26.11.1962
Efri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef nú reynt að hlusta á hv. ræðumann, en ef til vill er það vegna skorts á athyglisgáfu, að ég er litlu nær eftir en áður, hvort hann er með þessu frv. eða ekki. Hann fór mjög víða, en hann sagði furðanlega litið um það, hvort hann teldi, að þetta frv. ætti að samþ., fella eða hvort hann ætlaði að sitja hjá við afgreiðslu þess eins og hans flokksbræður í Nd. Væntanlega gefst honum tækifæri til þess að gera grein fyrir því síðar, vegna þess að hann boðaði síðari ræðuhöld sín um málið.

Hv. þm. talaði mikið um stríðssöng af hálfu stjórnarsinna. Ég hef nú sjaldan heyrt heimsástandi öllu ömurlegar lýst en einkanlega í fyrri hluta ræðu hv. þm. og skal þó játa, að hann fór þar að mestu leyti með rétt mál. Ástandið hefur verið mjög ískyggilegt í alþjóðamálum og er enn, og greinir okkur ekki á um það.

Í fyrri hluta ræðu sinnar vildi hv. þm. nota pennann sinn í stríðssöng til þess að ásaka núv. ríkisstj. fyrir það, að hún hefði verið aðgerðalítil í þessum málum, þangað til haustið 1961, og var þá með ýmiss konar skýringar á hvötum ríkisstj. til þess að breyta þá til og hefja þann undirbúning, sem þetta frv. er ávöxtur af.

Ég hygg, að enginn geti neitað því, að þeir atburðir gerðust haustið 1961, sem færðu vitundina um hættu af nýrri stórstyrjöld miklu nær Íslendingum en oft áður, og þarf ekki að rifja það upp fyrir mönnum, hvílík áhrif kjarnorkutilraunasprengingar Rússa í norðurhöfum höfðu í þeim efnum. Ef nokkurt eitt atvik eða nokkrir einir atburðir réðu úrslitum í þessum efnum, er það áreiðanlega rétt, að það voru þessar tilraunir með öllu því, sem þeim fylgdi, og aðdragandanum að þeim. Hitt má vel vera, að það hafi verið vanræksla að hafa ekki hafizt handa áður, vegna þess að ástandið hafi verið fullískyggilegt fyrr, eins og hv. þm. vitnaði til. En ég hygg, að það hefði veitt okkur áreiðanlegri upplýsingar, ef hann hefði látið vera getgátur um hvatir annarra, en nokkru nánar gert grein fyrir sinni eigin afstöðu í málinu fyrr og síðar og þeim hvötum, sem eru henni til skýringar. Ég hygg sem sagt, að það sé staðreynd, að hv. þm. hafi fyrr og síðar beitt áhrifum sínum í bæjarstjórn Reykjavíkur til þess að gera þar tortryggilegar þær ráðstafanir, sem af bæjarstjórnarinnar hálfu voru hafðar uppi til almannavarna. Og hv. þm. leiðréttir, ef ég fer rangt með, að hann hafi átt þátt í tilraunum til þess að fá numdar burt allar fjárveitingar í þessu skyni og haldið uppi látlausum árásum á loftvarnanefnd og yfirvöld borgarinnar fyrir það að gera þær ráðstafanir, sem að vísu voru ekki mjög víðtækar, en gætu þó komið að verulegu gagni, ef í harðbakka hefði slegið. Við þurfum ekki heldur að fara út fyrir Alþingi til þess að rifja upp, að hv. þm. átti að sínum hluta þátt í því, að Alþingi felldi á vinstristjórnarárunum niður alla fjárveitingu úr fjárlögum til almannavarna, og var það þó beinlínis gegn gildandi ákvæðum laga, og eins og ég gat um í ræðu minni áðan, mjög hæpið, að Alþingi gæti án þess að fella loftvarnalögin úr gildi þannig skotið sér undan skuldbindingum gagnvart sveitarstjórnum, sem þær höfðu tekið á sig og ríkissjóðinn með heimild í gildandi lögum. Mér er nær að halda, að það hafi einmitt verið flokkur hv. þm., sem beitti sér fyrir því, að þáv. meiri hl. fór þanni að.

Hv. þm. getur ekki fært sér til afsökunar, að stríðshættan hafi þá verið minni elt bæði á undan og eftir, vegna þess að hv. þm. og umboðsmenn hans í ríkisstj. tóku beinlínis á sig ábyrgð á áframhaldandi dvöl varnárliðs í landinu haustið 1956 vegna þess, að ófriðarhættan væri þá svo mikil, eins og raunar hv. þm. einnig minnti á hér áðan með tilvitnun sinni til Ungverjalandsuppreisnarinnar og ófriðarins við Súez. Og að svo miklu leyti em hv. þm. telur, að hættan hér á landi stafi fyrst og fremst og eingöngu af því, að erlent herlið sé haft í landinu, og líkir því við eins konar farsótt, sem hafi verið stefnt inn í landið af stjórnarvöldunum, þá hlýtur hv. þm. að verða spurður um það, af hverju hann hafi ekki beitt sínum áhrifum, meðan hann hafði þau, á stjórn landsins til þess að fá þessari farsótt að hans áliti eytt. Nei, hv. þm. gerði það ekki eða hans flokksbræður. Þeir tóku á sig stjórnskipulega ábyrgð á dvöl varnakliðsins, og þeir hreyfðu því ekki á þinglegan hátt, fyrr en þeir voru farnir úr ríkisstj., þeirra áhrif úr sögunni, að varnarliðið skyldi vera látið hverfa á brott. Úr því að hv. þm. telur upp að ræða málið með þessum hætti, þá er honum miklu nær að gera grein fyrir þeim hvötum, sem hafa legið til hans mjög einkennilegu afstöðu til þessa máls fyrr og síðar, heldur en vera með getsakir í annarra garð. En fyrst og fremst ber honum að skýra þingheimi frá því, hvort hann sé með þessu frv. eða á móti og hvort hann sé með almannavörnum eða á móti. Ef hann telur almannavarnir vera hégómann einberan, þá á hann ekki heldur að vera að ávíta fyrri ríkisstj. eða núv. ríkisstj. fyrir aðgerðaleysi í þessum efnum. Hann verður að segja af eða á, hver hans skoðun er í þessum efnum. En trú mín er sú, að þó að við vafalaust eigum eftir að heyra mjög langar ræður hjá hv. þm. um þetta, þá eigum við erfitt með að fá svör við þessum einföldu spurningum, eins og spá mín er sú, að hv. þm. eigi eftir að tala mjög lengi, en láta mjög lítið fara fyrir atkv. sínu um þetta mál.