09.11.1962
Sameinað þing: 11. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í gærkvöld voru talin atkv. sjómanna og útgerðarmanna um miðlunartill. sáttasemjara í yfirstandandi síldveiðideilu. Var miðlunartill. sáttasemjara felld af báðum aðilum með mjög miklum atkvæðamun, og virðist samkomulag í deilunni vera nú fjarlægara en nokkru sinni fyrr. Með tilliti til þessa nýja viðhorfs, sem skapazt hefur við þessi úrslit, leyfi ég mér að spyrjast fyrir um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. til lausnar —deilu þessari. Ég hygg, að flestum sé nú ljóst, að milliganga ríkisstj. sé nauðsynleg til þess að finna bráðabirgðalausn í deilunni, er tryggi, að síldveiðiflotinn komist úr höfn, svo að firrt verði frekara tjóni en orðið er. Ekki sízt á ríkissjóður sjálfur mjög mikið undir því komið, að deilan leysist, og tel ég það ásamt fleiri ástæðum réttlæta fullkomlega, að varið sé nokkurri fjárhæð úr ríkissjóði, er nægi til þess, að samkomulag geti tekizt með deiluaðilum um viðhlítandi bráðabirgðalausn, og þess þá jafnframt gætt, að haldið sé áfram sáttatilraunum um frambúðarlausn málsins á milli deiluaðila. Sú fjárhæð, er þyrfti til að tryggja bráðabirgðalausn, gæti aldrei orðið verulega stór, og hún fengist áreiðanlega aftur, ef flotinn kæmist úr höfn og þyrfti ekki enn þá að bíða lengi bundinn við bryggju, eins og hann hefur gert undanfarnar vikur.

Því hefur verið haldið fram af talsmönnum hæstv. ríkisstj., bæði innan þings og utan, að deilu sem þessa beri aðilum sjálfum að leysa og ríkisstj. ætti ekki að grípa inn í fyrr en í síðustu lög og þá yrðu aðgerðir hennar að hafa stuðning í almenningsálitinu. Víst væri æskilegt, að deiluaðilar gætu komið sér saman sjálfir um einhverja lausn, en á því eru bara ekki miklar líkur, og staðreynd er, að deilan hefur nú staðið nokkuð lengt og hún hefur þegar valdið svo miklu tjóni, að óbreytt ástand þessara mála er óþolandi. Hæstv. ríkisstj. hefur ítrekað — þrátt fyrir yfirlýsingar í upphafi um hið gagnstæða — gripið inn í vinnudeilur, vafalaust í þeim tilgangi að leiða þær til lykta. Afskipti ríkisstj. á þessari deilu nú geta því ekki talizt neitt „prinsip“-brot af hennar hálfu. Almenningi er líka fyllilega ljóst, að einhverra aðgerða sé þörf af hálfu ríkisstj. og að sátta verði að leita með aðilum: Og ég þykist þess fullviss, að yfirgnæfandi meiri hl. landsmanna telur eðlilegt og réttlætanlegt að verja nokkru fé til þess að finna bráðabirgðalausn í deilunni, þótt til þess þurfi að verja nokkru ríkisfé, og þá ekki sízt fyrir þá sök, að mikið var af útveginum tekið í ríkissjóð, er síðasta gengisfelling var framkvæmd. En einmitt til þeirrar gengisfellingar má rekja þann óróa, sem nú er ríkjandi á vinnumarkaðinum. Ég vil því eindregið skora á hæstv. ríkisstj. að bregðast nú fljótt við og tryggja, að sættir náist í deilu þessari eins fljótt og mögulegt er.