18.10.1962
Neðri deild: 4. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1996)

9. mál, efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég geri mér ljóst, að fundartíma er lokið, svo að ég skal ekki reyna á þolinmæði hæstv. forseta nema í örfáar mínútur.

Hv. 1. þm. Austf. vildi ekki við það kannast, að stjórnarandstæðingurinn Eysteinn Jónsson væri ekki enn sami maðurinn og fjmrh. Eysteinn Jónsson fyrir nokkrum árum, og spurði í því sambandi: Er vaxtalækkun í ósamræmi við stefnu mína áður? Það hafði ég aldrei sagt. Til þess að renna rökum undir þá staðhæfingu mína, að mér fyndist ég sjá annan mann hér í þessum ræðustól nú en ég sá og heyrði í, meðan hann var fjmrh. fyrir nokkrum árum, var málflutningur hans um bindingarféð. Það var sá Eysteinn Jónsson, sem veifar þessum margumtöluðu 500 millj. framan í þá menn, sem þurfa á lánsfé að halda, það var sá Eysteinn Jónsson, sem þetta gerir, sem ég kannast ekki við frá mínum samvinnuárum við hann fyrir nokkrum árum. Og hann spurði í því sambandi: Var sparifjáraukning kannske tekin í minni tíð? Í þessu sambandi vil ég einmitt minna hv. 1. þm. Austf. á það, að það var einmitt í hans tíð, sem lögunum um Seðlabankann var breytt þannig, að heimilað var að binda spariféð. Það var einmitt í hans tíð. Sú breyting var gerð á árinu 1957, þegar við urðum sammála um það, og einmitt við tveir unnum mest að þeirri breytingu af mönnum í ríkisstj. Bankamálin heyrðu undir ríkisstj. alla, og það var forsrh., Hermann Jónasson, sem með málið fór, en af einstökum ráðh. unnum við tveir, að ég held, — ég segi það ekki okkur til neins hóls, heldur af því, að það er satt. — við unnum mikið að því að endurskipuleggja löggjöfina um bankamálin þá, m.a. setja nýja löggjöf um Seðlabankann, og þar var þetta ákvæði tekið inn, það ákvæði, sem nú er verið að beita. Þetta eru skýr rök fyrir því, að það er ekki hinn sami Eysteinn Jónsson, sem starfaði sem fjmrh. 1957 og 1958, og sá, sem hér stendur nú og talar. Annar var ábyrgur ráðherra, frábærlega vel starfhæfur, hitt er ábyrgðarlaus stjórnarandstæðingur.

Þetta frv. er að sjálfsögðu ekki um að losa hið bundna fé skyndilega, sagði hv. þm. Það er mér algerlega ljóst. En það vantar þó til, að það sé losað smám saman, og þess vegna eiga spurningar mínar, sem ég beindi til hans og hann svaraði ekki, alveg við. Hann á því ósvarað, hvaða liði Seðlabankinn á að draga saman, ef losað er, þótt smám saman sé gert, bundna féð. Á gjaldeyrisforðinn að minnka, eða eiga endurkaupin að minnka? Annaðhvort verður að gerast. Og ef Seðlabankinn á að hætta að fá aukna bindingu, hlýtur annað hvort af tvennu líka að verða að gerast: þá minnka skilyrði Seðlabankans til þess að auka endurkaupin eða skilyrði hans til þess að auka gjaldeyrisforðann minnka. Og hvort vill hv. þm. að gerist? Eða það má snúa málinu alveg við, ef við lítum á fortíðina: Ef Seðlabankinn hefði ekki fengið þetta sparifé, sem nú er bundið hjá honum frá bönkum og sparisjóðum, hefði hann ekki getað gert það, sem hann hefur gert. Hvað hefur hann gert? Hann hefur aukið útlánin, og hann hefur aukið gjaldeyrisforðann. Hvort af þessu tvennu vill hv. þm. að ekki hefði verið gert? Var það kannske óþarfi að auka gjaldeyrisforðann? Ef þm. segir þetta, þá eru það rök, sem ég tek fullkomlega gild, því að þá erum við farnir að tala um sama mál, — ef hann segir: Það var alveg óþarfi að leggja áherzlu á að koma gjaldeyrisforðanum upp í rúmar 800 millj. kr. Þess vegna var bindingarstefnan röng. Ef hann segir þetta, þá skiljum við hvor annan fullkomlega, og þá er hann hættur að beita áróðursblekkingum. En þetta hefur hann aldrei sagt. Eða ef hann segði: Seðlabankinn endurkaupir of mikið, það á að lækka endurkaupin, þess vegna er bindingin óþörf, — ef hann segði þetta, þá tölum við líka um sama mál. En þetta segir hann ekki heldur. Hann segir aðeins: Bindingin var óþörf, og hún er röng, — en sleppir alveg að geta um það, hvað annað, sem hlýtur að fylgja, var rangt, hvort það var aukning gjaldeyrisforðans eða hvort það var aukning endurkaupanna.

