05.12.1962
Sameinað þing: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

Efnahagsbandalagsmálið

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar ég talaði hér síðast í þessu máli, næst á eftir að hæstv. viðskmrh. hafði flutt skýrslu ríkisstj. um málið, þá gat ég þess í lok ræðu minnar, að ég mundi stytta nokkuð mál mitt um þetta mikla mál, vegna þess að þá var þegar orðið áliðið fundartíma, en ég taldi hins vegar sanngjarnt, að fleiri en ég gætu komizt að þegar á fyrsta degi umr. um þetta mál til þess að láta í ljós álit sitt um það, sem kom fram í skýrslu hæstv. ráðh.

Síðan hafa 3 hæstv. ráðh. talað í þessu máli af hálfu ríkisstj., hæstv. forsrh., hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskmrh. meira að segja tvisvar.

Hæstv. forsrh. óskaði í fyrstu ræðu sinni eftir því alveg sérstaklega, að umr. um þetta mál yrðu hófsamlegar og málefnalegar. Ég er honum algerlega sammála um þetta, að það er hið eina rétta í máli slíku sem þessu og raunar í öllum málum, sem fyrir hv. Alþingi koma. Ég hef sjálfur aldrei séð nauðsyn þess, að við alþm. séum að blanda inn í ræður okkar hér á hv. Alþingi öllum þeim getsökum, dylgjum og jafnvel staðhæfingum um illar hvatir andstæðinga okkar í stórmálum, sem flokksblöðin kasta á milli sín daglega. En ég tel alveg sérstaklega nauðsynlegt, að umr. um þetta mál séu bæði málefnalegar og að þær varpi alveg sérstaklega ljósi á sérstök, einstök atriði þessa máls, þannig að eftir þessar umr. skapist frekar en áður grundvöllur til málefnalegra umr. um þetta stórmál meðal þjóðarinnar.

En hvað hefur gerzt í þessu máli í umr. um þetta mál? Enginn er dómari í sjálfs sín sök, og ég vil ekki fullyrða um það, hvort frumræða mín í þessu máli hafi verið málefnaleg eða ekki. En mér gat ekki annað virzt en ræður þeirra hv. þm., sem hafa talað hér um þetta mál af hálfu Alþb. og Framsfl. líka, hafi verið á allan hátt málefnalegar.

Það þýðir ekki að dyljast þess, að afstaða þingflokkanna til þessa máls í meginatriðum er þegar komin fram í þeim umr., sem hafa farið fram um það hér. Flokkar hæstv. ríkisstj. lýsa því yfir, að nú sé aðeins um tvær leiðir fyrir Íslendinga. að ræða í þessu máli, sem til greina komi að fara. En hæstv. viðskmrh. sagði — ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis — í frumræðu sinni og skýrslu ríkisstj., að báðar þessar leiðir kæmu vel til mála og væru vel færar að hans dómi. En þriðja leiðin, full aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, kæmi ekki til greina að áliti ríkisstj. þegar af einni ástæðu, þeirri ástæðu, að allt benti til þess, að hún þýddi það, að við yrðum að opna fiskveiðilandhelgi okkar fyrir öllum borgurum ríkja í Efnahagsbandalaginu, hvort sem þau verða fleiri eða færri.

Það kom skýrt fram í ræðu hæstv. ráðh., að það væri þessi eina ástæða, sem hefði valdið því, að ríkisstj. teldi fulla aðild að Efnahagsbandalaginu ekki koma til greina. En hæstv. viðskmrh. hæstv. forsrh. og þá ekki sízt hæstv. dómsmrh, hafa farið ýmsum orðum um þessar tvær leiðir. Þeir hafa lýst hver á sinn hátt þeirri leið, sem þeir telja augsýnilega æskilegasta fyrir Íslendinga. Það er aukaaðildarleið með alveg sérstökum hætti, þeim hætti, að Íslendingar geti komið fram skoðunum sínum og áhrifum innan Efnahagsbandalagsins samfara aukaaðild að því. Í flokksblaði hæstv. dómsmrh., þar sem skýrt var frá ræðu hans um þessi mál, sagði í fyrirsögn, að það riði á miklu, að rödd okkar heyrðist innan Efnahagsbandalagsins. Og hæstv. viðskmrh. sagði, að meginmunurinn á aukaaðild og tollasamningi væri sá, að með aukaaðild með þeim hætti, sem hann hugsaði sér, gætum við jafnvel með störfum okkar innan Efnahagsbandalagsins við stofnun þess haft áhrif á störf þess og stefnu og framkvæmd hennar. Þannig hafa þessir hæstv. ráðh. lýst því, hvað fyrir þeim vakir með hugtakinu aukaaðild af Íslands hálfu að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þeir játa, að hin leiðin, tolla- og viðskiptasamningsleiðin, sé hins vegar vel fær. En það fer ekkert á milli mála, að þeir telja hana hafa marga og mikla ókosti samanborið við aukaaðildarleiðina, eins og þeir lýsa henni. Við, sem hér höfum talað af hálfu Alþb. og af hálfu Framsfl., höfum hins vegar komizt að þeirri niðurstöðu á grundvelli þeirra upplýsinga, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið og hæstv. viðskmrh. sérstaklega, að af þessum tveimur leiðum, sem um er að ræða, að því er hæstv. ríkisstj. telur, geti aðeins önnur komið til greina, tollasamningsleiðin. Ég held því fram, að bæði við þm. Alþb., sem höfum rætt þetta mál, og þm. Framsfl. einnig, hafi fært málefnaleg rök að því, hvers vegna við höfum komizt að þessari niðurstöðu, hvers vegna við höfum dregið þessa ályktun af ræðum hæstv. ráðh. og þeim upplýsingum, sem liggja fyrir af hálfu ríkisstj. í þessu máli. En það eru nú liðnar nærri þrjár vikur, síðan umr. hófust um þetta mál, svo að ég tel rétt að rifja upp meginatriði varðandi þessar leiðir, sem komu fram í skýrslu ríkisstj. og í ræðum hæstv. ráðh. þar á eftir.

Ég hafði í frumræðu minni vakið athygli á því, að hæstv. viðskmrh. lét svo ummælt, að í viðræðum hans og ráðunauta hans við æðstu menn Efnahagsbandalagsins hefðu komið —fram upplýsingar um ýmis atriði, sem hefðu mikilsverða þýðingu um mat á, þeim leiðum, sem til greina kæmi að fara fyrir Íslendinga. Ég vildi spyrja hann beint, hverjar þessar upplýsingar, sem fram hefðu komið í þessum viðræðum, væru. Hann svaraði þessu að vísu ekkt beint, en hins vegar þannig óbeint, að ég tel það fullnægjandi. Hann sagði í síðari ræðu sinni, að það, sem hann hefði sagt um fulla aðild Íslands að Efnahagsbandalagi, væri byggt á upplýsingum, sem fram hefðu komið í þessum viðræðum. Hann sagði í öðru lagi, að það, sem hann hefði sagt um mögulegar undanþágur samfara aukaaðild, væri einnig byggt á upplýsingum, sem fram hefðu komið í viðræðunum. Og hann sagði síðast, en ekki sízt, að það, sem hann hefði sagt um tollasamningsleiðina, væri einnig byggt á upplýsingum, sem fram hefðu komið í viðræðunum við æðstu menn Efnahagsbandalagsins. Og hvað sagði þá hæstv. ráðh. um þessar upplýsingar, sem fyrir lægju frá æðstu mönnum Efnahagsbandalagsins um þessar þrjár hugsanlegu leiðir? Hann sagði í fyrsta lagi um fulla aðild, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Telja má næstum víst, að ekki sé hægt að fá fullnægjandi fyrirvara á þessum sviðum,“ þ.e.a.s. um rétt útlendinga innan Efnahagsbandalagsins til veiða í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, samfara fullri aðild.“ Og þegar af þeirri ástæðu og sérstaklega af þeirri ástæðu hefði ríkisstj. hafnað þessum möguleika.

En hann sagði um aukaaðild einnig orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef Íslendingar hygðust leysa vanda sinn á grundvelli aukaaðildar, yrði grundvallaratriði í slíkum aukaaðildarsamningi að vera um tollabandalag, þannig að Íslendingar nytu tollfrelsis við útflutning til aðildarríkja Efnahagsbandalagsins og yrðu ekki háðir neinum þeim innflutningshöftum eða viðskiptahömlum, sem giltu um ríki utan þess.“

M.ö.o.: hæstv. ráðh. sagði, að ef aukaaðildarleiðin yrði farin, þá yrði hún að tryggja fullt tollfrelsi og viðskiptafrelsi fyrir útflutning Íslendinga til Efnahagsbandalagslanda. Þetta er skilgreining á þeirri aukaaðild, sem fyrir hæstv. ríkisstj. vakir að fara, beint eftir orðum hæstv. ráðh. En hæstv. ráðh. bætti við um þessa leið, að slík aukaaðild tryggði að vísu hagkvæmustu viðskiptaaðstöðu Íslendinga, en hún kostaði samninga um viðkvæm mál, eins og rétt útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi og innflutning erlends fjármagns og vinnuafls.

Ég minnti á það áðan, að hæstv. ráðh. gat þess, að þessar upplýsingar um aukaaðild væru einnig fengnar í viðræðunum við forustumenn Efnahagsbandalagsins. En hæstv. viðskmrh. sagði í skýrslu ríkisstj. um þriðju leiðina, um tollasamningsleiðina, einnig orðrétt, með leyfi forseta:

„Ef Íslendingar velja þann kostinn. að standa algerlega utan Efnahagsbandalagsins, tel ég sennilegt, að þeir gætu með samningum við bandalagið komið fram einhverri lækkun sameiginlega tollsins á sjávarafurðum gegn samsvarandi lækkun tolla á þeim iðnaðarvörum, sem Íslendingar flytja inn.“

Hæstv. ráðh. færði sérstök rök fyrir því, að það mundi auðvelda slíka gagnkvæma tollalækkunarsamninga milli Íslands og Efnahagsbandalagsins, að hann teldi sennilegt, ef ekki víst, að allar fiskútflutningsþjóðir í Evrópu yrðu endanlega innan Efnahagsbandalagsins, þannig að ekki væri um það að ræða, að aðrar Evrópuþjóðir en Íslendingar nytu þeirra tollfríðinda eða tollalækkana varðandi sjávarafurðir innfluttar til Efnahagsbandalagsins heldur en Íslendingar. Að vísu bætti ráðh. við „fyrst um sinn“. En það er ekki þýðingarlaust í málinu, því að ef rætt er um aukaaðild, þá verða menn að gera sér það ljóst, að undanþágur, sem gilda aðeins fyrst um sinn, eru ekki mikils virði. Undanþágur samfara aukaaðild geta ekki haft neina framtíðarþýðingu, nema þær séu teknar inn í Rómarsamninginn sjálfan. Það er ekki hægt samkv. honum að veita undanþágur um aldur og ævi frá meginreglum hans um hvað sem er, heldur aðeins um stundarsakir.

