06.12.1962
Sameinað þing: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Það voru aðeins fáein orð út af þessum orðaskiptum eða því, sem hæstv. ráðh. sagði. — Ég hef bent hæstv. ráðh. á það áður og ætla að leyfa mér að gera það enn, að það er alls ekki viðeigandi að svara fsp. hér á Alþingi með skætingi, eins og hæstv. ráðh. leggur í vana sinn æ ofan í æ og lætur sér aldrei segjast, þó að honum sé af góðvild bent á þennan ágalla í fari hans. Engum dylst, sem hlustað hefur á þessar umr., að það er einmitt nákvæmlega það, sem hæstv. ráðh. hefur látið sér sæma að gera einu sinni enn. Hann er spurður hér um það blátt áfram, hvernig á því standi, að ekki sé farið að afgreiða að ráði lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins og hverjar horfur séu á, að úr því rætist. Nú gat hæstv. ráðh. ákaflega einfaldlega sagt bara satt og blátt áfram, að þessi dráttur sé vegna þess, að það er verið að útvega lánsfé til stofnlánadeildarinnar. Og hann hefði getað, ef hann hefði viljað svara öðru en skætingi, sagt mönnum það til upplýsingar, af því að hann hlýtur að vita það, hve mikið fjármagn það er á að gizka, sem vantar til deildanna og á hefur staðið. Þessu hefði hæstv. ráðh. getað svarað alveg blátt áfram, skætingslaust og útúrsnúningslaust. En það gerir hæstv. ráðh. ekki, heldur kemur hér og talar tóman skæting út í bláinn og fer t.d. að ræða almennt um þessi mál.

Hvers vegna getur hæstv. ráðh. ekki svarað blátt áfram, eins og siður hefur verið ráðh. yfirleitt á Íslandi fram að þessu, ef þeir hafa verið spurðir? Svona umr. á Alþingi hafa verið nær óþekktar, áður en þessi hæstv, ráðh. kom í ráðherrastól. Hann hefði enn fremur getað blátt áfram sagt, hverjar horfur væru á því, að þetta fé yrði útvegað. Ég heyri nú, að hann telur, að það muni verða, og þá hefði hann getað upplýst það. En hann sagði það ekki í svarinu. En það mátti draga það a.m.k. óbeint af því, sem hann sagði síðar, að úr þessu mundi rætast.

Hæstv. ráðh. þarf ekkert að vera hissa á því, þótt fsp. komi fram um þetta nú, eins og verið hefur ævinlega undanfarin ár, hverjir sem verið hafa í stjórn og hverjir í stjórnarandstöðu. Þegar þessi mál hafa dregizt lengi, þá hefur verið spurt um, hvernig á því stæði og hvort ekki mundi rætast úr. Og alveg sérstaklega er eðlilegt, að um það sé spurt núna, þar sem hæstv. landbrh. talaði í fyrra, þegar hann lagði hér fyrir nýju lögin um stofnlánadeildina, eins og allt gengi vélrænt á vegum stofnlánadeildanna úr þessu, þeirra fjármálum væri algerlega borgið framvegis með hinum nýju lögum, og að því er manni skildist, þyrfti ekki að vera að bisa við árlega að útvega stórfé hingað og þangað að láni til þess að draga inn í deildirnar. En nú kemur auðvitað í ljós og á eftir að koma í ljós enn betur síðar, að þetta voru auðvitað blekkingar hjá hæstv. ráðh., því að vitanlega verður þrátt fyrir stofnlánadeildarlögin í fyrra að taka svo og svo mikið fé árlega að láni og draga saman inn í deildirnar. Því fer náttúrlega alls fjarri, að með þeirri löggjöf haft verið sett upp einhver eilífðarvél, sem mali fyrirhafnarlaust fjármagn inn í landbúnaðinn.

Þó að hæstv. ráðh. segi núna, að það þurfi mikið fé inn í deildirnar, vegna þess að lögin séu ekki farin að verka fullkomlega, þá er það ekki nema að sumu leyti satt, því að það þarf miklu meira fé inn í deildirnar en sem því svarar, sem á vantar, að lögin gefi fulla raun á þessu ári. Lögin eru sem sagt ekkert „automat“ í þessu tilliti, eins og látið var í veðri vaka í fyrra, heldur verður samt sem áður áreiðanlega að afla mikils fjármagns að láni árlega, ekkert síður þó að lögin hafi verið sett.

Þetta hefði hæstv. ráðh. allt getað upplýst blátt áfram, en þann kostinn tók hann ekki. Ráðh. hefur ekkert upplýst um það, hversu mikið lánsfjármagn vanti inn í deildirnar, til þess að þær geti sinnt hlutverki sínu næstu daga eða næstu vikur, núna fyrir jólin. Hann hefur ekkert sagt um það enn þá, og hann hefur því ekki svarað fsp., og ekki heldur fullnægjandi, hvenær féð komi, og alls ekki, hvaðan það komi.

Síðan fór hæstv. ráðh. að ræða almennt um lánamál landbúnaðarins, t.d. hvað hækkuð hefðu verið lán út á íbúðir. Ég skal ekki fara út í að ræða það af þessu tilefni, en aðeins benda á, að það mun láta nærri, að þau lán, sem nú fást út á meðalíbúð, bæði í sveitum og við sjóinn, öll lánin, sem fást, svari þeirri hækkun, sem orðið hefur á íbúðunum síðan nýja viðreisnarpólitíkin kom til framkvæmda. Á því geta menn svona hér um bil séð, hvernig þróunin hefur orðið.

En ég stóð hér upp enn einu sinni til að minna hæstv. ráðh. á það í allri vinsemd, að þessi tónn, sem hann hefur tamið sér, þegar spurt er um sjálfsögðustu atriði, er alveg óviðeigandi.