06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

Efnahagsbandalagsmálið

Jón Skaftason:

Herra forseti. Síðan ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli í enda nóvember eða í byrjun desember, hafa stórir atburðir gerzt í því. Á ég þar við þau endalok, sem skyndilega urðu í samningaviðræðum Breta og EBE-landanna hins vegar og hvarvetna vöktu mikla athygli og komu flestum á óvart. Það var með dálítið skrýtnum hætti, sem hæstv. ríkisstj. og blaðakostur hennar brást við þessum tíðindum. Þau þóttust að vísu og þá sérstaklega hæstv. viðskmrh. harma þessi endalok, en þó leyndi sér ekki ánægja þeirra yfir því, að de Gaulle hefði með þeirri framkomu, er hann sýndi í samningum þessum, hjálpað þeim til að fela mál, sem þeir vildu mjög gjarnan hafa rólegt um og helzt ræða sem minnst í þeim kosningum, sem fram undan eru: Hvernig stendur á þessu? Skýringin hlýtur að vera sú, að hæstv. ríkisstj. finni sjálf inni á sér, að málsmeðferð hennar og stefna - eða ætti ég heldur kannske að segja stefnuleysi — sé ekki allt of vinsælt hjá þjóðinni. Ég er ekki í vafa um, að samningar milli efnahagsbandalagsþjóðanna og Breta verða teknir upp fljótlega á ný og að yfirgnæfandi líkur eru til þess, að einhvers konar samningar náist þar á milli og í kjölfar Breta fylgi fleiri þjóðir. Efnahagsbandalagsmálið er því sannarlega enn þá mjög á dagskrá, og ég tel það mikilvægara en flest annað fyrir Íslendinga að gera sér vel grein fyrir þeim vanda, sem það hefur skapað okkur, og hvernig við honum eigi að bregðast. Ég tel enn fremur, að stjórnmálaflokkunum beri siðferðileg skylda einmitt í komandi kosningabaráttu til þess að tjá stefnu sína og afstöðu til málsins skýrt fyrir kjósendum, því að mjög miklar líkur má telja til þess, að einmitt sú ríkisstj., sem tekur við á næsta kjörtímabili, fái það hlutverk að semja um tengsl okkar við Efnahagsbandalagið, hvort sem þau verða laus eða náin.

Það er vafalítið, að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu er heimssögulegur atburður, sem sennilega mun hafa mikil áhrif á efnahagsog stjórnmál heimsins á komandi árum. Bandalag þetta er enn þá ungt að árum, hefur starfað í rúm 5 ár, og því er reynslutíminn stuttur og hæpið að byggja ályktanir með eða móti bandalagshugmyndinni út frá reynslunni einni saman, til þess er hún of stutt, enda málefni bandalagsins og stefna enn þá í mótun á mörgum sviðum. Það, sem fyrst og fremst er hægt að miða við, þegar afstaða er tekin til þess, er að sjálfsögðu grundvöllur þess, sjálf stjórnarskráin, sem er að finna í hinum svonefnda Rómarsamningi, sameiginleg stefna, sem búið er að móta í ýmsum veigamiklum málum, og þeir úrskurðir og samningar, sem kveðnir hafa verið upp eða gerðir af framkvæmdastjórn og ráði bandalagsins og kveða nánar á um túlkun ýmissa ákvæða Rómarsáttmálans, sem yfirleitt er rúmt orðaður og gefur tilefni til margháttaðrar túlkunar.

Ég ætla að leitast við hér á eftir að draga fram í dagsljósið nokkur megineinkenni Rómarsamningsins, sem undirritaður var 25. marz 1957 af sex ríkjum í Vestur-Evrópu eftir 10 ára samningaþóf, en hann gekk í gildi 1. jan. 1958. Ég ætla enn fremur að reyna að geta áhrifanna af tilkomu þessa bandalags á heimsviðskiptin og heimsstjórnmálin með sérstöku tilliti til Íslands og síðast víkja að meðferð málsins hjá ríkisstj., sem vægast sagt er hin furðulegasta á margan hátt, fljótfærnisleg og reikul.

Við gerð Rómarsamningsins virðist mér hafa gætt tveggja meginsjónarmiða og samningurinn sé nokkurs konar málamiðlun þessara sjónarmiða beggja. Fyrra sjónarmiðið má rekja til þeirra, er töldu náið efnahagssamstarf sexveldanna gagnlegt, og til þess að tryggja sem beztan árangur þess töldu þeir, að gera yrði viðskipti þeirra sem frjálsust og auðveldust, tryggja frjálsan flutning vinnuafls og fjármagns milli landa o.s.frv. Þeir, sem þannig litu á bandalagsstofnunina, töldu enn fremur, að nauðsynlegt væri að gera samning um þessi atriði og koma á fót sjálfstæðri framkvæmdastjórn, er hefði heimild til að gefa út tilskipanir og fyrirmæli, er bindandi væru fyrir ríki samningsins og borgara þeirra, án þess að til þyrfti að koma samþykki löggjafarþinganna í öllum tilfellum. Hið síðara sjónarmið aðhylltust þeir, sem höfðu að aðaltakmarki að endurreisa það, sem þeir kölluðu veldi og áhrif Evrópu á gang heimsmála, með því að sameina Vestur-Evrópuríkin í voldugt ríki, Bandaríki Evrópu. Samkv. þessu má skipta Rómarsamningnum í tvo meginkafla. Annar fjallar um málefni fjárhags- og félagslegs eðlis. Hinn hefur inni að halda ákvæði, sem sennilegt má telja að fyrr eða síðar leiði samruna sexveldanna og þeirra ríkja annarra, er síðar kunna að gerast fullgildir aðilar að honum, í eina stjórnmálaheild. Áköfustu formælendur Efnahagsbandalagsins og stórveldishugmyndarinnar benda gjarnan á, að uppfylling hugsjóna þeirra ætti að leiða til betri lífskjara þegnanna vegna aukinnar verkaskiptingar, meiri framleiðslu og framleiðni þátttökuríkjanna. Enn fremur ætti bandalagið að tryggja, að Vestur-Evrópuríkin haldi friðinn, þar sem með samningum hafi tekizt að sætta tvær stærstu þjóðir bandalagsins, sambandslýðveldið Þýzkaland og Frakkland, um aldur og ævi. En einmitt til ágreinings þessara ríkja megi rekja upphaf a.m.k. tveggja stórstyrjalda, er herjað hafi og eytt Evrópu, þ.e.a.s. styrjaldarinnar frá 1870–1871 og heimsstyrjaldarinnar 1914–1918.

