06.12.1962
Sameinað þing: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að það taki fáir alvarlega þessa áminningu hv. 1. þm. Austf. og allra sízt hann sjálfur. Hv. þm. finnst, að ég hafi svarað hálfgerðum skætingi hér og ekki svarað fsp. Ég spyr nú hv. þm., sem hlustaði á mig: Var það nokkur skætingur, sem ég sagði, og var það ekki svar við fsp., eins og ætla mátti, þegar fsp. er borin munnlega fram? Ég ætla, að þetta hafi verið alveg tæmandi svar. En ég fullyrti, að þessi fsp. væri óþörf. Og hvers vegna var hún óþörf? Vegna þess að hv. fyrirspyrjandi vissi um allt, sem hann var að spyrja um. Þess vegna var hún óþörf. Og ég veit ekki, hvort það er til nokkurrar fyrirmyndar að haga sér þannig á hv. Alþingi að vera að koma með fsp. og eyða tíma þingsins í fsp. um það, sem menn vita. Og hvers vegna hlaut hv. þm. að vita um þetta, sem hann var að spyrja um? Það er vegna þess, að hv. fyrrv. formaður Framsfl. er í bankaráði Búnaðarbankans. Það er vegna þess, að hv. þm. getur haft aðgang að bankastjórum Búnaðarbankans, og ég veit, að þeir eru reiðubúnir hvenær sem er í viðtali að svara fsp. eins og þessari. Og það er vegna þess, að hv. þm. hefur áreiðanlega komið í bókhald Búnaðarbankans, þar sem verið er að vinna þessi störf. Og hv. þm. vissi þess vegna alveg um það, sem hann var að spyrja um. En hvers vegna er þá verið að spyrja? Það er til þess að geta skrifað um það í Tímann og látið á því bera, að hv. fyrirspyrjandi og hv. 1. þm. Austf. náttúrlega líka, þeir hafi einhvern sérstakan áhuga fyrir því, að þessi mál verði leyst, og það út af fyrir sig ætla ég ekki að efa. En það er líka gert til þess að láta í það skína, að ríkisstj. hafi vegna pressu frá þessum mönnum loks látið undan að útvega fé og lána. Og hvers vegna er verið að tala um það núna, að þessi lán séu eitthvað sérstaklega seint á ferðinni, þegar þau eru ekki seinna á ferðinni en hefur verið undanfarið, þegar hv. Framsfl. var í ríkisstj. og átti að sjá um þessi mál? Ég segi: það er ósæmilegt að haga sér á þennan hátt í hv. Alþingi, og hv. formaður Framsfl, ætti að reyna að kenna sínum þingflokki rétta siði í hv. Alþingi, áður en hann tekur að sér að kenna ráðh. að haga sér rétt.