Allur málflutningur hæstv. ráðh. hnígur því að því, að þó að hæstv. ríkisstj. telji, að tvær leiðir séu færar í þessu máli, tollasamningsleið og aukaaðildarleið, þá sé það aðeins aukaaðildarleiðin, sem í raun og veru komi til greina. Það sé hún, sem ein geti tryggt Íslendingum góða viðskiptaaðstöðu gagnvart ríkjum Efnahagsbandalagsins. Hún ein geti tryggt þeim tollfrelsi og frjálsari innflutning sjávarafurða til landa Efnahagsbandalagsins. Og það sem meira er, hæstv. viðskmrh. og hæstv. dómsmrh. leggja á það megináherzlu, að hún ein, aukaaðildarleiðin, geti tryggt Íslendingum aðstöðu til þess að hafa áhrif á stefnu Efnahagsbandalagsins og framkvæmd hennar innan stofnana þess. Ég skal síðar koma að því, hvað það segir okkur um hugmyndir hæstv. ráðh., hvaða kost þeir velja okkur innan Efnahagsbandalagsins.

Ég held, að með þessum upplýsingum, sem ég hef nú tekið orðrétt í nokkrum atriðum úr skýrslu ríkisstj., sem hæstv. viðskrh. flutti, þá sé alveg ljóst, um hvað er að ræða. En við, sem höfum þegar á grundvelli þessara upplýsinga myndað okkur þá skoðun í þessu máli, að aðeins ein leið, tollasamningsleiðin, sé fær, höfum gert það með þeim rökum, að þar sem upplýst sé í skýrslu ríkisstj., að aukaaðildarleiðin kosti samninga. um hin viðkvæmu mál, eins og ráðh. orðaði það, um rétt útlendinga til atvinnurekstrar á Íslandi, innflutning fjármagns og vinnuafls, þá sé það alveg ljóst, að sú leið sé ekki fær fyrir Íslendinga.

Ég leyfði mér að vitna til fyrri ummæla hæstv. viðskmrh, um þetta atriði, þar sem hann sagði í opinberri ræðu, að ef aukaaðildarleiðin væri farin, mundum við Íslendingar verða að endurskoða afstöðu okkar að því er snerti rétt útlendinga til fisklandana á Íslandi og aðstöðu til fiskiðju. Við höfum bent á, að þessar upplýsingar, sem eru vitanlega alveg óyggjandi, þýði það, að við yrðum að opna land okkar fyrir öllum borgurum og fyrirtækjum innan Efnahagsbandalagsins og veita þeim aðstöðu til fisklandana og aðstöðu til fiskiðju á Íslandi. En við segjum: Við vitum, að þetta jafngildir því, — við erum sannfærðir um, að þetta jafngildir því að opna íslenzka fiskveiðilandhelgi fyrir öllum borgurum, öllum fyrirtækjum í löndum Efnahagsbandalagsins.

Hæstv. ráðh. hafa ekki gert neina tilraun til þess að afsanna þetta. Hæstv. viðskmrh. gat þess að vísu í ræðu sinni, að við yrðum að setja einhverjar reglur, sem takmörkuðu þennan rétt útlendinga. En hann hefur ekki fært nein rök að því, að þetta sé hægt. Það er þessi meginstaðreynd í málinu, sem við, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, sem hér höfum talað, höfum lagt megináherzlu á, sem skilur leiðir okkar og hv. stjórnarflokka í þessu máli. Rétt eins og hv. stjórnarflokkar segja. Það er vegna þess, að við viljum ekki opna íslenzka fiskveiðilandhelgi fyrir öllum borgurum og fyrirtækjum í Efnahagsbandalagslöndunum, að við viljum ekki taka í mál fulla aðild, — þá segjum við stjórnarandstæðingar: Það er vegna þess, að við viljum ekki opna íslenzka fiskveiðilandhelgi fyrir útlendingum, fyrir öllum borgurum og fyrirtækjum Efnahagsbandalagsins með þeim hætti að gefa þeim jafnan rétt á við Íslendinga til fisklandana og til atvinnurekstrar í fiskiðju á Íslandi. Það, sem fyrir báðum vakir, kann að vera hið sama. Það er vegna þess, að við erum allir sannfærðir um, að það má ekki með neinum hætti ljá nokkurn kost á því að opna íslenzka fiskveiðilandhelgi fyrir útlendingum, að við höfum tekið afstöðu í þessu máli. Hv. stjórnarflokkar eiga aðeins eftir að sanna, að það sé nokkur möguleiki á því að verja íslenzka fiskveiðilandhelgi fyrir útlendingum, sem hefðu fengið rétt til aðstöðu til fisklandana og fiskiðju á Íslandi. Þeir eiga eftir að sanna það. Ekkert af þessum upplýsingum er í raun og veru nýtt í málinu. Það er vitað fyrir fram vegna ákvæða Rómarsamningsins og almennrar vitneskju um það, hvernig aukaaðild hefur verið skýrð af æðstu forustumönnum Efnahagsbandalagsins, að það mundi koma í ljós, að af þeirra hálfu yrði þess krafizt með aukaaðildarsamningi, hvað lítið sem væri, að jafnréttið til atvinnurekstrar, til innflutnings fjármagns og vinnuafls, það gilti jafnt, þótt um aukaaðildarsamning væri að ræða. En nú er þetta alveg sérstaklega staðfest af hæstv. viðskmrh., því að hann hefur lýst því yfir óafturkallanlega hér á hv. Alþingi, að aukaaðildarsamningur kosti samninga Íslendinga um þetta, um að veita borgurum og fyrirtækjum ríkja Efnahagsbandalagsins jafnan rétt á við Íslendinga til fisklandana og atvinnurekstrar í fiskiðjunni hér á landi.

Ég verð því að telja, eins og ég áðan sagði, að við, sem höfum tekið þessa afstöðu í meginatriði þessa máls út frá þeim rökum, þeim upplýsingum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið um, hvað aukaaðild þýði, og viljum hafna henni, — ég verð að telja, að við höfum gert það á fullkomlega málefnalegum- grundvelli og með fullkomnum málefnalegum rökum. En hvernig hafa svo hv. stjórnarflokkar tekið þessu í umr. um þetta mál? Hæstv. viðskmrh. lýsti sárum vonbrigðum sínum yfir þessari afstöðu Framsfl. Hann og blað hans telja þessa afstöðu Framsfl. neikvæða og óábyrga, og í stjórnarblöðunum hefur verið hægt að lesa dag eftir dag, að þessi afstaða Framsfl. sé hreinn kommúnismi og þm. Framsfl. undirlægjur kommúnista í þessu máli fyrir það, að þeir hafa tekið þessa afstöðu, — fyrir það, að þeir hafa tekið þá afstöðu að segjast vilja velja þá leið, að vísu þá leið eina, sem hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. allir, sem hafa talað í þessu máli, vilja þó telja vel færa. Það kostar þetta að hætta sér út í það að reyna að færa nokkur rök að því, að það geti verið nokkur hætta á ferðum fyrir Íslendinga í sambandi við að fara aukaaðildarleiðina. Þetta talar skýru máli um það, hvaða leið það er, sem hæstv. ríkisstj. aðhyllist og telur í raun og veru eina færa í þessu máli, þótt hún segi, að það sé ekki tímabært enn að velja hana.

Hæstv. forsrh., sem einmitt óskaði eftir hófsamlegum og málefnalegum umr. um þetta mál í sinni fyrstu ræðu, sló því föstu í annarri ræðu sinni, eftir að hann hafði heyrt afstöðu Framsfl. eða þeirra, sem talað höfðu af hans hálfu, að afstaða Framsfl. í þessum málum væri þjóðhættuleg og gæti jafnvel eyðilagt málstað þjóðarinnar í einu hennar mesta velferðarmáli, auk þess sem flokkurinn felldi sjálfan sig sérstaklega undir grun um að láta stjórnast af annarlegum sjónarmiðum í þessu máli. Þetta voru málefnaleg rök hæstv. forsrh., sem óskaði alveg sérstaklega eftir hófsamlegum og málefnalegum umr. um þetta mál.

Um okkur, þm. Alþb., sagði hæstv. viðskmrh. þegar í annarri ræðu sinni, að það hefði verið fyrir fram vitað, hvað við vildum, að við vildum, að Íslendingar hefðu sem allra minnst saman við þjóðir Efnahagsbandalagsins að sælda, af því að við séum á móti Efnahagsbandalaginu. Og þegar hæstv. viðskmrh. talar um Efnahagsbandalagið og þjóðir þess, þá er það eftirtektarvert, að hann á greinilega ekki við þær 5 þjóðir, sem í því eru í dag, heldur á hann við 15 eða 16 þjóðir í Vestur-Evrópu og Mið-Evrópu, sem hann telur alveg víst í dag, að hljóti að ganga í það með einum eða öðrum hætti, þ.e.a.s. hann á þarna við þjóðaskara, sem telur milli 200 og 300 millj. manna, og hann slær því föstu, að við þm. Alþb. vitum, að Íslendingar hafi sem allra minnst viðskipta- og menningarsambönd við allar þessar þjóðir. Við þurfum ekki að vera í vafa um það, við þm. Alþb., að það erum við, sem hann átti við, hæstv. ráðh., þegar hann sagði í skýrslu ríkisstj., að hér á landi væru menn, sem vildu, að viðskipta- og menningarsambönd Íslendinga við þjóðir Vestur-Evrópu væru sem allra minnst. Þar með er vitanlega sagt, að við vildum helzt, að viðskipta- og menningarsambönd Íslendinga við allar þjóðir Vestur- og Mið-Evrópu væru helzt engin, við vildum rjúfa þau með öllu. Slík orð leyfir hæstv. viðskmrh. og menntmrh. sér að viðhafa hér á Alþingi í máli, sem hæstv. forsrh. óskar alveg sérstaklega eftir hófsamlegum og málefnalegum umr. um.

