21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2021)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar frv. þetta á þskj. 104 var hér til umr. fyrir allmörgum dögum, lét hv. 1. flm. frv. orð falla eitthvað á þessa leið: Við, sem að þessu frv. stöndum, lítum svo á, að koma eigi á fót jafnvægisstofnun til þess að sinna þessu vandamáli. — Hv. þm. sagði enn fremur: Ég vil ekki trúa því, að þetta frv. verði fellt. En þó að svo verði, verður hafin um það barátta utan þings og innan til þess að koma því síðar í framkvæmd. — Mér þykir rétt út af þessum ummælum að bregða hér nokkru ljósi yfir gang þessa máls, frá því að því var fyrst hreyft hér á Alþingi.

Frv. um jafnvægi í byggð landsins var fyrst borið fram 1955 á Alþingi á þskj. 496, sem 191. mál. Það var þá borið fram sem stjfrv., og í aths. um frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn 4. febr. 1953 var samþ. þál. um undirbúning heildaráætlunar í þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Atvmrh. fól alþm. Gísla Jónssyni og Gísla Guðmundssyni að vinna að undirbúningi þessa máls í samræmi við téða þáltill. Þá samþ. Alþingi þann 11. maí 1955 þál. um ráðstafanir til atvinnuaukningar. Þar sem þessi síðari þál. fjallaði um hliðstæð málefni og þál. frá 4. febr. 1953, fól atvmrh. téðum alþm. einnig að vinna að rannsókn þeirri, er um ræðir í þál. frá 11. maí f. á.“

Það var því verkefni þessara manna, sem fengu fyrirskipun um það frá Alþingi að athuga þessi mál, að semja frv., sem stuðlaði að því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins, og taka þá einnig til athugunar þær till., sem komu fram í síðari þáltill., um atvinnuaukningu í landinu. Á þskj. 496, sem ég hef þegar bent á, er að finna í aths. við lagafrv. ýtarlega grg. og margvíslegar upplýsingar um þetta mál, enda var lagt í þetta mjög mikil vinna á sínum tíma, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. er kunnugt um.

Þegar málið kom til hæstv. ríkisstj., var gerður um það stjórnarsamningur á milli þáv. ríkisstjórnarflokka, Framsfl. og Sjálfstfl., að málið skyldi ná fram að ganga í höfuðatriðum eins og það var lagt fram á Alþingi. Málið var borið fram fyrst í hv. Ed. Þar tók það allmiklum breytingum, þó ekki miklum efnisbreytingum. Einkum fóru breytingarnar í þá átt að kippa út úr frv. ýmsum ákvæðum, sem réttara þótti að hafa í reglugerð heldur en í lögum. Síðan varð fullkomið samkomulag um það á milli stjórnarflokkanna, að frv. skyldi ná fram að ganga með þeim breyt., sem gerðar voru á frv. í Ed.

Þegar frv. síðar kom til hv. Nd. með þeim breyt., sem ég hef þegar bent á og fullkomið samkomulag varð um, þá skeður það í hv. fjhn. d., að n. klofnar og einn af stjórnarstuðningsmönnum, hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, flytur brtt. við frv., að vísu mjög meinlausa brtt., ásamt núv. viðskmrh., sem þá var í stjórnarandstöðu, sem ekki varð séð að væri gerð til neins annars en að koma frv. fyrir kattarnef, því að það var ljóst, að ef gerð yrði nokkur breyt. á frv. á því stigi, þá mundi það falla, því að það var enginn tími til þess að taka frv. á ný fyrir í Ed. til afgreiðslu, vegna þess að þetta var á síðustu dögum þingsins, og það var sýnilegt, að þá mundi frv. ekki ná fram að ganga. En auk þess fluttu þá þm. Sósfl. eða Alþb., sem nú er, — 1. flm. var Karl Guðjónsson, — mjög víðtækar brtt. við frv., þar sem lagt var til, að tekin væru inn mörg verkefni, sem voru mjög ólík því, sem hafði verið samið um, og m.a. hlutu að kosta ríkissjóð stórkostlega fjárfúlgu. Það var vitanlegt, að ef þetta yrði sett inn í frv., næði frv. ekki fram að ganga, og þeir menn, sem studdu að því á þeim tíma, áttu sök á því einir, að frv. náði ekki fram að ganga, eins og um hafði verið samið. Þegar svo frv. kom til atkv. í Nd., var svo og svo mikið af till. þeirra sósíalistanna samþ. með aðstoð Framsfl. og einnig till. frá hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssyni, og þar með var raunverulega frv. stöðvað, því að það var útilokað að geta fengið frv. afgreitt aftur í Ed., vegna þess að komið var að þingslitum. Þeir einir, sem stóðu að samþykkt þessara tillagna, áttu því sök á því, að frv. náði ekki fram að ganga 1955.

Það var sterk andstaða frá þm. Alþb. á því þingi í sambandi við málið. M.a. sagði hv. 4. landsk. á þeim tíma, að þetta væri „litla gula hænan“, sem væri ekki mikils virði fyrir þjóðina að fá samþykkta. En þrátt fyrir þessi ummæli fór svo, að á hverju þingi síðan hefur þetta mál verið til meðferðar, og því lengra sem liðið hefur, því þyngri orð hafa fallið um það, að þetta væri afar nauðsynlegt mál.

