28.02.1963
Sameinað þing: 34. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

forseti (FS):

Frá forseta efri deildar hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 28. febr. 1963.

Karl Kristjánsson, 1. þm. Norðurl. e., hefur ritað mér eftirfarandi:

„Þar sem ég undirritaður þarf að fara í sjúkrahús um stundarsakir og mun því ekki geta sinnt þingstörfum um skeið, leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis, að óska þess, að 3. varamaður Framsfl. í Norðurl. e., Valtýr Kristjánsson bóndi í Nesi í Fnjóskadal, taki á meðan sæti mitt á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. Sigurður Ó. Ólafsson,

forseti Ed.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Með bréfi þessu fylgja símskeyti tvö, annað frá Akureyri:

„Vegna forfalla get ég ekki mætt á Alþingi í fjarveru þinni næstu daga.

Jakob Frímannsson.“

Og undirskrift er staðfest af símstúlku. Og frá Ólafsfirði annað skeyti:

„Vegna anna get ég undirritaður ekki mætt á Alþingi í stað Karls Kristjánssonar alþm.

Björn Stefánsson skólastjóri:“

Þessi undirskrift er staðfest. — Samkv. þessu tekur nú Valtýr Kristjánsson sæti Karls Kristjánssonar á Alþingi um sinn, og býð ég hann velkominn, en kjörbréf Valtýs hefur áður verið rannsakað og samþykkt.