Það fyrsta, sem þarf að gera sér ljóst, er, að Rómarsamningurinn á að gilda um aldur og ævi. Engin þjóð, sem gerzt hefur aðili að honum, getur slitið sig þar á burt, enda þótt hún vildi. Þetta kom greinilega í ljós, þegar de Gaulle og Adenauer gerðu samkomulagið um fransk-þýzka samvinnu, sem Ítalía og Benelúx-löndin óttast mjög að verði notað til þess að sveigja stefnu bandalagsins þessum stóru þjóðum í hag á kostnað hinna.

Rómarsáttmálinn sjálfur, stofnskrá Efnahagsbandalagsins, er víða mjög rúmt orðaður, og ýmis hugtök þar, svo sem aukaaðild í 238. gr., eru alls ekki skilgreind, en sáttmálinn gerir ráð fyrir stofnunum, sem eiga m.a. að skýra og túlka sáttmálann og sjá um framkvæmd hans. Stofnanir þessar, sem eru ráðið, framkvæmdastjórnin og dómstóllinn, eru því mjög valdamiklar og hafa heimildir til þess í mörgum tilfellum að gefa út tilskipanir og skýringar, sem aðildarríkin eru bundin af, án þess að til þurfi að koma samþykki viðkomandi þjóðþinga.

Annað atriði er mjög áberandi í Rómarsamningnum, og það er, að um starfsemi sína eru ráðið og framkvæmdastjórnin svo til óbundin í störfum og ekkert þjóðkjörið þing hefur eftirlit með starfsemi þeirra. Þing bandalagsríkjanna í Strasbourg getur ekki samþykkt fyrirmæli til ráðsins eða framkvæmdastjórnarinnar, svo að bindandi séu fyrir þau. Þingið getur að vísu með 2/3 hlutum atkv. samþ. vantraust á framkvæmdastjórnina, og ef þjóðþing bandalagsríkjanna staðfesta það vantraust, verður framkvæmdastjórnin öll að víkja. Fyrir fram virðist heldur ósennilegt, að til þessa geti komið, og vil ég í því sambandi benda á sem dæmi, að þótt framkvæmdastjórnin gengi erinda fransk-þýzkra hagsmuna á kostnað hagsmuna annarra bandalagsríkja, þá eiga þessi tvö lönd nú 72 fulltrúa af 142 á þinginu í Strasbourg eða meiri hl. og geta því auðveldlega hindrað samþykkt vantrausts á framkvæmdastjórnina. Það er því mikið vald, sem stofnunum þessum og þá sérstaklega framkvæmdastjórninni er fengið, og vafalaust vandmeðfarið. Sérstaklega er vald þeirra mikið og hættulegt, ef litið er til þess, hversu rúmar heimildir þær hafa til túlkunar og framkvæmda á Rómarsamningnum. Því er haldið fram, að þetta mikla vald framkvæmdastjórnarinnar sé nauðsynlegt til þess að tryggja, að hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga umfram hagsmuni einstakra ríkja. Það er einmitt þetta, sem sérstaklega er hættulegt fyrir fámenna smáþjóð eins og Íslendinga með einhæfa atvinnuvegi og fáar náttúruauðlindir. Hvenær mundi t.d. framkvæmdastjórnin telja, að taka bæri hagsmuni Íslendinga fram yfir hagsmuni milljónanna í Vestur-Evrópu, þegar hagsmunum þessum lenti saman við mótun almennrar stefnu? Hún á að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir sérhagsmuni einstakra þjóða, og hvað mundi þetta geta þýtt fyrir Íslendinga í sambandi við fiskveiðar og fiskiðnað, ef við yrðum meira eða minna bundnir við að hlíta slíkum almennum reglum eftir að hafa tengzt bandalaginu?

Þá er ómögulegt að loka augunum fyrir þeirri hættu, sem er á vexti auðhringa og stórfyrirtækja við það skipulag, sem Efnahagsbandalagið byggir á, og þau áhrif, sem af slíku mundi leiða fyrir stjórnmálastarfsemina í þeim ríkjum, sem innan bandalagsins kynnu að verða. Reynslan á þessu sviði síðan 1958 er ekki heldur uppörvandi fyrir þá, sem eru andvígir stórkapítalisma og flokkum, sem hann gerir út. Í öllum löndum Efnahagsbandalagsins hefur síðan 1958 þróunin verið sú, að stærri fyrirtækin hafa í æ ríkara mæli keypt upp þau smærri, eða ef það ekki hefur tekizt, þá hafa þau hreinlega sett þau á hausinn með óheiðarlegri samkeppni. Fullyrt er t.d., að tvö félög í Hollandi, Philips og Royal Dutch Shell, eigi orðið um helming alls þjóðarauðs Hollendinga, og hafa þessi stórfyrirtæki fyrir nokkru hafið æðisgengið kapphlaup til þess að kaupa upp fyrirtæki og útvíkka starfssvið sitt. Um 2/3 allrar einkafjárfestingar í Belgíu síðustu árin hefur verið stjórnað af tíu fjármálafyrirtækjum, þ. á m. Sosiété Generale, sem rækilega kom við sögu í Katanga og staðið hefur að baki Tshombe í mörgum óþurftarverkum hans þar syðra. Þá vil ég enn fremur minna á, að kola- og stálsamsteypustjórnin kom á sínum tíma í veg fyrir þá fyrirætlun belgísku ríkisstj. að þjóðnýta belgísku kolanámurnar. Þessi þróun er ískyggileg, og mjög er það vald hættulegt, sem slíkar samsteypur hafa. Mér er kunnugt um það, að í Rómarsamningnum er að vísu gert ráð fyrir eftirliti með starfsemi stórfyrirtækja og óheppilegum áhrifum af starfsemi þeirra. En það er bara allsendis óséð, hvernig þær reglur reynast í framkvæmd, Reynslan af hliðstæðu eftirliti innan stál- og kolasamsteypu sexveldanna er ekki sérstaklega uppörvandi.

Menn velta því mjög fyrir sér, hver framvindan verði í viðskiptum Efnahagsbandalagsríkjanna og þeirra landa, er utan þeirra samtaka standa: Einbeita Efnahagsbandalagsþjóðirnar sér fyrst og fremst að því að einangra sig, girða sig háum tollmúrum og viðskiptahöftum gagnvart þjóðum utan bandalagsins, og ætla þær einungis að efla sig inn á við? Hversu oft heyrum við ekki fullyrðingar í þessa áttina í umr. um málið hér á landi? En hvað er þá rétt í þessu? Allt frá því er Efnahagssamvinnustofnun Evrópu var komið á fót árið 1948, hafa þjóðir Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku tekið þátt í margháttuðu samstarfi, er allt hefur miðað að auknu viðskiptafrelsi og lækkun tolla í þessum heimshluta. Ég minni aðeins á Efnahagssamvinnustofnunina, sem vinnur að auknu viðskiptafrelsi og frjálsari gjaldeyrisviðskiptum. Ég minni á Alþjóðatollamálastofnunina, sem vinnur að lækkun tolla. Ég minni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fleiri alþjóðastofnanir mætti nefna, sem vinna að þessu sama marki.

