21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2022)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil á þessu stigi segja það eitt við hv. þm., sem var að setjast niður, að hann forðaðist eins og heitan eldinn að ræða um þetta frv., sem hér liggur fyrir, en var á hinn bóginn að segja ýmsar sögur um gang frv. á hv. Alþingi fyrir mörgum árum, sem ekkert snerta þetta mál, sem hér liggur fyrir, og mun sú saga hans verða endurskoðuð og tekin til meðferðar, áður en langt um liður. En ég mun snúa mér að því að ræða þetta frv. og efni þessa máls, og munu menn þá í leiðinni komast að raun um, hversu mikið er til í gífuryrðum hv. þm. um ótrúmennsku Framsfl. við þá hugmynd að verja fé til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Enn fremur mun það koma fram í því, sem ég segi hér á eftir, hvernig flokkur hans hefur staðið að því máli, síðan hann fékk tækifæri til þess að ráða.

Ég hika ekki við að fullyrða, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er eitt merkasta mál, sem fyrir þessu Alþingi liggur, en frv. er, eins og gerð hefur verið grein fyrir, um ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og þá fyrst og fremst um það að auka stórkostlega fjárveitingar í þessu skyni frá því, sem þær eru nú, og enn fremur að lögfesta, að ríkið leggi fram fé, ekki bara í þá staði, þar sem atvinnuleysi herjar, heldur einnig í þau byggðarlög, sem hafa góð náttúruskilyrði, en vantar fjármagn til þess að þau nýtist.

Það er ekki aðeins, að þetta frv. gerir ráð fyrir því að stórauka framlög til þess að efla jafnvægi í byggð landsins, heldur er því einmitt slegið föstu með þessu frv., að það skuli ekki aðeins vera um atvinnubótaráðstöfun að ræða, sem miðuð sé við, að atvinnuleysi sé fyrir hendi, eins og er meginstefna þeirra laga, sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir, heldur eigi að gera ráðstafanir til þess að stuðla að því, að þau byggðarlög, sem hafa góð náttúruskilyrði, en vantar fjármagn, séu studd til þess að nýta þau.

Hér er um algeran stefnumun að ræða, sem einkennir afskipti Framsfl. af þessum málum annars vegar og stjórnarflokkanna hins vegar, og stefnunni mætti lýsa þannig í tveimur eða þremur setningum: Framsfl. vill stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að styðja þau byggðarlög, sem eiga góð náttúruskilyrði, en vantar fjármagn til að þau nýtist. Framsfl. vill styðja einstaklinga til framkvæmda og stuðla að því, að einstaklingsframtak hinna mörgu fái notið sín, einnig þeirra, sem eiga mikinn dug og framkvæmdahug, en hafa ekki fullar hendur fjár. Þessi er stefna Framsfl. í uppbyggingu atvinnulífsins. En stefna núv. stjórnarflokka, sem sker sig algerlega frá þessari meginhugsun og meginstefnu, er á hinn bóginn sú varðandi uppbyggingu í atvinnurekstri, að sú ein fjárfesting í atvinnurekstri eigi fullan rétt á sér, sem byggist á nægilegu eigin fjármagni, á nægilegum eigin framlögum, eins og það er oft orðað, og þetta eigi bæði við einstaklinga og byggðarlög.

Í fullu samræmi við þessa meginstefnu stjórnarflokkanna, sem er margyfirlýst og kölluð hefur verið á þeirra máli stefna hinnar efnahagslegu fjárfestingar, — í fullu samræmi við hana hafa núv. stjórnarflokkar unnið markvisst að því að gera að engu í framkvæmdinni þær ráðstafanir, sem búið var að byggja upp til stuðnings atvinnuaukningunni í byggðarlögunum víðs vegar úti um landið, sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða. Ég mun sýna fram á, hvernig þeir hafa farið að þessu.

Áður en núv. stjórnarmeirihl. tók við þessum málum, var búið að koma framlögunum til atvinnuaukningar upp í 14½ millj. kr. Þessa fjárveitingu hafa núv. stjórnarflokkar lækkað í 10 millj. kr. Á sama tíma hefur kostnaður við framkvæmdir, bátakaup, byggingar á verksmiðjum og aðrar framkvæmdir hækkað í mörgum dæmum allt að því um helming, þ.e.a.s. allt að því tvöfaldazt, og í sumum dæmum meira. En framlagið í þessu skyni hefur verið lækkað úr 14½ millj. niður í 10 millj. Ef nú ætti að verja álíka miklu fé og Framsfl. beitti sér fyrir að varið væri í þessu skyni, meðan hann réð verulega hér um, ætti fjárveitingin að vera a.m.k. 25–30 millj. á ári, en er 10 millj. M.ö.o.: atvinnuaukningarféð hefur verið fært niður í allt að því 1/3 af því, sem það áður var. Það er verið að gera þessa starfrækslu að engu, og það er alveg markvisst gert og skipulega.

