13.02.1963
Sameinað þing: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

Efnahagsbandalagsmálið

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er nú alllangt, liðið síðan þessar slitróttu umr. fóru fram og var frestað hér á Alþingi. Síðan hefur það gerzt, eins og hæstv. viðskmrh. minntist á, að Bretum hefur verið neitað um inngöngu í Efnahagsbandalagið, a.m.k. í bili. En þó að engu skuli spáð um það, hvað ofan á verður að lokum með þátttöku Breta, verður því ekki neitað, að miklar líkur eru til þess, að Bretar verði aðilar eða samkomulag náist um það, að þeir tengist bandalaginu með einhvers konar tengslum, áður en langt um líður. Andrúmsloftið í sambúð vesturveldanna þolir það ekki til lengdar, að Bretar séu lokaðir úti frá samvinnu við þessi lönd. Bretar eiga of mikið og of sterkt fylgi á meginlandinu til þess, að það verði þolað til lengdar, að þeir verði útilokaðir. Það, sem gerist, verður það, að þeir tengjast Efnahagsbandalaginu á einhvern hátt, þótt á því verði bið, og skoðunum gömlu mannanna verður þokað til hliðar í einhverju formi. En hvað sem þessu líður og hvernig sem þetta fer, þá er það vitanlega ekkert annað en blekking, sem hæstv. viðskmrh. heldur fram, að þetta mál sé úr sögunni, — fullkomin blekking. Efnahagsbandalagið er staðreynd, sem við komumst ekki hjá að taka afstöðu til innan tíðar og taka þá afstöðu, hvort við viljum tengjast bandalaginu með aukaaðild eða tolla- og viðskiptasamningum. Valdastreitan, baráttan um hið pólitíska forustuhlutverk í bandalaginu, sem veldur því, að Bretar koma ekki inn að sinni, er að vísu vonbrigði fyrir marga þá, sem hafa ætlað sér að gerast aðilar að bandalaginu. En það snertir okkur minna, sem höfum aldrei ætlað okkur slík tengsl, a.m.k. ég álít, að meiri hl. þjóðarinnar hafi ekki ætlað sér það. En það er engu líkara en maður heyri á ræðu hæstv. viðskmrh., að fagnað sé og tekið með miklum feginleik þeirri afstöðu, sem einn stjórnmálamaður á meginlandinu hefur tekið, og það sé kærkomið tækifæri til þess að breiða yfir fyrri skoðanir í málinu og breiða yfir sjálfan sig í málinu. Það var þetta, sem var áberandi í ræðu hæstv. viðskmrh., og það var þetta, sem kom fram í Morgunblaðinu nýlega, — ég held, að ég hafi það hér orðrétt: Og e.t.v. hafa málin nú þróazt þannig, að aldrei reyni á það, hvort við þurfum að tengjast bandalaginu. — Það var sami tónninn, um leið og skoðanir de Gaulles réðu því, að samningunum við Breta var slitið í bili, og þetta kemur fram í öllu málfari hæstv. viðskmrh. Þetta er hin furðulegasta blekking. Málin standa nú eins og þau stóðu, áður en Bretar sóttu um inngöngu í bandalagið, og við Íslendingar komumst ekki hjá því, eins og ég sagði áður, að tengjast bandalaginu á einhvern hátt, annaðhvort með tolla- og viðskiptasamningi eða aukaaðild. Ég mun því að sjálfsögðu halda áfram að ræða vandamálin eins og þau liggja fyrir, en víkja til hliðar Þessum firrum, sem hafa komið fram, að málið sé ekki lengur á dagskrá, eins og hæstv. viðskmrh. orðar það. Og ég mun reyna að rannsaka það spursmál, eftir því sem ég get, með rökum, hvort við eigum að gerast aukaaðilar eða eigum að gera tolla- og viðskiptasamning. við bandalagið.