Efnahagsbandalag Evrópu á samkv. yfirlýstum tilgangi sínum að vinna í þessa stefnu, en ekki gegn henni. Staðreyndin er líka sú, að ytri tollur bandalagsins er nú lægri en tollar hinna einstöku sexvelda voru, áður en sameiginlegi tollurinn var settur á. Og ytri tollur bandalagsins er lægri en í Bretlandi og Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta nær til vöruinnflutnings annars en þess, sem er á svonefndum G-lista, en um ytri tollinn á G-listavörunum sömdu sexveldin sérstaklega, og hann er nokkuð hár. En einmitt á þessum lista eru innfluttar sjávarafurðir, og hækkuðu tollar á innfluttum sjávarafurðum til Efnahagsbandalagssvæðisins, eftir að þessi sameiginlegi tollur kom í framkvæmd 1. jan. 1962.

Hækkun sú, sem varð á tollum af fiskinnflutningi Íslendinga til Efnahagsbandalagsríkjanna, þýðir að Íslendingar hefðu orðið að greiða af innflutningi sínum eða af sjávarafurðum árið 1961 til sexveldanna og þeirra ríkja annarra, er sótt hafa um aðild og aukaaðild, um 80 millj. kr. meira í tolla en þeir gerðu. En hver getur fullyrt um það í dag, að tollur þessi verði ævinlega svona hár? Margt bendir til þess, að svo verði ekki, og vil ég þá vitna í fyrstu röð til þess, sem segir í Rómarsamningnum sjálfum, að þátttökuríki hans hafi skuldbundið sig til þess að vinna að frjálsari heimsverzlun með því smátt og smátt að afnema innflutningshöft og lækka tolla. Þau eru enn fremur öll aðilar að Efnahags- og framfarastofnuninni og Alþjóðatollamálastofnuninni, sem vinna í sömu stefnu hvor á sínu sviði. Það er mjög áberandi og hröð þróun í þá áttina í heiminum síðustu árin að gera heimsverzlunina sem frjálsasta og haftaminnsta. Ég vil aðeins nefna eitt dæmi þessu til sönnunar, er sýnir þetta vel, og er það samþykkt Trade Expansion-laganna, sem nýverið voru samþykkt á þingi Bandaríkjanna og veita forsetanum heimild til þess að semja gagnkvæmt um allt frá 50% til 100% lækkun á tollum við ríki Efnahagsbandalagsins, sem svo aðrar þjóðir mundu njóta góðs af samkv. reglum GATTs og vegna beztu kjaraákvæða í viðskiptasamningum.

Mér er að vísu kunnugt um, að þetta nær ekki enn þá til sjávarafurða, en þetta skref er stórt og sýnir vel, hvað getur gerzt í þessum málum. Þróun tollamálanna og lækkun tolla hefur öll hin síðari árin verið í einum og sama farvegi og okkur í hag. Og það eru fyrst og fremst stóru þjóðirnar, sem ýta hér á. Það er því engan veginn gefið, að þótt tollur á innfluttar sjávarafurðir til landa Efnahagsbandalagsins sé nú hár, þurfi svo að vera um aldur og ævi.

Ég vil þá þessu næst athuga, hvaða áhrif mér sýnist tilkoma Efnahagsbandalags Evrópu hafa á hagsmuni Íslands, og ræða um þær leiðir, sem talið er fært að tengjast bandalaginu eftir. Í umr. hér á hv. Alþingi hafa allir ræðumenn virzt sammála um tvennt. Hið fyrra er, að full aðild að bandalaginu henti ekki, og hið síðara er, að nauðsynlegt sé að ná samningum við það um viðskipta- og tollamál. Af einhverjum ástæðum heyrast nú ekki þær raddir lengur, er telja, að full aðild henti Íslandi ekki, þótt ýmsir af framámönnum í stjórnarliðinu hafi áður sannanlega talið svo vera, og ekki heldur heyrast þær raddir, er telja hvers kyns tengsl við bandalagið óæskileg. Hvort hér er um einlæga hugarfarsbreytingu að ræða hjá viðkomendum eða ekki, vil ég ekki dæma um, en bendi aðeins á þessar staðreyndir.

Það hefur verið bent á, að tilkoma ytri tolls Efnahagsbandalagsins á innfluttar sjávarafurðir og innfluttar sauðfjárafurðir til þessa svæðis kunni að leiða til verðlækkunar á þessum veigamiklu útflutningsvörum Íslendinga, enn fremur kunni innflutningshöft að hindra okkur í að koma vörum á þennan markað. Þetta er rétt að nokkru leyti. Og einmitt þess vegna vilja menn finna færar leiðir, er komi í veg fyrir eða dragi a.m.k. úr fjárhagstjóni því, er Íslendingar kynnu að bíða við að standa utan bandalagsins, án allra samninga við það. Vandinn er bara sá að velja þá leiðina, er tryggir bezt viðskiptahagsmuni okkar, en stofnar ekki jafnframt veigamiklum lífshagsmunum og ásetningi Íslendinga um að halda hér uppi sjálfstæðu menningarþjóðfélagi velferðarríkis og lýðræðisríkis í hættu.

