13.02.1963
Sameinað þing: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

Efnahagsbandalagsmálið

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal játa, að stundum, þegar ég hef hlustað á umr. hér á Alþingi að undanförnu, bæði á fyrri stigum þessara umr. um Efnahagsbandalagið og eins sumar þær almennu stjórnmálaumr., sem hér hafa orðið af ýmsu tilefni, t.d. um frv. hv. 3. þm. Reykv. um áætlunarráð, þá hefur mig nokkuð furðað á þeim hugsunarhætti, sem hefur komið fram hjá sumum hv. þm. og ekki sízt hv. Framsóknarflokksmönnum. Það er eins og þeir lifi í sínum eigin hugarheimi. Þeir búa til nýja Íslandssögu, þeir snúa við staðreyndum, hagræða öðrum, laga allt í hendi sér eins og þeim hentar í málflutningi þá og þá. Þetta er að ýmsu leyti skoplegt, má segja, og að sumu leyti hlýtur maður að vorkenna þeim þm., sem þannig fara að. En það er einnig hörmulegt, vegna þess að þetta eru greindir menn í sjálfu sér og áhrifamiklir menn, sem gera það tvennt með þessum málflutningi, að þeir — og það er þeirra tilgangur fyrst og fremst — eru að reyna að blekkja aðra til þess að fá þá til fylgis við sig um sinn og tekst það öðru hverju, eins og gengur, en þeir eru einnig og ekki síður að blekkja sjálfa sig með því að skapa sér þennan hugarheim, með því að búa til nýja sögu, með því að telja sjálfum sér og reyna að telja öðrum trú um, að ástandið í landinu og þeirra umhverfi sé með allt öðrum hætti en það raunverulega er.

Í þessum ímyndunarheimi, sem þessir hv. þm. þannig skapa sjálfum sér, felst m.a. skýringin á því, hvernig stendur á því, að jafngreindir og að sumu leyti skarpskyggnir stjórnmálamenn eins og hv. 2. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Austf. hafa gert þær höfuðstjórnmálaskyssur, sem þeir hafa gert sig seka um. Ég hygg, að enginn deili nú lengur um það, að einhver mesta skyssa, sem gerð hafi verið frá flokkslegu sjónarmiði Framsóknar, sé rof hv. 2. þm. Vestf. á samvinnu Sjálfstfl. og Framsóknar á árunum 1955 og 1956. Þetta var gert, eins og allir vissu þá, sumpart að hv. 1. þm. Austf. núv. nauðugum, þó að þeir að lokum yrðu um þetta ásáttir. Þetta var gert í því skyni að reyna að efla og tryggja völd Framsfl. En niðurstaðan af þessu varð sú, að kjördæmabreyting átti sér stað þvert ofan í vilja þessa flokks og að Framsfl. hefur nú frá árinu 1958 verið einangraður í íslenzkum stjórnmálum. Það er vegna þess, sem ég segi, að þetta varð, að þessir hv. þm. töldu ástandið í landinu vera allt öðruvísi en það í raun og veru var. Þeir voru farnir að trúa sínum eigin skröksögum og byggðu á þeim ímyndunum, sem þeir ætluðu öðrum, sem óhagganlegum staðreyndum, sem áttu að vera undirstaða spilaborgarinnar, sem síðan hefur svo illilega hrunið sem endanlega varð með slitum vinstri stjórnarinnar seint á árinu 1958.

