að fjalla, e.t.v. hið mesta af mörgum stórum, sem okkar kynslóð hefur þurft og þarf að leysa úr. Hér ríður mjög á, að rétt sé á haldið og aflað sé skilnings á sérstöðu okkar, þannig að við komumst í eitthvert það samstarf eða samband við þetta bandalag, að hagsmunir okkar verði ekki fyrir borð bornir. Enn er of snemmt að segja, með hverjum hætti þetta verður bezt gert, meira að segja hvort það er yfirleitt framkvæmanlegt. Til þess að það verði kannað, verður vafalaust fyrr eða síðar, þegar tímabært þykir, að taka upp samninga við bandalagið. Vil ég um það segja það eitt, að jafnfráleitt væri að hafna umleitunum fyrir fram eins og að fullyrða, að þær mundu leiða til aðgengilegrar lausnar. Hyggilegast verður að fylgjast náið með athugunum og samningum annarra og meta eftir framvindu þeirra, hvenær tímabært sé að kanna til úrslita, hvort við getum fengið aðgengileg kjör.“

Þegar ég flutti þessa ræðu, gegndi ég starfi forsrh., og þó að ræðan væri flutt á flokksþingi sjálfstæðismanna og væri sá skilningur, sem þar ríkti á þessu máli, þá er mér óhætt að fullyrða, að þarna kom einnig fram skilningur ríkisstj. í heild: Og ég spyr: Í hverju er sá skilningur, sem kemur fram í þessum orðum mínum í okt. 1961, ólíkur þeim skilningi, sem nú hefur verið túlkaður af hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. í þessum umr. Enda voru þessi ummæli engan veginn sögð að óathuguðu máli, heldur var þetta grundvölluð skoðun, sem byggðist á þeim athugunum, sem þá þegar höfðu átt sér stað og sem betur fer hafa fengið staðfestingu við þær víðtæku rannsóknir, sem síðar hafa verið gerðar.

Ég vil minna á, að í ræðu, sem ég hélt á samkomu stúdenta 1. des. 1961, ræddi ég einnig um þetta mál. Ég skal ekki lesa það allt upp, nema sérstakt tilefni gefist, en ég vil þó vitna sérstaklega til tvenns, með leyfi hæstv. forseta. Ég segi m.a.:

„Með þessu er ekki sagt, að við eigum ekki að taka þátt í efnahagsstarfsemi nágranna okkar og vina. En við getum því aðeins gert það, að tekið sé réttmætt tillit til okkar óumdeilanlegu sérstöðu og sérþarfa. Sambærilegt verður að vera það, sem hver og einn innir af hendi, og einnig það, sem hver lætur í té og aflar í staðinn.“

Og síðar segi ég, með leyfi hæstv. forseta: „Fylgjumst með því, sem gerist, og gætum þess, eftir því sem föng eru á, að eftir hagsmunum okkar og þörfum sé munað. Íslendingar mega ekki fremur í þessu en öðru verða aftur úr alþjóðlegri þróun. Við verðum að vera reiðubúnir til þess að leggja í alþjóðasamskiptum af mörkum það, sem með sanngirni verður af okkur krafizt, en þar verður sanngirnin að ráða á alla vegu.“

Ég hygg, að þessar tilvitnanir um afstöðu Sjálfstfl. og raunar ríkisstj. á s.l. hausti sýni, að þær athuganir og mjög gagnlegu rannsóknir, sem fram hafa farið, hafa ekki breytt afstöðu ríkisstj. og ríkisstj. hefur í þessum efnum ekkert þurft að læra af hv. stjórnarandstöðu, þótt ekki væri nema gott, ef hún gæti kennt okkur eitthvað, það er því miður svo sjaldan, sem það er og ekki í þessu tilfelli, — að af hálfu stjórnarinnar voru þegar við upphaf meðferðar málsins hér innanlands og utan slegnir allir þeir varnaglar, bent á allar hugsanlegar hættur í þessu sambandi, tekið fram, að rannsókn hlyti að taka langan tíma, að það væri mjög óvíst, að hún leiddi til okkur hagkvæmrar niðurstöðu, og það væri ómögulegt að segja, eftir hvaða leið hagkvæmast væri að leysa málið, jafnvel þó að einhver lausn með tengslum eða aðild að bandalaginu væri fáanleg. Þetta var kjarni þess, sem haldið var fram um málið fyrir meir en ári, og þetta stendur enn óhaggað í dag.