Þá sagði hv. þm., sem talaði hér áðan, að það hefði verið mikill misbrestur á því, þegar framsóknarmenn höfðu stjórn á þessum málum, að þessu fé væri raunverulega varið til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þangað til núv. stjórnarflokkar tóku við, var þetta fjármagn notað til jafnvægis í byggð landsins. Því var veitt í þau byggðarlög, þar sem minna var um fjármagn. En síðan núv. stjórnarflokkar tóku við þessum málum, hefur þessum litlu leifum, sem enn eru eftir af þessu fé, verið ráðstafað í öll byggðarlög landsins. Þetta er orðið hreinlega að engu, enda gefur auga leið, ef litið er yfir úthlutunarlistana á þessu fé nú annars vegar og hins vegar á meðan einhverjar fjárveitingar voru í þessu skyni og þeim var varið til jöfnunar, þá sjáum við, að framlögin til byggðarlaganna víðs vegar um landið, sem lítið fjármagn hafa, eru ekki aðeins komin niður í 1/3 af því, sem áður var, heldur í mörgum dæmum miklu, miklu lengra niður. Svo kemur hér þm. úr liði ríkisstj. og deilir á Framsfl. fyrir að hafa staðið linlega að þessu máli og heldur því fram, að því er manni helzt virðist, að hér hafi orðið endurbætur síðan áhrif Framsfl. urðu minni og aðrir tóku við stjórn þessara mála. Það eru blygðunarlaust höfð alger endaskipti á sannleikanum.

Ég sagði áðan, að ég áliti, að þetta væri eitt af stærstu málum á þinginu, og þetta er eitt af þeim málum, sem marka stefnu, ekki aðeins í því, hvort menn vilja stuðla að jafnvægi í byggð landsins, heldur einnig kemur þetta inn á, hvort menn vilja raunverulega styðja einstaklingsframtak þeirra, sem hafa ekki fullar hendur fjár, eða ekki. Það er annar þátturinn í þessu máli. Og flokkurinn, sem þykist vilja byggja á einstaklingsframtakinu, þ.e.a.s. Sjálfstfl., gengur alveg markvisst fram í því — ekki aðeins að draga úr framlögunum til byggðarlaganna í þessu skyni, heldur einnig að draga úr framlögunum til einstaklinganna, til stuðnings einstaklingsframtakinu í landinu.

Og núv. stjórnarflokkar hafa haldið því fram, að þær ráðstafanir, sem Framsfl. beitti sér fyrir að samþ. yrðu og settar í lög um ýmiss konar stuðning einstaklingunum til handa til að létta þeim uppbyggingu atvinnurekstrar á sínum vegum, væru ráðstafanir, sem ætti að kalla einu nafni pólitíska fjárfestingu. Það var nafnið, sem núv. stjórnarflokkar völdu þeirri stefnu Framsfl. í atvinnumálum, að ríkisvaldið ætti að styðja einstaklingana, ef þeir væru ekki alls megnugir af eigin fé og eigin framlögum. En í staðinn fyrir þessa pólitísku fjárfestingu sögðust þeir vera að innleiða hina efnahagslegu. Og hún er m.a. fólgin í því að gera atvinnuaukningarféð að engu og að draga einnig með margvíslegu öðru móti úr stuðningi við uppbyggingu einstaklinganna, eins og t.d. með okurvöxtum, sem innleiddir hafa verið á stofnlánum, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi.

Hvað er svo verið að vinna með þessu, með því að misþyrma á þennan hátt þeim ráðstöfunum, sem í gildi voru til að stuðla að atvinnuuppbyggingunni, t.d. í sjávarplássunum, því að þetta fé fór að langmestu leyti í sjávarplássin, þetta atvinnuaukningarfé, sem var komið upp í nærri 15 millj. og mundi samsvara nú 25–30 millj., en eru orðnar aðeins 10 millj.? Hvaða gagn gerði þetta í sjávarplássunum? Og var hér skakkt stefnt eða var rétt stefnt?

