26.11.1962
Efri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

6. mál, almannavarnir

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðh. tók fram, liggur hér fyrir frv. til l. um almannavarnir. Þetta frv. á að koma í staðinn fyrir gildandi lög um sama efni, lögin um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðaraðgerðum, en þau lög voru, eins og hæstv. ráðh. tók fram, samþ. 1941, en síðan aukin 1942 og aftur 1951.

Lögin, sem nú eru í gildi um þetta efni, lögin um almannavarnir, eru ekki ýkjalöng eða fyrirferðarmikil. Þau eru aðeins í 7 greinum. Hins vegar er það frv., sem hér liggur fyrir til laga um almannavarnir, í 28 greinum. En þegar að er gáð, er efnisinnihald frv. ekki mjög miklu meira en laganna, sem nú eru í gildi. Hæstv. ráðh. lýsti réttilega þeim tveim meginbreytingum, sem felast í frv. frá gildandi lögum. Það er í fyrsta lagi, að hér eftir skal ríkisstj. hafa heimild til að gera hvers konar ráðstafanir til almannavarna í samráði við sveitarstjórnir. En í lögunum, sem nú gilda, er þetta öfugt. Þar er sveitarstjórnum heimilað að gera í samráði við ríkisstj. hvers konar ráðstafanir til almannavarna. Þetta er vissulega veruleg breyt. En hvort hún er til góðs og að hvað miklu leyti hún er til góðs, skal ég ekki um deila.

Það kann vel að vera, að það sé hentugra frá sjónarmiði framkvæmda og skipulags, að þetta sé í höndum ríkisstj., að ríkisstj. hafi frumkvæðið. En það er annað, sem mér er ekki eins vel við í þessu sambandi, og það er það, að hér er verið að taka gamlan rétt, taka ákvörðunarrétt af sveitarfélögunum og leggja hann í hendur ríkisvaldinu.

Mér finnst of mikið hafa verið gert að því á undanförnum árum, sumpart að taka rétt af sveitarfélögunum og leggja hann í hendur ríkisins og sumpart að auka fjárhagsbyrðar og aðrar byrðar á herðum sveitarfélaganna, án þess að verulegt komi þar á móti.

Önnur breytingin, sem er á þessu frv, frá gildandi lögum, er hvað snertir fjárhaginn, eins og hæstv. ráðh. tók fram, þar sem nú á eftirleiðis að greiða kostnað við almannavarnir að 2/3 úr ríkissjóði, það skal verða meginreglan, en hefur hingað til verið þannig, að kostnaður við slíkar varnir hefur átt að greiðast að hálfu af ríkissjóði og að hálfu af sveitarstjórnum. Þetta er að mínum dómi kostur, þessi breyting.

Um aðrar veigamiklar breytingar er ekki að ræða í þessu frv. frá gömlu lögunum, svo að þess er vart að vænta, að um þetta frv. verði mjög harðar deilur. Hér er ekki svo mikið af nýmælum á ferðinni.

Ég vildi þó aðeins fara um þetta frv. nokkrum orðum þegar við 1. umr., tala lítils háttar um það efni, sem frv. fjallar um, en mun ekki snúa mér að þessu sinni að einstökum atriðum frv. Væntanlega fæ ég tækifæri til þess síðar, því að ég sé þegar nokkra galla á frv., sem að mínum dómi ættu að falla burt, áður en það endanlega verður afgreitt héðan.

