29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé alveg óþarfi fyrir hv. 1. þm. Austf. að vera að færa yfirlýsingar og orð hv. þm. úr lagi. Þegar ég hef heyrt hv. þm. tala um vegalögin, þá hafa þeir sagt: Það má búast við því, að frv. verði jafnvel flutt á þessu þingi. — Og a.m.k. einu máli, sem hv. þm. vitnaði í hér áðan, var vísað frá á þeim forsendum, að vegalögin væru í endurskoðun. En allt þangað til í vetur gat enginn fullyrt um það, hvenær þessari endurskoðun yrði lokið af hendi n., og fyrr en ríkisstj. væri búin að fjalla um málið, var ekki að vita, hvort þetta frv. n. yrði tekið gilt eins og það var, enda hefur sá háttur á orðið, að það þótti eðlilegt og nauðsynlegt að endurskoða og betrumbæta það.