18.10.1962
Neðri deild: 4. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1994)

9. mál, efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er ekki vel samið, og má það undarlegt heita, þegar það er haft í huga, að flm. þess eru hvorki meira né minna en 11 talsins, mikið mannval víðs vegar að af landinu. Aðalefni frv., eins og kom fram í ræðu hv. frsm., er, að útlánsvextir banka og sparisjóða skuli lækka annars vegar og svo hins vegar að gera skuli breytingar á þeim reglum, sem settar hafi verið um bindingu sparifjár í Seðlabankanum. En það vantar grein í frv. og tilsvarandi skýringar í grg. um, að til þess hlýtur að vera ætlazt, að innlánsvextir lækki jafnmikið hlutfallslega við lækkun útlánsvaxta, því að ég læt mér ekki detta í hug, að þeir 11 ágætu alþm., sem frv. flytja, geri ráð fyrir því, að bankar og sparisjóðir lækki útlánsvexti sína um um það bil 2%, en haldi sínum innlánsvöxtum algerlega óbreyttum og efni þannig til stórkostlegs hallarekstrar á öllu banka- og sparisjóðskerfi landsins. Þetta getur ekki verið meiningin. Þó að um það sé vandlega þagað í frv. og grg., þá er það einungis vegna þess, að það hlýtur að hafa gleymzt í einhverju tilteknu skyni að láta koma skýrt fram, að afleiðingin af samþykkt frv. mundi auðvitað einnig hljóta að verða sú, að innlánsvextir mundu lækka hlutfallslega jafnmikið og útlánsvextirnir.

Ég skal gera grein fyrir því, hvaða þýðingu þessi grein, sem í frv. vantar, mundi hafa fyrir íslenzka sparifjáreigendur. Ég hef athugað, hversu miklir vextir hafa verið greiddir af sparifé í bönkum og sparisjóðum síðan 20. febr. 1960 og til loka síðasta mánaðar, en 20. febr. 1960 kom til framkvæmda sú breyting á vöxtum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að nú sé afnumin. Á þessu tímabili, eða starfstíma núv. ríkisstj. nokkurn veginn, hafa verið greiddir vextir af sparifé í bönkum og sparisjóðum að upphæð 476.6 millj. kr., en miðað við vaxtafótinn, sem gilti 20. febr. 1960 og taka á í gildi aftur, ef þetta frv. yrði samþ., hefðu vextirnir orðið 320.6 millj. kr. Nákvæmar tölur eru ekki til um vaxtahækkun í innlánsdeildum kaupfélaganna, en hana mun mega áætla um 15 millj. kr., þannig að heildarvaxtahækkunin, sem íslenzkir sparifjáreigendur hafa fengið í sínar hendur í kjölfar hinnar breyttu vaxtastefnu núv. ríkisstj., er 170 millj. kr. Þetta er það fé, sem þessir 11 þm. Framsfl. hér í hv. Nd. telja að sparifjáreigendur hefðu ekki átt að fá og hefðu ekki fengið, ef Framsfl. hefði fengið að ráða stefnunni í þessum málum. En þegar það er haft í huga, hvernig íslenzkir sparifjáreigendur hafa verið leiknir, ekki aðeins undanfarin ár, heldur undanfarna áratugi, þarf ekki mörg orð um það að hafa, hvílíkt réttlætismál það var að rétta hag þeirra einmitt á þann hátt, sem þarna var gert. Þeir eru sannarlega ekki illa komnir að þeim 170 millj., sem þeir hafa fengið á starfstíma núv. ríkisstj.