Eins og tekið hefur verið fram, hafa lög um almannavarnir verið í gildi síðan á stríðsárunum. En hvað er að segja um framkvæmd þessara laga? Ég held, að það sé í stuttu máli þetta: Síðan stríði lauk, hefur svo að segja ekkert verið gert á þessu sviði. Í Reykjavík starfaði að vísu loftvarnanefnd í nokkur ár, en nú um allmargra ára skeið hefur hún sofið svefni hinna réttlátu. Eitthvað sinnti þessi loftvarnanefnd Reykjavíkur minni háttar verkefnum á þessu sviði, en þau stóru verkefni, sem máli skipta, réðst hún aldrei í. Og ég tek ekkert til þess, því að þessi nefnd hafði aldrei yfir neinum teljandi fjármunum að ráða til sinna þarfa. Þetta er allt og sumt, sem sagt verður um framkvæmd gildandi laga um almannavarnir. Ekkert annað sveitarfélag í landinu, ekki einu sinni neitt sveitarfélag á Suðurnesjum, þar sem hættan hefur verið talin mest, ef til styrjaldar kæmi, hefur á neinn hátt notfært sér heimild laganna. Og þannig hafa þessi lög frá stríðslokum verið hreinasta pappírsgagn. En hvers vegna hafa þessi lög orðið að pappírsgagni einu saman? Ég held, að það sé ekki um að kenna einhverjum ákveðnum ágöllum laganna, t.d. því, að sveitarstjórnirnar áttu að hafa forgönguna. Ég held, að sökin liggi ekki í því. Og ég sé ekki neina ágalla aðra á gildandi lögum, ágalla, sem nú virðist eiga að bæta úr með þessu frv. En staðreyndin er þessi: Lögin hafa frá stríðslokum verið pappírsgagnið eitt.

Nú á að breyta til, það á að samþykkja langtum viðameiri og stærri lög um sama efni í stað þeirra gömlu. En verða þau ekki einnig pappírslög eins og þau gömlu? Verði svo eða sé það þannig hugsað, þá þarf sannarlega ekki að taka þetta frv. hátíðlega, sem hér liggur fyrir, þó að sjálft málefnið sé sannarlega athyglisvert. Ég held ekki, að framkvæmdaleysið á þessu sviði sé gömlu lögunum að kenna. Og ég held ekki, að athafnaleysið á sviði almannavarna á undanförnum árum geti afsakazt með því, að ráðstafanir hafi gerzt óþarfar á undanförnum árum vegna friðar og öryggis í heiminum. Þvert á móti hefur friður jafnan þótt ótryggur á undanförnum áratugum. Kalt stríð svokallað er háð að staðaldri í heiminum og af kappi, og oft og víða hefur komið til beinna hernaðarátaka. Stríðið í Kóreu, Berlínardeilan, uppreisnin í Ungverjalandi, stríð Breta og Frakka á hendur Egyptum, Berlínarmúrinn og margt og margt fleira hefur orðið til þess að gera friðarhorfurnar í heiminum tvísýnar. Þrátt fyrir þetta höfum við hér á Íslandi haldið að okkur höndum hvað snertir allar varúðarráðstafanir, sem lög hafa gert ráð fyrir. Þrátt fyrir það að stórstyrjöld hafi oft virzt vera á næsta leiti, hafa almannavarnir engar verið til á Íslandi fram á þennan dag. Mér finnst, að það verði ekki hjá því komizt í sambandi við umr. um þetta frv. að minnast á þetta eftirtakanlega og raunar átakanlega sinnuleysi íslenzkra stjórnarvalda um hag og heill borgaranna, ef til heimsstyrjaldar kæmi. Þetta sinnuleysi er sérstaklega áberandi fyrir þá sök, að stjórnarvöldin hafa vitandi vits kallað yfir þjóðina hinar geigvænlegustu árásarhættur með því að lána landið undir herstöðvar og herafla stórveldis, sem á svipstundu verður stríðsaðili, ef til hernaðarátaka kemur. Með þessum fríðindum stórveldinu til handa hafa stjórnarherrar okkar kallað yfir sig þunga ábyrgð. En hins vegar virðast þeir allt fram á síðustu tíma ekki hafa verið sér meðvitandi um þessa miklu áhættu. Á það getur a.m.k. bent skeytingarleysi yfirvaldanna um lífsöryggi íslenzkra borgara.