Nú er það að vísu ærið umhugsunarefni, að svo reyndir eins og ég segi og að sumu leyti skarpskyggnir stjórnmálamenn eins og þessir skuli koma þannig fram í íslenzkum stjórnmálum, okkar innanlandsdeilum. Það má segja, að það geri minna til, og þó að þeir hafi mörgu illu áorkað í íslenzku stjórnmálalífi með þessari sinni hegðun, þá hefur þetta að sumu leyti orðið til góðs, eins og meginþorri þjóðarinnar nú viðurkennir, að það er öllum til heilla og einnig hollur lærdómur fyrir Framsfl. að vera í þeim skammarkrók, sem hann nú er og hefur verið undanfarin ár. En enn þá verra og þjóðinni hættulegra er, þegar þessir hv. þm, ekki aðeins leika sér þannig um staðreyndir í innanlandsmálum, heldur einnig í utanríkismálum þjóðarinnar, og ekki aðeins í utanríkismálum Íslendinga, heldur í túlkun og frásögn af alþjóðamálum, af þeim atburðum, sem við Íslendingar getum í raun og veru mjög lítil áhrif haft á, en verðum þó mjög að hegða okkur eftir, hverja framvindu hafa. Einn orðheppinn ritstjóri lýsti þessari framkomu hv. framsóknarmanna einu sinni á þann veg, að það væri eins og það yrði alltaf mjög ófriðvænlegt í heiminum, ef Framsfl. kæmi í ríkisstj., en drægi jafnskjótt til sátta milli stórveldanna, — ef Framsfl. hyrfi úr stjórn á Íslandi. Þessi lýsing kom af hringsnúningi þessa hv. flokks í varnarmálunum, að þessir hv. forustumenn í íslenzkum stjórnmálum hafa látið sér sæma að mistúlka staðreyndir alþjóðlegra atburða algerlega eftir því, sem þeim hefur hentað eftir innanlands stjórnmálatogstreitu hverju sinni. Þegar þeir hafa verið í ríkisstj., hafa þeir oft tekið ábyrga afstöðu í þessum málum, komið fram eins og góðir og skynsamir menn, — og eins og partur af þeim er. Enginn maður er alillur né algóður, það á við þá eins og aðra. Í þeim leynist betri maður en þeir vilja stundum láta aðra halda. Þess vegna hafa þeir komið skynsamlega fram í varnarmálunum öðru hverju, en einungis þegar þeir hafa verið í ríkisstj. Þegar þeir hafa verið utan stjórnar eða hafa verið að búa sig undir að hlaupa úr ríkisstj., hafa þeir hins vegar ætíð þótzt ætla að verða það, sem þeir kalla vinstri menn, og þess vegna verið að reyna að leika á einhverja, sem þeir kalla vinstri kjósendur, reyna að leiða þá til fylgis. við sig. Þá hefur komið upp þessi skoðun, að ekki þyrfti á vörnum að halda á Íslandi, vegna þess að heimurinn væri svo friðvænlegur, meðan þeir sjálfir væru ekki í stjórn á Íslandi.

Þetta er leikur, sem menn eru búnir að horfa á nú í mörg ár, og það getur út af fyrir sig engum komið á óvart, þótt sömu aðferð eigi nú að beita í þessu mikla vandamáli, sem hér um ræðir. Og framsóknarmenn telja sig auðsjáanlega hafa þeim mun ríkari ástæðu til þess að bregða á þennan leik nú, þar sem þeir hafa sannfærzt um, að ásökunarefni þeirra gegn núv. ríkisstj. út af innanlandsmálum eru haldlaus. Þeir hafa að vísu tekið þar mjög sterklega til orða, en svo sterklega, strax og stjórnin var mynduð, að síðan hafa staðreyndirnar afsannað flest af því, sem þeir þá héldu fram, þannig að það, sem þeir þá mæltu í fullri alvöru, sbr. snilliyrði vinar míns hér til hægri um „móðuharðindi af mannavöldum“, snilliyrði hv. 2. þm. Vestf, um, að hér yrði á 4. eða 5. þúsund manns atvinnulausir eftir skamma stund, ef stefnu núv. stjórnar væri fylgt, eru ummæli, sem þeir, er viðhöfðu, vilja nú láta gleymast, en við höfum þeim mun meiri ánægju af að minna þá á, af því að þeir hafa svo mjög ofmælt í innanlandsdeilunum.

Auðvitað er sitt hvað hægt að finna að þessari stjórn eins og öllum öðrum og það er hægt að benda á, að sumt hafi tekizt miður en skyldi, að sjálfsögðu. En hv. framsóknarmenn, svo þaulreyndir áróðursmenn og greindir sem þeir eru, finna sjálfir, að þeir hafa í þessu svo mjög ofmælt áður fyrr, allar skammirnar, sem þeir nú treysta sér til að fenginni reynslu þeirra sjálfra og þjóðarinnar af okkar stjórnarstefnu, eru aðeins eins og svipur hjá sjón miðað við það, sem þeir voru búnir að segja fyrir að verða mundi. Þess vegna reyna þeir að komast frá þessum vígvelli og skapa sér einhver önnur deilumál, búa til einhverja nýja grýlu, að reyna að telja mönnum trú um, að það sé einhver nýr alvarlegur ágreiningur, sem upp sé kominn og þjóðinni hljóti að skipta í mismunandi fylkingar, hvað sem öllum öðrum fyrri deilum líður.