Hér á hv. Alþingi hefur verið talað um tvær færar leiðir til þess að ná þessu marki, þ.e.a.s. að tengjast bandalaginu sem aukaaðili samkv. 238. gr. Rómarsamningsins eða gera við það viðskipta- og tollasamning. Ljóst er, að margt er það enn um þessar leiðir óvitað og óskýrt í dag, sem vitneskja fæst um síðar. Ég vil þá lítillega ræða hvora þessa leið, eins og mér sýnast þær liggja fyrir nú, enda tel ég nauðsynlegt, að Íslendingar geri það upp við sig, hvora leiðina þeir vilja fara, áður en þeir reyna að hafa áhrif á mótun sameiginlegrar stefnu um meðferð sjávarafurða. Þetta er nauðsynlegt vegna þess, að afstaða okkar við mótun slíkrar stefnu hlýtur að vera gerólík eftir því, hvort við sækjumst eftir að ná aukaaðildarsamningi, er tryggi hömlulausan og tollfrjálsan innflutning fisks til EBE-svæðisins, ellegar við sækjumst eftir að ná tollasamningi við bandalagið, sem e.t.v. kynni aðeins að tryggja einhverja tollalækkun. Sem aukaaðili hefðum við hag af því, að ytri tollar bandalagsins á innfluttum sjávarafurðum væru sem hæstir og hömlurnar mestar fyrir fiskinnflutning þjóða, er utan vébanda Efnahagsbandalagsins kynnu að standa. Við mundum m.ö.o. vilja, að Efnahagsbandalagið ræki verndarpólitík til hags fyrir fiskveiðiþjóðir þær, sem innan þess eru. Ef við hins vegar kepptumst eftir að ná samningum um tollamál og viðskiptamál við bandalagið, mundum við vinna þveröfugt að mótun slíkrar stefnu. Þá mundum við vilja, að ytri tollurinn yrði sem lægstur og hömluminnstur innflutningur, þ.e.a.s. að viðskipti með sjávarafurðir yrðu sem frjálsust. Mér finnst ekkert vafamál, eftir hvorri leiðinni við eigum að vinna, ef við fáum tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun sameiginlegrar stefnu, en raddir eru nú uppi um það innan vébanda Efnahagsbandalagsins að gefa fiskveiðiþjóðum í Vestur-Evrópu a.m.k. tækifæri til að taka þátt í ráðstefnu, er móti slíka stefnu, alveg óháð því, hvort þessar þjóðir hafi sótt um tengsl við bandalagið eða ekki. Það er m.a. vegna þessa, sem við framsóknarmenn höfum hiklaust lýst því yfir, að við teldum rétt fyrir Íslendinga að æskja eftir tollasamningi við Efnahagsbandalagið, og við viljum miða allar aðgerðir okkar í viðskiptum við bandalagið við það. Við teljum áhættuna fyrir sjálfstæði og hagsmuni þjóðarinnar svo mikla, ef játast á undir samstjórn, sem við teljum að óhjákvæmilega mundi fylgja aukaaðildartengslum, að það geri ómögulegt fyrir okkur að fallast á þá leið. Ég vil rökstyðja það nokkru nánar.

Hvað þýðir það að tengjast Efnahagsbandalaginu sem aukaaðili eftir 238. gr.? Ákvæði Rómarsamningsins eru næsta fáorð um þetta atriði, og enn þá hefur ekki verið gerður nema einn slíkur samningur, þ.e.a.s. við Grikkland. Af þeim samningi er hins vegar ekki hægt að draga nema nokkrar almennar ályktanir, og sá samningur getur ekki talizt fordæmi í öllum tilfellum. Sennilegt er, að innihald hvers aukaaðildarsamnings ákvarðist að nokkru af efnahagsástandi og öðrum ástæðum þeirrar þjóðar, er leitar eftir tengslum við bandalagið á grundvelli 238. gr., og vilja forustumanna bandalagsins og heimildar til þess að slá af þeim kröfum um skuldbindingar og kvaðir, sem Rómarsáttmálinn ákveður þátttökuríkjum. Eina meginreglu höfum við þó við að styðjast, og hún er sú, að á móti réttindum, er aukaaðili fær með samningi, komi tilsvarandi skyldur. Sem sagt, réttindi og skyldur eiga að vera að dómi samningsaðila svipuð. Þetta er mikilvægt að vel sé haft í huga. Ef við viljum fá mikinn rétt hjá bandalaginu eftir aukaaðildarleiðinni, verðum við líka að vera reiðubúnir til þess að taka á okkur miklar skyldur, ef fara á hana.

Því hefur verið haldið fram hér á landi í umr. um þetta mikilsverða mál, og ég hygg, að hæstv. viðskmrh. sé höfundur þeirrar kenningar, að aukaaðild geti þýtt það, að aukaaðili taki á sig allt frá 1–99% af samningskröfum Rómarsáttmálans. Þótt e.t.v. megi færa þessari kenningu einhver rök í teóríunni, er ég sannfærður um, að í reyndinni verða aukaaðildartengsl ekkert svipuð þessu. Ég held, að forustumenn Efnahagsbandalagsins telji, að aukaaðildartengsl eigi að vera mjög náin, og ég tel, að þau hljóti að verða það í flestum tilfellum. Við skulum reyna að setja okkur í þeirra spor og skoða, hvernig þeir líta á þessi mál. Sexveldin hafa eftir áralangar samningaviðræður og málamiðlanir og tilslakanir náð samkomulagi um sameiginlega stefnu, er krefst þess, að þessi ríki verði að undirgangast þær þröngu meginreglur, sem Rómarsamningurinn ákveður þeim. Þær hafa allar óumdeilanlega afsalað sér miklu af sjálfstæði sínu til sameiginlegra yfirþjóðréttarlegra stofnana. Hvers vegna skyldu þessar þjóðir álíta, að aðrar þjóðir, er tengjast vilja bandalaginu nú síðar, geti ekki undirgengizt slíkt hið sama í meginatriðum a.m.k.? Sá eini aukaaðildarsamningur, sem gerður hefur verið til þessa, við Grikkland, bendir og til þessa, og umsóknir annarra ríkja í Evrópu um aukaaðildartengsl við Efnahagsbandalagið benda til hins sama, því að þær undanþágur frá ákvæðum Rómarsáttmálans, sem þessi ríki áskilja sér í umsóknum sínum, lúta nær eingöngu að sérstöðu þeirri, sem leiðir af hlutleysisstefnu þeirra í alþjóðamálum, auk þess sem þær áskilja sér rétt til að halda austurviðskiptum áfram. Að öðru leyti bjóðast þessar þjóðir til þess að gangast undir svo til allar kvaðir, sem Rómarsáttmálinn ákveður þátttakendum. Þetta sýnir vel skilning þessara þjóða á eðli aukaaðildar.

Ég vil enn fremur benda á, m.a. vegna þeirra tilrauna, sem mér virtist hæstv. dómsmrh. hafa í frammi hér í umr. um þetta mál, að mig minnir í desember, þegar hann lagði sig mjög í framkróka í umr. til þess að reyna að gera mun á aukaaðildarleið og tollasamningsleið sem minnstan og ógreinilegastan, að sjálfur Rómarsamningurinn sker úr þessu, og þarf ekki mikið um það að deila. Tollasamningur hefur stoð í 18. gr. Rómarsáttmálans, en aukaaðild í 238. gr. Og sýnir það út af fyrir sig, að höfundar samningsins gera á þessu mikinn mun.

