29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það væri nú eðlilegast að byrja á því að þakka fyrir lesturinn og upplýsingarnar, sem hv. þm. gefur hér þingheimi öllum með tilkynningu þessa bréfs.

Ég vil taka það fram, að ég hef aldrei lýst því yfir, að vegalög yrðu lögð fram á þessu þingi,, og ég hygg, að það hafi aldrei verið beinlínis gert af neinum, heldur hafi alltaf verið einhver fyrirvari, því að þótt frv. til vegalaga hafi komið til ríkisstj. á s.l. hausti, þá var vitað mál, að það þurfti að athugast í ríkisstj., og ég get lýst því yfir, að það voru nokkur atriði í þessu frv., sem ég var á móti, og, til þess að ég sem samgmrh. flytti frv. til nýrra vegalaga þá verð ég vitanlega að vera því samþykkur. Þess vegna er það, að ég skrifaði vegalaganefnd bréf í 8 liðum, þar sem voru teknar saman aths. við frv. og þess farið á leit við n., að hún héldi áfram að vinna, taka til athugunar þær ábendingar, sem í bréfinu eru, og mér er kunnugt um, að n. hefur a.m.k. haldið einn eða tvo fundi, síðan hún fékk þetta bréf, og mér er einnig kunnugt um, að á vegamálaskrifstofunni er nú þegar hafin vinna út af þessu bréfi til athugunar á sumum atriðum þess.

Hitt er svo eðlilegt, að í jafnstóru máli og hér um ræðir geti menn greint nokkuð á, og það er ekki óeðlilegt, að það þurfi nokkurn tíma til þess að samræma hin einstöku sjónarmið. Og ég vil geta þess, að vegalaganefnd hóf ekki störf fyrr en eftir mitt ár 1961. Ég veit, að hún taldi æskilegt, og það hef ég gert líka, að vegalagafrv. yrði lagt fram á þessu þingi og það yrði lögfest. En það sem meginmáli skiptir, er, að þegar ný vegalög eru sett, þá sé sem mest til þeirra vandað. Það vitanlega skiptir miklu máli, ef vegalaganefnd getur haldið áfram að vinna það sem eftir er þessa vetrar og í sumar og gæti komið með nýtt frv., sem hægt væri að sameinast um á haustþinginu.

Um það, hvort einstakir þm. geti fengið frv., ætla ég ekki að segja nú, en ég hygg að það sé dálítið óvanalegt, að á meðan mþn. er að starfa og hefur ekki lokið störfum, verði farið að útbýta því meðal þm., sem n. hefur þegar gert, áður en verkinu er lokið, og það liggur fyrir, að vegalaganefnd hefur ekki lokið störfum. Hún hefur góðfúslega tekið við mínu bréfi og þeim ábendingum, sem í því eru, og þegar setzt til starfa aftur. Og jafnvel þótt einstakir menn í vegalaganefnd teldu, að frv., eins og það var í fyrstu, væri harla gott, þá er ég samt sem áður viss um það, að sá sami maður eða þeir sömu menn telja eigi að síður eðlilegt að endurskoða málið og jafnvel í þeirra augum megi bæta það frá því, sem það var.

Það er þetta, sem ég vil aðeins segja, að það liggur ekki fyrir nein yfirlýsing eða loforð frá mér um það, að þetta frv. verði lagt fram á þessu þingi. Það er sama, hvar leitað er í þingskjölunum, einfaldlega vegna þess, að frá því fyrsta, að ég las frv., hafði ég ýmislegt við það að athuga og enn er verið að vinna að þessu máli.

Ég tel eðlilegt að ræða um það við formann n., og ég get gert það fyrir hv. þm. fyrirspyrjanda, að ræða um það við hann, hvort það megi teljast eðlilegt að fara að útbýta þessum till., sem þegar eru til hjá n., áður en n. hefur lokið verki. Ég tel, að það væri mikil tillitssemi og greiðasemi við þennan hv. þm., ef það væri gert. Það má vel vera, að það mætti gerast en það væri alveg nýtt í starfsháttum mþn., að þær færu að láta menn, þótt virðulegir þm. séu, fá hluta af starfinu, áður en því er að fullu lokið.