Þetta varð mjög ljóst af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði í ræðu sinni áðan. Ég get út af fyrir sig tekið undir margar hans aðvaranir gegn þeim hættum, sem fylgja því að ganga í Efnahagsbandalagið. Mér hefur ætíð verið ljóst, að þar var ekki um vinninginn einan að ræða, heldur væri þar um mjög mikið vandamál að tefla, þar sem við yrðum að fara mjög varlega að. Og ég vil nú biðja hv. þm., sem hafa hlustað á aðvörunarorð hv. 2. þm. Vestf. með þeim hnífilyrðum, sem þeim fylgdu í garð ríkisstj., og fullyrðingum hans um algerlega gagnstæða stefnu ríkisstj. við það, sem hann heldur fram, þá vil ég biðja þingheim að hlusta á það, sem ég sagði um þessi efni í ræðu, er ég hélt snemma í okt. 1961, með leyfi hæstv. forseta. Þá sagði ég m.a.:

„Í Rómarsamningnum, stofnskrá bandalagsins, eru ýmis ákvæði, sem eru skynsamleg frá sjónarmiði þeirra þjóða, sem búa í þéttbýlum, fullnýttum löndum, en skapa mikinn vanda fyrir fámenna þjóð, sem lifir í stóru, lítt nýttu landi. Af þeim sökum getur skilyrðislaus aðild Íslands að þessu bandalagi ekki komið til mála, og hætt er við, að skilyrðin verði svo mörg og skapi slíkt fordæmi, að aðrir aðilar eigi erfitt með að una þeim.“

Síðar segi ég:

„Hér ríður mjög á, að rétt sé á haldið og aflað sé skilnings á sérstöðu okkar, þannig að við komumst í eitthvert það samstarf eða samband við þetta bandalag, að hagsmunir okkar verði ekki fyrir borð bornir. Enn er of snemmt að segja, með hverjum hætti þetta verður bezt gert, meira að segja hvort það er yfirleitt framkvæmanlegt. Til þess að það verði kannað, verður vafalaust fyrr eða síðar, þegar tímabært þykir, að taka upp samninga við bandalagið. Vil ég um það segja það eitt, að jafnfráleitt væri að hafna umleitunum fyrir fram eins og að fullyrða, að það mundi leiða til aðgengilegrar lausnar. Hyggilegast verður að fylgjast náið með athugunum og samningum annarra og meta eftir framvindu þeirra, hvenær tímabært sé að kanna til úrslita, hvort við getum fengið aðgengileg kjör.“

Þetta sagði ég strax við upphaf málsmeðferðar í október 1961, og ég spyr og skýt því undir dóm þeirra, sem á mál okkar hlýða: Hvað var það í aðvörunum hv. 2. þm. Vestf., sem ég hafði ekki, að vísu í styttra máli, bent á í þeim fyrstu orðum, sem ég talaði um þetta mál? Ég talaði þá á landsfundi sjálfstæðismanna og gegndi um leið stöðu forsætisráðherra og talaði í nafni ríkisstjórnarinnar að því leyti.