Það má segja, að þetta snerti fortíðina. Þetta frv. getur að sjálfsögðu ekki svipt sparifjáreigendurna þeim 170 millj., sem þeir hafa fengið síðan í febr. 1960. En þetta frv. mundi minnka þá vexti, sem sparifjáreigendur fá í framtíðinni, og nú skulum við sjá, hvaða upphæð þar er um að ræða. Sparifé var í lok s.l. mánaðar 3501 millj. kr. og hefur aldrei í sögu íslenzku þjóðarinnar verið jafnhátt. Það má gera ráð fyrir því, — og við það er beitt áætlunaraðferðum, sem ég hirði ekki um að gera grein fyrir, því að það mundi lengja málið óeðlilega, — það má gera ráð fyrir því með hliðsjón af reynslu af vexti sparifjár undanfarin ár, að meðalinnstæða í bönkum og sparisjóðum verði á næsta ári 3900 millj. kr. 2% vaxtalækkun af þessari sparifjárinnstæðu mundi svipta sparifjáreigendur 78 millj. kr. á næsta ári. Greinin, sem vantar í þetta frv., áreiðanlega viljandi, en ekki óviljandi, þýðir því, að sparifjáreigendur skuli á næsta ári fá 78 millj. kr. minna í vexti af sparifé sínu en þeir mundu fá, ef núverandi vöxtum yrði haldið óbreyttum. M.ö.o.: þetta frv. er um það að svipta sparifjáreigendur 78 millj. kr. á árinu 1963 og síðan vaxandi upphæðum miðað við óbreytta vexti, eftir því sem sparifjárinnlögin vaxa. Þetta er það, sem þagað er um í grg. En rétt er, að þetta komi skýrt fram, til þess að menn geti myndað sér tæmandi og rétta skoðun á því, hvað í frv. felst í raun og veru. Ég læt þetta nægja um ákvæði frv. um vaxtakjörin.

Hitt atriði frv. er, að afnema skuli þær reglur, sem settar hafa verið um, að bankar og sparisjóðir skuli leggja inn í Seðlabankann nokkurn hluta af þeirri aukningu, sem verður á sparifé hjá þeim. Um þetta atriði sé ég ástæðu til að fara nokkrum orðum.

Ég kemst ekki hjá því að segja það í upphafi þess, sem ég hef um þetta að segja, að mig furðar á málflutningi hv. 1. þm. Austf. (EystJ) um þetta efni, því að það hvarflar ekki eitt andartak að mér, að hann viti ekki miklu betur en kom fram í ræðu hans hér áðan um eðli þess máls, sem hér er um að ræða. Það hvarflar ekki eitt andartak að mér. Ég hef unnið með þessum hv. þm. í ríkisstj. í nokkur ár, og mér er því fullvel kunnugt um það, að hann hefur yfir að ráða mikilli þekkingu á efnahagsmálum, og hann er flestum mönnum glöggskyggnari á þau efni og eldfljótur að átta sig á hinum mesta vanda, sem að hefur borið á þessu sviði. Þess vegna verð ég að segja það, að ég þekki hann ekki fyrir sama mann í ræðustól hér sem leiðtoga annars stjórnarandstöðuflokksins, — þekki hann ekki fyrir sama manninn og við unnum með í ríkisstj. við að fjalla um mál eins og þessi. Svo mikill er munurinn á því, sem frá honum kemur um þessi efni. Ég skal nú reyna að gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef ekki talið mig komast hjá að segja þetta.

Ég ætla að byrja á því að greina frá því, hversu miklum fjárhæðum hér er til að dreifa, hversu mikið bundið sparifé er nú í Seðlabankanum. Ég minnist þess ekki, að frá þeim tölum hafi verið skýrt opinberlega áður nákvæmlega. En í lok s.l. mánaðar nam innborgað sparifé frá bönkum og sparisjóðum samkv. reglum, sem þar um gilda, 489 millj. 108 þús. kr., og það skiptist þannig: Frá bönkum og sparisjóðum í Reykjavík er af þessu fé 341 millj. 961 þús., frá útibúum bankanna utan Reykjavíkur 74 millj. 600 þús., frá sparisjóðum utan Reykjavíkur 65 millj. 719 þús. og frá innlánsdeildum kaupfélaga 6 millj. 828 þús. Samtals, eins og ég sagði áðan, 489 millj. 108 þús. kr.

