29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi, að það hefur verið vísað hér frá hv. Alþingi a.m.k. einu frv., ef ekki fleirum, með þeim rökstuðningi, að ný löggjöf um vegamálin yrði sett á þessu kjörtímabili. Ég hygg, að alveg áreiðanlega einu frv. um vegamál hafi verið vísað frá með þessum rökstuðningi, og ég hygg fleirum. Ég vil enn fremur í sambandi við þessar umr. minna á, hve óheppilegt það er, að það skuli ekki vera kosnar mþn. í Alþingi um mál eins og þessi, og hefur það mjög verið tíðkað, áður en hæstv. núv. ríkisstj. tók við.

Þá vil ég taka undir þá ósk, sem kom fram frá hv. 3. þm. Vesturl., að þm. fái nú aðgang að áliti mþn., því að mþn. var búin að gefa álit, eins og staðfest er af einum nm. í því bréfi, sem hér var lesið áðan, og það er það álit, sem þm, óska eftir að fá. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að viðbótarálit, sem kynni að verða gefið vegna óska frá hæstv. ráðh., yrði látið í té fyrr en síðar. — Ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum, að þessu áliti sé haldið leyndu fyrir þm., ef það verður gert áfram. Við sjáum, hversu ótækt það er, þegar það nú kemur í ljós, að einstakir nm. eru farnir að skrifast á um þessi efni í dreifibréfum, því að það bar með sér, að það var dreifibréf, sem var lesið upp áðan, og greina frá í óljósu máli einstökum atriðum í þessum veigamiklu efnum. Það er einmitt mjög nauðsynlegt að fá ekki aðeins þetta mþn. álit, heldur einnig aths. hæstv. ráðh, alveg sérstaklega. T. d. erum við ákaflega oft spurðir um það, hvað við vitum um þetta mikla mál, sem almenningur hefur mikinn áhuga á, og ein spurning, sem ég er t.d. þráfaldlega spurður um, er þessi: Ætli það sé ætlunin að fækka þjóðvegum, ætli það sé ætlunin að fækka ríkisvegum, þ.e.a.s. þeim vegum, sem ríkið kostar að öllu leyti? Maður er þráfaldlega spurður um þetta, og það hefur langmesta þýðingu, hver er stefna t.d. hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. í þessu, og hana væri mjög nauðsynlegt að fá fram. Máske er hæstv. ráðh. reiðubúinn til að gefa yfirlýsingu um þetta atriði, hvort hann er fylgjandi því, að þjóðvegunum, þeim vegum, sem ríkið kostar af öllu leyti, verði fækkað. Ef hann t.d. gæfi skýra yfirlýsingu um, að það væri stefna stjórnarinnar, að þeim vegum yrði ekki fækkað, sem ríkið kostar að öllu leyti, mundi áreiðanlega þungum áhyggjum vera létt af mörgum, og það væri ávinningur út af fyrir sig um málið. En þetta, sem ég nefni nú, er dæmi um það, hve eðlilegt er, að menn spyrji um þetta mál og vilji fá viðhorfin fram sem skýrust. Ég vil því taka undir það, sem hv. þm. beindi til hæstv. ráðh., að láta mönnum nú milliþinganefndarálitið í té.