Hér er auðsjáanlega verið að búa til ágreining. Það er verið að vitna til ýmiss konar ummæla, sem hafa átt sér stað í löngum umr. um þetta mál, þar sem menn hafa varpað fram mörgum möguleikum og reynt að gera sér grein fyrir, hverjir kostir og lestir fylgdu hverju um sig. Út af fyrir sig væri það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að málin hefðu mjög skýrzt fyrir mönnum við allar þessar umr. og þær umfangsmiklu athuganir, sem hafa átt sér stað. En á hitt vil ég leggja áherzlu, að þær umr. og athuganir af hálfu ríkisstj. hafa ætíð verið gerðar í þeim anda, sem ég lýsti í þessum ummælum mínum í okt. 1961. Þegar t.d. hv. 2. þm. Vestf. vitnar til þess, að hæstv. viðskmrh. hafi á fundi hjá Frjálsri menningu — hygg ég, að það hafi verið — sagt, að það væri ekki viðunandi lausn hægt að fá með tolla- og viðskiptasamningi við þetta bandalag, þá hygg ég, að það hafi komið skýrt fram hjá hæstv. viðskmrh., að hann benti á, að það væri ekki hægt að gera einhliða tolla- og viðskiptasamning, heldur yrði slíkur samningur að vera á grundvelli GATTs, þ.e.a.s. allsherjarsamningur, sem öllum öðrum kæmi að sama gagni eins og okkur. Og það er þessi ágalli á viðskipta- og tollasamningsleiðinni, sem er svo mikill, að við hljótum að íhuga og hafa íhugað, hvort ekki væri hægt að komast fram hjá honum — að vísu er ekki á það reynt — e.t.v. með aukaaðild.

Hv. 2. þm. Vestf. segir, að af ríkisstj. hálfu og sérstaklega hæstv. viðskmrh. hafi boltanum verið kastað upp til okkar viðsemjenda með þeim hætti, að það væri ljóst, að við yrðum að ganga inn á þá aukaaðild, sem þeir féllust á, vegna þess að við segjum sjálfir fyrir fram, að viðskipta- og tollasamningur sé ekki viðhlítandi. Þetta kemur þvert ofan í yfirlýsta stefnu ríkisstj. Við segjum einungis: Það er enn ókannað, hvor leiðin yrði okkur hagkvæmari, ef á þetta reyndi. — Og við segjum jafnframt, eins og ég sagði strax í okt. 1961: Það er enn ósýnt, hvort hægt er að ná nokkrum þeim samningum, að við getum gerzt aðilar að þessu bandalagi. — Þetta var þá þegar sú niðurstaða, sem ég komst að og hv. 2. þm. Vestf. er nú að segja sem einhverja sína eigin uppgötun, andstæða stefnu ríkisstj. Ég vildi óska, að hann lærði jafnvel af mér í öllu eins og hann hefur gert í þessum efnum, þá væri betur fyrir honum komið en er.

En það er annar hv. þm. hér inni, sem hefur gefið yfirlýsingu, sem gerir það að verkum, að þar var vissulega kastað upp boltanum til okkar viðsemjenda í þessum málum. Það er hv. 7. þm. Reykv. Hann sagði eitt sinn við þessar umr., að það væri óhjákvæmilegt fyrir okkur að gerast aðili að þessu bandalagi með einum eða öðrum hætti og a.m.k. með tolla- og viðskiptasamningi, tengsl okkar við bandalagið væru óhjákvæmileg. Þetta var efni málsins, ég get gáð að tilvitnuninni, ef hún er vefengd, en þetta var efni málsins. Með því að gefa slíka yfirlýsingu, að tengsl okkar við bandalagið séu óhjákvæmileg, þá er vissulega verið að ofurselja sig okkar viðsemjendum. Ef nokkrir hafa talað af sér í þessu máli, þá eru það þeir menn, sem tala eins og hv. 7. þm. Reykv., sem er þarna að reyna að búa sér árásarefni á ríkisstj., en hans betri maður gægist fram, svo að hann er ekki alveg eins ósanngjarn og hann vill vera láta og segir frá meira en hyggilegt er og heldur en hann nú vill við standa.

En hvernig lízt mönnum á þá tilvitnun hv. 2. þm. Vestf., þegar hann fullyrðir, að landsfundur sjálfstæðismanna hafi viljað eða samþykkt aðild Íslands að þessu bandalagi, því að hvernig hljóðar þessi samþykkt, sem hann þarna vitnar til, í raun og veru, með leyfi hæstv. forseta? Þar segir:

„Þjóðir Vestur-Evrópu, sem Íslendingar hafa frá fornu fari haft mest og bezt viðskipti við, efla nú mjög samvinnu sína í efnahagsmálum, og er Íslandi brýn nauðsyn á að slitna ekki úr tengslum við þá þróun. Þess vegna ber okkur að leitast við að tryggja aðild okkar að Efnahagsbandalagi Evrópu án þess að undirgangast samningsákvæði, sem hér geta með engu móti átt við.“

