24.10.1962
Sameinað þing: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

Dagur Sameinuðu þjóðanna

forseti (FS):

Í dag, hinn 24. okt., er dagur Sameinuðu þjóðanna. Hinn 24. okt. 1945 var sáttmáli þeirra staðfestur. Þessa atburðar er í dag minnzt um heim allan, í a.m.k. 109 ríkjum í öllum heimsálfum, en fjöldi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna náði þeirri tölu nú fyrir skemmstu. Í inngangskafla sáttmála hinna Sameinuðu þjóða er greint frá megintilgangi þeirra og þeim markmiðum, sem þær hyggjast ná, en tilgangur þeirra og markmið eru: að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum styrjalda, — að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi og jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar, að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningum leiðir og öðrum heimildum þjóðarréttar, — að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum án frelsisskerðingar, — að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði, eins og góðum nágrönnum sæmir, — að sameina mátt Sameinuðu þjóðanna til að varðveita heimsfrið og öryggi, — að tryggja það, að vopnavaldi verði eigi beitt nema í þágu sameiginlegra hagsmuna — og að staðfesta alþjóðaskipulag til eflingar fjárhagslegum og félagslegum framförum allra þjóða.

Að markmiðum þessum hafa Sameinuðu þjóðirnar leitazt við að vinna undanfarin 17 ár, oft með góðum árangri, þó að stundum hafi miður tekizt. Að þessum markmiðum munu þeir halda áfram að vinna í þágu alls mannkyns. Það liggur í augum uppi að allar þjóðir, ekki sízt smáþjóðir eins og Íslendinga, skiptir það meginmáli, að starfsemi Sameinuðu þjóðanna beri tilætlaðan árangur öldum og óbornum kynslóðum til heilla. Oft hefur syrt í álinn í alþjóðamálum undanfarin 17 ár, en sjaldan meir en nú. Allar þjóðir heims munu óska og vona, að Sameinuðu þjóðunum megi auðnast að leysa þau vandamál, sem nú steðja að. Undir þær óskir taka áreiðanlega allir Íslendingar, og undir því er komin velferð alls mannkyns.