31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja að ráði þau orðaskipti, sem hér hafa átt sér stað, en vildi þó láta nokkur sjónarmið koma hér fram.

Ég viðurkenni það fullkomlega, sem kom fram hjá hæstv. heilbrmrh., að ríkisstj. standi hér frammi fyrir nokkrum vanda. En þegar er staðið frammi fyrir vandamáli eins og því, sem hér um ræðir, má bregðast við á tvennan hátt. Það má bregðast við á þann hátt að reyna að sýna skilning og samkomulagsvilja til lausnar þeirri deilu, sem upp hefur risið, eða mæta henni með þrjózku og stífni. Og því miður hefur allt of mikið á því borið í slíkum deilum sem þessum, sem upp hafa risið á undanförnum árum, að í stað þess, að af opinberri hálfu hafi verið unnið að því að leysa deiluna með skilningi og samkomulagsvilja, þá hefur hin leiðin veríð farin. Og mér sýnist á því, sem hér hefur komið fram, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi kannske að einhverju leyti haft, lög að mæla, þá sé sú aðferð, sem hún hefur valið, tæpast hin líklegasta eða vænlegasta til að leysa þetta deilumál. En það er að sjálfsögðu það, sem mestu máli skiptir, að reynt sé að finna sem fyrst viðunarlega lausn á málinu, en til þess held ég að sú aðferð, sem ríkisstj. hefur valið, leiði ekki, heldur verði hún miklu frekar til þess að auka stífni og þrjózku í deilunni og gera hana enn verr leysanlega en ella. Þess vegna vildi ég mega vænta þess, að ríkisstj. tæki upp nokkur önnur vinnubrögð í þessari deilu en hún hefur fylgt hingað til og færði hana á þá braut að reyna að leysa þetta mál með skilningi og velvilja.

Um málið sjálft vil ég annars segja það, að það er í mínum augum miklu stærra en sú deila milli sjúkrahúsalækna og ríkisstj., sem hér stendur yfir. Þetta mál snýst raunverulega um það, hvort landið á að vera læknalaust eða læknalítið innan skamms tíma. Nú er þannig ástatt víða úti um land, að þar eru mörg héruð læknislaus. Og það ber alltaf á því í vaxandi mæli í þéttbýlinu, að þar sé skortur á læknum. Og við vitum þess mörg dæmi, ég held svo að segja hver og einn einasti þm., að ungir læknar hafa fallið fyrir aldur fram vegna þess, að þeir hafa unnið allt of mikla vinnu. Þeir hafa orðið að leggja það mikið á sig til þess að hafa þau laun, sem eðlilegt er að slíkir menn hafi. Og þetta ástand er ekki æskilegt fyrir þá, sem á læknum þurfa að halda, því að að sjálfsögðu þurfa læknar að hafa ekki meiri störf en það, að þeir geti vel undir þeim risið og þeir sinnt sjúklingum sínum sómasamlega. Vegna þess, hvernig launakjörum lækna er komið núna, fara alltaf fleiri og fleiri læknar til útlanda og setjast þar að, og ef þessu heldur áfram eins og verið hefur að undanförnu, þá kemur ekki aðeins að því, að héruðin úti á landi verði læknislaus, þá verður einnig mikill læknisskortur í þéttbýlinu. Það er frá þessu sjónarmiði, sem mér finnst, að valdhafarnir verði að líta á þetta mál, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og það er frá þessu sjónarmiði, sem verður að líta á þá deilu, sem hér stendur yfir, og reyna að leysa hana samkv. því.