31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hélt hér ágætan hluta úr væntanlegri varnarræðu málflutningsmanna læknanna fyrir félagsdómi, og ég veit, að málflutningsmaður mætti vera vel sæmdur af þeim málflutningi, sem þarna kemur fram. En málið er ekki eins einfalt og hv. þm. vildi vera láta, þegar af þeirri ástæðu, sem hann einnig gat um að vísu, að ríkisstj. hafði þann fyrirvara, þegar hún krafðist þess, að fresturinn yrði lengdur, að með því væri engin afstaða tekin til þess, hvort uppsagnirnar sjálfar væru löglegar eða ekki, svo að þegar læknarnir hlýddu þessari ákvörðun ríkisstj., þá vissu þeir ofur vel, undir hvaða forsendum hún var gerð, og vissu þá þegar í stað um, að ríkisstj. leit öðruvísi á gildi uppsagnanna en læknarnir sjálfir. Það er svo einnig atriði, sem skjóta má hér fram, að á þeim tíma, þegar ríkisstj. gerði þennan fyrirvara um gildi uppsagnarinnar, — og hún gerði hann alveg skýrt og ótvírætt, — þá voru lögin frá því í vor, sem sköpuðu enn nýtt réttarástand, ekki komin í gildi. En það er einmitt á þeim lögum og afleiðingum þeirra, sem ríkisstj. telur nauðsynina um að bera málið undir félagsdóm hvíla, svo að hv. þm. var þarna í raun og veru að tala um réttarástand, sem segja má að sé orðið úrelt miðað við það, sem nú er orðið: En ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að fræðimenn telja, að ákvæðið um beitingu til þess að framlengja uppsagnarfrestinn stangist engan veginn á við fyrirmælin, sem banna verkfall, að þau fyrirmæli eigi engu að síður tilverurétt og tilveru, þrátt fyrir þessi ákvæði í l. um réttarstöðu opinberra starfsmanna. Þau séu milliákvæði, sem hægt er að beita, jafnvel þótt ekki sé um verkfall að ræða, ef engu að síður svo margir segja upp í einu, að til auðnar horfi um starfræksluna. En ef öll atvik málsins sýna, að um verkfall er að ræða, þá eigi bæði við gömlu lögin frá 1915 og það efnisbann við verkfalli opinberra starfsmanna, sem felst í hinni nýsettu löggjöf um kaup og kjör opinberra starfsmanna frá 28. apríl í vor.