En áður en ég vík að þessu, vil ég minnast á aðra furðulega vinnuaðferð stjórnarblaðanna í efnahagsbandalagsmálinu. Dag eftir dag undanfarið hefur verið haldið á loft þeirri skröksögu, að vinstri stjórnin eða fulltrúar hennar hafi í Efnahagssamvinnustofnun Evrópu gengizt undir skuldbindingar, sem a.m.k. hafi gengið lengra en þær skuldbindingar, sem ríkisstj. vildi gangast undir, þótt hún gengist inn á það að gerast aukaaðili. Hæstv. núv. viðskmrh. var iðnmrh. í vinstri stjórninni og sá af stjórnarinnar hálfu um viðræðurnar í Efnahagssamvinnustofnuninni, þar sem Ísland hafði og hefur fulltrúa. Tíminn birti nýlega yfirlýsingu, sem fyrrv. iðnmrh. gaf á sínum tíma, og sannar sú yfirlýsing, að sögur Morgunblaðsins um afstöðu vinstri stjórnarinnar eru rakalaus uppspuni. En ég get bætt við þessar yfirlýsingar fyrrv. iðnmrh. Hinn 26. nóv. 1958, rétt áður en vinstri stjórnin sagði af sér, flutti þáv. iðnmrh. skýrsla um þessar margumtöluðu viðræður, sem höfðu átt sér stað um fríverzlunarmálið, og þar segir fyrrv. iðnmrh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Allar viðræður um einstaka þætti samningsins hafa að sjálfsögðu farið þannig fram, að ekkert ríki hefur skuldbundið sig til aðildar að samningnum í heild, þótt það hafi látið í ljós óskir um, hvernig einstakir þættir hans ættu að vera frá þess sjónarmiði. Jafnvel þótt fulltrúar ríkis hefðu samþ. hvert einstakt atriði, sem um hefur verið rætt, út af fyrir sig, þegar það bar á góma, var það jafnfrjálst að því eftir sem áður að samþykkja eða hafna aðild að samningnum í heild.“

Þessi yfirlýsing Gylfa Þ. Gíslasonar ásamt fleirum sannar, svo að ekki verður um deilt, að fulltrúar vinstri stjórnarinnar gengust aldrei undir neinar samþykktir og því síður skuldbindingar í viðræðunum, sem áttu sér stað um þetta leyti. Frásagnir, sem staðhæfa hið gagnstæða, eru vísvitandi ósannindi, sem blöð stjórnarflokkanna ættu að sjá sóma sinn í að hætta að halda fram við þjóðina, enda sýna þessar skröksögur ekkert annað en hugsunarháttinn, sem bak við býr, sem er sá sami sem kom fram í ræðu hæstv. viðskmrh., þegar hann vildi losa sig allt í einu við þetta mál í einni svipan. Stjórnarflokkana grunar, að skoðanir þeirra á efnahagsbandalagsmálinu séu ekki vinsælar með þjóðinni. Það er ekki reynt að verja þær, heldur er að hætti götustráka sagt: Þú ert ekkert betri en ég, þú hafðir líka þessar ljótu skoðanir. — En Gylfi Þ. Gíslason gerði hreint borð, áður en hann fór úr vinstri stjórninni, og hann setti sízt af öllu að vera að reyna sjálfur að káma út þetta borð, sem hann gerði hreint, áður en hann fór.

Ég mun nú taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið, þegar umr. um þetta mál var frestað á fyrra ári.

Málið var lagt fyrir hér á Alþingi af hálfu hæstv. ríkisstj. þannig, að aðild að bandalaginu væri nú loks úr sögunni, hins vegar væru tengsl við bandalagið okkur ómissandi og væri um tvær leiðir að velja, aukaaðild eða tolla- og viðskiptasamninga. Rétt væri að bíða átekta fyrst um sinn, ekki aðeins um gerð samninga, heldur um það, að hverju skuli stefnt. Með þessum tveimur leiðum, sem hæstv. ríkisstj. taldi um að velja, hafa fylgt þær skýringar af hennar hálfu, að með tolla- og viðskiptasamningum við bandalagið mundu Íslendingar fá minni fríðindi, sem mundu kosta okkur minna, en með aukaaðild mundum við Íslendingar hins vegar fá stórum meiri fríðindi, en þau mundu kosta háan aðgangseyri, eins og hæstv. forsrh. orðaði það, eða samninga um viðkvæm mál, eins og hæstv. viðskmrh. sagði. Af skýrslugerð ríkisstj. um þetta mál og umr. hér á Alþingi og í stjórnarblöðum er augljóst orðið, að stjórnin hefur valið aukaaðildarleiðina. Þetta kom engum á óvart, sem þekkir fyrri feril ríkisstj. í málinu öllu. Og ég skal nú rekja lítils háttar sögu málsins og finna orðum mínum stað.