Af fræðimönnum, sem skrifað hafa um Efnahagsbandalag Evrópu og tekið til meðferðar bæði 237. gr. og 238. gr. eða þær greinar samningsins, sem fjalla um fulla aðild og aukaaðild, sýnist mér, að flestum eða öllum beri saman um eftirfarandi: Þeir telja, að ef aukaaðild á að byggjast á tollabandalagi, þá mundi slíkt tvímælalaust hafa svipuð áhrif og full aðild, a.m.k. hvað tekur til afnáms allra hindrana á viðskiptum bandalagsríkjanna sín í milli, sömu áhrif á setningu sameiginlegs ytri tolls gagnvart þriðju þjóð og sameiginlegrar viðskiptastefnu gagnvart ríkjum, er utan bandalagsins stæðu. Sömuleiðis virðast þeir allir sammála um það, að ef aukaaðild ætti að byggja á fríverzlunarsamningi, mundi slíkur samningur ná til svipaðra atriða og ég var hér áðan upp að telja, að því einu undanskildu, að þá væri aukaaðilinn ekki skuldbundinn til þess að sæta sameiginlegum ytri tolli gagnvart þriðju þjóð.

Með tilvísun til þeirra raka, sem ég hef reynt að flytja hér um eðli aukaaðildar, er ég eindregið þeirrar skoðunar, að aukaaðildartengsl verði að innihalda skuldbindingar um að lúta flestum aðalákvæðum Rómarsamningsins, og er fram líða stundir, verði smáþjóð, sem er aukaaðili, bundin á svipaðan hátt til þess að lúta fyrirmælum stofnana bandalagsins í reynd og aðildarríkin sjálf. Þetta er þeim mun óaðgengilegra, þar sem slík smáþjóð ætti ekki setu í neinni af stofnunum bandalagsins og tæki því ekki með atkvæði sínu þátt í að móta sameiginlega stefnu. Á vissan hátt má því halda því fram, að náin aukaaðildartengsl séu versta formið á tengslum, sem smáþjóð gæti bundizt Efnahagsbandalagi Evrópu. Ég vil enn fremur í þessu sambandi minna á þau ummæli Halvards Lange, utanrrh. norska, í norska Stórþinginu, þegar aðild Noregs var þar til umr. Hann sagði þá:

„Ef menn vilja taka upp viðræður við Efnahagsbandalagið á grundvelli aukaaðildar, verða þeir að gera sér það ljóst, að um málefnin eru aukaaðilar jafnbundnir af ákvörðunum bandalagsstofnananna og þær þjóðir, sem í bandalaginu eru sem fullgildir aðilar.“

Ég vil þá víkja örfáum orðum aftur að gagnkvæmninni, sem er grundvöllur tengsla við Efnahagsbandalag Evrópu eftir aukaaðildarleiðinni, og þeirri sérstöðu, sem við höfum umfram aðrar þjóðir, er hugsanlega kynnu að vilja tengjast bandalaginu eftir þeirri leið.

Íslendingar eru um 180 þús. sálir búandi í stóru, lítt numdu landi með fáum náttúruauðlindum og einhæfum atvinnuvegum. Hinn samningsaðilinn, ríki Efnahagsbandalagsins, hefur íbúa, sem nema mörg hundruð milljónum manna, háþróaðan iðnað og fjölþætta atvinnu. Ef við vildum með aukaaðildarsamningi tengjast bandalaginu og tryggja okkur tollfrelsi og frjálsan innflutning inn á þennan stóra markað, með hverju mundum við geta greitt þann inngang? Hvað er það hér á landi, sem við eigum dýrmætast af náttúruauðlindum og sexveldin kynnu að vilja líta við sem greiðslu? Að mínu viti eru það aðallega og kannske eingöngu fiskimiðin umhverfis landið og aðstaða til þess að verka fisk í landinu. Ég óttast, að Efnahagsbandalagið mundi einmitt krefjast samninga til jafnra nytja eða a.m.k. verulegra nytja á við landsmenn sjálfa á þessum auðlindum og aðstöðu til þess að verka sjávarafla sinn hér á landi, og allir, sem eitthvað hugsa um þessi mál á annað borð, vita, hvað slíkt mundi þýða fyrir framtíð og sjálfstæði þessa lands.

Ég gat þess í upphafi, að tilgangur ýmissa höfunda Rómarsamningsins og ýmissa stjórnmálaleiðtoga sexveldanna væri fyrst og fremst sá að skapa nýtt Evrópustórveldi, — Evrópustórveldi, er væri jafnoki Sovétríkjanna og Bandaríkjanna um auð og áhrif. Með þetta er ekki farið leynt. Ríkisstjórnir sexveldanna eru í meginatriðum sammála um þörfina á stjórnmálaeiningu sexveldanna. Þau greinir nokkuð á um leiðir og hversu hratt eigi að koma þessari einingu á og hvort gefa eigi Bretum kost á að vera með um mótun þessarar stefnu eða ekki. Það er m.a. þetta, sem kemur inn hjá mér ótta við aukaaðildarleiðina. Ég hef enga trú á því, að málefnum þessa lands yrði betur stjórnað af ókunnum mönnum úti í Brüssel en af okkur sjálfum. Og ég hef enn þá minni trú á því, að þeir teldu lífshagsmuni þessarar fámennu þjóðar það helga, að þá mætti ekki skerða í þágu hinna stóru og mannmörgu bandalagsþjóða. Með því að gerast aukaaðilar komumst við í beina og stöðuga snertingu við aðalstofnanir bandalagsins í svonefndu aukaaðildarráði. Við mundum þar bera upp óskir okkar og till. og hlýða á óskir og till. fulltrúa bandalagsins. Hversu lengi mundu fulltrúar okkar í aukaaðildarráðinu standa gegn till. gagnaðilans til hagsbóta fyrir heildina og sameiginlega stefnu, jafnvel á okkar kostnað, eins og t.d. varðandi rétt erlendra fiskiflota til að nytja fiskimiðin umhverfis landið o.s.frv.? Ég held, að í reynd yrði það svo, að fulltrúar okkar í slíku aukaaðildarráði yrðu að samþykkja svo til hverja einustu ósk, sem fulltrúar gagnaðilans kynnu þar fram að setja.