Ég tek undir það með hv. 1. þm. Austf., að það er í raun og veru illt verk að vera að gera meiri mun á skoðun manna í þessu heldur en rök standa til. Málið er fullerfitt fyrir því. En ég verð þó að segja, að ég tel, að hv. Framsfl. vinni illt verk með því að telja mönnum trú um, að okkur hagkvæm lausn á þessu máli sé auðfengin, að við þurfum ekki annað en sýna okkar góða andlit, vitna til okkar smæðar og þar með séu okkur allar dyr opnar. Því miður er alþjóðlegt samstarf ekki háð með þessum hætti. Það gæti verið æskilegt fyrir okkur, ef veröldin væri svona, en hún er bara á allt annan veg, eins og við þekkjum af okkar litlu reynslu og aðrir þekkja miklu betur.

Víst er það rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. og 1. þm. Austf. segja, gagnstætt því, sem hv. talsmenn Alþb. halda fram, að þjóðir Vestur-Evrópu eru okkur yfirleitt vinveittar og vilja flesta hluti fyrir okkur gera. En við erum ekki einir í heiminum, og jafnvel þó að þær vildu veita okkur margs konar hlunnindi og fríðindi, sem þær veittu ekki öðrum, þá er erfiðleiki þeirra við að veita okkur einum slíkt, að til þess verður vitnað sem fordæmis. Það er sá mikli vandi, sem hér er við að etja, auk þess sem við skulum fúslega viðurkenna, að þótt mörgum af þessum mönnum sé vel til okkar, meinlaust og hlýtt jafnvel, eins og þessir hv. þm. halda fram, þá stendur flestum þeirra eða mörgum mjög á sama um okkur. Valdamenn margra þessara þjóða þekkja lítið til íslenzkra þjóðhátta og séreðlis okkar þjóðfélags, og það er vissulega ekki auðhlaupið að því að koma þeim í skilning um það, að við þurfum á sérmeðferð að halda. En einmitt í þeim efnum hefur gegn ráðum hv. Framsfl. verið unnið mjög gott verk af hæstv. viðskmrh. og hans aðstoðarmönnum á s.l. ári, að vekja skilning og kunnugleik á okkar sérstöðu. Hvort það dugir, þegar þar að kemur, er allt annað mál. Um það getum við ekki sagt.