Þegar stjórnarflokkarnir vildu fara sem allra hraðast í bandalagsmálinu, setti Framsfl. fram þá till. að bíða átekta og sæta hentugu tækifæri til þess að ná hagkvæmum samningum. Flokkurinn fagnar því, að þessi hefur orðið niðurstaðan. Hins vegar telur flokkurinn, að þessi bið feli ekki í sér neitt bann við því, nema síður sé, að við gerum okkur sjálfum ljóst, að hverju við munum stefna í samningunum við bandalagið, sérstaklega hverju við ætlum aldrei að afsala okkur í þeim samningum. Sú afstaða, sem talsmenn Framsfl. tóku í þessum umr., átti ekki að koma neinum á óvart. Hún er í samræmi við ályktun aðalfundar miðstjórnar Framsfl. s.l. vetur, sem hefur verið birt í blöðum, þ.e. tolla- og viðskiptasamningsleiðin án frekari tengsla við bandalagið. Samt sem áður hefur mikið af umr. hér á Alþingi og í stjórnarblöðum, síðan þessar umr. hófust, verið þrotlausar árásir á Framsfl. fyrir það, að hann hefur valið aðra leiðina af tveimur, aðra leiðina af þeim, sem hv. stjórnarsinnar segja að um, sé að velja í þessu máli. Afstaða flokksins hefur af hæstv. viðskmrh. verið stimpluð sem óábyrg og neikvæð afstaða, og þar með dæmir viðskmrh, sjálfur úr leik leiðina, sem hann í öðru orðinu taldi koma til greina. Stundum er Framsfl. brigzlað um það að hafa valið þessa leið til að þóknast Alþb. En ég hef sannast að segja hvergi séð eða heyrt ákveðna yfirlýsingu frá Alþb. um, að það vilji fallast á tolla- og viðskiptasamningsleiðina, og væri fróðlegt að fá þá yfirlýsingu skýlausa. Sannleikurinn er sá í þessu máli, að árásirnar á Framsfl. eru ekki fyrir það, að hann hefur markað stefnu, valið aðra leiðina, heldur fyrir það, að hann hefur barizt og berst fyrir stefnu í málinu, sem er andstæð þeirri stefnu, sem stjórnarflokkarnir hafa raunverulega valið og ætla sér að fara eftir kosningar, ef þeir fá valdaaðstöðu til þess.

En stjórnarflokkarnir eru svo heittrúaðir og ákafir í málflutningi sínum, að þeir fá ekki dulið skoðanir sínar. Í frumræðu hæstv. viðskmrh. hnigu öll rök hans að því, að við ættum að velja aukaaðild. Hann segist nú ekkert hafa sagt um þetta og ekki einu sinni hafa sagt, með hvorri aðildinni fengist meira. Hann ætti að endurlesa sínar ræður, þá mun hann komast að þeirri niðurstöðu, að það, sem hann staðhæfði um þetta, er ekkert annað en blekking. Hann talaði fyrir aukaaðildarleiðinni og gegn tolla- og viðskiptasamningsleiðinni. Brást hann reiður við, er framsóknarmenn töluðu fyrir tolla- og viðskiptasamningum. Sama varð upp á teningnum, þegar hæstv. forsrh. flutti hér ræðu, þar sem hann veittist að hv. 7. þm. Reykv. fyrir að mæla með tolla- og viðskiptasamningsleiðinni. Þm. hefur með þessu, sagði ráðh., sýnt Framsóknarsiðgæði og þann skort á menningu að vilja fá allt frá öðrum þjóðum fyrir ekkert og vilja ekki greiða fullan aðgangseyri fyrir þau hlunnindi að tengjast bandalaginu. Og það leyndi sér ekki, hvað hann var að fara, því að á svipstundu talaði ráðh. sig upp í hita fyrir aukaaðild.

Umr. hér á Alþingi og í stjórnarblöðunum hafa tekið þá stefnu, sem stjórnarflokkarnir munu ekki hafa ætlazt til. Það var upplýst, að stjórnarflokkarnir telja aðeins aðra leiðina, aukaaðildarleiðina, koma til greina, hina leiðina vera óábyrga og neikvæða. Þegar hæstv. ríkisstj. skýrði þingheimi frá því í upphafi þessara umr., að hún væri skoðanalaus orðin í stærsta vandamáli þjóðarinnar fyrst um sinn, og yfirlýsing hæstv. viðskmrh. gekk út á það, að hún væri enn þá skoðanalausari núna, kom þetta mönnum á óvart. Menn höfðu almennt gert sér ljóst, að flest hafði þjakað stjórnina meira en skoðanaleysi um, hvaða samninga ætti að gera við Efnahagsbandalagið. Og með því að stjórnarflokkarnir hafa fram á síðustu mánuði verið mjög ósparir á að birta þessar skoðanir, er auðvelt og um leið upplýsandi mjög að rekja sögu málsins, því að þótt umr. um Efnahagsbandalagið hér á Alþingi hafi upplýst mikið um afstöðu flokkanna, verður því ekki neitað, að saga málsins gerir það enn þá betur eða a.m.k. til viðbótar þessum umr. Hinar fáu tilvitnanir af mörgum, sem ég mun að þessu sinni draga fram, hafa þann kost, að þær sýna okkur ljóslega, við hvað ráðh. eiga með hinum háa aðgangseyri og með samningunum um hin viðkvæmu mál, sem er talað um undir rós. En áður en ég vík að þessu nánar, ætla ég að minnast lítils háttar á annað atriði.

