21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

Varamenn taka þingsæti- rannsókn kjörbréfa

forseti (JóhH):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sinnt þingstörfum næstu vikur, óska ég þess, með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis, að vegna forfalla 1. varamanns Sjálfstfl. í Norðurl. e. verði 2. varamaður flokksins, Björn Þórarinsson bóndi í Kílakoti, kvaddur til að taka sæti á Alþingi í fjarveru minni.

Jónas G. Rafnar.

Til forseta Nd. Alþingis.“

Skv. þessu tekur Björn Þórarinsson nú sæti Jónasar G. Rafnars, og býð ég hann velkominn til þingstarfa að nýju. Með þessu fylgir einnig bréf frá 1. varamanni um forföll hans til að taka sæti aðalmannsins, Gísla Jónssyni, menntaskólakennara.