Þrátt fyrir lagaheimild allan þennan tíma hafa okkar vísu feður engan áhuga sýnt almannavörnum. Og þrátt fyrir stöðuga styrjaldarhættu hafa þeir tæpast í öll þessi ár svo mikið sem imprað á ráðstöfunum til verndar þegnunum, auk heldur meira. Hver getur verið skýringin á þessu sinnuleysi eða þessu skeytingarleysi? Ég vil strax taka það fram sem mína skoðun, að hér kemur ekki til greina mannvonzka eða mannfyrirlitning, síður en svo. Sönnu nær væri líklega að tala um úrræðaleysi leiðtoganna. Þeir sjá blátt áfram ekki fram úr þessum vanda. Þeir skynja hina gífurlegu hættu, sem þjóðinni er búin, sérstaklega vegna herstöðvanna í landinu, en þeir kunna engin nýtileg ráð til að draga úr þeirri hættu. Ætli þetta sé ekki sannleikurinn í þessu máli? Ég skal taka það fram einnig, að ég lái ekki íslenzkum stjórnarvöldum þetta úrræðaleysi svo mjög. Það er á allra vitorði, að það verður ekki auðvelt um vik að vernda mannslif í kjarnorkustyrjöld. Fjöldi manna, sem þekkja til nútíma stríðstækni, álíta, að í slíkri styrjöld séu yfirleitt engar almannavarnir, þær séu ekki til. Þetta álit er ekki til komið allra síðustu árin. Margir höfðu þessa skoðun þegar fyrir 10 árum. En þeir eru enn fleiri í dag, eftir því sem árásartækninni fleygir fram. Til eru þeir og þeir allmargir, sem telja, að verndarráðstafanir geti að vísu við vissar aðstæður komið að gagni og mjög takmörkuðu þó. Í því sambandi hefur sérstaklega verið rætt um brottflutning tólks af hættusvæðum og um byggingu öflugra neðanjarðarbyrgja. Aðrar leiðir til verndar í stórstyrjöld virðast ekki vera til af þessu tagi. Allt annað, sem kynni að vera gert, er aukaatriði eða þá kák.

Fyrir þessum tveimur ráðstöfunum, brottflutningi fólks og öryggisbyrgjum, er að sjálfsögðu engin reynsla fengin enn. Og það kann að fara svo, að báðar reynist gagnslitiar. En hitt er víst og vitað, að hvor þessara ráðstafana um sig og þá ekki síður báðar til samans kosta þjóðfélagið of fjár og mikinn undirbúning. Okkur Íslendinga mundu þær vafalaust kosta hundruð millj. kr.

Skilningur íslenzkra valdhafa á þessum efnum undanfarin ár hefur sennilega verið eitthvað á þessa leið: Líklega eru engin ráð til verndar borgurunum í árásarstyrjöld eða þá svo vafasöm og hæpin, að ekki er í þau leggjandi óhemjulegs kostnaðar vegna. — Mér þykir líklegast, að það sé þetta, sem mótað hefur afstöðu ráðandi manna hér á landi til almannavarna síðasta áratuginn eða síðan stríði lauk. Og ég get satt að segja, eins og ég hef tekið fram, ekki áfellzt þá svo mjög fyrir þessa afstöðu.

Þetta virðist vera afstaða íslenzkra stjórnarvalda eða virtist vera a.m.k. allt fram að árinu 1961. En þá er sem hæstv. ríkisstj. vendi snögglega sínu kvæði í kross, og þá upphefst fyrir hennar tilverknað mikill áróður fyrir almannavörnum. Það er ekki óeðlilegt, að spurt sé: Hvað var að gerast?

Í grg., sem fylgdi frv. hæstv. ríkisstj. á þinginu í fyrra, lýsti hæstv. ríkisstj. þessum sinnaskiptum sínum með þessum orðum, eins og stendur á bls. 7 í þessari grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Um þetta leyti síðla hausts 1961 hófust umr. um það innan ríkisstj., að óverjandi væri að gera ekki gangskör að því að hefja hér rannsóknir og undirbúning almannavarna, miðað við aðstæður hér og reynslu annarra í þessum efnum.“

Síðla hausts 1961 kemst hæstv. ríkisstj. loks að því, að það sé óverjandi að gera enga gangskör til almannavarna.