Það hefur oft verið vikið að því hér í þessum umr. og raunar í blöðum, að við Eysteinn Jónsson fengum tækifæri til þess að fylgjast með þeim viðræðum, sem ríkisstj. átti við sexveldin um Efnahagsbandalagið. Vegna þessa þykir mér rétt að skýra frá því í heyranda hljóði, hver afstaða mín hefur verið til þessa máls og hvers vegna ég tók þátt í umr. við tvo ráðh. úr ríkisstj. um viðhorf okkar framsóknarmanna til Efnahagsbandalagsins.

Það var snemma sumars 1961, að við framsóknarmenn fengum þá frétt, að hæstv. viðskmrh. hefði farið þess á leit við 14 íslenzk félagasamtök, að þau tilnefndu fulltrúa ríkisstj. til ráðuneytis í sambandi við afstöðu til efnahagsbandalagsmálsins. Félagasamtökin urðu við þessari beiðni. Þau störfuðu fyrst lengi vel með mikilli hægð, en 2. ágúst 1961 kallaði viðskmrh. n. á sinn fund og lagði fyrir hana eftirfarandi spurningu: Teljið þið tímabært, að við Íslendingar fetum í fótspor Breta og Dana og sækjum um inngöngu í Efnahagsbandalagið? Nm. var sagt, að málið þyldi enga bið, að leggja inn umsókn um aðild væri eina leiðin til þess að fá viðræður við Efnahagsbandalagið og fá þar með vitneskju um það, hvaða undanþágur við Íslendingar mundum geta fengið frá Rómarsáttmálanum, ef við gerðumst aðilar. Hins vegar væri áhættulaust að sækja um aðild, því að draga mætti umsóknina til baka, ef skilyrðin yrðu óaðgengileg. Með þessum aðferðum, sem voru vægast sagt mjög villandi fyrir þá, sem spurðir voru, að ekki sé meira sagt, fékkst jákvætt svar frá flestum nm., enda hygg ég, að fáir nm. hafi verið í neinum vafa um skoðun hæstv. viðskmrh. á málinu þá og hann hafi ekki talið það neina höfuðsynd að láta þá skoðun í ljós, þó að ekki megi láta neina skoðun í ljós nú.

Þegar við framsóknarmenn fréttum af þessum vinnubrögðum, ákváðum við að snúa okkur til ríkisstj. og fara þess á leit, að við fengjum tækifæri til að ræða við hana um viðhorf okkar til Efnahagsbandalagsins og gera grein fyrir þeim vinnubrögðum, sem við álitum hyggilegast að viðhafa í málinu. Það hefur að vísu verið svo að segja föst venja, að ríkisstj. tekur ákvarðanir sínar og framkvæmdir án samráðs við stjórnarandstöðuna, en síðan er fundið að af stjórnarandstöðunni eftir atvikum. En við framsóknarmenn álítum, að málsmeðferð í efnahagsbandalagsmálinu ætti að vera, ef unnt væri, undantekning frá þessum vinnuaðferðum. Málið er svo stórt og ákvarðanir, sem í því eru teknar, örlagaríkari fyrir íslenzku þjóðina en flestar aðrar, m.a. vegna þess, að þær eru gerðar fyrir langa framtíð og verða sumar ekki leiðréttar eða aftur teknar. Hæstv. ríkisstj. féllst á að ræða við okkur aðgerðir í efnahagsbandalagsmálinu, og voru af ríkisstj. hálfu tilnefndir til viðræðu við Eystein Jónsson og mig þeir Bjarni Benediktsson dómsmrh. og Gylfi Þ. Gíslason viðskmrh.

