19.04.1963
Neðri deild: 80. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

Starfslok deilda

forseti (JóhH):

Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði fleiri störf d. á þessu þingi, og eins og sakir standa, er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að störfum Nd. sé lokið. Ég vil því nú, áður en þessum fundi lýkur, þakka hv. þdm. fyrir ágætt samstarf á þessu þingi. Það er mér mikið ánægjuefni, að það hefur aldrei á neinn minnsta hátt skorizt í odda á þessu þingi milli forseta og þdm. Enda þótt forseti í slíkum tilfellum hafi valdið til að skera úr, býst ég við að það mundu allir forsetar mæla, að þeim er aldrei ljúft að beita slíku valdi, enda kann alltaf tvímælis að orka, hvað rétt er, og ekki sízt vegna þess, að þingsköp okkar eru orðin nokkuð úrelt og þarfnast endurskoðunar.

Þegar þessu þingi lýkur, óska ég öllum þdm. góðrar heimkomu, og ég óska þeim öllum hins bezta í þeirri baráttu, sem fram undan er, þeim sem í hana fara, því að enda þótt skoðanir skilji, þá viljum við að sjálfsögðu allir, að kosningabarátta á hverjum tíma sé með sæmd háð.

Ég endurtek svo þakklæti mitt fyrir ágætt samstarf á þessu þingi, og ég árna þdm. allra heilla.