Um afstöðu okkar þm. Alþb. í viðskiptamálum Íslendinga út á við vil ég segja hæstv. viðskmrh. og öllum öðrum vegna þessara staðlausu og órökstuddu staðhæfinga: Stefna Alþb. er sú, að það eigi að beina viðskiptum Íslendinga þangað, sem þau eru hagkvæmust frá viðskiptasjónarmiði einu, án nokkurs tillits til pólitískra sjónarmiða, þ. á m. án tillits til pólitísks stjórnarfars í viðkomandi löndum. Við viljum, að stefnt sé að því, að utanríkisviðskipti Íslendinga séu sem víðast um lönd, við sem flestar þjóðir, eftir því sem viðskiptalegir hagsmunir þjóðarinnar og viðskiptakjör framast leyfa. Og þetta sjónarmið okkar þm. Alþb. gildir alveg afdráttarlaust einnig að því er varðar viðskipti við lönd Efnahagsbandalagsins og önnur lönd í Vestur-Evrópu eða Mið-Evrópu, hvort sem þau verða í því bandalagi eða ekki. Við óskum, að þau viðskipti geti verið okkur sem bezt og hagkvæmust. Og ef þau eru það, þá viljum við, að þau séu sem mest. Um menningarviðskipti við þessar þjóðir Evrópu þarf ég auðvitað ekki að ræða. Við viljum að sjálfsögðu, að menningarleg viðskipti þjóðar okkar við þjóðir Evrópu séu sem mest og bezt. Og ég verð að segja það, að það er dálítið hart að heyra greindan mann og menntaðan eins og hæstv. menntmrh. þurfa að segja hér á Alþingi í ræðustól, að við þm. Alþb., sem höfum margir okkar rétt eins og hann sótt menntun okkar til þessara þjóða í Evrópu, munum vilja menningarviðskipti þjóðar okkar við þær sem allra minnst og helzt rjúfa þau með öllu. Mér dettur ekki eitt augnablik í hug, að hæstv. viðskmrh. meini þetta. En hann þarf að leggjast svona lágt til þess að komast jafnfætis blaði sínu, sem fer með þennan þvætting á degi hverjum.

Annars verð ég að segja, að ég, hef aldrei getað séð, að það sé minnsta ástæða til að tala um menningarviðskipti í sambandi við Efnahagsbandalag Evrópu. Efnahagsbandalag Evrópu er ríkjasamsteypa með alveg sérstökum hætti. Hún er mynduð af þjóðum, sem sumar eru skyldar menningarlega og sumar ekki, og það eru engin menningarleg rök til þess, að í þessari ríkjasamsteypu ættu að vera t.d. Norðmenn og Danir, Portúgalar og Spánverjar eða Ítalir, vegna þess að menning þessara þjóða sé svo skyld, því að það er hún sannarlega ekki. Ef menn eru að tala um, að þjóðir Efnahagsbandalagsins beri uppi menningu, Evrópumenninguna, þá er það mikill misskilningur, með allri virðingu fyrir þjóðum Efnahagsbandalagsins. Evrópumenningin stendur miklu víðar en í Vestur-Evrópu. Hún er ekki aðeins í Austur-Evrópu, hún er í báðum Ameríkum, í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og stendur þar engu síður föstum fótum en í löndum Efnahagsbandalagsins í Vestur-Evrópu. Allra skýrast verður það þó, hve mikill þvættingur þetta er, ef menn hugsa sér Þýzkaland, sem skiptist nú í tvö ríki, en er byggt þjóð, sem áreiðanlega stendur á sama menningargrundvelli. Efnahagsbandalagið vill einnig skipta þýzku þjóðinni um eina ákveðna línu og hafa Vestur-Þýzkaland innan Efnahagsbandalagsins, en Austur-Þýzkaland utan þess og sem hæstan tollmúr á milli. En það verður aldrei hægt að færa nein menningarleg rök að því, að þetta sé rétt eða neitt í menningu þýzku þjóðarinnar styðji það, að þetta eigi að gera. En eins og ég áðan sagði, þá er hart að þurfa að vera að svara svona ummælum, eins og þessum ummælum hæstv. viðskmrh., sem ég hef nú dvalizt við um skeið.

Sem betur fer hefur sú stefna, sem ég áðan lýsti sem stefnu Alþb. í viðskiptamálum Íslendinga, oftast orðið ofan á með Íslendingum, þ.e.a.s. að láta engin pólitísk sjónarmið ráða, við hvaða þjóðir við skiptum, Þetta sjónarmið er auðvitað sjónarmið heilbrigðrar skynsemi, því að pólitík og viðskiptum blandar enginn maður saman, sem hugsar um viðskipti. Það er lélegur kaupmaður, sem neitar að skipta við þá, sem eru á annarri pólitískri skoðun en hann. Og sjálfur lýsti hæstv. viðskmrh. því yfir mjög ákveðið, að viðskipti okkar við Austur-Evrópuríkin og þá ekki sízt Sovétríkin, eins og hann komst sjálfur að orði, hafi verið okkur svo mikilvæg, að það hljóti að vera stefna okkar, að þau geti haldið áfram, hvað sem liður afstöðu okkar til Efnahagsbandalagsins. „Svo nauðsynleg eru þessi viðskipti íslenzkum þjóðarbúskap,“ sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „að jafnvel aukaaðildarsamningur við Efnahagsbandalagið yrði að veita Íslendingum undanþágu til þess að halda innflutningshöftum á þeim vörum, sem mikilvægastar eru í jafnkeypisviðskiptunum, og sömuleiðis að veita Íslendingum rétt til að ákveða tollkvóta fyrir nokkrar þeirra.“ Þetta voru óbreytt orð hæstv. viðskmrh.

Svo mikilvæg telur hæstv. viðskmrh. viðskipti okkar við þjóðirnar í Austur-Evrópu, að hann telur, að það verði að gera það að óhjákvæmilegu skilyrði fyrir aukaaðild okkar að Efnahagsbandalaginu, að við fáum að halda uppi innflutningshöftum á vörum frá Efnahagsbandalagsríkjunum til þess að geta haldið viðskiptum við Austur-Evrópu. Ég fagna því, að hæstv. viðskmrh. sýnir með þessum orðum, að hann vill í verki framkvæma þá stefnu, sem ég áðan lýsti sem stefnu Alþb., en er auðvitað hreinlega stefna heilbrigðrar skynsemi.

Ég er hins vegar ekki viss um það, hvort hæstv. ráðh. hefur það beint eftir æðstu forráðamönnum Efnahagsbandalagsins, að það sé víst, að við fáum að halda innflutningshöftum á vörum frá ríkjum Efnahagsbandalagsins til þess að halda viðskiptum við Austur-Evrópu. En e.t.v. getur hæstv. viðskmrh. undirstrikað það enn þá greinilegar, að svo sé, ef hann hefur það beint frá forráðamönnum Efnahagsbandalagsins sem rök fyrir aukaaðildarleiðinni. Hann sagði að vísu í síðari, ræðu sinni, að það, sem hann hefði sagt um undanþágur með aukaaðildarleiðinni, hefði verið byggt á viðræðum við forráðamenn Efnahagsbandalagsins. Ég trúi því vel, að það sé sannfæring hæstv. ráðh., að austurviðskiptin séu svo nauðsynleg íslenzkum þjóðarbúskap, að þessi undanþága verði að fást, ef fara ætti aukaaðildarleiðina, og væri þá ekki nema eðlilegt, að hæstv. ráðh. færði enn þá sterkari rök fyrir því en hann gerði í skýrslu ríkisstj., að þessi, undanþága mundi sama sem vera fyrir hendi. Ég fagna þessari afstöðu hæstv. ráðh., og ég veit, að hún er komin af því, að hann álítur það sjálfur þjóðarnauðsyn fyrir okkur að halda viðskiptunum við Austur-Evrópuríkin, alveg eins og það var af þjóðarnauðsyn, að þau voru tekin upp á sínum tíma í svo stórum stíl sem raun varð á. Það var áreiðanlega ekki af ást á þjóðskipulagi eða stjórnarfari í Sovétríkjunum, að það var gert, þegar okkur reið mikið á. En ég vil minna hæstv. viðskmrh. og aðra rétt á það í því sambandi, að þá, þegar okkur reið mest á og austurviðskiptin voru tekin upp að nýju í miklu stærri stíl en áður, þá voru það lönd Efnahagsbandalagsins og þá sérstaklega Bretar, sem höfðu lagt okkur í viðskiptabann. Ég vil líka minna á það, að við það tækifæri kom enginn, sem hæstv. ráðh. vænir nú um það að vilja viðskipti Íslendinga við Vestur-Evrópuþjóðirnar sem minnst, — það kom enginn maður fram með tillögu um það að nota þetta tækifæri til þess að hætta innflutningi á brezkum vörum. Það hefði legið beint við fyrir þann, sem hefði viljað rjúfa viðskiptatengsl okkar við Breta, að leggja til að það tækifæri væri notað. Það kunna að hafa komið einhverjar raddir fram um það, en þær komu áreiðanlega ekki frá neinum þm., neinum þeim, sem nú eru þm. Alþb.

Ég vil þá líka benda á það, að menn geta verið á móti Efnahagsbandalaginu sem fyrirbæri í alþjóðamálum, án þess að þeir vilji þar fyrir minnka á nokkurn hátt eða draga úr viðskiptum þjóðar sinnar við þær ágætu þjóðir, sem eru í Efnahagsbandalaginu. Menn geta meira að segja einmitt verið á móti Efnahagsbandalaginu sem slíku, sem fyrirbæri í alþjóðamálum, vegna þess að þeir vilja viðskipti þjóðar sinnar við þjóðir þess sem mest, en óttast að skipulag og stefna Efnahagsbandalagsins leiði til þess, að það dragi úr þeim viðskiptum, viðskipta- og menningarlegum.

Það getur enginn neitað því, að með því að umlykja sig háum tollmúrum og auk þess beinum höftum og viðskiptahömlum hefur Efnahagsbandalagið torveldað og stefnir að því að torvelda enn þá meir en enn er orðið viðskipta- og menningarsambönd við aðrar þjóðir heimsins, jafnvel þótt þær þjóðir óski að halda í sem ríkustum mæli viðskiptum sínum við þjóðir Efnahagsbandalagsins.

