31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, er þessi fyrirspurn borin fram utan dagskrár og án þess að hann hirti um að láta mig vita um það fyrir fram, að hann ætlaði að bera hana fram. Hefði þó verið auðvelt að hafa samband við mig á skrifstofu minni í morgun til þess að láta mig vita, að hann hygðist hreyfa þessu máli. Það er í raun og veru sjálfsagt kurteisisatriði, að þannig sé farið að. En segja má hins vegar, að það skipti ekki ýkjamiklu máli í þessu sambandi, vegna þess að heilbrigðisstjórnin hafi hugleitt, hvernig að eigi að fara, ef læknarnir hverfi frá störfum.

Því vil ég í fyrsta lagi svara svo, að enn hefur heilbrigðisstjórnin ekki fengið neina örugga vissu fyrir því, að læknarnir muni hverfa frá störfum. Heilbrigðisstj. hefur síðast í gær snúið sér til læknanna og óskað þess, að þeir gegni áfram störfum, þangað til félagsdómur hefur kveðið upp dóm í því ágreiningsefni, sem fyrir liggur. Jafnframt hefur ríkisstj. látið uppi sinn eindreginn vilja til þess að hraða því af sinni hálfu, að þessi dómur geti gengið. Og ég hygg, að það sé öllum ljóst, að þetta mál er svo vaxið, að fyrst verður réttarstaðan að vera ljósari en hún er nú, einkum eftir svar BSRB, til þess að málinu verði ráðið til lykta. Hitt er svo annað mál, að ef algert neyðarástand skapast á spítölunum, vegna þess að læknarnir hverfa þaðan, sem ég vil ekki enn trúa að þeir geri, þá verður að sjálfsögðu að reyna af ríkisvaldsins hálfu að gera þær ráðstafanir, sem þarf til þess að forða frá algeru neyðarástandi.