Ég geri mér hins vegar vonir um, að Íslendingar muni geta tryggt viðskiptahagsmuni sína hjá bandalagsþjóðum Efnahagsbandalagsins án allt of mikillar áhættu fyrir sjálfstæði og stjórnarfarslegt fullveldi landsins eftir tollasamningsleiðinni. Þetta byggi ég á eftirfarandi staðreyndum:

Efnahagsbandalagssvæðið sem heild er í dag ekki sjálfu sér nægilegt um fisk. Og jafnvel þótt Danir, Norðmenn og Bretar, sem allir eru miklar fiskútflutningsþjóðir, gangi í bandalagið, er mjög sennilegt og nærri víst, að þetta svæði yrði að flytja inn mikinn fisk frá þjóðum, er utan bandalagsins kunna að standa. Íslendingar hafa þjóða bezta aðstöðu til að framleiða samkeppnisfærar sjávarafurðir fyrir erlendan markað. Þetta byggist á auðugum fiskimiðum við strendur landsins, duglegum og fengsælum sjómönnum og aðstöðu til að verka aflann nýjan í landi. Framleiðni í íslenzkri sjávarvöruframleiðslu er sú hæsta, er þekkist. Þessa aðstöðu eigum við ekki að skerða og jafnvel eyðileggja með öllu með því að veita þegnum erlendra ríkja aðstöðu til þess að fiska í landhelgi og til að verka afla í landi. Íslendingar verða enn fremur sennilega eina fiskveiðiþjóðin í Evrópu, er kæmi til með að flytja inn fisk til Efnahagsbandalagssvæðisins og væri utan þess, ef Bretar, Norðmenn og Danir ganga þar inn. Fiskneyzla, sérstaklega á frosnum fiski, er fyrirsjáanlega mjög vaxandi í Vestur-Evrópu og fiskverð þar hækkandi. Ríkisstyrkir til sjávarútvegs ýmissa Efnahagsbandalagsríkja, sem nú eru geysimiklir, eiga samkv. ákvæðum og fyrirmælum Rómarsáttmálans að hverfa eða a.m.k. ekki að vaxa frá því, sem þeir voru 1958. Þetta allt ætti að auðvelda okkur samninga um lækkun ytri tolls á sjávarafurðum, og sæmilega frjáls innflutningur á markaði Efnahagsbandalagsins á að vera tryggður, því að eins og hæstv. viðskmrh. gat um í þeirri skýrslu, sem hann flutti hv. Alþingi í nóv. s.l., er nú svo komið, að svo að segja öll aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu hafa afnumið innflutningshöft á sjávarafurðum hjá sér öðrum en nýjum fiski, og það væri skýlaust brot á þeirri skipan mála, ef Efnahagsbandalagsríkin tækju á ný upp innflutningshöft á sjávarafurðum, þar sem þau eru öll aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu.

Í skýrslu ríkisstj., sem hæstv. viðskmrh. flutti í nóv. s.l., virðist mér hæstv. ráðh. gera lítið úr möguleikum þess, að við getum leyst okkar viðskiptavandamál, sem skapast vegna tilkomu Efnahagsbandalagsins, eftir tollasamningsleiðinni. Hæstv. ráðh. sagði m.a. í þeirri skýrslu, að lítill árangur hefði náðst í svonefndum compensation-viðræðum innan GATTs fyrir þær þjóðir, sem urðu fyrir tjóni vegna þeirra hækkana, er urðu á ytri tollum Efnahagsbandalagsins. Ekki eru nú allir sammála hæstv. ráðh. um þetta. Ég hef a.m.k. séð því haldið fram í ritum, sem ég legg talsvert upp úr, að t.d. bæði Kanada og Ástralía og raunar fleiri lönd hafi samið við Efnahagsbandalagið um verulega einhliða tollalækkanir af hálfu ríkja þess vegna þess að ytri tollur bandalagsins hækkaði á innflutningi frá þessum tveim löndum, og var þeim bættur upp sá skaði að nokkru leyti. Fjöldi landa hefur sömuleiðis gert samninga við Efnahagsbandalagið um gagnkvæmar tollaívilnanir og sumar mjög stórkostlegar. Ég nefni sem dæmi Bandaríki Norður-Ameríku, Bretland, Sviss, Chile, Haiti, Nýja-Sjáland, Japan, og Perú, og fleiri ríki væri hægt að telja, ef ástæða væri til. Efnahagsbandalagið hefur meira að segja samið um lækkun ytri tolls á alúminíum, og vitað er, að Bretar setja það á oddinn að fá þann toll alveg felldan niður, ef þeir gerast aðilar. Það er því furðuleg staðhæfing hjá hæstv. viðskmrh., er hann leyfir sér að slá því föstu, að stöndum við utan Efnahagsbandalagsins, þá sé útilokað, að við getum komið upp alúminíumiðnaði hér á landi. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um gálauslegar staðhæfingar, sem engin vissa er fyrir að standist deginum lengur og eru til þess eins gerðar að skapa þá trú hjá þjóðinni, að hún eigi engra kosta völ annarra en semja sig að mjög verulegu leyti undir samstjórn og sameiginlega stefnu Efnahagsbandalagsins, ella bíði hennar ekkert annað en efnahagslegt skipbrot.

Sú staðreynd, að Íslendingar eiga í dag að mæta háum innflutningstollum á innfluttum fiskafurðum til Efnahagsbandalagssvæðisins og að enn þá hafa engir samningar verið gerðir um lækkun þeirra, á sínar skýringar. Bæði er það, að tollur þessi er tiltölulega nýr. Hann kom á í ársbyrjun 1962, eins og ég gat um áðan. Og enn þá hefur engin þjóð, hvorki Íslendingar né aðrir, reynt hið minnsta til þess að semja við Efnahagsbandalagið um lækkun þessa ytri tolls á innfluttar sjávarafurðir. Það er því í fyllsta máta ótímabært að mála fjandann á vegginn, eins og mér virðist margir af talsmönnum ríkisstj. og blöð hennar gera og gerðu það alveg sérstaklega á árunum 1961 og 1962, þótt nú sé aðeins farið að draga úr þessu. Ég segi hiklaust sem mína skoðun að heldur vil ég, að Íslendingar greiði eitthvað hærri toll af fiskinnflutningi til Efnahagsbandalagssvæðisins en keppinautar okkar, er innan þess kynnu að standa, og sitji þá einir að sínum fiskimiðum og verkunaraðstöðu í landinu, heldur en þurfa að kaupa tollajafnréttisaðstöðuna því verði að þurfa að sitja að fiskimiðunum hér umhverfis landið með fiskiskipum fjölda annarra þjóða. Íslendingar geta þolað afleiðingar tímabundinnar fiskverðslækkunar í Evrópu, og það eru ýmis ráð til að mæta þeirri lækkun. En eitt þola Íslendingar áreiðanlega ekki, og það er það, að fiskimiðin umhverfis landið verði eyðilögð með ofveiði. Allar fiskveiðiþjóðir Vestur-Evrópu búa við fátæk fiskimið við heimastrendur sínar. Fiskiflotar þeirra verða að leita á fjarlæg mið til fanga. Það yrði því óbætanlegt tjón, ef við yrðum að opna landhelgi okkar fyrir þessum erlendu veiðiþjóðum, og þess verður einnig vel að gæta að veita útlendingum ekki heldur aðstöðu til þess að eiga og reka fiskvinnslustöðvar í landi, því að það mundi brátt leiða til óæskilegrar niðurstöðu.