Hv. þm. tala svo eins og við eigum hér í raun og veru einir að segja fyrir verkum. Þeir tala um það, að við megum ekki sækja um annað en að fá viðskipta- og tollasamninga, vegna þess að annars muni umr. berast að okkur í óþægilegum efnum. Dettur þessum mönnum virkilega í hug, að okkar viðsemjendur hafi ekki rænu á því að taka upp öll þau efni, sem þeir vilja ræða um og telja sínum hagsmunum nauðsynlegt eða æskilegt fyrir þá í sambandi við aðild Íslendinga að Efnahagsbandalagi Evrópu? Ég segi aðild, og þá á ég þar með við alveg eins tolla- og viðskiptasamning, vegna þess að það er eðli sínu samkvæmt ekkert annað en aðild, eins og ég tók fram í upphafi máls míns. Nei, auðvitað fer það ekki eftir því formi, sem við höfum á okkar umsókn, hvað það er, sem okkar viðsemjendur tala um. Það getur vel verið, að hv. framsóknarmenn hafi lítið álit á núv. ríkisstj. sem samningsmönnum af hálfu Íslendinga, en það er ástæðulaust fyrir þá að færa það litla álit yfir á viðsemjendur af hálfu annarra. Það er alveg öruggt, að fulltrúar hinna ríkjanna og Efnahagsbandalagsins fitja upp á því, að ef Íslendingar vilji fé hlunnindi hjá sér, þá verði þeir að fá þeim hlunnindi í staðinn. Slíkt er eðli allra milliríkjasamninga og ekki einungis milliríkjasamninga, heldur allra samninga milli manna frá örófi vetra, og það þýðir ekkert að koma hér eins og barn og halda því fram, að Íslendingar geti með því að kalla sína umsókn einhverju sérstöku nafni skotið sér undan viðræðum um sér óþægilega hluti við viðsemjandann, ef viðsemjandinn á annað borð telur sínum hagsmunum samkvæmt, að um þau efni verði rætt. Það er vegna þess, að við gerum okkur þetta ljóst, sem við teljum, að það sé ótímabært á þessu stigi málsins að binda sig fyrir fram um það, að við viljum ekki eiga aðild að bandalaginu nema einungis í formi viðskipta- og tollasamnings.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði á dögunum, og ég held, að það hljóti að vera flestallir eða a.m.k. langflestir sammála um það, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að ná samningum við Efnahagsbandalagið um tolla- og viðskiptamál. Það sé óhjákvæmilegt og að því beri að stefna. Ef hv. þm. hefur gert sér grein fyrir, hvað í þessari yfirlýsingu felst, að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að ná slíkum samningum, heldur hann þá virkilega, að okkar viðsemjendur geri sér ekki líka grein fyrir þessu og taki upp til umr. öll þau málefni, sem þeir telja sér æskilegt að tala um? Nei, þessi rök fyrir því, að við eigum einungis að halda okkur að viðskipta- og tollasamningi, fá sannarlega ekki staðizt.

Hitt má segja, að það sé meira til í því, sem hv. l. þm. Austf. sagði hér áðan: Hvað er það af efni Rómarsamningsins fyrir utan viðskipta- og tollasamninga, sem Íslendingar sækjast eftir? Það er allt annað mál, hvað það er.

Það getur vel verið, að slíkir samningar séu okkur fullnægjandi. Það getur vel verið, og þó er það engan veginn víst. En það er a.m.k. víst, að við komumst ekki hjá umræðum um mörg fleiri atriði, ef við viljum njóta þeirra hlunninda, sem eru fólgin í tolla- og viðskiptasamningi, og við komum raunar strax að því, að það er fleira en a.m.k. eiginlegur tollasamningur, sem við höfum mikla hagsmuni af í sambandi við Efnahagsbandalagið, og það er, hvaða stefnu þessir aðilar fylgi yfirleitt í fiskveiðimálum, bæði um fiskveiðar og innflutning fisks á hið væntanlega bandalagssvæði. Það er alveg ljóst, að ákvarðanir bandalagsins í þessum efnum geta ráðið öllu um okkar afkomu. Jafnvel þótt við fengjum formlegan tolla- og viðskiptasamning, þá geta þeir, eins og hæstv. viðskmrh. hefur fyrr vikið að, gert slíka samninga tiltölulega lítils virði með því að setja þær reglur t.d. um landanir, svo að við tökum eitt einfalt dæmi, sem geri tolla- og viðskiptasamning lítils virði. Það má segja, að undir viðskiptasamning komi ákvæði um landanir, ákvarðanir um innflutningsleyfi og annað slíkt. En þá erum við komnir inn á það, að viðskiptasamningur er ákaflega teygjanlegt hugtak, ekki síður en aðild, þannig að þetta tvennt hlýtur algerlega að mætast.