Nú er eðlilegt, að menn spyrji: Hvers vegna hafa reglur verið settar um það, að hluti af sparifjáraukningu banka og sparisjóða og innlánsdeilda kaupfélaga skuli leggjast í Seðlabankann hér í Reykjavík? Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, átti þjóðin engan gjaldeyrisvarasjóð, heldur skuldaði þvert á móti lausaskuldir erlendis. Slíkan gjaldeyrisvarasjóð varð að byggja upp, og það varð að gera með hluta af sparifjáraukningu landsmanna, það varð að gera með einhvers konar sparnaði innanlands. Það er auðvitað öllum ljóst, að enginn einstaklingur getur eignazt nettóinnstæðu í sparisjóðsbók nema á þann hátt að nota ekki allan hluta tekna sinna. Og nákvæmlega sama máli gegnir að sjálfsögðu um þjóðarbúið í heild. Þjóðarbúið í heild getur ekki eignazt innstæðu í sparisjóðsbók erlendis, þ.e. gjaldeyrisforða, nema með því móti að nota ekki allan tekjuauka sinn, heldur flytja hluta af honum yfir í þessa erlendu sparisjóðsbók, yfir í þennan gjaldeyrisforða. Það má að sjálfsögðu gera með ýmsum hætti. Það mætti gera það með því að hafa mjög mikinn tekjuafgang hjá ríkissjóði. Sú leið, sem valin var hér, var tvímælalaust sú langskynsamlegasta, sem um var að ræða. Það var ákveðið, að bankar og sparisjóðir skyldu leggja til hliðar í Seðlabankanum nokkurn hluta af sparifjáraukningunni til þess að gera Seðlabankanum kleift að koma sér upp þessum gjaldeyrisvarasjóði, því að hvernig átti hann að gera það öðruvísi? Ekki byggir Seðlabankinn upp gjaldeyrisvarasjóð með því að auka seðlaveltuna. Til gjaldeyrisvarasjóðsins varð að svara raunveruleg eignaaukning hér innanlands eða binding á hluta af hinni raunverulegu eignaaukningu innanlands. Þetta var leiðin, sem valin var til þess að reyna að koma gjaldeyrisvarasjóðnum upp. Það hefur tekizt, því að nú á landið gjaldeyrisvarasjóð, sem í lok síðasta mánaðar nam 816 millj. kr. Og það hefur einmitt tekizt m.a. og fyrst og fremst með hjálp þess, að hluti af sparifjáraukningu landsmanna hefur verið bundinn í Seðlahankanum á móti aukningu gjaldeyrisforðans.

Hv. 1. þm. Austf. sagði í ræðu sinni áðan, að það væri ekki undirrót verðbólgu að lána út allt spariféð, þ.e. auka útlánin um alla sparifjáraukninguna. Þetta er auðvitað rétt, ef engin aukning þarf að verða á gjaldeyrisforðanum, ef hann getur haldizt óbreyttur, hvað þá ef honum er eytt. Að sjálfsögðu er ekki verðbólguaukandi að láta allt spariféð vera í útlánum, að auka útlánin jafnmikið og allri sparifjáraukningunni nemur. En það er ekki hægt að gera hvort tveggja í senn, að auka gjaldeyrisforðann og endurlána alla aukningu sparifjárins. Það er að gera tilraun til þess að nota sömu peningana tvisvar. Með hliðsjón af þessum einföldu staðreyndum var það, sem ég sagði m.a., að það hvarflaði ekki eitt andartak að mér, að hv. 1. þm. Austf., sem gegnt hefur embætti fjmrh. lengur en nokkur annar maður hér á Íslandi, séu ekki þessar staðreyndir fullkomlega ljósar. Mér er nær að halda, að mér sé óhætt að segja, að ég viti, að honum séu þær ljósar, og samt sem áður getur hann fengið sig til þess að tala á þann hátt, sem hann gerði áðan í rúmlega klukkutímaræðu sinni.

Hv. 1. þm. Austf. þarf að sjálfsögðu að svara því, ef hann vill láta taka málflutning sinn í ræðu sinni áðan alvarlega, hvernig hann hefði viljað láta mynda gjaldeyrisforðann á annan hátt en gert var, þ.e. með því að festa hluta af sparifjáraukningunni. Vildi hann láta gera það með því að hafa tilsvarandi aukningu á ríkissjóði? Vildi hann láta hækka skatta hér innanlands sem því svaraði? Vildi hann láta auka tolla til þess að skapa aukningu hjá ríkissjóði, sem þessu nam? Eða hefur hann eitthvert leynivopn í hendinni, sem við hin þekkjum ekki, sem hefði getað komið í staðinn fyrir þessa bindingu á sparifénu? Hinu getur hann ekki haldið fram, og því trúi ég ekki, að hann geri, að hægt hefði verið að koma upp 816 millj. kr. gjaldeyrisforða án þess að nota í það nokkurn hluta af tekjum þjóðarinnar.

