11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

6. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur haft til athugunar það frv., sem hér er til umr. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Hv. 9. þm. Reykv., Alfreð Gíslason, skilar séráliti, en aðrir nm. leggja til, að frv. verði samþ. Hv. 1. þm. Norðurl. e., Karl Kristjánsson, áskildi sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. og skrifaði undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Hann hefur flutt brtt. við frv. á þskj. 158, og eru þær brtt. samhljóða brtt., sem hv. þm. Framsfl., Valtýr Guðjónsson, flutti við frv., þegar það var til umr. í hv. Nd. þingsins, en náðu þar þá ekki samþykki.

Þetta frv. er mun ýtarlegra og yfirgripsmeira en eldri lög um loftvarnir og aðrar varnir gegn hættu af hernaðaraðgerðum, og það er byggt á töluvert annarri skipan en þau. Má þar aðallega nefna það til, að samkv. frv. er forusta og frumkvæði um almannavarnir í höndum ríkisstj. og hlutdeild ríkissjóðs í kostnaði af varnaraðgerðum er stórlega aukin.

Þegar frv. var til 1. umr. í þessari hv. þd.; fylgdi hæstv. dómsmrh. því úr hlaði með nokkrum orðum, en frv. fylgdi í fyrra, þegar það fyrst var lagt fram hér á Alþingi, ýtarleg grg. Ég sé ekki ástæðu til að rekja einstök ákvæði frv. eða víkja að fram komnum till., fyrr en flm. hafa gert fyrir þeim grein.