06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af þeirri fyrirspurn, sem hv. 11. landsk. þm. kom með, og þeim orðum, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði.

Ég held, að við getum allir verið sammála um, að það hefur tekizt af hálfu verksmiðjunnar á Siglufirði að framleiða síld, sem að gæðum til er eins og bezta síld, sem Svíarnir hafa annars búið til úr okkar hráefni, og ég get fallizt á það með hv. 5. þm. Vesturl., að það sé ekki heldur örðugleikinn á rekstrarfé, sem veldur hjá stjórnendum þessarar niðurlagningarverksmiðju. Ég er honum ekki að fullu leyti sammála um, að það sé spurningin um sölumennsku, sem þarna er erfiðleikinn. Að vísu býst ég við, að það sé rétt hjá honum, að það sé til, en það reynir ekki mjög mikið á sölumennsku, á meðan verið er að framleiða í einni einustu lítilli verksmiðju, sem kostar kannske 3 millj. kr., sem leggur kannske niður 5 eða 10 þús. tunnur. Það reynir ekki mikið á sölumennsku, vegna þess að um leið og ætti að fara að leggja í að útbreiða svona vöru, t.d. í Bandaríkjunum, þá þarf að leggja tugi þúsunda og milljónir í auglýsingar, og þá er framleiðslan allt of lítil til að standa undir því, þannig að það reynir ekki á sölumennsku af alvöru, fyrr en við komum þarna fram eins og aðili, sem á margar verksmiðjur, einar 10, 20, 30 verksmiðjur, og flytur út í stórum stíl og hagar sér eins og duglegur hringur mundi gera á þessum kapítalísku mörkuðum.

Meðan við erum að byrja með eina verksmiðju eða svo, þá er sú eina skynsamlega pólitík, sem við gerum, að reyna að selja alla framleiðslu til einhvers lands í heild, þannig að við þurfum ekki að hafa fyrir því að standa í auglýsingakostnaði út af svona lítilli framleiðslu. Og þetta hefur verið mögulegt. Það, sem stendur þarna í veginum fyrir, er sjálf utanríkisverzlunarpólitík hæstv. ríkisstj. Það er auðvelt að selja svona síld t.d. til sósíalísku landanna í Evrópu, sérstaklega þó A.-Þýzkalands, og það mundi vera hægt af hálfu aðila, sem um leið fá að kaupa þar vörur í staðinn og flytja hér inn, eins og tíðkaðist hjá okkur áður fyrr. Þá er hægt að ryðja brautina fyrir markaði fyrir svona vöru. Þá er hægt að ryðja inn á markaði svona vöru í stórum stíl. Og þetta er sú aðferð, sem við höfum haft til þess að byggja upp okkar útflutningsiðnað, og við hefðum ekki getað byggt hann upp með því móti, sem við höfum gert, ef við hefðum ekki haft þessa aðferð.

Hvernig höfum við farið að viðvíkjandi freðfiskinum? Við höfum farið þannig að, að þegar við förum t.d. upp í 75 þús. smálesta útflutning, þá seljum við 50 þús. smálestir af þessu til sósíalísku landanna, svo að segja að kostnaðarlausu. Við tökum engan annan kostnað en að ríkisstjórnin geri samning við ríkisstjórnir þessara landa, og 50 þús. smálestir af freðfiski eru þannig seldar. Síðan notum við peningana, sem við fáum fyrir staðgreiðslu á þessum afurðum, og höfum notað þá undanfarinn áratug til að festa þá í Bandaríkjunum og berjast á þeim kapítalísku mörkuðum og verja milljónum króna og jafnvel milljónum dollara í auglýsingastarfsemi þar, til að vinna upp markaði þar. Við reyndum þetta líka í Bretlandi, fórum á rassinn með það þar, af því að hringurinn drap okkur þar niður. En með þessu móti, með því að hafa sósíalísku löndin að bakhjarli, getum við barizt í kapítalísku löndunum. Þetta er sú eina skynsamlega aðferð fyrir okkur Íslendinga til að geta háð okkar nauðsynlegu baráttu í frumskógi kapítalismans, þar sem reynir á sölumennskuna: að tryggja okkur svo að segja í krafti áætlunarbúskaparins í þessum sósíalísku löndum. Og ef við ætlum að reisa hér, sem við þurfum að gera, tugi niðurlagningarverksmiðja, vinna úr við skulum segja 100 þús. tunnum af síld, og það er ekki mjög mikill hluti af okkar framleiðslu, þá verðum við að reyna að selja við skulum segja helminginn af þessu til sósíalísku landanna, skapa okkur öruggan markað þar, án þess að þurfa að leggja í auglýsingakostnað og annað slíkt, til þess að geta barizt um að selja hitt til kapítalísku landanna.

Þetta er sú eina skynsamlega aðferð, sem lítil þjóð eins og við getur haft til að ryðja sinni iðnaðarvöru braut í þessum kapítalíska heimi, þar sem við stöndum alltaf erfiðlega að vígi, svona smáir. Ég veit, að við getum að vísu farið aðrar leiðir, og kannske verður farið að fara þær, ef við getum gert samkomulag við norska eða sænska hringa eða aðra slíka og framleiðum vöruna hér heima undir þeirra merkjum og látum þá selja út um heim. Þá eru það þeir, sem hafa þá markaði, en ekki við. Ég veit, að þetta er hægt, og þetta eru kannske sumir að hugsa hér um. En ef við ætlum að vinna þetta sem okkar eigin vöru, sem við ráðum sjálfir yfir, þá held ég, að við verðum að hafa þennan hátt á.

Ég held, að það sé síður en svo rétt að telja það eftir, heldur gerði Alþ. mjög rétt, þegar það lagði í síldarniðurlagningarverksmiðjuna á Siglufirði. Þetta er ekki stórt fyrirtæki. Ég efast um, að það kosti meira en 3 millj., eins og partur úr mótorbát. En það gerir þá vöru, sem við framleiðum, margfalt dýrmætari en hún er fyrir, og raunar ættum við að flytja þannig út megnið af okkar síld. Það, sem hefur gerzt hingað til, er, að mörkuðum hefur verið lokað fyrir okkur, sem voru meira eða minna opnir. Það var hægt t, d. viðvíkjandi A-Þýzkalandi að koma svona vöru þar inn, ef það hefði ekki verið farið út í þá vitlausu pólitík, þá svokölluðu frjálsu verzlun, í okkar utanríkispólitík, sem gert hefur verið. Og afleiðingarnar af því eru síðan, að við byrjum að loka fyrirtækjunum hér heima. Ég held þess vegna, að böndin berist í þessum efnum að utanríkisverzlun hæstv. ríkisstj. og það skorti á, að hennar eigin fylgjendur segi henni til syndanna, að svona pólitík getur ekki gengið.