Margir vitrustu og víðsýnustu menn og sumir áhrifamiklir í alþjóðamálum hafa árum saman brýnt fyrir mönnum, að það, sem e.t.v. sé nauðsynlegast mannkyninu í dag, sé að brúa bilið á milli fátækra og ríkra þjóða heimsins, það, sem sé mest áríðandi af öllu, sé að halda sem greiðustum viðskiptum milli hinna nýfrjálsu þjóða Asíu og Afríku og annarra hinna fátækari þjóða heimsins og hinna ríku og háþróuðu iðnaðarþjóða, hvar sem þær eru. Þessir sömu vitru og víðsýnu menn hafa sýnt fram á, að það sé ekki hægt að gera verra verk í þessu efni heldur en að skipta heiminum í fleiri viðskiptaheildir — blokkir, sem loki sig inni innan hárra tollmúra og torveldi öll viðskipti þjóða á milli, eins og Efnahagsbandalagið stefnir að. Ekki óvitrari maður en Nehru, forsætisráðherra Indlands, hefur leyft sér að segja þessi orð um Efnahagsbandalagið: „Efnahagsbandalagið verður miklu áhrifameira tæki til að halda vanþróuðu löndunum niðri en nokkurt nýlenduveldi nokkru sinni hefur haft ráð á:“

Ætlar hæstv. viðskmrh. að segja Alþingi Íslendinga og allri íslenzku þjóðinni það, að allir þeir menn, sem eru á móti þeirri stefnu, sem kemur fram í Efnahagsbandalaginu, að umlykja sig tollmúrum og torvelda viðskipti við aðrar þjóðir heimsins, séu á móti þessu vegna þess, að þeir kæri sig kollótta um velferð vestrænna þjóða eða vilji viðskipti þjóðar sinnar — viðskiptaleg og menningarleg — við þjóðir Efnahagsbandalagsins sem allra minnst?

Það er nú svo komið, að allar fyrri nýlendur Breta í Afríku, sem hafa öðlazt sjálfstæði eða eru á leið með að öðlast sjálfstæði, hafa lýst því yfir, að þær vilji ekki líta við aukaaðild að Efnahagsbandalaginu, þar eð þær telji það algerlega ósamrýmanlegt sjálfstæði sínu, á sama tíma sem brezk ríkisstjórn er enn að berjast við að komast inn í Efnahagsbandalagið og hefur viljað stuðla að því, að þessar fornu nýlendur þeirra gengju inn í það með aukaaðild.

Stofnun efnahagsbandalags Afríkuþjóða er ekki aðeins komin á dagskrá, hún er að verða staðreynd. Og það er vitað, að með stækkun Efnahagsbandalagsins, ef úr henni verður, er beint stefnt að stofnun fleiri slíkra efnahagsbandalaga, sem auðvitað mundu ekki auðvelda viðskipti milli þjóða heimsins og auðvitað mundu ekki draga úr spennu eða ófriðarhættu í heiminum. En um anda Efnahagsbandalagsins til þessara þjóða er það til dæmis, að fyrir skömmu lét vestur-þýzka stjórnin það í ljós, að þau milli 10 og 20 ríki, sem áður voru flest nýlendur Frakka og hafa gerzt aukaaðildarríki Efnahagsbandalagsins skyldu ekki leyfa sér slíkt eins og það að hafa uppi viðskipti eða viðurkenna Austur-Þýzkaland, því að það kostaði það, að þá yrðu þau svipt fríðindum sem aukaaðildarríki Efnahagsbandalagsins. Þetta er lítið, en gott dæmi um andann í Efnahagsbandalagi Evrópu til hinna nýju frjálsu þjóða í Afríku og annars staðar í heiminum.

Nei, það er einmitt vegna þess, að það er staðreynd, að Efnahagsbandalag Evrópu sem fyrirbæri í alþjóðamálum stefnir ekki að auknum viðskiptum og friðsamlegri sambúð þjóðanna, að sú andstaða, sem þegar á sér stað gegn því, að þjóðir Evrópu gangi nú í það, er til komin. Og hæstv. viðskmrh. er til einskis að segja alþm., að allir þeir menn, sem nú berjast gegn og berjast hart gegn innlimum þjóðar sinnar í Efnahagsbandalag Evrópu, geri það af fjandskap við V.-Evrópuþjóðir. Hann getur látið segja það í Alþýðublaðinu, en það þýðir ekki að segja það hér á Alþingi eða Íslendingum yfirleitt: Honum mun ekki einu sinni þýða að segja það í Alþýðublaðinu, þó að það sé nú oft greinilega skrifað fyrir heimskingja, að forustumenn Verkamannaflokksins brezka lýsi því yfir hver eftir annan, að þeir skuli berjast til hins ýtrasta til að koma í veg fyrir það, að brezka þjóðin verði leidd inn í Efnahagsbandalagið, vegna þess, — ekki aðeins vegna hagsmuna samveldisins og hagsmuna brezks landbúnaðar, heldur vegna þess, að brezk ríkisstjórn muni ekki hafa innan Efnahagsbandalagsins óbundnar hendur um stefnu í efnahagsmálum né þjóðfélagsmálum öðrum né heldur í utanríkismálum. En þessu lýsti t.d. foringi brezka Verkamannaflokksins, Hugh Gaitskell, yfir fyrir skömmu í ræðu.

Þeir menn, sem nú berjast gegn innlimun þjóða sinna í Efnahagsbandalag Evrópu í Bretlandi, í Noregi, í Danmörku, gera það auðvitað af ýmsum ástæðum og með ýmsum rökum. En allir benda þeir á þá staðreynd, hvernig Efnahagsbandalag Evrópu er til orðið, hvernig það er uppbyggt, hvernig kerfi þess er, hvernig hagkerfi þess er og hvaða markmið og tilgang það hefur, að það er pólitísk ríkjasamsteypa, sem hefur komið á hjá sér hagkerfi peningavaldsins, eins og það er öflugast og nær óþekkt annars staðar í heiminum, að það stefnir að því, að stofnanir þess taki við stjórn og ákvörðunum um stefnu allra aðildarríkja þess í ákveðnum málum, ekki aðeins efnahagsmálum, heldur fjölmörgum málum öðrum og þ. á m. utanríkismálum. Þessi stefna er yfirlýst af æðstu forustumönnum Efnahagsbandalagsins. Það er ekki lengra síðan en nokkrir mánuðir, að utanrrh. Frakka lýsti því yfir, að þess yrði ekki langt að bíða, að Efnahagsbandalagið hefði sinn eigin her, og það eru ekki eins margir mánuðir síðan fyrrv. utanrrh. V-Þýzkalands lýsti því yfir, að þess yrði ekki langt að bíða, að Efnahagsbandalagið hefði ekki aðeins eina stefnu í utanríkismálum, heldur líka sameiginlega utanríkisþjónustu.

Það er þess vegna ekki aðeins í efnahagsmálum, sem Efnahagsbandalagið hefur ákveðna stefnu, markmið og tilgang. Það er fyrst og fremst pólitískt. Og það er öllum ljóst, að ákvörðun þjóða eins og t.d. Breta um að ganga í það nú er fyrst og fremst pólitísk. Því lýsti forsrh. Breta líka skilmerkilega yfir í útvarpsræðu til þjóðar sinnar eftir samveldisráðstefnuna í haust. Fyrsta ástæðan er pólitísk, en ekki efnahagsleg. Og það væri hægt að telja upp fjölda hagfræðinga, viðurkenndustu hagfræðinga í Evrópu, sem hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að það geti ekki verið nein hagfræðileg rök, sem liggi til þess, að þessar þjóðir ættu að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Foringi brezka Verkamannaflokksins orðaði það svo, að það væri alveg ljóst af skrifum brezkra hagfræðinga um, að það væri jafnt tap og gróði af því fyrir brezku þjóðina að ganga í Efnahagsbandalagið, en ákvörðunin væri pólitísk ákvörðun, og þannig er það í fleiri löndum.

En það eru fleiri en jafnaðarmenn í löndum V.-Evrópu, sem nú hafa látið í ljós ugg sinn um stefnu Efnahagsbandalagsins. Alveg nýlega kom alveg ný rödd úr óvæntri átt. Það er víst ekki hálfur mánuður síðan það var haldin í París ráðstefna Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Þar mætti og hélt ræðu landbúnaðaráðherra Bandaríkjanna, — ræðu, sem kom mönnum mjög á óvart. Ég hef fyrir framan mig brezkt íhaldsblað, sem segir frá þessari ræðu og segir, að hún hafi verið harkaleg og alveg óvænt árás á stefnu Efnahagsbandalagsins í landbúnaðarmálum og í henni hafi verið bein hótun af hálfu Bandaríkjanna um, að heimild forseta Bandaríkjanna til tollalækkana og niðurfellingar á tollum á iðnaðarvörum frá Efnahagsbandalaginu yrði dauður bókstafur, nema því aðeins að önnur lönd viðkomandi væru reiðubúin til að fella niður verndartolla og höft að því er landbúnaðarvörur snerti, og átti þar við lönd Efnahagsbandalagsins. Þetta blað bætti því við, að það væri furðulegt, hve lengi Bandaríkjamenn hefðu verið að átta sig á því, hvílíkur háski stafaði af innilokunarstefnu Efnahagsbandalagsins í landbúnaðarmálum, og bætti því við, að það væri vel þess vert að hugleiða nánar, hvað hefði nú gerzt, sem hefði svo mjög breytt stefnu Bandaríkjanna gagnvart Efnahagsbandalaginu, því að hingað til hefðu forustumenn Efnahagsbandalagsins ekki átt öðru að mæta en hrósi og hvatningum frá amerískum ráðherrum, sem hafa sótt þá heim til Evrópu. En þannig væri nú meira að segja komið, að sjálfur landbrh. Bandaríkjanna hefur opinberlega ráðizt á þá innilokunar- og verndartollastefnu Efnahagsbandalagsins, sem ákveðin hefur verið með stefnu þess í landbúnaðarmálum, og haft í hótunum við það, ef því verður ekki breytt.

