29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það var gert ráð fyrir því, að á þessu þingi yrði lagt fram frv. til breytinga á vegalögum, og hefur verið boðað í stjórnarblöðunum, að þetta yrði sennilega gert. Nú liggur það fyrir, að þetta mun ekki verða gert á þessu þingi. Ég hef leitað eftir því hjá vegamálastjóra og formanni mþn., ráðuneytisstjóranum í samgmrn., að fá að sjá nál. þeirrar mþn., sem að málinu vann. Vegamálastjóri vísaði þessu frá sér, og ráðuneytisstjórinn svaraði því til, að sér væri óheimilt að láta nál. af hendi, vegna þess að ráðh. hefði lagt svo fyrir, að svo yrði ekki gert; að neitt yrði úr því birt, Nú sýnist mér, að þetta bann muni vera upp hafið, og ástæðan fyrir því, að ég álykta svo, er sú, að hv. 5. þm. Vesturl., sem er einn af nm., hefur nú sent áhugamönnum í Vesturlandskjördæmi þingfréttabréf. Nú vill svo vel til, að ég er einn af þessum áhugamönnum í Vesturlandskjördæmi og hef því þetta bréf í höndunum, en þetta bréf er skrifað 13. marz s.l., og í því segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mikið hefur verið talað um væntanlegar stórbreytingar á vegalögum og mikla aukningu á vegaframkvæmdum í því sambandi. Hefur fimm manna n., sem ég á sæti í, unnið 2 ár, að undirbúningi þessa máls og skilað álitsgerð í tveimur bókum. Voru helztu atriði í till. þessi:

1) Ákveðnar reglur fyrir því, hvaða vegir teljist þjóðvegir, flokkun þjóðvega eftir tegundum og verkefnum í hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir.

2) Að lögskipa, að vegaframkvæmdir skuli ávallt vinna eftir 5 ára áætlun, er taki hver við af annarri.

3) Að leggja hreppavegi niður sem sérstakan flokk, en stórauka fé til sýsluvega til þess að veita héruðunum nýja möguleika og nýtt sjálfstæði með hina staðbundnu vegi.

4) Að veita 20 millj. til þess að gera þjóðvegi í kaupstöðum, þ.e. aðalbrautir allra kauptúna yfir 300 íbúa og kaupstaða. Þetta fé átti að skiptast eftir íbúafjölda. Þegar lokið væri aðalbrautum hvers staðar, sem tengja saman vegakerfið, átti viðkomandi staður að fá sitt framlag til frjálsrar gatnagerðar.

Auk þessa voru hundruð annarra atriða, þar sem til komu nýjungar og breytingar. Með þessari kerfisbreytingu, sem mætti kalla byltingu í vegamálum, átti að hækka benzínið upp í 5 kr. og tryggja, að allur benzínskattur, þungaskattur, sem átti að breytast, gúmmígjald og hluti af leyfisgjaldi bifreiða rynni til vega og gatna. Er líklegt, að bíleigendur muni una vel við, ef þeir vissu, að allt þetta fé rynni í vegi og götur. Að öðrum kosti kemur slík hækkun ekki til greina.“

Svo heldur áfram:

„Nú hefur þetta mál því miður strandað á Sjálfstfl. Við Alþfl.-menn teljum þetta skynsamlega og ábyrga stórbreytingu í vegamálum; en innan Sjálfstfl. hefur ekki náðst samkomulag um neitt, með þeim árangri, að málið er stöðvað. Hefur Alþfl. lagt mikla áherzlu á framgang þess og ágreiningur á milli stjórnarflokkanna í þessu máli verið alvarlegur. Er ekki séð fyrir endann á málinu enn. Ekki hefur heyrst, að sjálfstæðismenn hafi neitt að bjóða til vegamálanna í staðinn.“

Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. vegamálaráðh., eftir að þessar upplýsingar eru komnar til almennings, hvort þm. er þá ekki heimilt að fá þetta nál, í sínar hendur, og í öðru lagi, ef það er ekki, hvort einstökum nm. er þá heimilt að gefa slíkar upplýsingar sem þessar.