15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við þennan hv. þm. um þörf og nauðsyn þess að gera þá breytingu á flugvélakosti varnarliðsins, sem gerð hefur verið. Okkur greinir þar á í grundvallaratriðum, og ég býst ekki við, að við kæmumst að neinni niðurstöðu, þó að við. færum að deila um slíkt hér. Hv. þm. og hans félagar vilja hér engar varnir hafa, en við hin viljum hafa hér fyrir varnir og þá svo öflugar, að þær megi okkur að gagni verða, ef til átaka skyldi koma í heiminum. Þetta er kjarni okkar ágreinings. Og þeir, sem eru þeirrar skoðunar, að okkur sé nauðsyn á vörnum, vilja að sjálfsögðu að því stuðla og greiða fyrir því, að það varnarlið, sem hér er, og þau tæki, sem það hefur, séu þess umkomin að mæta ætlunarverki sínu, sem sagt að verja Ísland, ef til ófriðar skyldi koma.

Hv. þm. óskaði eftir því, að af hálfu ríkisstj. væri gefin hér yfirlýsing um það, hvort Alþingi mætti treysta því, að ef fram kæmi ósk um að hafa hér kjarnorkuvopn, þá yrði málið borið undir Alþingi, áður en ákvörðun um slíka hluti yrði tekin. Við skulum vona, að aldrei komi til þess, að hér verði óskað eftir að hafa kjarnorkuvopn eða nokkur þörf verði á slíku. Við skulum vona, að samtök vestrænna þjóða sýni heiminum þann varnarmátt, að það eigi eftir í framtíðinni, eins og hingað til, að bægja frá okkur ófriðar- og árásarhættum. En hvað um það, ef svo skyldi fara, að einhvern tíma kæmi fram ósk þrátt fyrir þetta um að hafa hér kjarnorkuvopn, þá er útilokað fyrir mig og fyrir ríkisstj. í heild að gefa nokkra bindandi yfirlýsingu um það, hvernig með málið yrði farið. Það fer allt eftir því, hvernig ástandið væri í alþjóðamálum, þegar sú beiðni kæmi fram, hvernig með hana yrði farið. Beiðnina, ef fram kemur, verður að sjálfsögðu sú ríkisstj., sem fær hana, að meta á sínum tíma, og ég tel það hreinustu fjarstæðu fyrir mig eða núv. ríkisstj. að gefa nokkra bindandi. yfirlýsingu um slíka hluti.