Ég var nýbúinn að eyða allmörgum orðum í það að afsaka sinnuleysi eða skeytingarleysi yfirvalda okkar á undanförnum áratugum. Hér kemur hæstv. ríkisstj. fram 1961 og segir, að þetta skeytingarleysi og sinnuleysi sé óverjandi. Hvað skyldi hafa valdið þessum snöggu sinnaskiptum hæstv. ríkisstj. haustdagana 1961? Sjálf reynir hæstv. ríkisstj. í grg. sinni, sem ég nefndi áðan, að skýra þessi sinnaskipti fyrir almenningi. Hún talar um alvarleg átök og óvissu hér og hvar, í Kongó, á Kúbu, í Laos, Víetnam og víðar. Hún talar um ófriðarbliku og aukna spennu og um atómsprengingar Rússa. Allt er þetta rétt. Þetta eru sannmæli — og þó? Verkar þetta sannfærandi sem skýring á þessum snöggu sinnaskiptum síðla hausts 1961? Þessir atburðir eða aðrir ámóta hafa verið að gerast í heiminum nú á annan áratug, og allan þann tíma hefur oltið á ýmsu um friðarhorfur, eins og hverjum manni er kunnugt. Nei, mér finnst skýring hæstv. ríkisstj. á þessum skyndilega áhuga fyrir almannavörnum ekki verka sannfærandi. Hér hlýtur eitthvað að fara á milli mála. Mér þykir líka vert að athuga þetta nánar og aðgæta, hvort ekki sé finnanleg sú rétta skýring á þessari vakningu hæstv. ríkisstj. haustið 1961. Hvers vegna vaknaði hún svona óvænt og snögglega til meðvitundar um, að óverjandi sé að gera ekki ráðstafanir til að bjarga lífi íslenzkra þegna í kjarnorkustríði? Ég minni á það enn einu sinni, að þessi stórmerka vakning greip hæstv. ríkisstj. síðla hausts 1961, að hennar eigin sögn. Hvað skyldi hafa gerzt um líkt leyti annars staðar í heiminum og þá fyrst og fremst á höfuðbólinu okkar, í sjálfum Bandaríkjunum? Ég skal nú greina örlítið frá, hvað gerist í því stóra landi í þessum efnum, enda tel ég vafalaust, að þangað megi rekja orsakir til þess fjörkipps, sem íslenzk stjórnarvöld tóku á s.l. ári.

Í júlímánuði 1961 bar það til í Bandaríkjunum, að forsetinn fór þess á leit við þingið, að fjárveiting til hernaðarþarfa yrði stóraukin, og jafnframt gerði hann þá ráð fyrir verulegri hækkun fjár til almannavarna þar í landi. Við þetta tækifæri flutti forsetinn ræðu, þar sem hann fullyrti, að kominn væri tími til að gera eitthvað til varnar borgurum landsins. Bandaríkjaforseti orðaði það þannig, að kominn væri tími til að gera eitthvað til varnar borgurum landsins. Okkar hæstv. ríkisstj. orðaði það eilitið öðruvísi, „að óverjandi væri að gera ekki gangskör að.“ Forsetinn lét þá skoðun í ljós við þetta tækifæri, að með byggingu neðanjarðarbyrgja mætti bjarga mannslífum í kjarnorkustríði. Loks kvað hann það von sína að geta innan fárra mánaða tilkynnt borgurum landsins, hvað þeir gætu strax gert til að vernda líf fjölskyldu sinnar, ef til árásar kæmi.