Til þess að reyna að gera tilraun til að gera þetta dæmi enn gleggra með sem einföldustum hætti er rétt að gera grein fyrir því, yfir hvaða fé Seðlabankinn hefur að ráða og hvernig hann notar féð. Það hygg ég, að megi gera með því að draga reikninga hans saman í nokkur meginatriði. Seðlabankinn hefur yfir að ráða seðlaveltu. að upphæð 600 millj. kr. Hann hefur seðlaútgáfuréttinn og hefur seðla í umferð að upphæð 600 millj. kr. Eigið fé hans nemur um 200 millj. kr. Hann hefur yfir að ráða mótvirðisfé svonefndu, — allir hv. þm. vita væntanlega, um hvað þar er að ræða, — að upphæð 350 millj. kr. Og hann hefur yfir að ráða sparifé frá bönkum og sparisjóðum, hinu margumtalaða bundna fé, tæplega 500 millj. kr. Þetta eru samtals um 1650 millj. kr., sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða í aðalatriðum. Og hvernig ver hann þessu fé, hvernig notar hann féð? Hann notar það fyrst og fremst til útlána, til endurkaupa á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar, og bindur það í gjaldeyrisforðanum. Í útlánum hefur Seðlabankinn, miðað við 15. okt. s.l., nýjustu tölur, sem um er að ræða, í landbúnaðarútlánum 258 millj. kr. og í sjávarútvegsútlánum 563 millj. kr., samtals í útlánum 821 millj. kr. Og hann hefur bundið í gjaldeyrisforðanum 816 millj. kr., eins og ég gat um áðan. Samtals 1637 millj. kr. eða um það bil það sama, sem ég nefndi áðan sem það fé, sem hann hefði til ráðstöfunar. Auk þess er um að ræða í reikningum Seðlabankans hjá Seðlabankanum nokkra aðra liði, verðbréf og stofnlán sjávarútvegs og því um líkt, sem ganga hver á móti öðrum og mundi aðeins rugla þetta dæmi að telja með. En kjarni málsins er þessi: að Seðlabankinn hefur yfir að ráða um það bil 1650 millj. kr., og þar af eru langstærstu liðirnir seðlaveitan annars vegar 600 millj. og bundna spariféð um 500 millj. kr., auk mótvirðisfjárins og eigin fjár. Og þessar 1650 millj. kr. hefur Seðlabankinn sumpart bundið í útlánum í sjávarútvegi og landbúnaði og sumpart í gjaldeyrisforðanum, skiptist um það bil til helminga. Nú vil ég spyrja hv. 1. þm. Austf. og raunar alla hv. dm., sem mál mitt heyra: Ef reglurnar um bindinguna yrðu afnumdar, þ.e. ef Seðlabankinn yrði að skila aftur bönkum og sparisjóðum þessum 500 millj. kr., sem hann hefur frá þeim, hvað á Seðlabankinn þá að gera? Engum dettur í hug, að Seðlabankinn geti skilað þessum 500 millj. kr. og gert ekki neitt. Það er öllum alveg augljóst og áreiðanlega ekki sízt hv. 1. þm. Austf., honum ekki síður en öðrum. Hvað á Seðlabankinn þá að gera? Ég spyr. Á hann að draga úr útlánunum til sjávarútvegs og landbúnaðar? Er það ráðið? Á hann að lækka þau um 500 millj. kr.? Eða á hann að eyða gjaldeyrisforðanum? Það þriðja er ekki til. Þriðja leiðin fyrir hann er ekki til, því að ég læt mér ekki detta í hug, að hv. 1. þm. Austf. sé á sömu skoðun og stundum hefur heyrzt frá hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að auka megi seðlaveltuna svo að segja endalaust. Það veit ég, að hv. þm. Austf. dettur ekki í hug, og eigið fé verður ekki aukið með neinum töfrabrögðum og þá ekki heldur mótvirðisféð. M.