31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja þingheim velvirðingar á því, að ég hef ekki skjöl málsins með mér, vegna þess að ég hafði ekki vitneskju um, að þessi fsp. yrði borin hér fram né að svo undirbúinn málflutningsmaður af hálfu læknanna sem síðasti ræðumaður mundi taka hér til máls. Eins og ég sagði áðan, þá kemur þetta ekki að sök, einnig af því, að ég tel engum til góðs sannast að segja, að harðar deilur séu teknar upp á þessu stigi um málstað læknanna. Út af fyrir sig veit ég, að við höfum allir samúð með þeirra erfiða og vandasama starfi og engan okkar fýsir til þess að halla á þá eða gera þeim rangt til að einu eða öðru leyti, alveg eins og ég veit, að allir þm. vilja leggja lið sitt að því, eins og ríkisstj., að nauðsynlegri sjúkrahjálp og þjónustu sé haldið uppi, ekki aðeins í spítölum landsins, heldur við alla landsmenn.

En málið er ekki svo einfalt, að það verði leyst með þessum tilhneigingum einum, því að það er alveg rétt, sem hv. fyrirspyrjandi, þótt óformlega væri, hv. 4. þm. Austf., sagði, að þetta mál er aðeins einn hluti, einn angi af almennum kaupkröfum í landinu. Nú er það að vísu svo, eð hv. síðasti ræðumaður vildi halda allt öðru fram og studdist þar við m.a. grein eftir ágætan lækni, Friðrik Einarsson, sem birzt hefur í blöðunum í morgun, því að læknarnir halda því einmitt fram, að þeirra kröfur séu alveg óskyldar og annars eðlis en almennar kaupkröfur í landinu. Ríkisstj. kemst ekki hjá því að skoða málið í því ljósi, sem hv. 4. þm. Austf. varpaði á það. Það er ekki einungis um að ræða hugmyndir eða vilja læknanna sjálfra, jafnvel ekki heldur samanlagðar hugmyndir læknanna og ríkisstjórnar og Alþingis, heldur hvernig þetta mál verður skoðað af öðrum launþegum og þá sérstaklega og ekki sízt af þeim samtökum, sem læknarnir eru þátttakendur í, af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, — hvort þeir telja, að þarna sé um að ræða mál, sem hafi algera sérstöðu og sé hægt að leysa í því ljósi, eða mál, sem eins og hv. 4. þm. Austf. sagði sé aðeins einn angi af almennum kaupkröfum í landinu og þar með af kjarabaráttu starfsmanna ríkis og bæja.

Það er ákaflega erfitt að tala við jafnágætan mann og hv. síðasta ræðumann, 9. þm. Reykv., sem lýsti því yfir í öðru orðinu, að hann hefði ekki þekkingu á umræðuefninu og væri ekki dómbær um það, en bar hins vegar, eftir að hann hafði gefið þá yfirlýsinga, fram skilyrðislausar fullyrðingar um meginvandamálin, sem hér er við að etja. Hv. 9. þm. Reykv. sagði, að læknarnir hefðu sagt löglega upp og þeir hefðu gert það sem einstaklingar. Og mér skildist báðir hv. ræðumenn halda því fram, að nú væri löglegur uppsagnartími liðinn og þess vegna hefði ríkisstj. orðið að vera við því búin, að læknarnir hættu störfum. En meginvandinn er sá, að af hálfu ríkisstj. er litið þannig á, — a.m.k. með nokkrum rökum, ríkisstj. getur sjálf ekki endanlega dæmt um það, en það er litið þannig á, — að uppsagnirnar séu ekki löglegar, og til þess hníga ýmis rök, og þessu var haldið fram gagnvart læknunum strax við fyrsta tækifæri í apríl í vor, þegar málið fyrst kom undir úrskurð ríkisstj. eftir þeirra uppsögn. Ástæðan til þess, að þá var litið þannig á, að uppsagnirnar væru ekki löglegar, er sú, að enn eru í gildi lögin, sem banna verkfall opinberra starfsmanna, lög, sem hafa verið í gildi frá 1915, lög, sem gerð hefur verið tilraun til að fá felld úr gildi, en engin ríkisstj. hefur viljað beita sér fyrir að fella úr gildi og Alþingi aldrei viljað samþykkja að fella skyldi úr gildi. Eftir þessum lögum eru verkföll opinberra starfsmanna óheimil, og eftir þeim skýringum, sem fræðimenn, bæði íslenzkir og erlendir, hafa gefið á hugtakinu „verkfall“, þá er það a.m.k. skoðun margra, sem þetta mál hafa athugað, að hér sé um að ræða verkfall af hálfu læknanna. Ég veit, að þeir halda því fram, að þetta sé ekki verkfall, þetta séu einstaklingsuppsagnir. En ég þori að fullyrða, að eftir skýringum eins og ég segi — fremstu fræðimanna verður trauðla hjá því komizt að líta á uppsagnirnar sem verkfall. Þess vegna hafa þær að mínu viti frá fyrstu tíð verið ákaflega hæpnar. Um þetta var gerður fyrirvari af hálfu ríkisstj. strax í upphafi og læknunum á þetta bent.

Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir því, að þó að lögin um verkfall opinberra starfsmanna að mínu viti gildi í þessu tilfelli, þá hef ég ekki talið rétt að viðhafa þá aðferð gagnvart læknunum að kæra þá fyrir þær sakir. Og það er einfaldlega vegna þess, að ég hef litið þannig á, að sjúkrahús landsins yrðu ekki rekin með því að knýja lækna til þess að starfa þar að viðlagðri refsingu, hvort sem það væru sektir eða fangelsi. Hér er um slíkt trúnaðarstarf að ræða, trúnaðarsamband milli lækna og þeirra sjúklinga, að ég tel, að það mundi verulega skerðast og lenda í hættu, ef læknarnir fengjust ekki til þess að gegna sínu starfi með öðru móti en því, að ella yrði beitt við þá refsingu.

En málið er ekki leyst með því, þó að við ákveðum, — sem segja má að sé kannske hæpið af ríkisstj., að taka þá ákvörðun, — að kæra ekki læknana, ef hún telur að þeir hafi framið brot á landsins lögum. En málið er sem sagt ekki leyst með því, þótt ríkisstj. taki þá ákvörðun að kæra læknana ekki, vegna þess að einmitt á síðasta vori setti Alþingi ný lög um kaup og kjör opinberra starfsmanna, lög, sem allur þingheimur var sammála um í meginatriðum, og lög, sem sett voru í samkomulagi við heildarsamtök starfsmanna ríkis og bæja. Og í þessum lögum eru alveg skýr ákvæði um það, hvernig eigi að fara um ágreining, bæði um sjálft kaupið og eins kjör hinna opinberu starfsmanna, ef ágreiningur kemur upp um það. Og ég tel það af minni hálfu ljóst, að uppsögn læknanna og brotthvarf frá starfi sé einnig samkv. þessum lögum óheimilt, þ.e. eftir lögum, sem sett voru af Alþingi á s.l. vori og með samþykki Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Vegna þess að ríkisstj. taldi, að deilan hlyti að komast undir þessi lög, eða a. m, k. væru svo miklar líkur til þess, að hún gæti komizt undir þau lög, þá leitaði ríkisstj. álits Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þetta mál. En bandalagið svaraði aftur með því að segja, að það vildi ekki taka afstöðu til þess, hvort málið heyrði undir sig eða ekki, vegna þess að öðrum aðila en því sjálfu væri fengið fullnaðarúrskurðarvald um þetta efni. Ég bið menn að afsaka, að ég hef ekki bréfið fyrir mér, af því að mér hafði ekki verið skýrt frá því, að von væri á þessum umr., en ég hygg, að ég reki efni bréfsins rétt. Ég verð þá leiðréttur, ef mér hefur skotizt eitthvað í því. En á þennan veg vísaði bandalagið málinu til úrskurðar félagsdóms á þann veg, því að í umsögn þess felst, að það sé enginn annar en félagsdómur, sem geti kveðið á um það, hvort þessi deila sé þess eðlis, að ríkinu beri að hafa um hana samninga við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og eftir atvikum einstök félög þess, eða hvort þarna sé um að ræða mál, sem varði einstaklingana eina. Þannig lítur bandalagið sjálft á þetta efni. Og ef ríkisstj. hefði að fenginni þessari yfirlýsingu tekið upp samninga við þá einstaklinga, sem hér er um að ræða, lá ríkisstj. varnarlaus fyrir þeirri ásökun af hálfu bandalagsins eða einstakra meðlima þess, að hún væri að rjúfa við það gerða samninga á s.l. vori. Svona horfir þetta mál við. Og þess vegna er það alveg nauðsynleg forsenda fyrir lausn málsins, að úrskurður félagsdóms fáist.