Á stjórnmálafundi, sem ég var á vestur í Barðastrandarsýslu rétt fyrir kosningarnar vorið 1956, bar þetta mál á góma, og ég lýsti því þá, sem ég er að lýsa hér, að Framsfl. ætti einn sök á, að frv. náði eigi fram að ganga. Á þeim fundi var hv. núv. 1. þm. Austf., sem þá var ráðh. í ríkisstj., og lýsti hann þar því yfir, að menn skyldu ekki vera neitt hryggir yfir því, það væri nokkurn veginn sama, hvort svona lagað frv. yrði samþ. með vorinu á síðasta þingi eða það kæmi aftur fyrir og yrði samþ. á haustþinginu, og beinlínis lofaði því á þeim fundi, að þegar Framsfl. fengi aðstöðu til þess að ráða nokkru í ríkisstj., þá skyldi hann sjá um, að þetta frv. yrði samþ. eins og samið var um það í ríkisstj. En meginástæðan fyrir því, að Framsfl. sveik þetta mál um vorið 1956, var sú, að stjórnarandstöðuflokkarnir voru andvígir frv. eins og stjórnarflokkarnir gengu frá því, en þáverandi stjórnarandstöðuflokkar og Framsfl. stóðu þá í samningum um að mynda ríkisstj., sem þeir og gerðu eftir kosningarnar. En það var sett að skilyrði, bæði frá Alþfl. og frá Sósfl., að það skyldi verða úti um alla samninga í sambandi við stjórnarmyndun, ef þetta frv. yrði samþ. eins og þáv. ríkisstjórnarmeirihl. hafði samið um. Ég skal ekki segja um það, hver í Framsfl. átti mestan þátt í því, en ég hygg þó, að þar hafi átt langmestan þátt í þáv. formaður flokksins, hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson. Hann vildi allt til vinna til að ná þeim samningum, sem tókust eftir kosningarnar, og þótti þá ekki mikið að fórna svona lítilli hænu til þess að ná þeim samningum. Hins vegar mætti mjög mikilli andúð hjá núv. hv. 1. þm. Austf. það ákvæði í frv., að stjórn sjóðsins skyldi kosin með hlutfallskosningu á Alþingi. Þá var hann svo logandi hræddur við Lúðvík Jósefsson, að hann vildi ekki með nokkru móti, að hann fengi það blóm í hnappagatið fyrir kosningarnar að vera kosinn fulltrúi síns flokks í stjórn sjóðsins, eins og sýnt var að yrði, ef frv. væri samþ. Þeir tóku sig því saman um það, formenn Framsfl., Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, að slátra þessari „litlu gulu hænu“ fyrir kosningarnar 1956.

En hvað skeður svo eftir kosningarnar 1956, þegar þingið kemur saman? Þá er borið fram frv. á mjög líkum grundvelli og þetta frv. var. Frv. var borið fram af Magnúsi Jónssyni, Kjartani J. Jóhannssyni, Sigurði Ágústssyni og Jóni Sigurðssyni. Þar var tekið upp í meginatriðum allt það, sem hafði verið samið um. En hvernig er farið með þetta mál? Það er þá farið með málið þannig, að fjhn., sem hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, var formaður fyrir, klofnar og gefur út í tvennu lagi nál. Minni hl., Jóhann Hafstein og Ólafur Björnsson, mælir með því, að frv. verði samþ., en meiri hl., Skúli Guðmundsson, Pétur Pétursson og Eðvarð Sigurðsson, leggur til að vísa málinu til ríkisstj., og það er gert. Hvað gerir svo hæstv. ríkisstj. í því máli? Hún gerir ekkert í málinu, bókstaflega ekki neitt, svíkur þá málið í annað skipti, en tekur upp í staðinn fyrir þetta samkv. fyrirskipun frá Alþb. að leggja fram til atvinnuaukningar ákveðnar millj., en hverfur alveg frá þeirri stefnuskrá og því loforði, sem Framsfl. hafði gefið um jafnvægi í byggð landsins. Og þó að nokkuð af nýjum atvinnutækjum hafi verið keypt fyrir þær millj., sem þá voru lagðar fram, voru þær ekki til þess að þoka í þá átt að stöðva flóttann úr sveitum landsins, nema síður væri. Mikið af því fé, sem hefur verið veitt þá og síðan, hefur farið jafnt til Faxaflóa og annarra staða, sem fólkið streymdi til, og varð til þess að ýta undir fólksflóttann úr sveitunum, en ekki til þess að stöðva hann. Síðan er málið borið enn fram, 1957, af sömu mönnum. Þá er það sent til hv. fjhn., sömu mannanna í hv. Nd., og þá hirða þeir ekki svo mikið um að vilja vísa því til ríkisstj., heldur svæfa það. Það er enn borið fram 1958, og þá er enn meðferðin sú sama og öll árin undir stjórn hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssonar. Þetta er saga málsins.

