06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru hafa verkalýðsfélög fengið lítils háttar kauphækkun. Eins og almenningi er kunnugt um, hefur kaup lægst launaða verkafólksins verið hækkað um 5%. Það hefur mjög verið haft á orði, að þessi kauphækkun ætti að geta orðið raunhæf kjarabót, eins og það hefur gjarnan verið orðað, og síðast í dag í aðalmálgagni ríkisstj. er þetta mjög ítrekað, reyndar látið fylgja, að ýmsir menn séu nú að hugsa um að koma í veg fyrir, að svo geti orðið. En í sambandi við einmitt þetta mál vildi ég að gefnu tilefni. beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún hyggst gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til eða beita áhrifum sínum til þess, að þessi launahækkun geti orðið raunveruleg kjarabót, en verði ekki látin kafna í verðhækkunum, eins og átt hefur sér stað undanfarið. Ég beini þessari fsp. hér fram vegna þess, að mér er kunnugt um, að um leið og þessi kauphækkun var orðin veruleiki, sóttu samtök atvinnurekenda um það til verðlagsyfirvalda að fá að reikna þessa lítilfjörlegu kauphækkun inn í verðlagið, frá sama degi, skilst mér, og kauphækkunin varð.

Það er náttúrlega augljóst, að ef þessi háttur á að verða, að þessi litla kauphækkun eigi að fá að ganga á þennan hátt inn í verðlagið, eins og raun hefur á orðið yfirleitt, þá getur þetta ekki orðið í hendi verkafólksins raunhæf kjarabót. Ég vildi því hér beina þessari fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort hún hyggst gera einhverjar ráðstafanir eða beita áhrifum sínum til þess, að þessi kauphækkun fari ekki inn í verðlagið, eins og verið hefur, þannig að hún verði að engu gerð á stuttum tíma.