Persónulega tel ég, að málið heyri undir félagsdóm, og ég segi það einnig sem mína persónulegu skoðun, að ég tel, að uppsögn læknanna og þar með brotthvarf þeirra — frá starfi fái ekki staðizt eftir lögunum, sem sett voru í vor um kaup og kjör starfsmanna ríkisins. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það þurfi endilega að vera rétt, sem ég held fram í þessu. Ég veit, að ýmsir góðir lögfræðingar telja, að málið heyri ekki undir félagsdóm, og jafnvel er því haldið fram, sem er þó enn þá hæpnara, að uppsögnin sé heimil, bæði samkv. lögunum frá því í vor og samkv. lögunum frá 1915. En eins og málið horfir, þá er alveg nauðsynlegt að fá úr þessu skorið, og það er engin kúgunarráðstöfun gagnvart læknunum að fá úr þessum réttarágreiningi skorið.

Ég lýsi því þvert á móti yfir, að ef sú verður niðurstaðan, að málinu verði vísað frá félagsdómi og það verði staðfest af hæstarétti, að málið heyri þar ekki undir, eða ef félagsdómur dæmir þannig í málinu, að uppsögnin sé samkv. þeim lagaboðum, sem félagsdómur er bær að dæma um, lögleg, þá mun ég ekki leggja til, að málið verði sótt samkv. lögunum frá 1915, vegna þess að ég vil ekki, að málið sé sótt af offorsi eða á þann veg, að læknarnir hafi nokkra ástæðu til þess að segja, að þá eigi að beita kúgun. Þeir eiga ekki skilið neina kúgun. Þeir vinna slíkt starf, að við eigum öll að kunna að meta það og þakka. En þeir verða einnig, eins og aðrir landsmenn, að una því, að skorið sé úr, hvort alveg nýlegir samningar milli þess bandalags, sem þeir eru aðilar að, og nýleg lög, sem sett voru um þessi efni, gildi um þá eða þeir séu lausir við þau lög. Og ég vil í lengstu lög treysta því, að læknarnir fáist til þess að bíða með brottför sína af spítalanum þann tíma, sem þarf til þess, að úr þessu fáist skorið.

Okkur er það öllum ljóst, að ef þeir vinna það mál, þá verður þeirra aðstaða — réttaraðstaða — miklu sterkari en ella, siðferðisleg aðstaða þeirra einnig miklu sterkari en ella, ef þeir vilja bíða með sínar aðgerðir, þangað til þessi dómur er fallinn og réttarástandið er ljóst. En málið aftur á móti gengur á móti þeim, þá verða þeir að sætta sig við það eins og aðrir að una landsins lögum, að una því, að þeirra mál verði afgreitt, annaðhvort í samræmi við þær reglur, sem þingheimur samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta eða shlj. hér á s.l. vori og þeirra samtök þá voru aðili að, — annaðhvort að þeirra mál verði afgreitt á sama veg, eins og aðrir starfsmenn hafa sætt sig við, að þeirra mál verði afgreidd eftir, eða þá að samningar verði teknir upp við þá á þeim réttargrundvelli, sem þá er úrskurðað að liggi fyrir, en þá vitanlega í samráði við og eftir atvikum með milligöngu réttra aðila innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.