06.12.1962
Sameinað þing: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. er óttasleginn, hræddur, og telur það óþarft af mér að vera að fara í þingsalina og gera fsp. um mál, sem ég gæti e. t. v. fengið upplýst á annan hátt. En svo er mál með vexti, að þetta mál er ekki eins einfalt og hæstv. ráðh. vill vera láta. Það eru fleiri bændur í þessu landi en ég, og þeir hafa ekki aðgang daglega að Búnaðarbanka Íslands. Og margir bændur bíða nú vonsviknir út frá fyrri yfirlýsingum yfir því, að það skuli ekkert vera farið að veita úr stofnlánadeildinni á þessu ári, því að það er algerlega gagnstætt því, sem haldið var fram, þegar lögin um stofnlánadeildina voru rædd hér á hv. Alþingi í vetur. Og það er því ríkari ástæða nú en nokkru sinni fyrr að gera fsp. um þessi mál.

Hæstv. landbrh. sagði, að það væru miklu ríflegri lán veitt til landbúnaðarins nú en nokkru sinni áður. Og hann vitnaði sérstaklega til íbúðarhúsabygginganna. En það er ekki ýkjalangt síðan, eða rúmt ár, að þá stóðu þessi mál þannig, að íbúðarhúsalánið allt til byggingar íbúðarhúsa í sveitum hrökk ekki fyrir dýrtíðaraukningunni, sem hæstv. landbrh. barðist fyrir að kæmist á. Ég hef ekki reiknað það nú. Og svo er með ýmsar aðrar framkvæmdir í landbúnaðinum, sem veita á lán til úr bankanum, þannig að staða landbúnaðarins þrátt fyrir hækkuð lán er verri nú en nokkru sinni fyrr.