06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

Þingrof

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég vil náttúrlega ekki eyða miklum tíma þingsins í þetta mál. Ég segi hins vegar hv. síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Norðurl. e., að ég þykist alveg hafa sæmilega þekkingu á hans átthögum, þó að ég sé þar ekki fæddur og uppalinn. Ég hef þó a.m.k. dvalið þar part úr 2 árum. Þá var hann hér í Reykjavík, svo að ég var að kynna mér aðstæðurnar þar, meðan hann var að kynna sér, hvernig Reykjavík var.

Ég tók það fram í minni fyrstu aths. eða fyrstu smáræðu, að auðvitað höfum við enga tryggingu fyrir, að veðrið verði gott 9. júní. En við höfum heldur enga tryggingu fyrir hinu, að það verði gott 30. júní.

Hv. þm. sagði, að Ísland væri stærra en Suðurland, og rétt er það. Við vitum m.a., að þetta Ísland, — sem ekki er Suðurland, hefur sent okkur hingað þm., þótt ekki væri annað. Og hann taldi, að ég mætti ekki marka veðurfarið nyrðra með því að miða við, hvernig það er í Reykjavík. Ég sagði nú frá því, að ég hefði sjálfur lifað það, að skip, sem kom inn í Reykjavíkurhöfn í júnílok, var að því leyti óþekkjanlegt, að reykháfurinn virtist vera hvítur í staðinn fyrir að vera grár með miklu reykháfsmerki vegna storma og stórsjóa alla leið frá útlöndum og allt upp til Íslandsstranda og nærri þangað til skipið kom í höfn. Ég held því þess vegna enn fram, að ég hef enga tryggingu fyrir góðu veðri 30. júní.

Ég hef ekki síður tilhneigingu til þess að vernda rétt sveitanna til að njóta síns kosningarréttar en hv.-þm., enda hef ég þar sömu hagsmuna að gæta og hann, vegna þess að hans flokkur og minn flokkur skipta bændafylginu að mestu á milli sín. En ég segi, að við mér blasir sú staðreynd, að ef kjördagur verður 30. júní, þá hef ég minni líkur fyrir því, að sjómenn hagnýti sér réttinni. Það er alveg rétt, sem hv. þm. hafa tekið fram, að sjómenn hafa rétt til heimakjörs. En hitt vitum við vel, sem erum kunnugir högum og háttum meðal sjómanna, og þar hygg ég, að ég þekki eins vel til og hv. þm., að þeir vilja miklu heldur mega kjósa á kjördegi á þeim stað, þar sem þeim ber að kjósa, heldur en þurfa að taka á sig aukaómak til þess að fara í utankjörstaðarkosningar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að þræta um þetta, því að eins og hv. 1. þm. Austf. sagði, þetta er afgert, og ég vona aðeins, að þessi ákvörðun verði ekki til þess að torvelda neinum manni að neyta þessa dýrmæta réttar, kosningarréttarins, en megi hins vegar verða til hins, að auðvelda það mörgum og kannske ráða einhverju um það, að þeir menn, sem ella hefðu ekki kosið, neyta nú kosningarréttarins.