ö.o.: eigi Seðlabankinn að missa sparifé frá bönkum og sparisjóðum, verður hann að gera annað tveggja, minnka endurkaupin á víxlunum frá sjávarútvegi og landbúnaði um sömu upphæð eða láta gjaldeyrisforðann eyðast. Og ég spyr nú: Hver væri bættari, hvaða aðili í landinu, hvaða maður, hvaða fyrirtæki, þótt viðskiptabankar og sparisjóðir fengju til baka þessar 500 millj. kr. og gætu lánað þær út, gætu aukið útlán sín um 500 millj. kr., ef Seðlabankinn drægi saman útlán sín um nákvæmlega sömu upphæð? Hver væri þá bættari? Þetta eru sömu peningarnir. Þetta eru sömu krónurnar, einmitt af því að peningarnir verða ekki notaðir tvisvar. Er það, það, sem hv. þm. er að gefa í skyn, að hægt sé að gera, með því að segja: Útlán gætu aukizt í heild um 500 millj. kr., ef við hefðum ekki svo vonda ríkisstj., að hún frysti þessar 500 millj. hér í Seðlabankanum við Austurstræti í Reykjavík? — Allur málflutningur hans og Framsfl. byggist á því að fá menn til að trúa því, að heildarútlán í landinu gætu aukizt um 500 millj. kr., ef bindingarreglurnar væru afnumdar. Þetta er það, sem veifað er framan í atvinnurekendur og þá aðra framkvæmdamenn, sem vantar fé til framkvæmda. Þessu er veifað framan í þá í áróðursskyni: Þarna eru peningarnir, þarna eru peningarnir. Við höfum bara vonda ríkisstjórn og vonda seðlabankastjórn, sem heldur peningunum fyrir ykkur. — En þetta er auðvitað herfileg blekking, og það er þetta, sem ég sagði áðan að væri blekking, sem er fyrrv. hæstv. fjmrh. engan veginn samboðin. Ég segi það aftur: sem er honum engan veginn samboðin. Hitt mætti segja, að það væri hægt fyrir Seðlabankann að losa þetta fé smám saman á árinu án þess að draga úr útlánum, ef Seðlabankinn vildi fylgja þeirri stefnu að eyða gjaldeyrisforðanum. Þá er það í raun og veru ekki þetta fé, sem er tvínotað, heldur er gjaldeyrisforðinn þá tekinn í útlán hér innanlands. Þá er það hann, sem er tekinn í útlán hér innanlands. Nú spyr ég hv. 1. þm. Austf. og bið hann um að svara alveg skýrt: Er það þetta, sem hann meinar? Telur hann gjaldeyrisforðann í raun og veru óþarfan? Telur hann það ranga stefnu að koma gjaldeyrisforðanum upp? Er það það, sem hann meinar, að við eigum að taka gjaldeyrisforðann til útlána hér innanlands? Öðruvísi er ekki hægt að framkvæma það, sem hann veifar framan í þá, sem telja sig fjárþurfa, að þeir geti fengið þessar 500 millj. til útlána. Ef þeir eiga að geta fengið þær án þess að nota nokkurn pening tvisvar, eyðist gjaldeyrisforðinn og þeir fá hann til sinnar ráðstöfunar. Er það þetta, sem hv. þm. meinar? Ég trúi því ekki, því að mér er það fullvel kunnugt af áralöngu samstarfi mínu við hann fyrir nokkrum árum, að hann gerir sér nákvæmlega jafnskýra grein og ég og núv. starfsbræður mínir fyrir því, hversu mikil nauðsyn það er fyrir þjóð eins og Íslendinga að eiga gjaldeyrisforða, a.m.k. þá upphæð, sem okkur hefur nú tekizt að eignast með þeim ráðum, sem beitt hefur verið. Þess vegna læt ég mér ekki heldur detta í hug, að það sé þetta, sem hann meinar. Það, sem hann meinar einfaldlega, er, að hann treystir því, að hér sé um svo flókið mál að ræða, að hægt sé að komast upp með að blekkja almenning til þess að halda, að hægt sé að nota sömu peningana tvisvar. En ég verð að segja, að sú skylda hvílir á formanni þingflokks Framsfl. og manni með fortíð og reynslu hv. 1. þm. Austf. að gera skýra grein fyrir því, fyrst hann stofnar til slíkra umr., með hvaða hætti hann vill gera Seðlabankanum kleift að skila bönkum og sparisjóðum aftur þeim 500 millj. kr., sem hann hefur frá þeim fengið. Þeirri spurningu verður hv. 1. þm. Austf. að svara alveg skýrt og alveg útúrdúralaust, og það mun áreiðanlega verða eftir því tekið, hvort sem hann svarar henni og með hverjum hætti hann svarar henni.

Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. og raunar í málflutningi hans flokks og hins stjórnarandstöðuflokksins, að hér sé um að ræða mikinn samdrátt og einmitt að reglurnar um bindingu innlána banka og sparisjóða í Seðlabankanum eigi verulegan þátt í þessu, m.ö.o. að lánsfé sé haldið fyrir framleiðendum og það geri það að verkum, að framleiðslan sé ekki eins mikil og hún gæti verið. Hér er að sjálfsögðu um að ræða mikinn misskilning, að ég ekki segi beina blekkingu. Vitum við ekki öll, að allt vinnuafl á Íslandi er fullnotað? Það er notað út í yztu æsar. Og vitum við ekki öll, að öll framleiðslutæki á landinu eru notuð út í yztu æsar? Við getum ekki aukið framleiðsluna með því að taka ónotað vinnuafl til vinnu, því að það er ekki til. Og við getum ekki aukið framleiðsluna með því að taka ónotuð tæki til notkunar, því að þau eru ekki til. Aukin peningaútlán mundu ekki auka vinnuaflið og ekki auka tækin, sem við höfum til ráðstöfunar. Það er því fullkomin blekking, að það, sem á stendur til aukningar á framleiðslunni, sé skortur á peningum, skortur á fjármagni. Það er fullkomin blekking. Það, sem gera þarf til að auka framleiðsluna, er að auka afköst vinnuaflsins og tækjanna, sem við nú eigum. Við þurfum að afla okkur betri og fullkomnari tækja. Með því einu móti getum við vænzt þess að auka afköst þjóðarbúsins. En til þess að geta aukið afköst vinnuaflsins með betri vinnunýtingu og betri skipulagningu og til þess að eignast betri tæki og fullkomnari tæki þarf að vera jafnvægi í efnahagsmálum hér innanlands, og það þarf að vera viðskiptafrelsi gagnvart umheiminum. En til að geta varðveitt jafnvægi í efnahagsmálum innanlands og viðskiptafrelsi út á við er öruggur gjaldeyrisforði ein meginforsendan. Þess vegna var auðvitað rétt að koma gjaldeyrisforðanum upp á þann hátt, sem gert hefur verið, og þess vegna ber enn að stuðla að því að efla hann.