Það er gengið út frá eða sagt berum orðum í þessari ályktun, að í Rómarsáttmálanum séu slík samningsákvæði, að þau geti hér með engu móti átt við, og ef á að setja okkur þau skilyrði, þá felst í þessari ályktun, að landsfundurinn telji, að úr aðild eigi ekki að verða. Þetta sér hver maður, sem þessa ályktun les. Svo segir hv. 2. þm. Vestf. með viðeigandi skýringum, að við höfum viljað binda Íslendinga að óathuguðu máli, að við höfum samþykkt aðild, þegar samþykktin, sem gerð er, hljóðar á þann veg, sem ég hef nú lesið upp. Slíkur málflutningur er engum til góðs, og eins og ég segi: Þið hv. framsóknarmenn, það getur vel verið, að þið hafið trú á því, að þið getið blekkt einhverja af kjósendum um dálítinn tíma með slíkum málflutningi, þá, sem ekki lesa annað en Tímann. Það getur vel verið, að þið getið með því náð því, sem þið nú auðsjáanlega ætlizt til, að afla vinstri atkvæða til þess að semja við Sjálfstfl. um að koma með honum í stjórn eftir kosningar. Það getur vel verið, að þið getið með þessu fengið því áorkað, úr því að þið teljið það nú orðið vera þá mestu gæfu, sem þið tölduð hina mestu ógæfu 1955. Ég vonast til þess, að það verði maklegur hrís á ykkur, ef þið komið í stjórn með okkur aftur.

En það versta er í þessu, að jafnvel þótt þið getið um sinn blekkt einhverja með slíkum málflutningi, þá blekkið þið mest ykkur sjálfa. Þó að aðrir haldi meira upp á framsóknarmenn en ég, vegna þess að þeir þekkja þá minna, þá segi ég, að forustumenn Framsóknar eru allt of glöggir og ég vil segja eigingjarnir menn einnig til þess að halda áfram þessum skollaleik, að halda áfram að búa sér til einhvern ímyndaðan heim og halda, að þeir með því að fullyrða eitthvað þvert ofan í staðreyndir geti lagað heiminn eftir því, sem þeir telja sér henta þá og þá stundina. Hv. 2. þm. Vestf. lét t.d. svo áðan, að það væri eins konar kosningablekking hjá ríkisstj. að skrökva því nú upp, að nýtt viðhorf hefði skapazt varðandi Efnahagsbandalagið. Hér var útbýtt í þingsalnum í gær riti, „Nordisk kontakt“, þar sem einhver af dönskum stjórnmálamönnum, framámönnum, skrifar um þetta mál í kaflanum um Danmörk. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp dálítinn kafla af því, sem þar stendur. Það er áreiðanlega ekki samið með hagsmuni íslenzku ríkisstj. fyrir augum. Greinin heitir „Alveg óyfirsjáanleg aðstaða“ — eða: „Það er ómögulegt að sjá, hvað fram undan er.“ Upphafið hljóðar svo:

„Stundum kemur fyrir, að jafnvel þeir stjórnmálamenn, sem bezt fylgjast með, hljóta að stanza og viðurkenna, að það sé ekki hægt að sjá fyrir atburðanna rás. Margir í Kristjánsborg hlutu að draga þessa ályktun eftir sprengingu samninganna í Brüssel og næstu daga á eftir. Það var alveg ófyrirsjáanleg aðstaða, sem menn stóðu frammi fyrir. Á aðra hlið greindu menn vonina um, að sú staðreynd, sem fylgdi hinu athyglisverða skrefi franska forsetans, gæti ekki verið síðasti atburður í viðleitninni til að koma Vestur-Evrópu í viðskiptalega heild með miklum stjórnmálaframtíðarvonum. Á hina hliðina kom tilfinning vanmáttar fyrir hinum kalda raunveruleika staðreyndanna.“