Það væri auðvitað óviðeigandi, að ég færi að rekja efni þessara viðræðna, og það verður ekki heldur gert. Ég get aðeins lagt áherzlu á það, sem þegar er fram komið hér á Alþingi og víðar, að við Eysteinn Jónsson lögðum á það áherzlu þegar í fyrstu viðræðunum, að við værum algerlega andvígir aðild og því andvígir umsókn um hana. Fyrir fram væri vitað, að undanþágur frá Rómarsamningnum fengjust engar að ráði. Við reyndum að færa rök fyrir því, að bezt væri að bíða átekta með samningaumleitanir, nota tímann til þess að gera sér sjálfum grein fyrir því, hvað við viljum helzt sjálfir, hverju við vildum aldrei afsala okkur og hverju við ættum að sækjast eftir, og sjá hverju fram yndi síðar um samninga annarra þjóða. Þrátt fyrir þetta fór hæstv. ríkisstj. sínu fram í málinu. Hún sótti að vísu ekki um aðild, hvað sem því hefur valdið, en hún hóf viðræður við stjórn Efnahagsbandalagsins og fulltrúa frá aðildarríkjunum sex, til þess — að hún taldi — að skýra málstað Íslands. Það má vitanlega um það deila, hvort þessar viðræður hafa verið hyggilegar eða hið gagnstæða. Skal ég láta útrætt um það atriði að sinni, enda þegar mikið rökrætt áður.

En ríkisstj. segist nú ekki hafa tekið neina ákvörðun um það, hvaða leið skuli velja í efnahagsbandalagsmálinu, og hefur marglýst yfir, að fulltrúar hennar í nefndum viðræðum hafi aldrei imprað á því hjá Efnahagsbandalaginu, hvað við Íslendingar mundum helzt kjósa, ef til kæmi. En það hefur oltið á ýmsu um yfirlýsingar og stefnur í efnahagsbandalagsmálinu af hálfu stjórnarflokkanna. Viðskmrh. framkallaði jákvætt svar hjá flestum í 14 manna nefndinni um, að við Íslendingar ættum að sækja um aðild. Ég get tekið fram, að það var frá fleiri en Alþýðusambandinu, sem svörin voru neikvæð. Stjórnarblöðin lögðust á þá sveif, að við ættum sem fyrst að sækja um aðild, og eru til endurteknar greinar og leiðarar um þetta atriði. Landsfundur Sjálfstfl. samþykkti aðild. Samband ungra sjálfstæðismanna gerði hið sama. Hæstv. viðskmrh. sagði okkur í langri ræðu hér á Alþingi, að allar þessar samfelldu aðgerðir stöfuðu af þeim misskilningi, að eina leiðin til þess að fá að tala við fulltrúa frá sexveldunum væri að sækja um aðild. Látum þessa afsökun liggja á milli hluta fyrst um sinn. Það, sem meginmáli skiptir, er það, að nú segjast flestir vera algerlega horfnir frá aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu. Og af hálfu ríkisstj. hefur því verið lýst yfir, að aðild sé algerlega hafnað, og er það vonandi lokaákvörðun í málinu: Þróunin í þessa átt hefur verið mjög ákveðin. Gætir þess greinilega í umr. á ráðstefnu Frjálsrar menningar 27. jan., fyrra ár. Aðild á þar að vísu ákveðna fylgismenn og formælendur, en undanhald hjá öðrum er greinilegt.

Það kemur margt eftirtektarvert fram í þessum umr. Einn af ráðh., hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, mætti á þessum fundi og tók þátt í umr. Hann lýsir yfir, að á því séu því miður hverfandi litlar líkur, jafnvel engir möguleikar, að við getum fengið vandamál okkar leyst, ef við gerum tvíhliða samning við Efnahagsbandalagið um viðskiptafrelsi og tollfrelsi, og síðar segir hann orðrétt: „Þessi möguleiki er ekki til að minni skoðun.“ En á þessum fundi lagði hæstv. viðskmrh. áherzlu á að hraða málinu. Og hann spurði með talsverðum alvöruþunga, hvort það sé hyggilegt, eftir að Bretar og Norðmenn byrjuðu þátttöku í umr. um sjávarútvegsmálin við bandalagið, að bíða með að sækja um aðild eða aukaaðild, því að með því eina móti gætum við Íslendingar skapað okkur samningsaðstöðu. Af þessu er þrennt ljóst: Að hæstv. viðskmrh. er 27. jan. f. á. fylgjandi því að hraða málinu sem mest. Að hæstv. viðskmrh. er á sama tíma þeirrar skoðunar að útiloka leið tolla- og viðskiptasamninga við bandalagið. Að hann telur þá, að það, sem um sé að velja, sé aðild eða aukaaðild. í febrúarmánuði 1962 nokkrum dögum eftir áðurnefndan fund, samþykkti Alþfl. á flokksstjórnarfundi, að aukaaðild væri leiðin, sem ætti að velja. Og það lætur að líkum, að slík samþykkt hefur ekki verið gerð nema að undirlagi hæstv. viðskmrh., enda hafði hann haft framsögu um málið áður á almennum flokksfundi.

