31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir vinsamleg og viðurkennandi orð í garð þeirra lækna, sem hér er um að ræða og gegna mikilvægum störfum í þjónustu heilbrigðismála. Ég vil einnig þakka honum fyrir hógværð í málflutningi, einkum af því að eins og ég sagði áðan, þá treysti ég mér lítt til þess að rökræða við hann um lögfræðileg efni. En þar fyrir hef ég náttúrlega sem leikmaður leyfi til að sannfærast um eitt og annað í lögfræðilegum efnum, og ég skammast mín ekkert fyrir það.

Mig langar nú til að minnast á eitt atriði, og það snertir 15. gr. l. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þeirri grein er tekið fram, að einstaklingar megi segja upp störfum sínum, en það er áskilið, að þeir skuli segja upp störfum sínum með 3 mánaða fyrirvara. Þó er ákveðið, að undir vissum kringumstæðum þurfi ráðh. ekki að taka svo stuttan uppsagnarfrest gildan og að lengja megi hann upp í 6 mánuði. Hvenær er þetta hægt? Það er hægt, þegar svo margir starfsmenn ríkisins segja upp störfum samtímis í sömu stofnun, að til auðnar horfi. Þannig er þetta orðað í lagagreininni. Löggjafinn gerir ráð fyrir því og telur það leyfilegt, að svo margir starfsmenn ríkisins segi samtímis upp störfum, að til auðnar horfi. Við þessu rekur löggjafinn varnagla, og hann er sá, að uppsagnarfresturinn megi þá lengjast um 3 mánuði til viðbótar í því skyni, að ráðh. hafi þeim mun betri tíma til að ráða bót á vandanum. Mér sýnist, að samkv. þessum lögum, þessari grein laganna, þá sé það heimilað, að svona margir segi upp samtímis, án þess að menn verði sakaðir um, að hér sé um verkfall að ræða, félagsbundið verkfall.

Hæstv. ríkisstj. eða stjórn ríkisspítalanna fór fram á það eða krafðist þess, að þessari laga. grein yrði beitt í þessu tilfelli, til þess að vinna tíma til að ná samkomulagi við læknana. Hvað felst í því, að hæstv. ríkisstj. grípur til þessarar heimildar í 15. gr. laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins? Það felst í því viðurkenning hæstv. ríkisstj. á því, að aðgerðir læknanna um uppsagnir séu lögmætar. Ég veit, að heilbrigðisstjórnin notaði sér þessa heimild með þeim fyrirvara í orði, að þetta væri ekki viðurkennt, í því fælist ekki viðurkenning. En ég vil segja, á borði felst sú viðurkenning í þessu. Í verkinu hefur hæstv. ríkisstj. fallizt á lögmæti uppsagnanna með því að óska eftir að nota þessa heimild í 15. gr. l., hvað sem hún svo segir.