Þetta segir í þessu danska riti. Þeir segjast að vísu vona, að eitthvað kunni úr þessu að rætast, en þeir játa, að þeir standi sem máttlausir fyrir hinni köldu staðreynd, sem raunveruleikinn í þessum efnum er í þeirra augum. Svona er skrifað um þetta mál um allan heim. Það viðurkenna allir, að algerlega ný viðhorf hafa skapazt í þessum efnum. Sumum líkar það betur, öðrum líkar það verr. Það má vel vera, að það sé dálítið til í því, sem hv. 2. þm. Vestf. segir, að ýmsum mönnum hér á landi þyki þessi framvinda hlutanna okkur ekki eins ískyggileg og ýmsum öðrum. Ég minnist þess, að þegar hæstv. forsrh. fyrst talaði í þessum umr., þá var meginefni ræðu hans, að við skyldum átta okkur á, að hér væru fram undan þeir atburðir, að enginn kostur væri okkur góður, og að dyrnar inn í þetta fyrirhugaða bandalag mundu verða okkur þrengri og hættusamari en ýmsir virtust álíta.

Við erum margir, sem höfum að vísu viðurkennt, að þetta væri eðlileg heildarþróun í heiminum. En við höfum ekki fagnað því, að Ísland þyrfti að taka afstöðu til þessara atburða, ekki vegna þess, að við ætluðum að hliðra okkur hjá að taka þær ákvarðanir, sem við á hverjum tíma teldum skyldu okkar að gera sem umboðsmenn okkar þjóðar, heldur af því, að við viðurkenndum, að eins og horfði virtist enginn kostur góður fyrir þjóðina. Hæstv. forsrh. beinlínis ávítaði það ábyrgðarleysi hv. framsóknarmanna að reyna að telja mönnum trú um, að við gætum lagað það í hendi okkar, hverjar viðtökur við fengjum hjá öðrum, og að annarra góðvild mundi nægja til þess að leysa okkur úr öllum vanda.

Er þetta nú ekki einmitt komið á daginn? Halda menn, að vinátta — við skulum segja jafnágætrar þjóðar og Frakka, við skulum nefna Ítali, — að vinátta þeirra þjóða til Íslendinga standi dýpra en t.d. þakklæti frönsku þjóðarinnar til Breta? Halda menn, að það yrði frekar gert eitthvað fyrir okkur fyrir ekki neitt heldur en de Gaulle vill taka upp fullkomna samvinnu við sína gömlu vopnabræður í Bretlandi?

Hér er vissulega mikið vandamál á ferðum og hefur verið, — vandamál, sem er í raun og veru miklu alvarlegra en svo, að það sé sæmilegt að viðhafa í því þau vinnubrögð, þá áróðursaðferð, sem Framsfl. ætlaði sér og ætlar að reyna að hafa. Þess vegna skulum við viðurkenna það, að alveg eins og Danir telja beina þjóðarógæfu fyrir sig það, sem skeð hefur í Brüssel, og framkomu de Gaulle, þá skulum við — alveg eins og kom fram hjá hæstv. viðskmrh. — viðurkenna, að málið horfir allt öðruvísi við fyrir okkur Íslendinga. Ef þessi stóra efnahagslega heild hefði verið mynduð í Evrópu, þá verð ég að viðurkenna, þótt það sé ofmælt hjá hv. 7. þm. Reykv. að segja, að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur að tengjast henni, þá mundi það vera mjög alvarlegt mál, ef við værum útilokaðir frá henni. Það er hins vegar engan veginn eins alvarlegt mál fyrir okkur, þó að þetta klofni í tvennt og við höfum þarna við fleiri aðila að etja. Við höfum enga ástæðu til þess að ætla, að EFTA-löndin t.d. hindri okkur með tollmúrum á hinn sama veg eins og vitað var, að gert hefði verið varðandi Efnahagsbandalagið, ef það hefði orðið eins stórt og að var stefnt og við ekki náð við það neinum tengslum. Málin horfa því í þessu tilfelli töluvert öðruvísi við fyrir Íslendinga.

Við getum sagt, að þetta er hryggileg framvinda í alþjóðamálum, eftir því, hvort við viljum, að vesturveldin standi saman, efli sín samtök, eða ekki. Um það geta verið skiptar skoðanir miðað við þetta. En Ísland þarf út af fyrir sig ekki svo mjög að harma, þó að þessi atburðanna rás hafi orðið. Þarna er í raun og veru vikið frá okkur miklum vanda: Ég vil ekki segja, að við eigum að hætta að hugsa um, hvernig við eigum að bregðast við þeim vanda, ef hann skapast aftur. Við eigum sízt að hætta að hugsa um það, það er svo alvarlegt mál. En við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir, að ótímabærar yfirlýsingar um það, hvernig við ætlum að bregðast við því vandamáli, ættum við að hafa lært af því, sem gerzt hefur, að hætta að gefa. Við höfum sáralítil, ég vil segja: engin áhrif á framvindu hlutanna í þessu.