Þegar svo þing kemur saman enn eftir kosningarnar 1959, vaknar Framsfl. og fer að athuga þetta mál. Þá veit hann, hvaða svik hann er búinn að hafa í frammi, kúgaður af samstarfsmönnum sínum í vinstri stjórninni, til þess að drepa þetta mál, sem hann virkilega hafði áhuga á, en þá vaknaði hann og fer nú að hugsa um, hvort ekki sé hægt að bæta um, og ber þá fram í Ed. svo að segja nákvæmlega sams konar frv. og við vildum koma fram 1955 og hann hafði lofað að standa óskiptur að. Það er svo fellt hvað eftir annað í þinginu, en í staðinn fyrir það er samþ. frv. það um atvinnubótasjóð, sem samþ. var hér á Alþingi 10. apríl 1962 og fer raunverulega mjög í áttina til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þó að ég viðurkenni, að þar sé ekki gengið eins langt og gengið var 1956 og það er vegna þess, að enn voru eftir leifar af andúð hjá Alþfl. frá samvinnu hans við vinstri stjórnina 1956–58. Þó fékkst því svo um þokað hér, að setja skyldi það fé í þennan sjóð, sem veitt hafði verið áður, sem voru um 100 millj. kr., það skyldi innheimt, að svo miklu leyti sem hægt væri, og það skyldi sett í sérstakan sjóð, og hann átti að veita lán eða styrki til þess að auka framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin væri brýnust, og stuðla þannig að aukinni atvinnu og jafnvægi í byggð landsins. Með þessu lagaákvæði er það að sjálfsögðu mjög undir framkvæmdum sjóðsstjórnarinnar komið, hversu miklu fé er varið beinlínis til jafnvægis í byggð landsins. En það fékkst ekki um það samkomulag, að því skyldi eingöngu verja til þess og ekki til neins annars. Og svo er sagt hér, að veita skuli lán til þess að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. Þetta er það, sem er verkefni sjóðsins.

Þegar þetta mál kom til umr., risu þeir upp, sem frakkastir voru að fella frv. og svíkja öll loforðin 1956, þá risu þeir upp, heimtuðu, að nafni sjóðsins yrði breytt, það yrðu kölluð lög um jafnvægissjóð, heimtuðu einnig, að miklu meira framlag yrði sett í sjóðinn en tiltekið var í frv., þ.e. 10 millj. kr. á ári, sem ætlað er að ganga í sjóðinn, og kröfðust þess, að tekin yrðu upp svo að segja öll ákvæði frv. frá 1956, sem þeir á þeim árum sviku. Og síðan hafa þeir barizt fyrir því, að frv. frá 1956 yrði lögfest, og það er það, sem liggur fyrir hér til umr.

Þegar maður þekkir þessa sorgarsögu Framsfl. þm. í mjög veigamiklu máli, sem snertir dreifbýli landsins og þeir þykjast alltaf vera að bera fyrir brjósti, þá verður maður undrandi yfir því, að þeir skuli enn halda út að vera að hrópa um það bæði utan þings og innan, að það séu þeir, sem vilji vinna að því, að lög séu sett um jafnvægi í byggð landsins. Þeir hafa óskað þess eindregið, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé samþ., þrátt fyrir það þó að í yfirlýsingu meiri hl. n. komi fram það, sem þeir hafa alltaf viljað fá fram og við vildum fá fram, sem stóðum að þessu máli, og kemur beinlínis fram í hinni rökst. dagskrá, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem frv. felur ekki í sér nein nýmæli, sem máli skipta, umfram það, sem þegar hefur verið lögfest í l. um atvinnubótasjóð frá síðasta þingi, en tilgangur þeirrar löggjafar er fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu, og einnig þegar séð fyrir þeirri áætlanagerð, sem frv. ráðgerir og úthlutun fjármagns skuli byggjast á, sbr. fyrirhugaða framkvæmdaáætlun ríkisstj., telur d. samþykkt frv. með öllu óþarfa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá:

Ég fagna því einmitt, að meiri hl. fjhn. skuli enn viðurkenna og það betur og örugglegar en hann hefur gert áður, að atvinnubótasjóðurinn skuli fyrst og fremst sinna því verkefni, sem lýtur að því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Hér er komin ný sönnun fyrir því, að þetta er ætlun sjóðsins, þetta er hans verkefni og að þeir menn, sem hafa áhuga á því, að að því verði unnið, eiga kröfu á því við þá menn, sem stjórna sjóðnum, að það sé fyrsta og æðsta sjónarmið sjóðsins að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Með tilvísun til þess og með tilvísun til þeirrar lýsingar, sem er sönn og rétt, sem ég hef gefið á gangi þessa máls undanfarið, mun ég greiða atkv. á móti frv. því, sem fyrir liggur, sem sýnilegt er að hefur ekki verið borið fram til neins annars en í auglýsingaskyni og í trausti þess, að íslenzk alþýða hafi gleymt öllu því, sem

Framsfl. sagði um þessi mál á árunum 1955–56, og öllu því, sem Framsfl. hefur svikið í þessu máli frá því, að fyrst var farið að vinna að því.