Þessi ræða Bandaríkjaforseta vakti mikinn úlfaþyt í Bandaríkjunum og raunar um heim allan. A.m.k. barst bergmál þessarar ræðu víða um heim. En blöðin í Bandaríkjunum ræddu næstu mánuði á eftir almannavarnir frá öllum hliðum og af mjög miklu kappi. Og eins og við höfum heyrt, tóku um sama leyti amerískir framleiðendur að auglýsa nýjustu fjölskyldubyrgi og kosti þeirra af ekki minna kappi. Í Bandaríkjunum var um það deilt sumarið og haustið 1961, hver hefði verið hinn sanni tilgangur með þessari ræðu forsetans. Menn voru alls ekki þar í landi á einu máli um, hver hefði verið hinn sanni tilgangur Bandaríkjaforsetans með ræðunni um almannavarnir. Þeir, sem kunnugastir þóttust málum, litu flestir á þetta tiltæki, almannavarnirnar eða umr. um almannavarnirnar, sem einn þáttinn í kalda stríðinu. Það væri ekki um að ræða umhyggju fyrir borgurunum, heldur væri hér um að ræða einn þáttinn í kalda stríðinu. Með aukningu almannavarna skyldi Rússum sýnt og sannað, að Bandaríkin væru við öllu búin og mundu hvergi hopa, jafnvel þó að kjarnorkustyrjöld væri í aðsigi. Ekki voru allir á þessu máli. Aðrir töldu, að þetta ætti að vera ráð gegn vaxandi vonleysi og uppgjöf borgaranna heima fyrir. Með ráðstöfunum til almannavarna ætti að smeygja því inn hjá fólki, að sérfræðingar teldu þrátt fyrir allt vonir um, að bjarga mætti lífi borgaranna í kjarnorkustríði. Þannig ræddu menn þetta mál fram og aftur síðla sumars og hausts 1961 í Bandaríkjunum. Þar urðu margir til þess opinberlega að gagnrýna af fullri einurð allt þetta skraf um almannavarnir. Þeir bentu á, að áhrif þess sem eins þáttar í kalda stríðinu gætu orðið ögrun og aukin styrjaldarhætta, en hjá landsfólkinu gæti það ýmist skapað falska öryggistilfinningu og andvaraleysi eða aukinn ótta og vonleysi. Það var einnig á það bent opinberlega í Bandaríkjunum um þetta leyti, að með þessu brambolti öllu saman væri verið að fá almenning til að sætta sig við tilhugsunina um, að stríð væri óhjákvæmilegt. En slík uppgjöf almennings er talin heimsfriðnum einmitt mjög hættuleg.

Ég skal ekki rekja þessa sögu miklu frekar. En frá Bandaríkjastjórn heyrðist ekkert um þetta mál næstu mánuðina, og hafði þó verið látið í veðri vaka í ræðu forsetans, að mikið væri í húfi og mikið lægi við. Það var ekki fyrr en í nóv. 1961, að Kennedy forseti hóf aftur máls á efninu. Í þeirri ræðu lagði hann höfuðáherzluna á, að hið opinbera þyrfti að koma upp loftvarnabyrgjum. Hins vegar hefði stjórnin aldrei hugsað sér, sagði hann, að öryggisbyrgi yrði byggt í hverju einstöku húsi.

Allar þessar ráðagerðir um almannavarnir í Bandaríkjunum voru sagðar hafa komið talsvert miklu róti á hugi manna þar. Hins vegar kom flestum saman um, að jákvæð áhrif hefðu orðið mjög takmörkuð. Ég hef heyrt um könnun, sem fram fór haustið 1961 í Bandaríkjunum varðandi þessi áhrif. Hún sýndi, að 1% hafði þá þegar undirbúið að byggja sér byrgi og að 4% hygðust gera það einhvern tíma. Meiri voru nú ekki undirtektirnar þar skv. þessari könnun þrátt fyrir allan úlfaþytinn og fjaðrafokið í sambandi við þetta mál.