Í þessu sambandi sagði hv. þm. sem eitthvert dæmi um samdráttinn, að það væri mikill samdráttur í bátakaupum til landsins. Hér er um mjög alvarlegan misskilning að ræða, sem líklega á — og vil ég gjarnan trúa því — rót sína að rekja til þess eins, að hv. þm. hafi ekki aflað sér réttra upplýsinga, ekki haft aðstöðu til þess að afla sér réttra upplýsinga um þetta efni. Ég skal af þessu tilefni gefa upplýsingar um þau erlend skipakaup, sem fiskveiðasjóður hefur veitt lán til, en hann lánar til allra skipakaupa frá útlöndum. Á árinu 1958, síðasta ári stjórnar Hermanns Jónassonar, komu aðeins 7 skip frá útlöndum. Það átti sér sérstakar skýringar, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í hér. Á árinu 1959 urðu þau 13. Á árinu 1960 urðu þau 38. Á árinu 1961 urðu þau 23. Á þessu ári er fiskveiðasjóður þegar búinn að veita lán út á 10 skip og lofa lánum út á önnur 20, þannig að fiskveiðasjóður hefur afgreitt lán út á fiskiskip, byggð erlendis, 30 að tölu. Er hér í raun og veru um meiri aukningu að ræða en þessi tala gefur tilefni til að halda, vegna þess að hér er um miklu stærri skip að ræða en að meðaltali á undanförnum árum. Enn fremur liggja fyrir beiðnir hjá fiskveiðasjóði um 20–30 skip byggð erlendis. Þetta er sannleikurinn um svartsýnina, sem ríkir í sjávarútveginum, og samdráttinn, sem þar sé um að ræða.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um staðhæfingu, sem hv. þm. lét liggja að einu sinni í ræðu sinni áðan, en mjög hefur verið höfð á lofti af aðalmálgögnum flokks hans, Framsfl., varðandi bindingu sparifjárins, að með henni sé verið að draga fé utan af landi til Reykjavíkur, að afleiðingar hennar séu þær, að fé sé sópað utan af landsbyggðinni og sett í frystiklefa hér við Austurstræti í Reykjavík. Þegar ég las upp skiptinguna á bundna sparifénu áðan, kom í ljós, að af þessum 489 millj. kr. voru 342 millj. úr bönkum og sparisjóðum í Reykjavík, en aðeins 147 millj. frá útibúum banka, sparisjóðum og innlánsdeildum kaupfélaga utan Reykjavíkur. En hvað gerir Seðlabankinn við þetta fé? Hann notar það m.a. til endurkaupa á afurðavíxlum sjávarútvegsins og landbúnaðarins, eins og ég gat um áðan, sem nema samtals 821 millj. kr. Þvi miður er ekki til skipting í Seðlabankanum á því, hvaða aðilar það eru, sem eiga þessa víxla, skipting á milli Reykjavíkur og landsins utan Reykjavíkur. En ég leyfi mér að fullyrða, enda liggur það í augum uppi, að mestur hluti þessa fjár er keyptur af aðilum utan Reykjavíkur. Mesti hluti þessara 821 millj. kr., sem Seðlabankinn hefur í útlánum, er endurkeyptur af aðilum utan Reykjavíkur. M.ö.o.: aðeins 1/3 sparifjárins, sem Seðlabankinn hefur fengið, er frá aðilum utan Reykjavíkur, en ég segi það aftur, mestur hlutinn af útlánum Seðlabankans gengur til aðila utan Reykjavíkur. Þetta er sannleikurinn um atriði, sem endurtekið hefur verið viku eftir viku í málgögnum Framsfl., að Seðlabankinn sjúgi til sín fé utan af landsbyggðinni, haldi fé fyrir mönnum og fyrirtækjum utan af landsbyggðinni.