Það má halda því fram, eins og hv. Alþb.-menn gera: Þetta hefur ekki svo mikla þýðingu fyrir okkur. Því í ósköpunum eruð þið að býsnast yfir þessu öllu? Við getum lifað, þótt við verðum utan við þetta bandalag, meira að segja getur það orðið okkur til góðs, vegna þess að þá verðum við alveg háðir Rússum. Þetta er þeirra skoðun. En það tjáir ekki að halda því fram, eins og hv. 7. þm. Reykv., að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að ná tolla- og viðskiptasamningi, og neita því fyrir fram að tala um aukaaðild og halda því svo í þriðja lagi fram, eins og hv. 1. þm. Austf., að í raun og veru sé enginn munur á aukaaðild og viðskipta- og tollasamningi. Slíkur rökstuðningur er sannast sagt þess eðlis, að það er ákaflega erfitt að taka hann alvarlega. Mér dettur ekki í hug að gruna hv. framsóknarmenn um græsku í þessu máli. Ekki vegna þess að ég geti ekki yfirleitt grunað þá um græsku. En engin regla er án undantekninga, og það gæti verið, að undantekningin væri í þessu tilfelli. Ég skal þó ekkert fullyrða um það. Það er bezt að hafa allan fyrirvara. En rökfærslan er a.m.k. slík að hún virðist naumast geta verið flutt af fullri alvöru.

Við skulum rifja upp hinn hjartnæma hluta ræðu hv. 7. þm. Reykv. hér á dögunum, þegar hann var að tala um gildi smáþjóðanna. Hæstv. forsrh. upplýsti raunar, að þetta væri útdráttur úr bók, sem Gunnar Myrdal hefði skrifað. Það getur verið jafngott fyrir því, en a.m.k. er það víst, að við Íslendingar ættum ekki að þurfa sérstakan fyrirlestur um gildi smáþjóða. Hvað sem um aðrar smáþjóðir er, þá erum við flestir sannfærðir um það, að okkar þjóð er þess virði að halda áfram að vera til, og þrátt fyrir það þótt við deilum um margt, þá vill áreiðanlega enginn okkar vísvitandi verða henni að fjörtjóni eða eyðileggja hennar sjálfstæði. Hv. 7. þm. Reykv. var að tala um gildi smáþjóðanna og hverjar hefðu lagt mest af mörkum, taldi upp Norðurlandaþjóðirnar, Svisslendinga, Ísrael og Úrúguay var það ekki? — eða Paraguay, ég rugla þeim nú alltaf saman, — á þessu stigi málsins hefur það ekki enn þá átt kost á því að sækja um inngöngu í Efnahagsbandalagið, en ég held, að allar hinar smáþjóðirnar, sem hv. þm. taldi upp, hafi einmitt sótt um aðild, aukaaðild eða fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Um fulla aðild hafa sótt Danmörk, Noregur og Írland, um aukaaðild Svíþjóð, Austurríki, Svissland, og af Asíuþjóðum er það einungis ein, sem hefur lýst því yfir, að hún vildi verða aukaaðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, og það var smáþjóðin Ísrael, sú þjóð, sem hv. 7. þm. Reykv. taldi fremsta allra þjóða í Asíu. Það er einmitt þjóðin, sem þar hefur skorið sig út úr og vill verða aukaaðili í bandalaginu.