Nú hefur hæstv. viðskmrh. gefið Alþingi skýrslu og er nú, að því er hann segir, eftirfarandi skoðunar: Aðild að Efnahagsbandalaginu er úr sögunni. Það á að bíða átekta og aukaaðild eða tolla- og viðskiptasamningar eru leiðirnar, sem um er að velja. — Nú á ekki aðeins að bíða með að leita samninga, sem ég er sannarlega samþykkur, heldur að bíða með að gera upp við okkur sjálfa, hvað við viljum í málinu. En hæstv. viðskmrh. hafði naumast lokið við þá setningu í umr. um þetta mál hér á Alþingi, þegar hann færði, eins og ég hef áður sagt, öll rök fyrir því, að aukaaðild væri leiðin, tolla- og viðskiptasamningsleiðin neikvæð og óábyrg. Og þegar talsmenn Framsfl. hér á Alþingi hafa haldið fram hinu gagnstæða, hafa undirtektirnar verið á sama hátt um, að þetta væri neikvæð og óábyrg afstaða. Og undir þetta hafa stjórnarblöðin tekið mjög ákveðið, síðan umr. fóru fram. Ríkisstj. hefur því ekki aðeins útilokað þessa leið, tolla- og viðskiptasamningsleiðina, heldur hefur hún verið óþreytandi í því að færa rök fyrir því einu að semja um aukaaðild, þótt það kostaði samninga um viðkvæm mál og háan aðgangseyri.

Og þá komum við að því, sem er meginkjarni þessa máls: Hver er hann, þessi hái aðgangseyrir, og hver eru þessi viðkvæmu mál, sem þarf að semja um til þess að verða þeirrar náðar aðnjótandi að verða aukaaðili, eins og hæstv. ríkisstj. talar um? Og þá komum við að því, hver eru rökin, sem við framsóknarmenn færum fyrir því, að við tejum aukaaðild óaðgengilega fyrir íslenzku þjóðina samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir hafa legið um skeið, og samkv. þeim upplýsingum, sem ráðh. og einkum sjálfur viðskmrh., sem hefur haft aðalframsögu um þetta mál, hefur staðfest og tekið fram hvað eftir annað, bæði hér á Alþingi og við ýmis tækifæri annars staðar.

Því hefur verið haldið fram og það hefur verið endurtekið hvað eftir annað, að aukaaðild geti orðið 1–99% af skuldbindingum Rómarsamningsins. Hún getur sem sagt verið allt eða ekkert og allt þar á milli. Ég veit ekki, við hvað þessi fullyrðing styðst. En ég hef ekki séð, að hún hafi nokkra stoð í nokkrum ummælum, sem eru höfð eftir valdamönnum í Efnahagsbandalaginu eða aðildarríkjum þess. Hitt er sanni nær, að aukaaðildin hefur hingað til í framkvæmd tekið á sig meira og meira ákveðið form í þá átt að nálgast fulla aðild. Í fyrsta lagi er, eins og oft hefur verið sagt, einn aukaaðildarsamningur til, samningurinn við Grikki, og í honum er gert ráð fyrir alllöngu aðlögunartímabili, en eftir að sá tími er liðinn, er ætlazt til þess, að Grikkir verði fullir aðilar.

Um aukaaðild segir Jóhannes Nordal á fundi Frjálsrar menningar 27. jan. f. á., að ýmislegt bendi til þess, að allt tal um, að aukaaðild verði 1–99%, sé ekki raunverulegt, — orðrétt: Ýmislegt bendir til þess, að sexveldin hafi ákveðið að gera tilteknar lágmarkskröfur til skuldbindingar þeirra ríkja, sem sækja um aukaaðild. — Er þetta greinilega í samræmi við það, sem hæstv. viðskmrh. hefur hvað eftir annað staðfest í umr. hér á Alþingi og umr. á fundum og umr., sem ég kem síðar að.