Ég vil líka benda á það, sem kom fram í opinberum umr. í Bandaríkjunum, því að það skiptir okkur líka máli. Þar heyrðust raddir, sem blátt áfram vöruðu við öllu þessu almannavarnastússi. Þær sögðu: Þær kosta of fjár, þessar ráðstafanir. Því fé væri miklu betur varið til byggingar íbúða, skóla og sjúkrahúsa. — Aðrir bentu á, að með almannavörnunum væri verið að flytja stríðsundirbúninginn alla leið inn á heimilin, og þeir fordæmdu það. Það var á það bent, að með þessu almannavarnastússi væri stríðsæsingamönnum þar í landi gefið allt of gott tækifæri til að blanda sér í málefni borgaranna. Það væri ekki á það bætandi, því að nægur væri hernaðarandinn í landinu fyrir. Það kom líka fram í skrifum blaða í Bandaríkjunum haustið 1961, að eina raunhæfa vörnin gegn kjarnorkustyrjöld væri að bægja styrjaldarhættu frá, koma í veg fyrir styrjöld. Var þetta þá sögð skoðun æ fleiri manna í Bandaríkjunum og umr. hefðu leitt það jákvætt af sér, að þær hefðu opnað augu manna fyrir þeim hættulega leik valdhafanna að stríðsvoðanum, sem gengið hefur undanfarinn áratug. Dæmi munu hafa verið til þess, að menn hafi hafnað þeirri hugmynd í Bandaríkjunum að gera sjálfum sér öryggisbyrgi, þótt þeir hafi efni á því, en tjáð sig fúsa til þess að láta í staðinn eitthvað af mörkum til eflingar friðarins í heiminum, t.d. hafa menn sent fé til Sameinuðu þjóðanna.

Ég hef haft svona mörg orð um þetta, sem gerðist í Bandaríkjunum sumarið og haustið 1961, af því að ég tel það á margan hátt fróðlegt fyrir okkur Íslendinga. En af því, sem ég hef nú sagt, má ráða, að áhugi núv. stjórnar á Íslandi fyrir almannavörnum er innfluttur varningur. Auðvitað þarf hann ekkert að vera neitt lakari fyrir það út af fyrir sig. En hafi áhuginn fyrir almannavörnunum sjálfum verið eitthvað blendinn í Bandaríkjunum, eins og margir álita, þá er hann það einnig hingað kominn og ekki síður. Það er áberandi, að hæstv. ríkisstj. talar um óverjandi aðgerðaleysi í almannavarnamálum fyrir rúmu ári. En fram að þeim tíma hafði hún þó sofið vært í þessu efni frá sinni fæðingu. Eftir að hún vaknaði svona hastarlega síðla hausts 1961, fór hún að undirbúa frv. til l. um almannavarnir. Þetta frv. lagði hún fram seint á síðasta þingi. En hvað gerðist? Lá mikið á? Var hún full af áhuga? Lagði hún dag við nótt hér í þinginu til að fá frv. samþ.? Nei, ekki aldeilis. Að hennar eigin fyrirlagi var þessu frv. vísað frá í fyrra. Meira lá ekki á en þetta. Nú flytur hún sama frv. aftur og í óbreyttri mynd. Og sjálfsagt ætlast hæstv. ríkisstj. til þess, að það verði samþ. á þessu þingi, eða ég veit ekki annað. En það er óhætt að segja, að enginn segir: flýttu þér, hvað framkvæmdir í þessu máli snertir, enn sem komið er. Það sést bezt á fjárlagafrv. fyrir 1963. Þar mun ætluð úr ríkissjóði 1 millj. kr. til þessara mála, svo að það á augsýnilega hvorki á þessu ári, 1962, né á næsta ári, 1963, að hefjast handa um neinar framkvæmdir á sviði almannavarna. Ég á við framkvæmdir, sem hugsanlegt sé að gætu komið borgurum landsins að minnsta gagni sem vernd gegn hernaðarárás.

