26.11.1962
Efri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er það að koma á fastari og öruggari almannavörnum í landinu, en áður hafa verið ráðgerðar. En það var skv. lögum frá 1941 og síðari breyt. á þeim lögum frá 1951, sem fjölluðu um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðaraðgerðum.

Með þessu frv. er ætlazt til þess, að ríkið taki að sér meiri forustu í þessum efnum en hingað til og þá einnig ríkari þátt í kostnaði en verið hefur. Þetta eru meginbreytingar frv., auk annarra reglna, sem eiga að leiða til fastari skipunar málanna en hingað til hefur átt sér stað. En skv. gildandi lögum er ætlazt til þess, að sveitarstjórnir hafi forustu í þessum málum, að vísu með þátttöku ríkisins í kostnaði. En nú í nokkuð mörg ár hefur ríkið ekki sinnt þessum málum. Felld var niður fjárveiting í því skyni af fjárlögum, svo að þær sveitarstjórnir, sem höfðu gert ráðstafanir í þessu skyni, urðu að standa undir kostnaðinum einar. Það má raunar deila um, hvort þessi niðurfelling á greiðslum úr ríkissjóði hafi stuðzt við gildandi lög. Um það skal ég ekki ræða á þessu stigi málsins. En aðalatriðið er, að með þessu lagafrv. á að vera bætt úr þeirri deilu, sem á sinum tíma reis um þetta. Og frv. er að öðru leyti samið með hliðsjón af þeim reglum, sem gilda bæði í Danmörku og Noregi og þar hafa reynzt vel, vitanlega miðaðar við íslenzka staðhætti, svo að þar er einungis um hliðsjón, en ekki beina fyrirmynd að ræða.

Þetta mál var allmikið rætt í Nd., en engu að síður var það samþ. þar að lokum mótatkvæðalaust, bæði við 2. og 3. umr. Vonast ég til þess, að málið fái greiðan framgang hér í hv. deild.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um það á þessu stigi og leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.