Þá sagði hv. þm., að það væri hægt að hafa góða gjaldeyrisafkomu út á við án þess að beita þeim aðferðum, sem núv. ríkisstj. hefur beitt, og tók gjaldeyrisstöðuna í árslok 1958 til sönnunar um þetta. Þótt mjög freistandi væri að fara um þetta mörgum orðum, get ég það ekki tímans vegna, en verð að láta örfáar setningar nægja.

Það er rétt, að afkoma þjóðarbúsins út á við var hagstæð í árslok 1958. Það átti sér tvær orsakir. Fyrst og fremst var árið 1958 mikið góðæri, mesta góðærið, sem yfir landið hafði gengið um langt skeið, líklega nokkurn tíma fram að þeim tíma. Hin ástæðan var sú, að um vorið 1958 gerði þáv. ríkisstj. róttækar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem höfðu mjög hagkvæm áhrif á gjaldeyrisstöðuna síðari hluta ársins. Þáv. ríkisstj. lækkaði gengið óbeint með löggjöfinni vorið 1958. Tilgangurinn var m.a. að styrkja gjaldeyrisstöðuna, og það tókst. Þessi bati á gjaldeyrisstöðunni var farinn að koma fram á seinni hluta ársins 1958. En það var bara annað, sem þeirri ríkisstj. mistókst. Henni mistókst að hafa hemil á verðbólgunni innanlands. Það kom í ljós haustið 1958, þá tók verðbólguhjólið nýjan snúning og verðlagið hér innanlands stórhækkaði, og afleiðingarnar af því voru náttúrlega ekki komnar fram árið 1958. Ef ekkert hefði verið að gert, hefði sú gjaldeyriseign, sem við áttum í lok ársins 1958, horfið eins og dögg fyrir sólu á fyrri hluta ársins 1959. Þetta sá hv. þm. þá auðvitað fyrir, þetta sáum við allir fyrir. Þess vegna var það, sem við reyndum að gera nýtt samkomulag í ríkisstj. haustið 1958. Það tókst ekki. Þess vegna fór ríkisstj. frá. Og hún fór frá með þeim ummælum hæstv. forsrh. hér í hinu háa Alþingi, að ekki væri samstaða í ríkisstj. um neinar þær ráðstafanir, sem gætu forðað þjóðarbúinu frá því, að til mikilla vandræða kæmi, og þau vandræði voru m.a. fólgin í því, að gjaldeyrisstaðan hlaut að stórversna á næstu mánuðum. Það er því algerlega haldlaust að benda á það, að gjaldeyrisstaðan hafi verið sterk í árslok 1958. Gjaldeyrisstaðan var svo ótrygg, að sá gjaldeyrissjóður, sem þá var til, hlaut að hverfa eins og dögg fyrir sólu á næsta ári, ef ekkert væri að gert. Þetta var okkur öllum ljóst. Svo reyndum við að komast að samkomulagi um að gera skynsamlegar ráðstafanir, en það tókst ekki. Það féll í annarra hlut að gera þær ráðstafanir.

Að síðustu, vegna þess að hv. þm. stóðst ekki þá freistingu að veifa enn 500 milljónunum bundnu framan í lánsfjárþurfandi Íslendinga, vil ég aðeins endurtaka og leggja sérstaka áherzlu á, að það, sem vantar í dag til þess að auka þjóðarframleiðsluna, eru ekki peningar, eru ekki aukin útlán, því að hver einasta vinnandi hönd er notuð og hvert einasta tæki, sem til er í landinu, er svo að segja fullnýtt. Undir þessum kringumstæðum getur aukið peningamagn, geta aukin útlán ekki orðið til þess að auka framleiðsluna. Það eru aðrar ráðstafanir og gagngerðari, sem þarf, eins og ég gat um áðan. Það þarf að auka afköst vinnuaflsins með betri vinnuhagræðingu og betra skipulagi, og það þarf að bæta tæki landsmanna og gera þau nýtízkulegri og fullkomnari frá tæknilegu sjónarmiði séð en nú á sér stað. En þetta skeður ekki eingöngu með útlánaaukningu, svo að þar er um að ræða mikla blekkingu af hálfu hv. þm.