En út af fyrir sig þarf ekki að fara út í lönd til þess að leita að dæmum um það, hvernig þessi harkalega stefna, innilokunarstefna Efnahagsbandalagsríkjanna, getur komið við litlar og vanmegna þjóðir. Hæstv. forsrh. lýsti þessu ágætlega í sinni ræðu hér á hv. Alþingi um þetta mál. Hann sagði, að inngangseyririnn, sem við Íslendingar kynnum að verða að borga til þess að komast í þennan ágæta félagsskap, Efnahagsbandalagið, gæti orðið svo hár, að ekki kæmi til mála, að við gætum greitt hann. En hvað blasir þá við okkur að dómi hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., ef við gætum alls ekki greitt þennan inngangseyri? Jú, þeir segja okkur það. Það blasir við okkur alger einangrun og útilokun frá viðskiptum og menningarsamböndum við þessar þjóðir, þessar ágætu þjóðir Vestur-Evrópu. Það eru viðurlögin. Það er hótunin, sem blasir við minnstu þjóð Evrópu að dómi þessara manna, sem telja, að mest beri að fagna þessari stefnu, sem felist í stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, — þessir tveir kostir geti blasað við okkur: Í fyrsta lagi að greiða þann inngangseyri, sem við aldrei gætum haft efni á að greiða, að öðrum kosti alger einangrun og útilokun frá viðskiptum við þessar þjóðir. Hæstv. forsrh. sagði meira að segja, að það geti verið hætta á því, að þjóðirnar innan Efnahagsbandalags Evrópu ykju svo framleiðslu sína í skjóli tollmúranna og haftanna, að engin þörf yrði fyrir íslenzkan fisk í löndum þeirra. Það þarf ekki að lýsa afleiðingum af því fyrir Íslendinga.

En þá spyr ég: Geta íslenzkir menn fagnað þeirri stefnu, sem gæti leitt til þess að þeirra eigin dómi, að okkar þjóð yrði svo úti í viðskiptum við þessar þjóðir? Geta menn fagnað því, að slík stefna gripi um sig og verði allsráðandi á vesturhluta meginlands Evrópu? Ég held að vísu, að hér séu hæstv. ráðh. að leika þann leik í þessu máli, sem er ekki nýr, sem hefur verið viðhafður, frá því að það kom fyrst á dagskrá, að reyna að hræða íslenzku þjóðina, hræða hana, svo að hún komi ekki fyrir sig dómgreind sinni til þess að leggja málefnalegan dóm á þetta mál. En hvað um það, þetta er óneitanlega, held ég, ófögur mynd af stefnu þjóða í viðskiptamálum, sem gæti leitt til þessara hluta fyrir okkar litlu og vanmegna þjóð. En ég verð að segja í því sambandi: Hvers konar klókindi eru það hjá hæstv. forsrh. og viðskmrh. okkar að draga upp þá mynd fyrir okkur hér á Alþingi Íslendinga, þegar þetta mál er til umr., að það geti farið svo, að það verði ekki nema um tvennt að velja fyrir okkur, aðgangseyri, sem við getum ekki borgað, eða algerlega glötun. Á þetta að stefna að því að skapa okkur til handa einhvers konar samningsgrundvöll við þessar þjóðir? Eða er það bara sagt til þess að færa okkur heim sanninn um það, að við séum algerlega upp á náð og miskunn þessara þjóða komnir? Ég held það sé sagt í þeim tilgangi og geti ekki verið sagt nema í þeim tilgangi. En ég verð að segja, að þá er það ekki mjög sterkur samningsgrundvöllur, sem verið er að undirbúa með slíkum yfirlýsingum frá forsrh. og viðskmrh. þessarar þjóðar.

Það er í fyrsta skipti, sem þetta stórmál er rætt hér á hv. Alþingi. Ég vék að vísu að þessu máli í útvarpsræðu, sem ég flutti á útmánuðum í fyrra í eldhúsumr. hér á Alþingi, og rakti þá nokkuð, hvernig haldið hefði verið á þessu máli af hálfu hv. stjórnarflokka og ríkisstj. Ég leyfi mér að bera það saman við það, hvernig tekið hefur verið á þessu máli af frændþjóðum okkar, Dönum og Norðmönnum. Þegar málið kom á dagskrá hjá Norðmönnum, hvernig þeir ættu að snúast við Efnahagsbandalagi Evrópu, eftir að Bretar höfðu ákveðið að sækja um inngöngu þar, og ljóst var, að Fríverzlunarbandalag Evrópu var í upplausn, þá ákváðu Norðmenn, að það skyldi fara fram þjóðaratkvgr. í Noregi, áður en fullnaðarákvörðun yrði tekin um það, hvort Noregur gengi í slíkt bandalag eða ekki. Í Danmörku vita menn, að þar verða 5/6 hlutar þingsins að vera máli um inngöngu Danmerkur í Efnahagsbandalagið samþykkir, til þess að það nái fram að ganga. Hér vantar ekki, að menn viðurkenni það, að þetta er eitthvert stærsta mál, sem að höndum þjóðarinnar hefur borið. En frá upphafi hefur verið rekinn hér sá áróður, að Íslendingar eigi ekki nema um eitt að velja, aðild að Efnahagsbandalagi í einhverju formi, annars munt fara illa fyrir þeim. Það hefur verið stefnt beint að því, frá því að fyrst voru hafnar umr. um þetta mál, að reyna að hræða þjóðina þannig.

Í byrjun júní í fyrrasumar þótti hæstv. viðskmrh. rétt að kalla saman fund í utanrmn. til þess beinlínis að flytja utanrmn. þá yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstj., að ríkisstj, teldi ekki koma til mála að vel athuguðu máli að sækja um inngöngu, hvorki í Fríverzlunarbandalag Evrópu né Efnahagsbandalag Evrópu. Og hæstv. utanrrh. hélt um þetta alllanga tölu og ég verð að segja með þó nokkrum rökum, um það, að þessi afstaða væri sjálfsögð, það kæmi ekki til mála fyrir Íslendinga að vera að ánetjast þessum bandalögum, eins og málin stæðu. En um miðjan ágúst 1961 skipti allt í einu um veður í lofti. Þá var í skyndi kölluð saman nefnd nokkurra fulltrúa, sem höfðu verið fengnir til þess fyrr um sumarið að kynna sér Efnahagsbandalag Evrópu. Þá var hún í skyndi kölluð saman og lagt fyrir hana beinlínis, að hún yrði á nokkurra daga fresti að láta uppi álit sitt um það, hvort það væri ekki rétt, að Íslendingar sæktu beinlínis um aðild að Efnahagsbandalaginu. Og það fór svo, að meiri hl. þessara fulltrúa atvinnuveganna taldi sig þá, um miðjan ágúst í fyrra, dómbæran um það, að Íslendingar ættu þá þegar að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu.

Hæstv. viðskmrh. og hæstv. dómsmrh. voru að einhverju leyti að reyna að afsaka þetta óafsakanlega frumhlaup og óðagot með því, að um þetta leyti hefðu þjóðirnar í Fríverzlunarbandalagi Evrópu talið, að þær mundu flytja umsóknir sínar um aðild að Efnahagsbandalaginu sameiginlega og ræða þær sameiginlega, og þess vegna hefði mönnum hér dottið í hug, að Íslendingar ættu að vera þar með, þótt þeir væru þá ekki í Fríverzlunarbandalagi Evrópu. Þetta er algerlega rangt og staflaust hjá hæstv. viðskmrh. Um miðjan ágúst í fyrra var nefnilega vitað, að fulltrúar fríverzlunarbandalagsríkjanna höfðu 31. júlí komið saman í London á fund og samþykkt þar að beygja sig fyrir þeirri kröfu Efnahagsbandalagsins, að þær yrðu að leggja inn inntökubeiðnir sínar hver um sig og með þær yrði farið hverja um sig í réttri röð og þjóðirnar látnar bíða í biðsal Efnahagsbandalagsins eða fordyrum þess, eins og þær gera enn í dag. Hæstv. viðskmrh. fer því alveg með staðlausa stafi og rangt mál í þessu efni.

Það var vitað þá þegar um miðjan ágúst, að þýzkur hroki og franskur þjóðrembingur höfðu sameinazt um það eins og fleira í Efnahagsbandalagi Evrópu að láta þjóðirnar, Breta, Dani, Norðmenn, Íra, sitja mánuðum og missirum saman í anddyrunum í Brüssel til þess að auðmýkja þá og láta þá vita, að umsóknir um inngöngu þeirra yrðu teknar fyrir hver um sig, svo að þær hefðu engan stuðning hver af annarri. Danir höfðu sótt það fast að fá að sitja við hliðina á Bretum í samningum, en það var vitað um miðjan ágúst í fyrra, þegar skjálftinn kom í hæstv. viðskmrh., að þeir fengju það ekki, það yrði hver að sitja að sínu og sækja sitt mál fyrir Efnahagsbandalagi Evrópu. En það var vitað meira. Í september, þegar blöð stjórnarflokkanna hömuðust hvað mest um, að það mætti ekki bíða stundinni lengur með það, að Íslendingar sæktu um inntöku, sæktu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, þá var ráð Efnahagsbandalagsins búið að lýsa því yfir skýrt og skilmerkilega, að um leið og eitt ríki legði inn umsókn um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu, þá viðurkenndi það um leið skilyrðislaust alla skilmála Rómarsamningsins. Hæstv. dómsmrh. var í sinni ræðu að reyna að færa líkur að því eða rök, að um þetta leyti hefði ekkert slíkt verið vitað, að það fylgdi nein skuldbinding umsókn í Efnahagsbandalagið. Þetta er algerlega rangt og ég held vísvitandi rangt, því að á þessum tíma var alveg vitað, að það var ekki hægt að leggja fram neina umsókn án skuldbindinga að dómi ráðs Efnahagsbandalagsins. Umsókn um aðild að Efnahagsbandalaginu þýðir, að það ríki, sem leggur hana fram, sagði ráð Efnahagsbandalagsins í sept. í fyrra, að það viðurkennir og undirgengst skilyrðislaust alla skilmála Rómarsamningsins, annars verður inntakan ekki tekin fyrir. Og þetta urðu Bretar, Danir og Norðmenn og aðrir að viðurkenna.