Ég vil hins vegar lýsa því sem minni skoðun, það getur vel verið, að hún reynist röng, en það er mín skoðun og það er rétt, að hún komi hér fram, að þó að maður hlusti á yfirlýsingu Adenauers um, að það eigi að taka þetta mál upp aftur til umr. í hinu nýja samráði Frakka og Þjóðverja og de Gaulle hafi lofað honum því, þá hef ég ekki ýkjamikla trú á því, að málið leysist á þeim vettvangi skjótlega. Það má vel vera, að þá sé meira til í því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði, að þetta mál leysist, þegar gömlu mennirnir svokölluðu, de Gaulle og Adenauer, eru báðir úr sögunni. Adenauer er nú 87 ára, og ef de Gaulle verður jafnlengi við völd, eru 15 ár þangað til. En látum það vera. Ég tel það ákaflega ósennilegt, þó að samvinna Vestur-Evrópu verði ekki stöðvuð, að það verði byrjað aftur þar, sem frá var horfið. Ég tel, að þeir atburðir hafi gerzt, svo alvarlegir, sem sýni svo djúpstæðan ágreining, ekki einungis milli de Gaulle, heldur frönsku þjóðarinnar og annarra, að vestræn samvinna muni fara í annað horf en áður var fyrirhugað. Ég þykist ekki vera neinn spámaður, en ég á erfitt með að sjá, hvernig slíkir atburðir, sem nú hafa gerzt, geta látið vera að skilja eftir djúp og varanleg spor í hugum þjóðanna. Við vitum sjálfir, að það er ekki einungis, að þarna komi til, hvort Frakkar vilji breyta til. Við vitum einnig, að það mátti mjóu muna og vissi enginn, hvort þetta blessað bandalag fengi meiri hl. hjá brezku þjóðinni. Og hyggja menn, að það verði auðveldara að koma þessum tveimur þjóðum saman eftir þessa atburði, sem vitanlega eru afleiðing langrar atburðarásar og hulinna ástæðna fyrir öllum fjöldanum, þó að þær hafi verið lengi að gerja um sig?

Allt þetta hlýtur að leiða til þess að mínu viti, að atburðirnir taki aðra stefnu og með einhverjum öðrum hætti verði leyst úr þessum vanda en menn áður ætluðu. Það er athyglisvert, að nú eftir það, sem gerzt hefur, leggur Kennedy Bandaríkjaforseti meiri áherzlu en nokkru sinni áður á samvinnu allra Atlantshafsþjóðanna, sem svo eru kallaðar. Það er ljóst, að stuðningur Þjóðverja, ef hann er fyrir hendi, við Breta, kemur ekki af sérstakri vináttu Þjóðverja og Breta, heldur af því, að Þjóðverjar gera sér grein fyrir, að án verndar og þátttöku Bandaríkjanna er Vestur-Evrópa töpuð. Þess vegna er það a.m.k. engan veginn óhugsandi, að þannig kunni málin að snúast, eins og hæstv. viðskmrh, einnig vék að í sinni ræðu, að fitjað verði upp á nýjan leik með tilvísun og á grundvelli þeirra tollalaga eða viðskiptalaga, sem Kennedy Bandaríkjaforseti fékk samþykkt á síðasta þingi.

Við skulum játa hreinlega, að enginn okkar sér fyrir í dag, hverja framvindu hlutirnir muni fá. Við skulum viðurkenna, að okkur ber skylda til þess að fylgjast með og gæta þess eftir föngum að verða eins viðbúnir og við framast getum verið, svo að okkar hagsmunum verði ekki gleymt í þeim endanlegu samningum, sem gerðir verða. En við skulum ekki halda, að jafnvel þó að kosningar séu fyrir dyrum á Íslandi, þá geti Framsfl. stöðvað hjól sögunnar og sagt, að það sé ekkert að marka, hvað óþokkinn hann de Gaulle hafi gert.