Í samningum Austurríkis og Svíþjóðar og Svisslendinga um aukaaðild hefur komið í ljós, sem ég veit ekki til að hafi breytzt í seinni tíð, að þessi ríki áskilji sér að mega ganga úr bandalaginu, ef til styrjaldar komi, og mega gera, án þess að lúta reglum bandalagsins, viðskiptasamning við þjóðir utan bandalagsins. En þessi ríki gera ráð fyrir því að verða að lúta reglum bandalagsins um flutning vinnuafls, flutning fjármagns, gagnkvæm réttindi til atvinnurekstrar, sem eru einmitt þær skuldbindingar, sem flestir segjast vera sammála um að séu okkur Íslendingum hættulegastar í Rómarsamningnum.

Í umr. í Stórþinginu norska var rökrætt um það, hver væri munur á aukaaðild eða aðild. Utanrrh. Noregs lýsti því þá yfir, að ef maður kýs þá leið að hefja samninga með aukaaðild að markmiði, verður maður að gera sér ljóst, að í reyndinni, í málefnunum sjálfum, er maður jafnbundinn af ákvörðun bandalagsins eins og um fulla aðild væri að ræða. Á fundi í Verzlunarráði Íslands 11. júlí 1961 sagði hæstv. viðskmrh., að hvort sem við sæktum um fulla aðild eða aukaaðild, — og er það í samræmi við það, sem ég hef áður upplýst og ég hef lesið upp, — hvers konar aðild, sem um yrði að ræða, yrði niðurstaðan þessi, orðrétt: „Hins vegar komumst við ekki hjá að athuga stefnu okkar varðandi réttindi útlendinga til löndunar á fiski og rekstri fiskiðjuvera, ef til aðildar okkar ætti að koma, enda yrði sú stefna, sem nú er fylgt, okkur sjálfum ekki lengur nauðsynleg, ef tryggja mætti með öðrum hætti, að breytingar á henni leiddu ekki til ofveiði við Ísland.“

Afsal þessara réttinda, að við sitjum einir að því að landa hér fiski og reka hér fiskiðnað, er hluti af hinum viðkvæmu málum, sem við þurfum að semja um, ef við gerumst aukaaðilar, samkv. upplýsingum ráðh. sjálfs hér og oft endranær, — upplýsingum, sem koma heim við það, sem aðrar þjóðir upplýsa um aukaaðild.

Í grein, sem Jónas Haralz birti í janúar- og aprílhefti Fjármálatíðinda 1962, ræðir greinarhöfundur um viðhorf okkar til Efnahagsbandalagsins. Hann segir, er hann ræðir um aukaaðildina, hið sama og viðskmrh., að tryggja beri, að hugsanleg þátttaka útlendinga í rekstri fiskvinnslustöðva leiði ekki til ofveiði við Ísland.

Og loks eru hin margumtöluðu ummæli viðskmrh. sjálfs hér á Alþingi, sem hann hefur margendurtekið og við vitum nú, hvað þýða, um hin viðkvæmu mál. Vita nú allir, hvað þau þýða, og er óþarfi og rangt að tala um það sem einhver feimnismál.

Ég hef hér lítillega rakið sögu málsins með tilvitnun til opinberra staðreynda. Þessar staðreyndir ættu að geta sýnt okkur, hvað hér er á seyði. Stjórnendur erlends fisksöluhrings, eins hinna stærri í fiskiðnaði og fisksölu, létu hafa það eftir sér nýlega, að þrátt fyrir allar nýjar aðferðir við geymslu fiskafurða skipti það þó mestu af öllu að ná tangarhaldi á fiskiðjuverum í löndum, sem lægju sem næst hinum auðugustu fiskimiðum. Ef aukaaðildin á að kosta okkur Íslendinga það að breyta stefnu okkar í sjávarútvegsmálum þannig, að við göngumst undir að leyfa erlendum fiskveiðiþjóðum að landa hér fiski og reka hér fiskiðjuver, er að mínu áliti vá fyrir dyrum beinlínis vá fyrir dyrum. Og mér er nær að halda, að þeir séu færri en hæstv. viðskmrh. virðist álíta, sem telja það neikvæða eða óábyrga afstöðu hjá Framsfl. að beita sér gegn því, að slík kollsteypa verði tekin í sjávarútvegsmálum. Tryggingum, sem gefnar eru fyrir því, að ekki yrði um ofveiði að ræða hér við land, treysti ég í engu. Auðhringar hugsa um stundargróða. Þjóðir, sem vilja lifa, verða að hugsa fram í tímann. Ef erlendum auðhringum væri leyft að reka hér fiskiðjuver og auk þess landa hér fiski, sem upplýst er, að aukaaðildin kostar, er líklegt, að hérlendir fiskimenn og útgerðarmenn vöknuðu eftir stuttan tíma upp við þann óhugnanlega raunveruleika, að auðhringarnir hefðu náð hér kverkataki á fiskiðnaðinum, og þeir hefðu ekki í önnur hús að venda en til þeirra að selja meginið af sínum fiski. Og hver skammtar þá verðið nema hinir erlendu, auðhringar sjálfir?