Ég vil líka vekja alveg sérstaka athygli á því atriði talnanna, sem ég las áðan um skiptingu bundna sparifjárins, að af þessum 480 millj. kr. eru aðeins 6.8 millj. frá innlánsdeildum kaupfélaganna. En það hefur líka hvað eftir annað, viku eftir viku, verið endurtekið í málgögnum Framsfl., að bindingarreglunum hafi kannske hvað helzt verið stefnt gegn innlánsdeildum kaupfélaganna. Hafi það verið meiningin, þá er árangurinn samt ekki meiri en þessi, að þær eiga samtals 6.8 millj. inni í Seðlabankanum.

Sagan um þetta er raunar ekki öll sögð enn, vegna þess að talan, sem ég nefndi áðan, 489 millj. kr., er það, sem þeir aðilar, sem bindingarreglurnar ná til, höfðu borgað í lok september inn í Seðlabankann. En samkv. reglunum eiga þessir aðilar að borga meira. Þeir eru í nokkrum vanskilum við Seðlabankann. Samkv. reglunum áttu þessir aðilar þegar 30. júní s.l. að borga 515 millj. 796 þús. kr. inn í Seðlabankann, en höfðu ekki borgað nema 489 millj. 180 þús., eins og ég gat um áðan. Þessi vanskil dreifast mjög ólíkt á þá aðila, sem hér er um að ræða. Bankar og sparisjóðir í Reykjavík áttu að borga, eins og málin stóðu 30. júní, 351 millj. 381 þús., voru ekki búnir að borga nema 341 millj. 961 þús. kr., skulduðu m.ö.o. í septemberlok um 10 millj. kr. Útibú bankanna utan Reykjavíkur áttu að borga 30. júní 74.6 millj., borguðu 74.6 millj., stóðu alveg í skilum. Sparisjóðir utan Reykjavíkur áttu að borga 30. júní 71 millj. 420 þús. kr., en voru búnir að borga 30. sept. 65 millj. 719 þús., skulduðu 6 millj. kr. Innlánsdeildir kaupfélaga áttu að borga 30. júní 18 millj. 395 þús., en voru búnar að borga 30. sept. 6 millj. 828 þús., vantar m.ö.o. 12 millj. á það, að þær hefðu fullnægt þeim lögum, sem gilda í landinu. Innlánsdeildir kaupfélaganna höfðu m.ö.o. í lok september ekki borgað nema af því, sem þær áttu að borga samkvæmt gildandi reglum 30. júní s.l. Þetta er ekki hægt að leggja út á þann hátt, sem margoft hefur verið sagt í blöðum Framsfl., að hér sé um að ræða alveg sérstaka ofsókn á hendur kaupfélögunum eða innlánsdeildum þeirra. Á þessu er þá skýringu að gefa, að samkv. lögum frá síðasta þingi um endurskipulagningu á lánum bænda er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn taki við hinum svokölluðu bændabréfum sem greiðslu, og má búast við því, að nú á næstunni skili innlánsdeildir kaupfélaganna inn bændabréfum, þannig að greiðslan fari úr 6.8 millj. í rúmar 12 millj. kr. En þrátt fyrir það, að af þeim yrði tekið við bændabréfunum til greiðslu, sem búið er að ákveða að gera, vantar enn um hjá þeim, að þær fullnægi þeirri skyldu, sem á þeim hvílir eins og öðrum lánastofnunum í landinu. Þessar upplýsingar þótti mér rétt að kæmu fram, til þess að menn vissu sannleikann um málið. Við hinu er ekki að gera, þó að haldið verði áfram að endurtaka það, sem er ekki satt.

Að síðustu vil ég aðeins segja, að kjarni þessa frv. er annars vegar vaxtalækkunin, sem eins og ég sagði í upphafi máls míns mundi svipta sparifjáreigendur 78 millj. kr. tekjum á næsta ári, og hins vegar ákvæði um afnám bindingarreglnanna. Framsfl. er auðvitað alveg frjálst að hafa þá skoðun, að það sé meira virði, að þeir, sem nota féð, fái það fyrir lágt gjald, heldur en hitt, að sparifjáreigendur fái góða umbun fyrir sitt þjóðnýta starf, að spara fé handa þjóðarbúinu. Um þetta er ekkert að segja. Þannig getum við hvor haft sína skoðun um það. En um hitt aðalatriði frv., að losa um hinar bundnu 5 millj. í Seðlabankanum, er meira að segja en þetta, vegna þess að þarna skulda flutningsmenn frv. skýringu á því, hvernig þeir vilja gera þetta kleift. Um það er ekki orð í frv., um það er ekki orð í grg., en það viljum við hinir fá að vita, hvernig Seðlabankinn á að geta losað þessar 500 millj. Hvaða aðra ráðstöfun á Seðlabankinn að gera? Þeim, sem vit hafa á þessum málum, og það hefur hv. 1. þm. Austf. án efa — (Gripið fram í: Er það nú alveg víst?) Ég vil ekki trúa því að óreyndu, ekki a.m.k. fyrr en ég er búinn að heyra hv. þm. tala aftur. — Þeim er skylt að gera grein fyrir því, hvað Seðlabankinn á að gera samtímis þessu. Engum heilvita manni getur dottið í hug, að Seðlabankinn geti endursent þessar 500 millj. til banka og sparisjóða og gert ekkert annað. Þegar menn hafa sagt a í þessum efnum og ekki sízt í þessum efnum, verða þeir líka að segja b. Og hvar er b. sem hv. flm. vilja láta segja í þessum efnum? Það vitja hinir fá að vita.