Það væri hægt að fara með þingheim úr einu sjávarplássinu í annað umhverfis allt landið og benda á skipin og bátana og vinnslustöðvarnar og aðra uppbyggingu, sem var framkvæmd vegna þess, að þessi framlög áttu sér stað. Það er hægt að telja þau dæmi hundruðum saman upp, þar sem stóð þannig á, að það var hægt að fá venjuleg stofnlán og menn gátu reytt saman einhverja peninga í byggðarlögunum til að hefjast handa um að kaupa skip eða koma upp fiskiðjuveri eða gera aðra slíka framkvæmd, en það vantaði nokkur hundruð þús. kr. eða kannske milljón til að ná endunum saman. Og hvar átti að taka þetta fé? Einstaklingarnir höfðu það ekki sjálfir. Byggðarlögin höfðu það ekki heldur. Skilyrðin voru góð. Það var ekki hægt að fá þetta fé úr venjulegum lánasjóðum atvinnuveganna og ekki úr bönkunum. Hvaðan átti það að koma, og hvaðan kom það? Það kom af atvinnuaukningarfénu, sem núv. stjórnarflokkar eru raunverulega búnir að gera að engu.

Þaðan kom þetta fé á árunum 1956–58 alveg sérstaklega. Þannig var milljónatugum varið í uppbygginguna í sjávarplássunum. Dugmiklir sjómenn, sem gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um að eignast báta með öðru móti, fengu þannig sérstök stuðningslán af atvinnuaukningarfénu til þess að eignast skip og báta, og ég efast um, að nokkurt fjármagn hafi stuðlað meira að þeirri aukningu framleiðslunnar, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur dregið líf sitt fram á, en einmitt þetta atvinnuaukningarfé, sem Framsfl. beitti sér fyrir að varið væri víðs vegar um landið, en núv. stjórnarflokkar hafa verið önnum kafnir að skera niður og eru á góðum vegi með að gera að engu.

Þar að auki er þannig komið nú með raunverulegum niðurskurði atvinnuaukningarframlaganna, t.d. til skipa- og bátakaupa, miðað við stofnkostnað skipanna, með endurteknum gengislækkunum, okurvöxtum og öðrum ráðstöfunum ríkisstj., að t.d. ungir, dugmiklir fiskimenn geta tæpast látið sig dreyma um það lengur að eignast stór fiskiskip. Það er áberandi, að það eru að langmestu leyti þeir, sem áttu skip áður en ráðstafanir núv. ríkisstj. komu til og hafa getað selt þau, — það eru að langmestu þeir, sem núna geta komizt yfir stór og góð og vönduð fiskiskip. Ungu sjómennirnir geta ekki komizt yfir þau skip. Það gera ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. og m.a. hvernig farið hefur verið með atvinnuaukningarféð. Þetta vita allir, sem koma nálægt þessum málum.

Ég fullyrði því alveg hiklaust, að eitt hið allra stærsta mál er að stórauka það fjármagn, sem varið verður á næstu árum til uppbyggingar í sjávarplássunum og hægt væri að leggja fram sem sérstök áhættulán umfram það fjármagn, sem hægt er að fá í stofnlánadeildunum og í bönkunum. En það er einmitt slíkur stuðningur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég er alveg sannfærður um, að það hefur ekkert fé borgað sig betur en það fé, sem ríkissjóður lagði fram sem atvinnuaukningarfé, á meðan sú starfsemi var og hét, — ég fullyrði það, — auk þess sem þetta fé hefur hjálpað mjög mörgum dugmiklum mönnum til þess að gerast atvinnurekendur og stuðlað þannig að heilbrigðu einstaklingsframtaki þeirra, sem ekki höfðu allir fullar hendur fjár, og er það ekki þýðingarminnst í sambandi við þessa starfsemi.

Þetta vildi ég segja um meginstefnu þessa frv. og um það, sem raunverulega skilur á milli, og hvernig núv. hæstv. ríkisstj. er búin að grafa undan þessari merku starfrækslu. Og það er svo sem ekki eins og það sé gert með hreinskilni, heldur er það gert á lævísan hátt, því að um leið og fjármagnið er minnkað, sem varið er í þessu skyni, þá er hv. stjórnarmeirihl. sífellt með yfirlýsingar á vörunum um, að hann sé að gera ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er ekki því að heilsa, að það sé hreinskilni að mæta í þessu sambandi. En staðreyndirnar tala sínu máli, það er ekki hægt að komast fram hjá þeim. Framlögin hafa verið skorin niður úr 14½ millj. niður í 10, á sama tíma sem kostnaður við að koma upp framkvæmdum hefur aukizt stórkostlega, í sumum dæmum tvöfaldazt.