Okkur Íslendingum er vorkunnarlaust að forðast þennan háska, ef við höfum aðeins opin augun, því að það eru til nóg fordæmi um það og flest á einn veg, hvernig þeim þjóðum hefur vegnað, sem hafa látið erlenda auðhringa ná tangarhaldi á höfuðatvinnugreinum sínum. Hitt verðum við að gera okkur jafnljóst, að í Efnahagsbandalaginu eru þjóðir, sem við viljum hafa og höfum haft menningarleg og viðskiptaleg tengsl við. Við verðum að stefna að því ákveðið, að það gerist að leiðum tolla- og viðskiptasamninga, og aldrei er þetta ljósara en einmitt nú. Mér er fyllilega ljóst, að á þessari leið eru erfiðleikar og annmarkar vegna GATT-samninganna. Þeir erfiðleikar hafa verið dregnir fram rækilega í ræðum hæstv. viðskmrh. hér á Alþingi og víðar. En þar sem viljinn er til staðar, þar eru möguleikar einnig fyrir leiðir. Við höfum alveg einstaka sérstöðu. Við höfum aðeins eina framleiðslugrein, sjávarútveg, til þess að afla erlends gjaldeyris fyrir, og svo að segja allt, sem við þurfum að kaupa, er erlendis frá. Lykilaðstöðu í þeirri framleiðslu, rétt til að reka hér fiskiðjuver og landa hér fiski, getum við ekki afhent erlendum auðhringum, hvorki fyrir aukaaðild né nokkurn hlut annan. Allir sanngjarnir og velviljaðir menn hljóta að fallast á það, að slíkt, gæti orðið fljótfær leið til fjárhagslegs ósjálfstæðis þjóðarinnar. Ég hef þá trú á sanngirni þeirra þjóða, sem við eigum við að semja, að þær muni fallast á sjónarmið okkar. En okkur má ekki gleymast það, að þeir fulltrúar erlendra þjóða, sem við þurfum að semja við um tengsl okkar við Efnahagsbandalagið, reyna auðvitað að ná þeim samningum, sem þeir telja hagkvæmasta fyrir sínar þjóðir. Og eitt er víst, að þeir munu að lokum koma sínu fram, ef við erum hikandi og óákveðnir í því, hverju við ætlum aldrei að afsala okkur.

Þegar hæstv. viðskmrh. færði rök að því hér á Alþingi og víðar, að við Íslendingar gætum með engu móti komizt hjá að tengjast Efnahagsbandalaginu, og segir hér á Alþingi af hálfu ríkisstj., að aðeins sé um tvær leiðir fyrir Ísland að velja, tolla- og viðskiptasamninga eða aukaaðild, þá hlusta erlendir auðhringar með athygli. Það fer ekki fram hjá þeim, að ráðh. lýsir því yfir, að hann geri sér ljóst, að aukaaðildin kosti samninga um viðkvæm mál, þ.e.a.s. að breyta stefnunni í sjávarútvegsmálum þannig, að erlendar þjóðir fái að landa hér fiski og reka hér fiskiðjuver. Með þessu er búið að gefa upp boltann fyrir þá, sem, við okkur semja af hálfu erlendra fiskveiðiþjóða, eins þægilega og þær geta kosið sér bezt. Þeir þurfa ekki annað að gera en að loka tolla- og viðskiptasamningsleiðinni með öllu, þá telja þeir okkur samkv. eigin yfirlýsingu ríkisstj. neydda til að gerast aukaaðilar með þeim kostum, sem lýst hefur verið að verði að sæta. Flestir hljóta að sjá, að með þessu er málinu teflt í slæma taflstöðu. Við eigum einmitt nú þegar að lýsa yfir því, að við afsölum okkur aldrei þeim rétti, sem viðskmrh. hefur rætt um og fitlað við, að við kynnum að þurfa að afhenda og afsala okkur. Og við munum þá fremur kjósa að standa utan bandalagsins heldur en gangast undir slík réttindaafsöl. En við eigum jafnákveðið að segja: Við viljum tengjast bandalaginu með viðskipta- og tollasamningum. — Og ef við gerum þetta, ef við höldum fast á okkar máli, er ég sannfærður um, að við fáum þá samninga við Efnahagsbandalagið, sem við getum við unað.