11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

6. mál, almannavarnir

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef fallizt á að mæla með frv. þessu í aðalatriðum, af því að ég tel það stefna í rétta átt. Þó að við hér úti á Íslandi eigum bágt með að trúa því, að til þess háttar styrjaldar dragi, að friðsömum almenningi hér verði af lífshætta búin, er ekki skynsamlegt að fulltreysta því. Þó að atómstyrjöld væri vissulega fullkomin vitfirring, er framleiðsla atómvopnanna staðreynd, sem ber vitni um, að vitfirringin býr um sig, hvort sem hún brýzt út eða ekki í styrjöld, og hvert sem litið er búast þjóðir um til að verjast eftir föngum slíkum eyðingarmætti. Hví skyldum við ekki líka reyna að gera það?

Ég játa hiklaust, að ég ber ekki skyn á, hvaða varnir mættu helzt að gagni koma fyrir almenning hérlendis, ef til stórfelldrar styrjaldar kæmi, er heilsuvá og lífsháska leiddi yfir land okkar. Um þekkingu á því sviði erum við sennilega flest, er sæti eigum á Alþingi, líkt á vegi stödd. Hins vegar hefur þetta frv. um almenningsvarnir verið samið af mönnum, sem falið var hvort tveggja að kynna sér fræðilega, hvað um er að ræða í þessum efnum, og leita upplýsinga um það, sem aðrar þjóðir gera helzt til almannavarna hjá sér og okkur gæti hentað til fyrirmyndar. Ég tortryggi ekki sérstaklega þessa menn um að hafa ekki gert sitt bezta við samningu frv. Ég mæli með frv. í trausti þess, að tillögur þeirra, að því er veit að hinum fræðilegri og flóknari hliðum þessara mála, hafi verið vandlega hugsaðar af þeim eftir föngum og það vel, að um þær verði a.m.k. varla bætt af alþm., sem enga sérþekkingu hafa á þessum málum eða aðstöðu til að afla sér slíkrar þekkingar. Í mörgum atriðum, jafnvel flestum, er vitanlega mest undir framkvæmd laganna komið, að hún verði í höndum þeirra, sem eiga að stjórna, skynsamleg og hvorki kák né öfgaverk. Af þeirri ástæðu flyt ég á þskj. 158 tvær brtt.

Sú fyrri er við 7. gr., um, að þar sem ríkisstj. ákveður, að hefja skuli varnarráðstafanir skv. 9. gr., skuli þær gerðar með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Ég tel ekki nægilegt, að ríkisstj. leiti aðeins samráðs við sveitarstjórnina og ráði athöfnum, ef ágreiningur verður. Ég tel, að samþykki sveitarstjórnarinnar eigi að þurfa að koma til. Ég tel, að ekki megi minna vera en stjórn sveitarinnar hafi neitunarvald á umráðasvæði sínu í þessum efnum. Ég tel það fyrst og fremst stjórnskipulega rétt, og þar að auki álft ég það skynsamlegra málefnanna vegna, að sveitarstjórnin hafi þennan rétt, af því að hún hlýtur venjulega að vera kunnugri í sinni byggð en sá eða þeir, sem koma fram f.h. ríkisstjórnarinnar. Ekki væri undarlegt, þó að skelfing gripi um sig í þéttbýlinu eins og hér, þar sem stjórnarstöðvar varnarmálanna eru, ef sýnt þætti t.d., að yfir vofði atómstyrjöld. Og þá mætti vel hugsa sér, að nokkuð fljótfærnislegar og fumkenndar kynnu að verða fyrirskipanir, er gefnar yrðu frá þessum stöðvum, t.d. vestur til Ísafjarðar, norður til Akureyrar, austur til Seyðisfjarðar eða til annarra fjarlægra staða, og í þeim öfgar, sem heimamenn kynnu betur að meta. Ég held, að þá mundi verða bæði sanngjarnara og heilbrigðara, að sveitarstjórn viðkomandi staðar yrði að gjalda samþykki sitt til framkvæmdanna. Ég held, að með því yrðu ráðstafanirnar betur og rólegar athugaðar. Auk þess ber á það að líta, að sveitarstjórnum ber að greiða 1/3 og stundum helming af meginkostnaði á hverjum stað, sbr. 25. gr. frv. Ég tel þannig, að öll meginrök hnígi að því, að eðlilegt sé og skylt að áskilja í lögum þessum hlutaðeigandi sveitarstjórnum það vald, sem felst í því, að samþykki þeirra þurfi til meiri háttar ráðstafana á hverjum stað. Ég geri ráð fyrir, að einhver haldi því fram, að bezt muni til að tryggja tafarlausar aðgerðir, að ríkisstj. eða fulltrúar hennar ráði aðgerðum, og þyki, eins og höfundum frv., nóg, að þeim verði gert skylt að hafa samráð við sveitarstjórnir. Ég hef ekki trú á því, að það þurfi að tefja, þótt samþykki sveitarstjórnar sé áskilið. Sveitarstjórnir munu engu síður verða ábyrgar í framkvæmdum þessum en toppmennirnir, ef til kemur, og ekki hafa tilhneigingu til að valda slysum heima fyrir hjá sér með töfum. Ég tel þess vegna rangt að víkja sveitarstjórnum til hliðar, eins og frv. ætlast til. Ég er á móti einræði á þessu sviði.

Önnur brtt. mín er sama eðlis og sú fyrri. Hún er um, að borgarstjórn Rvíkur ráði því sjálf, hvort eða hvenær hún skipar almannavarnanefndinni hjá sér sérstakan framkvæmdastjóra. Legg ég til, að beinni skipun verði þarna breytt í heimild.

Frv. þetta var á síðasta þingi sent Sambandi íslenzkra sveitarfélaga til umsagnar. Fulltrúaráð sveitarfélaganna mælti með frv., en tók fram jafnframt, að það treysti því, að ríkisstj. hafi nána samvinnu við sveitarstjórnir, ef stofna skal til ráðstafana á kostnað sveitarsjóðanna. Þessar brtt. mínar báðar eru í anda meðmæla fulltrúaráðs sveitarfélaganna og fyrirvarans, sem fulltrúaráðið hafði. Mér finnst þess vegna eðlilegt, að hv. þdm. fallist á tillögurnar.

Minni hl. hv. heilbr.- og félmn. hefur lagt fram till. og gert grein fyrir þeim. Ég get ekki fallizt á aðaltill., dagskrártill. Ég tel, að varnarliðsmálið sé annað mál. Varnarliðið er hér samkv. samningi, sem hefur sinn tímabundna fyrirvara. Mér virðist dagskrártill. byggð á trúnni á, að algert hlutleysi bægi öllum hættum frá. Ég hef ekki þá trú. Málin eru ekki svo einföld, því miður. Stríðsæði, ef af stað fer, virðir ekki hlutleysi, því miður. Um varatill. get ég að sjálfsögðu sagt það, að fyrsta till. er samhljóða fyrri till. minni, og er ég henni fullkomlega samþykkur. Um aðrar till. er það að segja, að ég sé ekki ástæðu til að styðja þær.