26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1988)

15. mál, lánsfé til húsnæðismála

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. á þskj. 15, um útvegun lánsfjár til húsnæðismála o.fl., sem flutt er af hv. 3. þm. Reykv. og flokksbræðrum hans í þessari hv. d. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Einn nm., hv. 4. landsk., leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Annar nm., hv. 4. þm. Reykn., var fjarverandi, þegar n. afgreiddi málið. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði fellt.

Frv., ef að lögum yrði, felur í sér, að Seðlabanki Íslands skuli nú þegar lána byggingarsjóði verkamanna 60 millj. kr. og byggingarsjóði ríkisins 250 millj. kr. Einnig segir í frv., að á næsta ári skuli Seðlabankinn lána byggingarsjóði ríkisins helming þeirrar fjárhæðar, er nemur því sparifé, sem hann bindur samkv. heimild í 11. gr. l. um Seðlabanka Íslands, en þó aldrei minna en 100 millj. kr. — Samtals er Seðlabankanum því ætlað, samkv. frv., að leggja fram 410 millj. kr. til íbúðabygginga á þessu og næsta ári. —Jafnframt eru í frv. tillögur um rýmkun á lánskjörum byggingarsjóðanna og hækkun einstakra lána úr þeim.

Meiri hl. heilbr.- og félmn. gerir sér mjög vel ljósan þann vanda, sem óleystur er í sambandi við útvegun lánsfjár til íbúðabygginga, en álítur jafnframt, að þetta frv. feli ekki í sér raunhæfar tillögur til lausnar þeirra mála. Leyfi ég mér í þessu sambandi að minna á þær upplýsingar, sem hæstv. viðskmrh. gaf hér á þessum stað um ráðstöfun á því fé, sem Seðlabankinn hefur til umráða, en það eru um 1650 millj. kr., þar af um 489 millj. kr. bundið sparifé. Í septemberlok voru um 258 millj. kr. af þessu fé í útlánum út á framleiðsluvörur landbúnaðarins, um 563 millj. kr. voru lánaðar út vegna sjávarútvegsins, og gjaldeyrisforðinn nam 816 millj. kr., en hann er tryggður með innstæðufé Seðlabankans. Sýna þessar tölur ljóslega, að ef skylda á bankann til þess að lána stórfé til annarra hluta, þá verður það ekki gert nema með því að draga annaðhvort úr útlánum til landbúnaðar og sjávarútvegs eða með því að ganga á gjaldeyrisforðann. Ég hef engan mann fyrir hitt, sem haldið hefur því fram, að framleiðslulán atvinnuveganna væru óþarflega há. Aftur á móti er algengt, að því gagnstæða sé haldið á lofti. Niðurskurður á þeim lánum kemur því ekki til greina. Eftir er þá spurningin um það, hvort ekki sé rétt að sigla djarft, eins og það var orðað hér á dögunum, og ráðstafa gjaldeyrisforðanum til fjárfestingar eins og þeirrar, sem þetta frv. fjallar um, m.a. til íbúðabygginga. Þeirri spurningu svara ég fyrir mitt leyti afdráttarlaust neitandi, eins og högum er háttað í efnahagslífi okkar. Gjaldeyrisforðinn er einn mikilvægasti árangur viðreisnarinnar og hefur gerbreytt viðskiptaháttum og orðið til þess að endurreisa lánstraust, sem þjóðin var búin að glata. Atvinnulíf okkar er þannig uppbyggt, að miklar sveiflur geta orðið í framleiðslunni frá ári til árs, og þess vegna er okkur nauðsynlegra en flestum öðrum þjóðum að eiga ríflega gjaldeyrisvarasjóði. Við skulum líka gera okkur það ljóst, að kaupgeta er mikil í landinu um þessar mundir og þar af leiðandi þarf mikinn gjaldeyri til almennra vörukaupa, og má hafa á því fulla gát, að þær þarfir gangi ekki of nærri gjaldeyrisvarasjóðnum. Það væri vafasamur greiði við húsbyggjendur að fá þeim í hendur mikið lánsfé, en girða jafnframt fyrir það, að þeir gætu fengið gjaldeyri til kaupa á erlendu byggingarefni, eins og t.d. steypustyrktarjárni, þakjárni, þilplötum og hreinlætistækjum. Þær nauðsynjar voru ekki alltaf auðfengnar, þegar gjaldeyrisskorturinn var hafður fyrir skömmtunarstjóra og viðskiptahöftin voru í algleymingi, eins og margir munu minnast.

Þessi sjónarmið ráða mestu um það, að meiri hl. heilbr.- og félmn. telur, að frv. á þskj. 15 feli ekki í sér raunhæfar till. til þess að bæta úr lánsfjárskorti húsbyggjenda, og leggur til, að frv. verði fellt. Fjármagni Seðlabankans er öllu ráðstafað, og sömu peningana er ekki hægt að nota á mörgum stöðum í einu. Hitt er svo annað mál, að vinna verður áfram að því að fullnægja eftirspurn eftir lánsfé til íbúðabygginga, en öruggasta leiðin að því marki er áframhaldandi sparifjáraukning. Sú aukning hefur verið mikil að undanförnu, eftir að áhrifa viðreisnarinnar fór að gæta, og hefur þegar leitt til þess, að unnt hefur verið að verja meira fé en nokkru sinni fyrr til íbúðabygginga. Áframhald þeirrar þróunar er farsælasta lausn þessa máls.