Sannleikurinn er sá, að þetta mál er ekki eins einfalt og menn láta: Auðvitað eru menn sammála um það, ef það liggur við, að við þurfum að afsala okkar sjálfstæði til þess að gerast aðili þessa Efnahagsbandalags, þá er enginn okkar, sem gerist talsmaður slíks. En við verðum líka að muna, að það getur nú á dögum verið eina ráðið til þess að hafa eitthvað að segja um þau málefni, sem mestu máli skipta fyrir smáar og stórar þjóðir, að þær séu aðilar í alþjóðasamtökum. Það er alveg víst, að þetta bandalag á eftir að taka margar ákvarðanir, sem geta haft úrslitaþýðingu um það, hvernig okkur vegnar í efnahagsmálum. Það er alveg víst, að það getur riðið á mjög miklu fyrir okkur að hafa einhvern aðgang að því, að okkar rödd heyrist þar, að við séum þar ekki algerlega utan dyra. Það er að vísu ólíku saman að jafna, en það má að nokkru leyti þó líkja því hvoru við annað, spurningunni um það, hvort við eigum að taka afleiðingum af núv. heimsástandi og vera aðilar að varnarbandalagi eða ekki. Við þurfum ekki að fara út í megindeiluna um það efni. En við skulum taka einfalt dæmi og sleppa Atlantshafsbandalaginu. Við skulum minna á muninn á því, þegar Bretar höfðu landið hernumið og þegar samið var við Bandaríkin um hervernd yfir landinu. Að minnsta kosti hv. 3. þm. Reykv. hefur sjálfur fengið að finna muninn á þessu tvennu. Meðan landið var hernumið, þótt það væri af vinsamlegum aðila, aðila, sem við óskuðum eftir, að ynni stríðið, þá taldi hann sig ekki skyldugan til þess að virða lög og rétt á Íslandi og flutti hv. 3. þm. Reykv., einn af alþm. þjóðarinnar, fangelsaðan burt úr landi, auk þess sem prentfrelsi var heft og fleiri yfirtroðslur gerðar. Það var ekki einungis, að það væri ærusök fyrir Íslendinga að fá þessu hnekkt, heldur fólst í því meginmunur um viðurkenningu á Íslandi sem sjálfstæðum aðila í alþjóðasamtökum og réttarríki, þegar við í staðinn fyrir að láta með höndla okkur án eigin afskipta sem hvern annan hlut tókum upp samninga við aðra og urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá aftur hv. 3. þm. Reykv. og hans fylgdarmenn senda til landsins úr herleiðingu í Bretlandi og viðurkenningu stórveldisins fyrir því, að það yrði hér að hegða sér eftir okkar lögum og rétti.

Ég segi þetta er ekki að öllu leyti sama eðlis, en það er þó svo líkt, að það er rétt fyrir okkur að hugleiða, að eina ráðið til þess, að eftir okkur verði munað, að okkar hagsmuna sé gætt, er, að við látum sjálfir í okkur heyra og að við höfum sjálfir möguleika til þess að flytja okkar mál, því að ef við gerum það ekki sjálfir, hverjir eiga þá að gera það? Þó að vinátta vesturveldanna sé mikil og þ. á m. Breta, eins og hv. 7. þm. Reykv. hefur haldið fram, þá er hún ekki svo mikil, að þau gerist talsmenn íslenzkra hagsmuna gegn hagsmunum sinna eigin manna, ef Íslendingar hafa ekki aðstöðu til þess að vera sínir málflytjendur sjálfir. Þetta er vissulega eitt þeirra atriða, sem við verðum að hafa í huga, þegar við ákveðum okkar afstöðu í þessu máli.

Það má vel vera, að það verði ekki hægt að sameina allt það, sem við sækjumst eftir. En við eigum ekki á þessu stigi málsins að útiloka neina þá leið, sem fær kann að vera, þegar af þeirri ástæðu, að sú útilokun verður ekki virt af öðrum. Aðrir tala um allt, sem þeim sýnist, við okkur, og við eigum vitanlega að sækjast eftir öllum þeim hlunnindum, sem við getum sjálfra okkar vegna, sjálfir, vegna þess að ef við gerum það ekki, þá gera það engir aðrir. Ég veit, að hv. framsóknarmenn skilja þetta jafnvel og við hinir, og ég þekki þá svo vel af margra ára samvinnu, að mér dettur ekki í hug að taka eitt augnablik gilda yfirlýsingu þeirra um það, að ekki komi annað til greina en tolla- og viðskiptasamningur af þeirra hálfu, ef annað betra væri fáanlegt. Það má vel vera, að þeir telji sér henta á þessu stigi málsins að halda slíku fram, eins og þeir hafa í ýmsum öðrum málum, sem hafa ekki minni þýðingu, t.d. varnarmálunum, haldið hinum fráleitustu hlutum fram rétt fyrir kosningar, en síðan tekið upp skynsamlega afstöðu eftir kosningar, þ.e.a.s. ef þeir fengju að koma í stjórn.