Ég vil þá að endingu fara nokkrum orðum um meðferð þá, sem stórmál þetta hefur hlotið í höndum hæstv. ríkisstj. Mér virðist, að starfsregla hennar í því hafi verið sú, allt þar til slitnaði upp úr samningaviðræðunum við Breta, að koma því inn hjá landsmönnum, að Íslendingar ættu engra annarra kosta völ en að gerast aðilar að Efnahagsbandalaginu. Erfiðleikarnir við að standa utan þess hafa verið miklaðir og villandi upplýsingum haldið að þjóðinni, en minna rætt um hið neikvæða, sem samfara væri því að tengjast bandalaginu sem aðili eða aukaaðili. Ég er sannfærður um það, að um skeið voru þau sjónarmið ríkjandi hjá ríkisstj., að við ættum að gerast fullgildir aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu, og ég er sannfærður um, að nú er það sjónarmið þar ríkjandi, að við eigum að ná aukaaðildarsamningi við Efnahagsbandalagið, jafnvel þótt það sýni sig, eins og ég tel mjög sennilegt, að við yrðum að gangast undir allar meginskuldbindingar Rómarsamningsins með slíkum aukaaðildarsamningi. Ég vil aðeins minna á eftirfarandi staðreyndir þessu til sönnunar.

Snemma sumars 1961 var leitað svars fulltrúa 14 félagasamtaka í landinu við spurningunni um, hvort tímabært væri að feta í fótspor Breta og Dana og sækja um inngöngu í Efnahagsbandalagið sem aðilar. Fulltrúum þessara félagasamtaka var tjáð, að málið þyldi enga bið, við yrðum að vera með, ef við ættum að geta haft áhrif á mótun stefnu bandalagsins um meðferð sjávarafurða. Þetta hefur sýnt sig vera rangt hjá ríkisstj., og hún hlýtur m.a. þá strax að hafa vitað, að umsókn um aðild út af fyrir sig gaf okkur ekki aðstöðu til þess að hafa áhrif á mótun neinnar sameiginlegrar stefnu. Landsfundur sjálfstæðismanna 1961 samþykkti, að Íslendingum bæri að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu, á þessum sömu röngu forsendum. Viðskmrh. hefur ítrekað haldið svipuðu fram, og allt fram til þess er hann lagði skýrslu sína fyrir Alþingi í nóv. s.l. harðneitaði hann því, að mögulegt væri að leysa vandamál okkar eftir tollasamningsleiðinni, enda þótt honum hljóti að hafa verið kunnugt um, að fjölmargar þjóðir höfðu einmitt gert slíka samninga þá við Efnahagsbandalagið og á þann hátt leyst að meira eða minna leyti sín viðskiptavandamál. (Menntmrh.: Hvaða þjóðir voru það?) Ég las þær upp áðan m.a., meðan ráðh. var úti. (Menntmrh.: Um tollasamninga?) Já. (Menntmrh.: Við skulum bara endurtaka það.) Ég skal gera það. Já, það eru Bandaríkin, Bretland, Haiti, Perú o.fl., ég man ekki nákvæmlega töluna, en það eru þó nokkuð mörg ríki, Ástralía og Kanada o.fl. (Menntmrh.: Eru það samningar, sem við getum leyst okkar vandamál með? Eru það slíkir samningar, sem við eigum að leysa okkar vandamál með?) Hver segir, að við getum ekki gert það?

Í bæklingi, sem gefinn var út af Evrópuráðinu í nóv. 1961 og heitir Afstaða nokkurra Evrópuríkja, annarra en sexveldanna, ef Bretland gerist aðili að Efnahagsbandalaginu, á bls. 42, segir, eftir að vitnað hefur verið í ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti 1. ágúst það ár:

„Það virðist sennilegt, að Ísland, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem stafa af fábreytni efnahagslífs landsins, mundi fremur vilja gerast fullgildur aðili Efnahagsbandalagsins en velja aukaaðildarleiðina, til þess að geta tekið þátt í að móta sameiginlega markaðsstefnu fyrir sjávarafurðir,“ — sem til þessa hefur gengið lítið að móta innan vébanda Efnahagsbandalagsins, — „og til þess að koma skoðunum sínum að varðandi fiskveiðitakmörkin, sérstaklega til þess að vernda einkarétt íslenzkra togara til veiða á svæðinu umhverfis Ísland, en um þau forréttindi hefur nýverið verið samið við Breta.“