Þetta seinlæti, sem ég nú hef bent á, sýnir ekki, að mikill hugur fylgi máli frá hæstv. ríkisstj. 1 millj. kr. eða liðlega það á að verja til almannavarna á árinu 1963. Það fé nægir rétt til þess að gera borgurunum ýmiss konar fyrirhöfn og ónæði. Það nægir kannske til þess að koma af stað einhverjum kröfum hins opinbera á hendur einstaklingunum og rekistefnum, en um hugsanlega, raunverulega vernd verður enga að ræða, verði framhaldið svipað og byrjuninni er augsýnilega ætlað að vera. Ef stuðzt er við fyrri reynslu í þessum efnum, verður sjálfsagt einhverjum fjármunum, nokkrum millj., varið til framkvæmda á kákráðstöfunum til almannavarna. Þetta er gömul reynsla, og það er allt útlit fyrir, að hið sama ætli að endurtaka sig. Síðan dettur allt niður og nýju lögin í 28 greinum verða sama sýndarplaggið og gömlu lögin með sínum 7 greinum hafa verið alla tíð, allt frá því að stríði lauk.

Ég hygg ekki óeðlilegt að spyrja líkt og ýmsir spurðu í Bandaríkjunum sumarið 1961: Væri ekki milljóninni betur varið til þess að efla friðarmálin í heiminum? Væri ekki nær t.d. að senda íslenzka embættismenn utan til þess að vinna að friði á alþjóðavettvangi, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar, í stað þess að gera eins og við nú gerum, senda embættismenn okkar á vit hernaðarbandalags? Ég fullyrði, að slíkt væri ólikt meira í ætt við almannavarnir en sá stríðsáróður, sem íslenzk yfirvöld sýknt og heilagt bergmála erlendis frá. En þessa leið vilja okkar forráðamenn áreiðanlega ekki fara. Þeir vilja heldur kyrja stríðssönginn og halda áfram að lofa borgurunum vernd í ófriði, lofa því upp í ermina á sér.

Ég hef ekki minnzt á þá ráðstöfun til almannavarna, sem vafalaust er öruggust allra ráðstafana hérlendis. Ég hef ekki minnzt á hana, enda er hún fjarlægari hæstv. ríkisstj. en allt annað í heimi hér. Í landinu eru hernaðarmannvirki ýmiss konar og herafli annars aðilans, sem berst um heimsyfirráðin, Bandaríkjanna. Frá þessum mannvirkjum stafar þjóðinni vitanlega mesta hættan, ef til styrjaldar dregur. Frá þessum mannvirkjum stafar henni geigvænleg hætta og geigvænlegri en frá nokkru öðru. Tilvist þessarar erlendu stöðvar má segja að bjóði árásarmönnum heim í ófriði. Og það vill svo til, að við getum án mikils tilkostnaðar numið burt orsök þessarar hættu. Engin ráðstöfun er til, sem öruggari væri til árangurs en sú að losa þjóðina við þá ógnun, sem fólgin er í hinum erlendu herstöðvum í landinu. En þetta fæst hæstv. ríkisstj. áreiðanlega ekki til að hlusta á. Það hentar ekki hennar ráðagerðum. Af því leiðir, að það er engu líkara en ætlunin sé sú framvegis eins og verið hefur, að almannavarnir hér í landi verði kákið eitt. Herstöðvarnar ættu að leggjast niður og herinn að fara burt. Ég vil líkja erlendum herstöðvum í landi lítillar, vopnlausrar þjóðar við farsótt, sem yfirvöldin leyfa að berist til landsins í þeirri fánýtu von, að þau geti þá síðan á einhvern yfirnáttúrlegan hátt heft útbreiðslu hennar með einhverjum og einhverjum kákaðgerðum, sem ætti að nefna sóttvarnir. Mér finnst þessi líking eiga bezt við afstöðu hæstv. ríkisstj. til þessa máls og ráðstafanir hennar í þessu vandamáli.

Ég skal láta mínu máli lokið um þetta nú. Eins og ég tók fram í byrjun ræðu minnar, vænti ég þess að geta síðar fengið tækifæri til að ræða þetta frv. lítils háttar í einstökum atriðum.