Nei, hæstv. ráðh. þýðir ekkert að fara með slíkar blekkingar um það, sem stjórnarblöðin fóru með hér í fyrra, í ágúst og september, að væri alveg sjálfsagt mál fyrir Íslendinga að bíða ekki stundinni lengur með að leggja inn umsókn sína. Það var frumhlaup, órökstutt og rakalaust með öllu: Sérstaklega verður það augljóst í ljósi þeirrar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. nú, að það sé ekki enn í dag hægt að mynda sér neina rökstudda skoðun til þess að taka ákvörðun um Efnahagsbandalagið, því að eins og hæstv. forsrh. segir, okkur vantar enn í dag öll frumskilyrði til þess að taka ákvörðun um Efnahagsbandalagið. En þeir höfðu það í fyrra, sérfræðingar hæstv. ríkisstj. og ritstjórar hæstv. ríkisstj., því að þeir sögðu þá, ef ég má vitna — með leyfi hæstv. forseta — í Morgunblaðið . 19. ágúst í fyrra:

.,Ástæðan til þess, að kunnáttumenn telja, að ekki megi lengur draga að leggja inn inntökubeiðni, er fyrst og fremst sú, að framtíðarskipun Efnahagsbandalagsins er nú í mótun. Með því að sækja nú um inngöngu geta Íslendingar haft áhrif á það, hvernig málum verður háttað. Ef við leggjum ekki fram inntökubeiðni nú, verðum við frá upphafi einangraðir. Þannig er það beinlínis þjóðhættulegt að draga að gæta hagsmuna okkar.“

Þetta var skoðun ritstjóra Morgunblaðsins í fyrra. Og í ræðu minni í fyrra, í apríl í fyrravetur, benti ég á, að það væri meira að segja hægt að sanna, að ríkisstj. hefði í fyrrasumar miðað stjórnarathafnir sínar, sínar eigin stjórnarathafnir við það, að við hlytum að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu, gengislækkunina, sem hún framkvæmdi í ágúst, eins og hæstv. forsrh. sagði sjálfur, þegar hann gerði þjóðinni grein fyrir þeirri ráðstöfun.

Hæstv. viðskmrh. sagði hér í ræðu, að sérfræðingar ríkisstj. hefðu aldrei gert neinar till. um leiðir í þessu máli. Það má nú segja. Sérfræðingar ríkisstj, hafa verið hafðir á oddinum og látnir halda uppi fyrst og fremst þeim óskammfeilna áróðri, sem hér hefur verið hafður í frammi um Efnahagsbandalagið. Eða man hæstv. viðskmrh. ekki eftir ráðstefnu, sem hann sat sjálfur í janúar þessa árs hjá félaginu Frjálsri menningu, þar sem sérfræðingar, eins og Már Elísson, sem er sérfræðingur Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum, a.m.k. sögðu, að það væri augljóst, að áhrif þess fyrir Íslendinga að standa utan Efnahagsbandalagsins yrðu hörmuleg? Og raunar jaðraði það við fjarstæðu að ímynda sér, að þeir gætu það. Þess vegna yrði hann að álykta, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu innan skamms. Ég mundi telja heppilegast,“ sagði þessi sérfræðingur, „samningsaðstöðunnar vegna að byrja sem efst, þ.e.a.s. að sækja um fulla aðild:“ Þetta sagði þessi sérfræðingur að viðskmrh. viðstöddum og án þess að viðskmrh. mótmælti þessum skoðunum sérfræðingsins á nokkurn hátt.

Annar sérfræðingur hæstv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálum, fiskimálastjórinn, hv. varaþm. Davíð Ólafsson, komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Ég vænti ekki, að hæstv. viðskmrh. muni neita því, að hann sé einn af sérfræðingum hæstv. ríkisstj. Á hann ekki sæti í einni sérfræðinganefndinni og þeirri helztu? Hvað sagði hann? Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þurfum að sækja um aðild að bandalaginu heldur fyrr en seinna. Það sem ég óttast,“ sagði hann, ,,ef við bíðum of lengi, er, að við komum að fullbyggðu húsi, sem við getum ekki fengið neina breytingu á, eins og okkur mundi henta:“

Hans niðurstaða var því eins og hins sérfræðingsins í sjávarútvegsmálum, að við ættum ekki að bíða með að sækja um inngöngu, ekki að bíða með það í janúar í fyrra.

Og hverjir skyldu vera meiri sérfræðingar hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum en menn eins og Jónas Haralz ráðuneytisstjóri og dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri? Hafa þessir menn, sérfræðingar ríkisstj., ekki mælt með því, að Ísland gangi í Efnahagsbandalagið með einhverjum hætti? Hafa þeir ekki skrifað greinar um þetta og a.m.k. dr. Jóhannes Nordal lagt á það megináherzlu, að það sé ekki um annað að ræða í því máli heldur en annaðhvort fulla aðild eða auðaðild? Og hæstv. viðskmrh. sjálfur, er hann ekki einn af sérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum? Enginn mun efast um það. (Gripið fram í: Er ríkisstj. og hann eitt í efnahagsmálum?) Nei, hann er ekki ríkisstj. í efnahagsmálum, því að ríkisstj. í efnahagsmálum voru þeir tveir herrar, sem ég áðan nefndi, Jónas Haralz og Jóhannes Nordal, með allri virðingu fyrir hæstv. viðskmrh. En hæstv. viðskmrh., á hvaða skoðun var hann á ráðstefnu sérfræðinganna í janúar í fyrra? Jú, hann dró enga dul á það, að það væri viss ábyrgðarhluti að bíða með það þá fyrir Íslendinga að sækja um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Ég ætla ekki að lesa hér upp allt, sem hann sagði um það, hvílíkur ábyrgðarhluti væri að bíða. Hann sagði, að það væri sérstaklega ábyrgðarhluti að bíða, þegar Bretar og Norðmenn færu að semja um sjávarútvegsmál. En hann lagði megináherzlu á annað, að það væri engin leið til þess að nálgast Efnahagsbandalag Evrópu með umsókn nema annaðhvort á grundvelli fullrar aðildar eða aukaaðildar. Þetta var svona í janúar í fyrra.

Ég hef ekkert við það að athuga, að hæstv. ráðh. eða aðrir breyti um skoðun og taki skynsamlegri skoðun. En ég held, að það sé alveg víst, að hann hafi nokkuð skipt um skoðun um þetta efni, nema hann þá lýsi því yfir hér, að hann sé enn sömu skoðunar og hann var fyrr, í janúar í fyrra, að það sé ekkert til fyrir Íslendinga annað en annaðhvort full aðild eða aukaaðild, það þýði ekki að leggja hér umsókn fyrir Efnahagsbandalagið á öðrum grundvelli.

Það hefur verið fullyrt, t.d. af dr. Jóhannesi Nordal, að það komi ekkert til greina í samningum við Efnahagsbandalagið án formlegrar aukaaðildar, engir tollasamningar komi til greina án formlegrar aukaaðildar. Þetta er spurning. Hér er spurn: Hver er skoðun hæstv. viðskmrh. á þessu nú í dag? Ég er ekki að spyrja, hver hún var í janúar í fyrra, því að það veit ég. Ég er ekki að spyrja, hver hún verði á morgun, því að það veit enginn. En ég er að spyrja, hvaða skoðun er á málinu í dag.

Hæstv. viðskmrh. gerði í ræðum sínum og þegar í skýrslu ríkisstj. um þetta mál samanburð á tveimur leiðum, sem hann taldi koma til greina að skoðun ríkisstj. Hann gerði allnákvæman samanburð á aukaaðildarleiðinni annars vegar og tollasamningsleiðinni hins vegar. Ég álít rétt að athuga þennan samanburð hæstv. ráðh. Hann viðurkenndi í fyrsta lagi, að með viðskiptasamningsleiðinni þyrfti enga samninga að gera um hin viðkvæmu mál um jafnrétti til atvinnurekstrar, fjármagnsinnflutnings og innflutnings vinnuafls o.s.frv. Ég dreg enga dul á það, að ég skildi hæstv. ráðh. svo, að hann teldi þetta kost við tollasamningsleiðina, eins og við aðrir, sem teljum, að hún sé eina færa leiðin. Hann sló því í öðru lagi föstu, að sami vandi fylgdi báðum leiðum að því er snerti í fyrsta lagi innlendan iðnað, jafnkeypisviðskiptin, viðskiptin við Austur-Evrópu þ. á m., og fjármál ríkisins, þ.e.a.s. fjáröflunartolla, þegar til þess kæmi, að Íslendingar yrðu að lækka tolla á innflutningi og draga úr eða afnema innflutningshöft á móti lækkun tolla á sjávarafurðum í löndum Efnahagsbandalagsins. En þó að hæstv. ráðh. slægi þessu föstu sem kosti við tollasamningsleiðina, þá kæmi ekki til mála að semja um jafnrétti útlendinga til atvinnurekstrar á Íslandi, því að ekkert slíkt kæmi til greina samkv. upplýsingum, sem hann hefði fengið frá fyrstu hendi, þá var niðurstaða hans samt sú í þessum samanburði, að hann lagði megináherzlu á ókosti tolla- og viðskiptasamningsleiðarinnar, en jafnríka áherzlu á kosti aukaaðildar. Hann benti á ókosti viðskiptasamninga. Í hans augum væri í fyrsta lagi, að með þeim fengju Íslendingar aldrei jafnréttisaðstöðu á við keppinauta sína um fisksölu til landa Efnahagsbandalagsins, heldur aðeins lækkun á tollum af sjávarafurðum. En hann sagði orðrétt, að hann teldi sennilegt, að við fengjum lækkun á tollum á sjávarafurðum gegn gagnkvæmri lækkun á tollum á innflutningsvörum til Íslands. En hæstv. ráðh. bætti því við, að þessi tollalækkun mundi þó aðeins verða til skamms tíma. Og auk þess er hugsanlegt, sagði hæstv. ráðh., að Efnahagsbandalagið komi upp einhvers konar markaðsskipulagi með sjávarafurðir, er torveldi fisksölu þjóða, sem utan þess standa. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. viðskmrh. hafi þessar upplýsingar líka frá fyrstu hendi. Það er kunnugt, að það er í ráði að setja upp markaðsskipulag fyrir landbúnaðarvörur, og mér þykir líklegt, að það sama sé í ráði með sjávarafurðir. En í mínum augum eru þessar upplýsingar hæstv. ráðh., sem ég tel víst, að hann hafi eftir góðum heimildum, mjög alvarlegar, því að hvað þýðir það fyrir okkur Íslendinga, ef við gerðumst aukaaðilar að Efnahagsbandalaginu? Yrðum við þá ekki að undirgangast stjórn á slíku markaðsskipulagi og söluskipulagi okkar sjávarafurða? Væri það markaðsskipulag nokkuð síður til þess fallið, eins og hæstv. ráðh. sagði, að torvelda fisksölu okkar þjóðar, þó að hún væri í Efnahagsbandalaginu með aukaaðild, eða a.m.k. taka ráðin af okkar höndum um fisksölu okkar? Gæti þetta þýtt, að stjórn sölu okkar á sjávarafurðum yrði tekin úr okkar höndum og fengin sérfræðingum Efnahagsbandalagsins?