Þá vil ég aðeins segja örfá orð að lokum um þá rökst. dagskrá, sem hér er flutt og er alveg í stíl við aðra framkomu hv. stjórnarmeirihl. í þessu máli, En þar er þetta nýstárlega ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „ .. og einnig þegar séð fyrir þeirri áætlanagerð, sem frv. ráðgerir og úthlutun fjármagns skuli byggjast á, sbr. fyrirhugaða framkvæmdaáætlun ríkisstj., telur d. samþykkt frv. með öllu óþarfa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá:

Eins og annar hv. þm. hefur bent á hér á undan mér, er stungið upp á því við hv. þm., að þeir vísi þessu máli frá með tilvísun til fyrirhugaðrar, — ég bið menn að taka eftir orðalaginu: með tilvísun til fyrirhugaðrar framkvæmdaáætlunar ríkisstj. Þetta verð ég að kalla nýstárlegt viðhorf, og ég minnist ekki þess að hafa séð nokkuð þessu líkt áður á hv. Alþingi, að stungið sé upp á því við þm., að þeir vísi máli frá með tilliti til framkvæmdaáætlunar, sem sé fyrirhuguð, sem þeir hafa aldrei séð og vita þar af leiðandi ekkert, hvað er.

En það er annars um þessa framkvæmdaáætlun að segja, að í árslokin 1960, þegar ríkisstj. hafði starfað í nokkra mánuði, lýsti hæstv. forsrh. yfir, að þessi framkvæmdaáætlun kæmi þá fljótlega og yrði starfað eftir henni síðari hluta þessa kjörtímabils. En hvað mundi nú geta verið langt til kosninga núna? Ég veit það ekki upp á dag, því að það er ekki enn búið að gefa upp kosningadaginn, en það eru ekki margir mánuðir, sem eru eftir af kjörtímabilinu, og þessi framkvæmdaáætlun er ekki komin fram enn, hvað þá að það hafi verið starfað eftir henni síðari hluta kjörtímabilsins. Seint á árinu 1961 gengu sterkar yfirlýsingar um, að þessi framkvæmdaáætlun væri þá alveg að koma, en það hefur auðvitað allt farið á sömu leið, hún er ekki komin enn. Og enginn veit, hvað verið er að fara í því efni.

Það er þess vegna algerlega augljóst mál, að þessi framkvæmdaáætlun, þó að hún kannske eigi eftir að koma fram einhvern tíma á næstu vikum einhvers staðar, þá er hún ekki ætluð til þess að starfa eftir henni á þessu kjörtímabili. Og hún er áreiðanlega ekki heldur ætluð frekar en verkast vill til þess að starfa með henni. Ef hún kemur, þá kemur hún sem kosningaplagg á vegum núv. hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihl., og það verður ekki meira að marka, hvað í þessari framkvæmdaáætlun stendur, en stóð í kosningapésunum þeirra fyrir síðustu alþingiskosningar. Og það væri gott fyrir þjóðina að kynna sér, hvað þar stóð, og bera það svo saman við framkvæmdaáætlunina, þegar hún kemur. Þá geta menn svona hér um bil gert sér í hugarlund, hvers virði hún muni vera, jafnvel þó að hún væri til, og hversu álitlegt það mundi vera fyrir þm. að vísa málum frá með tilliti til þess plaggs, sem á þennan hátt er undir komið.

Ég býst við, að núv. hv. stjórnarflokkum hafi þótt vissara að láta ekki líða langt, frá því að framkvæmdaáætlunin kæmi fram og þangað til atkv. yrðu sett í kjörkassana, vegna þess að þá yrði minna búið að svíkja fyrir kosningar af því, sem í framkvæmdaáætluninni væri. Þess vegna munu þeir hafa talið hagfelldast að hafa sem stytztan frest, frá því að framkvæmdaáætlunin kæmi fram og þangað til kosningarnar sjálfar ættu sér stað. En nú er mönnum spurn: Er nú ekki bráðum þessi frestur orðinn nógu stuttur? Er nokkur ástæða til þess að vera að draga þetta lengur? Já, er þetta ekki alveg nógu stuttur frestur orðinn? Þetta eru ekki orðnar nema nokkrar vikur. Ykkur er því alveg óhætt að fara að koma með framkvæmdaáætlunina.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um þetta, þar sem líka fundartíminn í dag er búinn.