06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Í dag birtir dagblaðið Þjóðviljinn svo hljóðandi frétt frá Siglufirði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur vakið mikla gremju meðal verkalýðsfélaganna í bænum, að niðurlagningarverksmiðja SR er nú hætt störfum. Hluti hráefnisins, sem verksmiðjan keypti s.l. sumar, hefur nú verið seldur úr landi, og eru allar líkur á, að engin vinnsla verði hjá verksmiðjunni í náinni framtíð. Í gærkvöld var haldinn sameiginlegur fundur í stjórnum og trúnaðarmannaráðum verkalýðsfélaganna á Siglufirði, þar sem mál þetta var til umr., og þar var gerð svo hljóðandi samþykkt:

„Fundur í stjórnum og trúnaðarmannaráðum verkalýðsfélaganna á Siglufirði, haldinn 4. apríl 1963, lýsir yfir megnri óánægju vegna framleiðslustöðvunar niðurlagningarverksmiðju SR. Fundurinn fordæmir aðgerðarleysi í öflun markaða fyrir framleiðsluvörur verksmiðjunnar. Rekstrarfjárskortur og ónægur markaður er talinn ástæðan fyrir stöðvuninni og orsök þess, að hráefni verksmiðjunnar er selt. Fundurinn mótmælir slíkum vinnubrögðum sem þessum og skorar á Alþingi og ríkisstj. að setja nú þegar starfhæfa stjórn fyrir verksmiðjuna, fullgera bygginguna og gera henni fjárhagslega kleift að leita markaða og tryggja rekstur hennar í framtíðinni.“

Í sambandi við þessi alvarlegu tíðindi hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. sjútvmrh., hvað hann eða hæstv. ríkisstj. í heild hyggst gera í þessu máli. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Nýtt ríkisfyrirtæki er reist norður á Siglufirði. Hið nýja fyrirtæki, sem er niðurlagningarverksmiðjan, hóf störf sín fyrir rúmu ári. Vörur frá verksmiðjunni voru mjög eftirsóttar hér innanlands og líkuðu mjög vel. Einn stór galli var hér á. Verksmiðjan hafði ekkert rekstrarfé fengið og gat því ekki hafið söluherferð á framleiðsluvörum verksmiðjunnar erlendis. Eftir því sem framkvæmdastjórinn hefur sagt í blaðaviðtali, hafa sýnishorn af framleiðsluvörum verið send til Ameríku og til Austur- og Vestur-Evrópu, en án nokkurs árangurs. Við höfum ekki efni á því, segir framkvæmdastjórinn, Ólafur Jónsson, að selja síldina undir heimsmarkaðsverði, og við höfum ekki heldur efni á því að hefja auglýsingaherferð. Þess vegna er allri framleiðslunni hætt í bili. Framkvæmdastjórinn telur framleiðsluvörur verksmiðjunnar vera betri en síldarvörur Norðmanna og Svía og jafnframt betri en aðrar þjóðir geta boðið upp á.

Ég tel margt benda til þess, að möguleikar séu fyrir hendi að selja íslenzka gaffalbita og aðrar framleiðsluvörur verksmiðjunnar til þeirra þjóða, sem vanar eru að neyta slíkrar vöru. En til þess þarf vitanlega verksmiðjan að fá nægilegt fé til að kynna þessa ágætu vöru meðal erlendra neytenda. Slíkt fé telur verksmiðjustjórnin og framkvæmdastjórinn sig ekki hafa. Að stöðva verksmiðjuna nú tel ég fráleitt og það á þeim forsendum einum, að ekki hafi tekizt að selja framleiðsluna á erlendum mörkuðum, þegar fyrir liggja upplýsingar um, að lítið sem ekkert hefur verið reynt að kynna vöruna erlendis. Það getur tæplega verið meiningin að leggja árar í bát og hafast ekkert að til úrbóta.

Þegar ráðizt var í að koma upp verksmiðju til niðurlagningar á kryddsíld á Siglufirði, var þess vænzt, að þetta nýja ríkisfyrirtæki væri stofnað í þeim tilgangi að kanna nýjar brautir í okkar síldariðnaði og allt væri gert, sem hægt væri, til þess að selja framleiðsluvöruna á erlendum markaði. Vitað er, að innlendur markaður er mjög takmarkaður og mundi á engan hátt vera fær eða nægilega stór til þess að geta keypt framleiðsluna upp, enda er vitað, að Íslendingar eru ekki neitt sérstaklega miklir neytendur síldar. Hitt verður að teljast stórfurðulegt, að þessu nýja ríkisfyrirtæki skuli ekki hafa verið séð fyrir nægu rekstrarfé til þess að geta leitað markaða fyrir vöru sína erlendis.

Við fyrirtæki þetta voru miklar vonir bundnar um aukna atvinnu hjá fjölda fólks, sem í mörgum tilfellum hafði litla sem enga atvinnu yfir vetrarmánuðina, auk þess sem hin nýja verksmiðja átti að geta orðið öðrum bæjum og þorpum á Norður- og Austurlandi hvatning til þess að koma upp hjá sér slíkri framleiðslu, ef vel hefði til tekizt með rekstur verksmiðjunnar og sölu á framleiðslunni.

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. láti þetta mál til sín taka og allt verði gert, sem hægt er, til að leysa yfirstandandi örðugleika, m.a. með því að útvega viðunandi rekstrarfé handa verksmiðjunni, svo að hægt verði að hefjast handa sem allra fyrst um markaðsleit erlendis fyrir framleiðsluna og bjarga þar með þessu fyrirtæki frá algerri stöðvun um ófyrirsjáanlegan tíma.