En þetta var ekki aðalatriðið í augum hæstv. ráðh. Tvö atriði önnur lagði hann megináherzlu á til þess að sýna, að aðstaða okkar yrði betri með aukaaðildarleið heldur en með tollasamningi. Hann sagði, að útilokað væri, að viðskiptaaðstaða Íslendinga gæti nokkurn tíma orðið eins góð með viðskiptasamningum og aukaaðild. En hann sagði einnig, að meginmunurinn á aukaaðild og tollasamningi væri sá, að aukaaðili tekur með einum eða öðrum hætti þátt í störfum bandalagsins og getur að vissu leyti haft aðstöðu til áhrifa á stefnu þess. En ríkið, sem gerir tollasamning við Efnahagsbandalagið, tekur engan þátt í störfum þess og hefur engin áhrif á stefnu þess. Ég held, að þessi aðalniðurstaða hæstv. ráðh. um meginkost aukaaðildar, að hún tryggi að aukaaðildarríki taki þátt í störfum bandalagsins og hafi áhrif á stefnu þess, sé á fullkomnum misskilningi byggð og það geti varla komið til mála, að hæstv. ráðh. hafi upplýsingar um þetta frá æðstu forráðamönnum Efnahagsbandalagsins.

Að vísu hefur það verið sagt, að aukaaðildarsamningar gætu verið með einum eða öðrum hætti. En ég veit ekki til þess, að það hafi nokkurn tíma verið tekið í mál af neinum forráðamönnum Efnahagsbandalagsins, að aukaaðildarríki fái fulltrúa í stofnunum bandalagsins, þingi þess, dómstóli þess, ráðherranefnd þess eða ráði eða framkvæmdastjórn. Ég veit ekki til þess. Um hið eina ríki í Evrópu, sem hefur aukaaðildarsamning, Grikkland, er vitað, að það á engan fulltrúa í þessum stofnunum. Með sameiginleg mál þess og Efnahagsbandalagsins fer svokallað aukaaðildarráð. Það er skipað fulltrúum frá Grikkjum annars vegar, Efnahagsbandalaginu og framkvæmdastjórn þess hins vegar. En það aukaaðildarráð fjallar ekki um stefnu bandalagsins á nokkurn hátt eða framkvæmd hennar. Það fjallar aðeins um hin sérstöku efnahagsmál, sem samið er um í tollasamningi Grikkja og Efnahagsbandalagsins. Það er aðeins um fimm ákveðnar vörutegundir, sem Grikkir geta fengið að taka nokkurn þátt í ákvörðun Efnahagsbandalagsins um ytri toll þess. Það er öll sú þátttaka, sem þeim er ætluð í störfum og stofnunum Efnahagsbandalagsins. Allir vita þó, að Grikkjum voru ekki gerðir þröngir kostir með sínum aukaaðildarsamningi. Þeir fengu verulegar tollaívilnanir. Þeir eru NATO-ríki eins og við, og það er vitanlegt, að Efnahagsbandalagsríkin vildu gera eins vel við þá sem NATO-þjóð og fært þætti. En það setti ekki það fordæmi um aukaaðild, að þetta nákomna aukaaðildarríki fengi fulltrúa í stofnunum Efnahagsbandalagsins, eins og hæstv. viðskmrh. heldur að við eigum að fá, ef við gerumst aukaaðilar. Nei, þessi ágæta NATO-þjóð, Grikkir, á engan fulltrúa í neinum stofnunum bandalagsins nema aukaaðildarráði. Nú er þar hins vegar ólíku saman að jafna um Grikkland og Ísland, að það er beint gengið út frá því í aukaaðildarsamningnum við Grikkland, að Grikkland verði á sínum tíma og það alveg innan skamms, eins fljótt og við verður komið, fullur aðili, en hæstv. ríkisstj. lýsir því yfir, að það komi aldrei til mála með Ísland.

Það er vitað, að Grikkir hafa ekki fengið að hafa nein áhrif á ákvörðun um stefnu Efnahagsbandalagsins í landbúnaðarmálum, og skiptir sú stefna þó þá miklu, ekki frekar en Danir, Bretar eða Norðmenn, sem enn standa í samningum um aðild, fulla aðild, hafa fengið að hafa nokkur áhrif á ákvörðun þessarar stefnu, og lítur ekki út fyrir, að þeir eigi að fá að hafa nokkur áhrif á ákvörðun stefnu Efnahagsbandslagsins einu sinni í sjávarútvegsmálum, því að það er aðeins fyrir náð, að þeir eiga að fá að hafa áheyrnarfulltrúa á væntanlegri ráðstefnu í sjávarútvegsmálum.

Það er alveg tilgangslaust fyrir hæstv. ráðh., hvort sem það er hæstv. dómsmrh. eða hæstv. viðskmrh., að ætla að segja okkur hér á Alþingi, að það sé ekkert vitað um aukaaðild Grikkja að Efnahagsbandalaginu, því að ýmislegt vitum við um hana. Við vitum t.d., hvað segir um hana í 238. gr. Rómarsáttmálans. Þar stendur, eftir að sagt hefur verið, að bandalagið geti gert samning um aukaaðild ríkja, bandalagsríkja eða alþjóðastofnana, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Skal ríkja gagnkvæmni um réttindi og skyldur og sameiginlegar aðgerðir beggja aðila.“ — Gagnkvæmni um réttindi og skyldur. Við höfum í annan stað skýringar æðstu forustumanna Efnahagsbandalagsins um, hvað þeir skilji við aukaaðild og hvers vegna ákvæðið um aukaaðild hafi yfirleitt verið sett inn í Rómarsamninginn. Prófessor Hallstein, forseti framkvæmdastjórnarinnar, skýrði þetta m.a. í fyrra að gefnu tilefni. Hann sagði, að aukaaðildarákvæðið hefði beinlínis verið sett inn vegna ríkja, sem vildu ekki taka á sig allar pólitískar skuldbindingar Efnahagsbandalagsins, en hefði verið sett inn sem tæki, sem hefði sama gildi og full aðild, til að koma á samruna — integratlon — í efnahagsmálum í Evrópu, því að það yrði að túlka það svo, að aukaaðildarríki gæti náð sams konar kjörum í efnahagsmálum sem Rómarsamningurinn gerði ráð fyrir, „þó með því skilyrði,“ ég vitna hér orðrétt í orð prófessorsins, með leyfi hæstv. forseta, „að landið sé reiðubúið að takast á hendur samsvarandi skyldur“.

Og á þingi Efnahagsbandalags Evrópu í janúar í ár var samþykkt einróma yfirlýsing um það, hvað þing Efnahagsbandalagsins skildi við aukaaðild. Þing Efnahagsbandalagsins er að vísu ekki þing eins og Alþingi Íslendinga, því að það hefur ekkert löggjafarvald. Það hefur aðeins ráðgefandi vald og vald til þess að samþykkja bænaskrár til framkvæmdastjórnarinnar. En það er í þessu atriði, hvað aukaaðild snertir, segir einmitt í 238. gr. Rómarsamningsins, að það skuli jafnan leita ráða þingsins, áður en aukaaðildarsamningur er gerður. Þess vegna gerði þingið í fyrra þá ályktun, sem fræg er orðin og kennd er við þýzkan þingmann, sem var formaður og frsm. þeirrar nefndar, sem yfirlýsinguna samdi. Þar var lýst yfir fullkominni andstöðu þingsins gegn því, að háþróuð iðnaðarlönd fái aukaaðild að Efnahagsbandalaginu, og var þarna eðlilega átt við Sviss og Austurríki. Þar var hins vegar lögð áherzla á, að engin ríki eigi neinn rétt á því að fá slíka aukaaðild, og lýst yfir, að það sé ekki ætlazt til þess innan Efnahagsbandalagsins, að nokkurt ríki geti fengið fríðindi með aukaaðild án þess að takast á hendur tilsvarandi skyldur, segir orðrétt í þessari yfirlýsingu. Af pólitískum ástæðum, segir í þessari sömu yfirlýsingu, verður það að vera aðalreglan, að ríki sæki um fulla aðild, en kjósi ríki aukaaðild eða tollabandalag, þá verði það að vera við því búið að takast á hendur nær allar og helzt allar og allar helztu skuldbindingar Rómarsamningsins á efnahagssviðinu.

Þetta er yfirlýsing þings Efnahagsbandalagsins, sem og margir munu kannast við, sem hafa kynnt sér eitthvað þessi mál. Þetta þýðir, að ríki, sem vill gera aukaaðildarsamninga, verður að vera við því búið að takast á hendur sömu skuldbindingar í efnahagsmálum og nákvæmlega sömu skilyrði sem gert er ráð fyrir í Rómarsamningnum. Við vitum, hver þau eru.

Ég get minnt á enn einn forustumann Efnahagsbandalagsins, einn af framkvæmdastjórum þess, sem sagði nú síðast í sept. s.l. í Osló, — ég hef það eftir Svenska Dagbladet, — að aukaaðild, eins og við skiljum hana, er pólitískt skref með þeim afleiðingum, sem það hlýtur að hafa. Hann sagði við þetta sama tækifæri, að það, sem hefði vakið undrun forustumanna Efnahagsbandalagsins í sambandi við fyrirvara og skilyrði hlutlausu ríkjanna, hefði verið það, að þau hefðu öll krafizt þess að geta sagt upp aukaaðildarsamningnum. Það er auðvitað það eina rétta í því máli, að þessi hlutlausu ríki Evrópu hafa alls ekki lofað því fyrir fram að ganga undir allar skuldbindingar Rómarsamningsins aðrar en pólitískar. Þau hafa sett sína fyrirvara og sín skilyrði, þótt því hafi ekki verið haldið á lofti hér. En þetta er furðulegt í augum framkvæmdastjóra Efnahagsbandalagsins, að aukaaðildarríki skuli fara fram á það að geta sagt upp þessum samningi, því að Rómarsamningurinn er alls ekki uppsegjanlegur. Hann er gerður til allrar eilífðar.