Ég sé það í blöðum frá í gær og í rauninni dag, að hæstv. ráðh. hefur brugðizt við þessum upplýsingum á þann hátt, að hann hefur viljað kenna þessi skrif við einhvern óábyrgan fréttamann, sem hafi skrifað þetta á eigin ábyrgð og án þess að hafa haft um það nokkurt samráð við ríkisstj. Í Alþýðublaðinu í dag eru ummæli hæstv. ráðh. út af þessu þannig tilfærð: Viðskmrh. kvaðst hafa séð umrætt fréttabréf Evrópuráðsins og sér væri kunnugt um það, að fréttamaður þess, sem skrifaði umrædda grein um Ísland, hefði ekki haft neitt samband við fulltrúa íslenzku ríkisstj. um afstöðu hennar til Efnahagsbandalagsins. Það, sem fram kæmi í umræddu fréttabréfi um afstöðu Íslands, væru því ágizkanir einar og enginn fótur fyrir þeim. — Það, sem hæstv. viðskmrh. leyfir sér að kalla fréttabréf, er þessi bæklingur. Hér er um að ræða skýrslu upp á 57 síður, og fréttamaðurinn, sem á að hafa skrifað þessa skýrslu, er enginn einstaklingur. Hún er unnin á vegum Evrópuráðsins af hópi sérfræðinga, sem sérstaklega var falið það verkefni að athuga afstöðu annarra ríkja í Evrópu en Bretlands til tengsla við EBE, ef Bretland tengdist Efnahagsbandalaginu. Skýrsla þessi er unnin af sérfræðingum á vegum viðurkenndrar alþjóðlegrar stofnunar, og hún er unnin undir handleiðslu næstæðsta manns þeirrar stofnunar, The Deputy Secretary General. Þær upplýsingar, sem ég hef úr þessari skýrslu og hæstv. viðskmrh. vill nú kenna við einhvern óábyrgan fréttamann, eru því að mínu viti mjög ábyggilegar og mjög áreiðanlegar, og það getur hver hv. þm. svarað þeirri spurningu sjálfur, hvort slíkar upplýsingar séu gefnar út um jafnmikið stórmál og þetta án þess að þeir embættismenn, sem vinna að slíkri skýrslugerð, hafi samband um það við viðkomandi ríkisstj. Ég tel það næstum alveg útilokað og raunar alveg útilokað. Og öll sú málaflækja, sem viðhöfð hefur verið, bæði í blöðum ríkisstj. og af talsmönnum hennar hér á þingi, þegar þeir hafa verið að verja þann hringsnúning, sem þeir hafa sannarlega viðhaft í afstöðu sinni og viðbrögðum í efnahagsbandalagsmálinu allt frá því á árinu 1961 og fram á þennan dag, rökstyður það enn fremur, að hér er rétt með farið. Það mun hafa verið ákveðinn ásetningur íslenzku ríkisstj. á árinu 1961 að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu sem fullgildur aðili. Og það er aðeins vegna upplýsinga, sem ráðh. fá ytra, þegar þeir fara að kanna þá möguleika, að þeir hverfa frá því, og vegna þeirrar andstöðu, sem Framsfl. beitti sér fyrir hér innanlands og hlaut mjög almennan stuðning landsmanna gegn þessu gönuhlaupi.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú látið þann boðskap út ganga, að hún væri alveg hætt við að hugsa um að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu sem fullgildur aðili. Hún hefur alveg hafnað þeirri leið. En hún segir, að til athugunar sé að tengjast bandalaginu, annaðhvort sem aukaaðili eða þá með tolla- og viðskiptasamningi.

Til viðbótar því, sem ég hef áður sagt um þann dæmalausa málflutning og þá dæmalausu málsmeðferð, sem mál þetta hefur hlotið í höndum hæstv. ríkisstj., vil ég enn þá benda á eitt atriði. Það er öllum mönnum kunnugt, sem athugað hafa og reynt að kynna sér Rómarsamninginn fræðilega, að ekki einasta 238. gr., sem fjallar um aukaaðild, er rúmt orðuð og gefur tilefni til margháttaðra skýringa og túlkana. Einnig 237. gr., sem fjallar um fulla aðild, er mjög rúmt orðuð og gefur tilefni til fjölda túlkana og margháttaðra skýringa. Þetta ber öllum fræðimönnum, sem skoðað hafa Rómarsamninginn, saman um. Ríkisstj. Íslands telur sig hins vegar í dag hafa aðstöðu til þess að segja, að full aðild að Efnahagsbandalaginu sé útilokuð, þó að hún viti nánast ekki nákvæmlega um, í hverju hún kynni að geta verið fólgin, ef mikilsverðir fyrirvarar fengjust, sem mjög sennilegt er að hægt væri að fá. Hún segir, að aðildarleiðin sé útilokuð, en jafnframt telur hún, að aukaaðild geti mjög vel komið til greina, enda þótt í báðum tilfellum rísi margháttaðar spurningar, sem erfitt er að gefa svör við nú, eins og dæmið stendur í dag. Þetta er eitt dæmið um vinnubrögðin í þessu máli. Og svo er okkur framsóknarmönnum álasað fyrir það að velja alveg ótvírætt þá leiðina, sem við viljum nálgast þetta mál eftir, tollasamningsleiðina, af því að ekki liggi fyrir alveg ljóst í dag, hvað það þýði eða hvað hægt sé að fá með því að tengjast bandalaginu sem aukaaðili eða eftir tollasamningsleiðinni. Þetta er nú samræmið í málflutningnum.

Síðasta blekking, — og það verður mitt síðasta orð hér í kvöld, — sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt í þessu máli til þess að villa um fyrir þjóðinni, sem svo sannarlega þyrfti að fá réttar upplýsingar um þetta mikla mál fyrir þá kosningabaráttu, sem fram undan er, er, að hún, þegar slitnaði upp úr viðræðum Efnahagsbandalagsins og Breta, notfærði sér það sem tilefni til þess að lýsa því yfir, að þetta mál væri úr sögunni og við þyrftum sennilega ekki að taka nokkurn tíma afstöðu til þess. Mér er sagt, að einn hæstv. ráðh. hafi jafnvel í fréttaauka í útvarpinu, — ég hlustaði ekki á það sjálfur, — talað um Efnahagsbandalag Evrópu eins og eitthvað, sem var, en ekki væri til enn þá. Ég hygg, að flestir, sem eitthvað hafa fylgzt með þessum málum, séu á annarri skoðun. Ég hygg, að flestir telji það gefið, að innan tíðar, kannske fyrr en síðar, verði samningunum við Breta haldið áfram, þeir verði teknir upp á ný. Og það er sennilegt, að þeir muni komast inn og þær þjóðir aðrar, sem þangað vilja fara, á eftir þeim. Sannleikurinn er sá, að það skiptir engu höfuðmáli, hvort þessar samningsviðræður við Breta byrja mánuðinum fyrr eða síðar. Það, sem máli skiptir fyrir okkur, er fyrst og fremst það, hverjir móti okkar stefnu og fari með samninga fyrir okkar hönd, þegar að því kemur, að við semjum við Efnahagsbandalagið. Verða það núv. stjórnarflokkar, sem mundu hafa sótt um fulla aðild að bandalaginu 1961 eða 1962, ef Adenauer og de Gaulle hefðu ekki verið því mótfallnir? Verða það þeir flokkar, sem staðnir hafa verið að því að reyna að hræða þjóðina með röngum upplýsingum til þess að fylgja sér á gönuhlaupinu? Eða fær Framsfl. tækifæri til þess að marka stefnuna? Hann benti einn flokka strax á þá leið, sem fara bæri, leið, sem þjóðin ótvírætt í dag að miklum meiri hl. aðhyllist, og leið, sem leitt hefur stjórnarflokkana til þess að látast vera því fylgjandi að athuga hana, a.m.k. fram yfir kosningar. Svarið við þessari spurningu fæst við næstu alþingiskosningar, og ég treysti því og trúi, að gæfa Íslands verði svo mikil, að Framsfl. fái þann styrk í kosningunum, er dugi til að tryggja þessi áhrif.