15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hæstv. utanrrh. sagði. — Í fyrsta lagi sagði hann, að okkur greindi á um það, að við vildum hafa landið varnarlaust, en hann vildi hafa varnir hér öflugar, þannig að, að gagni mætti verða til að verja Ísland. Ég verð að segja, að ég er alveg hissa á því, að maður, sem hefur fengið annað eins tækifæri til að fá þó einhverja nasasjón af nútímahernaðarundirbúningi, skuli láta sér svona orð um munn fara. Það er ekki um það að ræða, að hér á Íslandi verði neinar varnir, sem geti komið okkur að gagni. Spurningin stendur ekki um það, hvort það sé verið að verja Ísland. Spurningin stendur um það, hvort Ísland eigi að fá að vera skjöldur eða skotspónn til þess að reyna, að verja Bandaríkin, ef til stríðs kæmi. Það er vitanlegt, að sá hernaðarútbúnaður, sem hér er, og sú herstöð, sem hér er, gerir ekkert annað en draga að sér sprengjur, ef til styrjaldar kæmi. Það er ekki nokkur vörn í þeim, heldur þvert á móti hætta og þetta veit ég að hæstv. utanrrh. hlýtur að vera ljóst. Þetta er öllum aðalhernaðarsérfræðingum Bandaríkjanna og raunar flestra annarra stórvelda ljóst, að þýðing Íslands er aðeins að vera einn lítill smáskjöldur fyrir Bandaríkin í slíku stríði. Við erum aðeins ætlaðir til þess að vera tættir í sundur, áður en aðalbaráttan yrði við Bandaríkin sjálf. Það er ekki um það að ræða að verja Ísland með þessu. Og ég kann satt að segja ekki við, að það sé verið að reyna að blekkja fólk með því hér ár eftir ár, að þessar varnir svokölluðu hér á Íslandi séu til þess að verja Ísland. Þessar varnir eru til þess að verja Bandaríkin. Og þeir menn, sem fylgjast eitthvað með til þess að taka einhverja ábyrgð á þessu, verða að gera svo vel að gera það út frá því sjónarmiði, að þeir séu að verja þá hugsjón, sem þeir þykjast vera að berjast fyrir, ef þeim finnst auðvaldsskipulagið einhver hugsjón, og þess vegna eigi Ísland að fórna sér fyrir þetta, við eigum heldur að deyja fyrir málstað Bandaríkjanna en lifa án þess málstaðar. Það er þetta, sem baráttan stendur um. Fyrst hæstv. utanrrh. fór að tala um þessar varnir almennt í sambandi við fsp. mína, vildi ég aðeins svara honum því. Annars býst ég ekki við, að það, sé neitt atriði fyrir okkur að fara í almennar deilur um það mál utan dagskrár hér á Alþingi.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að hann gæti enga yfirlýsingu gefið um það, hvort við Alþingi, yrði ráðgazt, áður en hér yrðu sett kjarnorkuvopn. Ég skil það að ýmsu leyti vel. Forustumenn Bandaríkjanna tala nú þegar um, að það geti verið nauðsynlegt að byrja styrjöld að fyrra bragði. Og það er náttúrlega gefið, að ef eitthvað slíkt ætti að gerast, þá yrði ekki mörgum trúað fyrir því, áður en árás yrði hafin af hálfu Bandaríkjanna, og hæstv. utanrrh. vill þess vegna ekki taka neinar skuldbindingar á sig. Þeir máske segja við ríkisstj. hér á Íslandi: Nú ætlum við að byrja, kjarnorkuvopnin eru komin á völlinn, þið verðið að segja já og fara í neðanjarðarbyrgin sem væru fyrir ráðherra. Og enginn tími væri til að kalla Alþingi eða neitt slíkt saman, ekki einu sinni kannske stjórnarliðana á Alþingi í skikkanleg byrgi. Þannig er það greinilegt, að eftir þessa yfirlýsingu hæstv. utanrrh. mætti Alþingi búast við því, að að því forspurðu yrðu gerðar þær ráðstafanir, sem þýddu, að kjarnorkuvopnum yrði beitt frá Íslandi. Þá vitum við það.

Svo aðeins í síðasta lagi, af því að hæstv. utanrrh. fór að tala um árásarhættu: Við Íslendingar höfum orðið fyrir tveim árásum á undanförnum 25 árum. Önnur var sú, að brezka herveldið réðst á Ísland og hertók það gegn mótmælum ríkisstj., Alþingis og almennings. Og síðara hernámið var, að Bandaríkin og Bretland sameiginlega settu íslenzkri ríkisstj. seinast í júní 1941 24 klukkutíma úrslitakosti um að biðja um svokallaða vernd Bandaríkjanna af frjálsum vilja. Og þar með hernámu Bandaríkin landið og hafa haldið því með einu eða öðru móti síðan. Þetta eru þær árásir, sem Ísland hefur orðið fyrir. Þetta er okkar reynsla, þannig að við vitum ósköp vel, hvaðan árása er von.

Þessar aths. vildi ég aðeins gera út frá því, sem hæstv. utanrrh. sagði, en fara ekki annars hér út í almennar pólitískar umræður.