Það er því alveg víst af öllu því, sem fram hefur komið frá forustumönnum Efnahagsbandalagsins á opinberum vettvangi, að þeir skilja aukaaðildarákvæðið svo, að aukaaðild taki til allra efnahagslegra meginatriða Rómarsamningsins og sé bindandi fyrir aukaaðildarríki, eins og er viðurkennt skýrum stöfum í gríska aukaaðildarsamningnum, og auk þess hljóti allar reglur stofnana Efnahagsbandalagsins um efnahagsmál, svo sem í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum o.s.frv., að vera bindandi jafnt fyrir aukaaðildarríki eins og aðildarríki, af því að þarna er um að ræða stefnu þess og framkvæmd hennar í efnahagsmálum eða sérmálum bandalagsins, en ekki hinum pólitísku málum, sem aukaaðildarríkin hlutlausu eru að biðjast undan að vera háð. En hvað gerist, ef kemur upp ágreiningur milli aukaaðildarríkis og Efnahagsbandalagsins um það, hvernig beri að skilja aukaaðildarsamninga og þær skuldbindingar, sem felist í þeim beint eða óbeint? Hvað gerist þá? Hvernig á að greiða úr þeim ágreiningi milli eins lítils ríkis, við skulum segja Grikklands eða Íslands, og hins volduga Efnahagsbandalags? Hefur aukaaðildarríkið neitunarvald? Já, það hefur það formlega. En við skulum hugsa okkur, að því neitunarvaldi væri beitt hvað eftir annað. Hvað gerist þá? Eða Efnahagsbandalagið segði: Það ber ekki að fjalla um þetta atriði í aukaaðildarráði aukaaðildarríkisins við Efnahagsbandalagið, heldur annaðhvort í dómstóli bandalagsins eða gerðardómi, sem báðir aðilar geta komið sér saman um. — Það hefur einmitt verið bent á það af hálfu t.d. norska utanrrn., af sérfræðingum norska utanrrn. alveg sérstaklega, hvaða afleiðingar það hljóti að hafa fyrir aukaaðildarríki, ef það hvað eftir annað reynir að beita neitunarvaldi til að koma sér undan skuldbindingum Rómarsamningsins í efnahagsmálum. Það verður að skera úr slíku af dómstóli bandalagsins eða gerðardómi, þar sem oddamaður væri t.d. skipaður af forseta dómstólsins. (Forseti: Venjulegur fundartími er nú liðinn.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, eftir 10 mínútur. Það eru þessir augljósu ókostir aukaaðildar, sem hefur verið bent á alls staðar, þar sem ríkisstj. hefur lagt hugsanlega inngöngu í Efnahagsbandalagið fyrir á réttan hátt, eins og í Noregi og í Danmörku. Þar hafa atriði eins og þessi verið rannsökuð af sérfræðingum og fólki sagt satt um það. Það er alveg óvefengjanlegt, að aukaaðildarríki eru ekki ætlaðir neinir fulltrúar í hinum almennu stofnunum Efnahagsbandalagsins. Og það er engin ástæða til þess að ætla, að smáríkinu Íslandi yrðu gefnir slíkir fulltrúar til þess að starfa í öllum stofnunum Efnahagsbandalagsins. En þetta taldi hæstv. viðskmrh. meginkost aukaaðildarleiðarinnar.

Þetta hefur verið gert alveg ljóst í hlutlausu ríkjunum, Sviss, Austurríki og Svíþjóð. Þau gera sér enga von um það, að þau sem aukaaðildarríki geti fengið neina fulltrúa í stofnunum bandalagsins. Og í sérfræðilegri athugun utanrrn. norska var lögð á þetta megináherzla, að t.d. Grikkland mundi með aukaaðild sinni hafa fargað meira af sjálfsforræði sínu og sjálfstæði en það hefði gert með því að takast á hendur fulla aðild, vegna þess að þar fylgdu engin áhrif í neinum stofnunum bandalagsins, en yrði hins vegar að hlíta úrskurðum stofnana þess um stefnu og framkvæmd hennar. Utanrrh. Norðmanna lagði á þetta þyngstu áherzlu í málflutningi sínum um, að Noregur ætti að sækja um fulla aðild. En hér koma tveir hæstv. ráðh., hæstv. viðskmrh. og hæstv. dómsmrh., og segja okkur: Það, sem okkur ríður d að fá með aukaaðild, er þátttaka í stofnunum og störfum Efnahagsbandalagsins. — Það stangast á niðurstaða þeirra hæstv. ráðh. um staðreyndirnar og niðurstaða norskra utanrrn. og utanrrh. norska um þetta. Vilja þeir koma, hæstv. ráðh., og sanna okkur það hér með áreiðanlegum heimildum, að það fylgi aukaaðild að taka þátt í stefnu og störfum bandalagsins? En það er meginkostur við þá leið í þeirra augum, svo mikill kostur, að það gæti jafnvel komið til mála, að ókosturinn, sem þeir víst viðurkenna, — ég væni þá ekki um að viðurkenna hann ekki, — að við yrðum með aukaaðild að semja um hin viðkvæmu mál, um atvinnurekstrarrétt útlendinga, sem jafnvel gæti opnað þeim leið inn í íslenzka landhelgi, — að þessi meginkostur, að við færum að stjórna með í Efnahagsbandalaginu, gæti vegið þennan ókost upp. Nú óska ég eftir alveg skýru og afdráttarlausu svari hæstv. ráðh., sem hafa farið svo víða um lönd, hæstv. viðskmrh. til að sækja allar upplýsingar frá æðstu mönnum Efnahagsbandalagsins, ráðherrum, framkvæmdastjórn, hvað hefur hann fyrir sér í því, að þetta sé meginkostur aukaaðildar innan Efnahagsbandalagsins? Það má vel vera, að hæstv. ráðh. eins og hæstv. dómsmrh. telji það höfuðatriði þessa máls, eins og hæstv. dómsmrh. komst að orði, að rödd Íslands heyrist innan Efnahagsbandalagsins. Ég efast um, þó að við fengjum fulltrúa í einhverja stofnun þess, að sú rödd okkar yrði sterk við þá, sem þar er við að eiga. Vil ég þó ekkert lasta þær þjóðir, sem að því standa, því að ég hef miklar mætur á þeim öllum.

Það er mín skoðun, að það hafi ekki gerzt nein ósköp í þessu máli. Það hefur eiginlega ekkert gerzt annað en það, að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að reyna að fresta umr. um þetta mál fram yfir næstu kosningar og ekkert annað. En það mun ekki takast. Eins og við höfum rætt málefnalega um þetta mál hér á hv. Alþingi og eigum eftir að gera það enn, þá mun það verða gert með þjóðinni. Það er mín skoðun, að hæstv. ríkisstj, hefði enga heimild til þess .í dag, þótt ég efist ekki um, að hún hafi þingmeirihluta til þess, svo mikið sem sækja á nokkurn hátt um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu eða fara aðra leið til að nálgast það: Það, sem sker úr um þetta mál í mínum augum, eru þær upplýsingar hæstv. viðskmrh., að aukaaðild þýði, að við verðum að veita útlendingum jafnan rétt og íslendingum til atvinnurekstrar á Íslandi, þar með í fiskiðnaði á Íslandi. Og því tel ég þá leið gersamlega útilokaða. En ég tel auk þess, hvað sem um þessar leiðir er að segja, að hæstv. ríkisstj. hafi hvorki heimild til þess né sé það á nokkurn hátt rétt af henni að halda áfram samningum um þetta mál, eftir að það er upplýst, að það er þetta, sem er um að tefla. Ég álít auk þess, að hvorki hæstv. ríkisstj. né Alþingi hafi heimild til þess að gera samninga, a.m.k. ekki án undanfarinnar þjóðaratkvgr. að gera samninga við erlenda aðila, ef í þeim samningum felst takmörkun eða afsal á valdi og rétti íslenzkra stofnana og stjórnvalda, sem þeim ber samkv. stjórnarskrá okkar. Ég tel þess vegna, að það væri ekki heimild til þess að gera samninga um aukaaðild þess háttar, sem hæstv. ráðherrar, hæstv. viðskmrh. og hæstv. dómsmrh., hafa verið að lýsa hér að þá langi í fyrir Íslands hönd.

En ég vil að síðustu segja, að ef það er alvara fyrir mönnum, að það sé eftirsóknarvert, að við tökum þátt í störfum og stofnunum Efnahagsbandalagsins, þá verða hinir sömu menn, sem það segja, að gera sér ljósi, að það þýðir, að þeir telji það eftirsóknarvert, að erlendir embættismenn fái aftur meðferð og ítök um okkar mál. Ef það er eftirsóknarvert, að við eigum fulltrúa í stofnunum Efnahagsbandalagsins suður í Brüssel, þá er alveg víst, segi ég, að þá verður að setja þar upp íslenzka stjórnarskrifstofu eða stjórnardeild til þess að stjórna íslenzkum málum þaðan ásamt hinum erlendu sérfræðingum þeirra stofnana, sem Efnahagsbandalagið á, á að skipa. Um þetta verður rætt með þjóð, sem hefur áreiðanlega, að því er ég held, versta reynslu og mesta af embættismannastjórn erlendri allra þjóða í Vestur-Evrópu. Við áttum menn í stjórnardeildinni, Íslandskontórnum í Kaupmannahöfn. Hverjir kjósa það aftur, að erlendir menn, hversu góðir sem þeir eru og frá hversu vinveittum þjóðum sem þeir eru, fari aftur að ráða okkar málum, jafnvel með einhverri hlutdeild okkar manna, sem mundu eins og okkar fulltrúar í Íslandsskrifstofunni í Kaupmannahöfn reyna að koma viti fyrir hina velviljuðu erlendu einstaklinga? Hverjir vilja þetta? Er þetta komið á dagskrá með íslenzku þjóðinni, áður en 20 ár eru liðin, síðan hún fékk viðurkenningu á því, að hún mætti ráða öllum sínum málum sjálf? Já, það er komið svo: Það eru til menn, það eru til ráðherrar, sem álíta, að það sé eftirsóknarverðast fyrir Íslendinga í sambandi við þetta mál, að við fáum fulltrúa í stofnunum Efnahagsbandalagsins og þær stofnanir fari ásamt okkar mönnum að ráða okkar málum, þ. á m. mikilvægustu efnahagsmálum okkar, e.t.v. landhelgismálum okkar. Ég get fagnað því, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún telji ótímabært að taka ákvörðun um þetta nú. Hún hefði átt að gefa þá yfirlýsingu í fyrrahaust, svo að sérfræðingar hennar hefðu ekki blaðrað af sér allt vit með öllu, sem þeir hafa sagt um málið síðan. En það er betra seint en aldrei. Ég fagna af heilum hug þessari yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. og vona, að hún standi við hana, af því að ég veit, að þá fær íslenzka þjóðin svigrúm til þess að ræða það og hugsa það, hvort hún vill afturkalla yfir sig embættismanna- og sérfræðingastjórn erlendra manna, þó að ekki sé nú suður í Kaupmannahöfn, heldur suður í Brüssel.