28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það mál, sem raunverulega er hér til umr., er vandamál dreifbýlisins, og ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt fyrir okkur að reyna að taka þetta vandamál ekki bara sem spurningu um eina dálitla ráðstöfun til þess að vernda og efla dreifbýlið, heldur sé nauðsynlegt fyrir okkur, þegar við erum að ræða þetta mál, að reyna að kryfja það alvarlega til mergjar, gera okkur sjálfum ljóst, hvernig á þeirri þróun í landinu stendur, sem flm. þessa frv. eru að reyna að ofur litlu leyti að ráða við. 1901, þ.e.a.s. í byrjun þessarar aldar, vorum við Íslendingar 78 þús. Síðan hefur þróunin orðið sú, að við munum nú 1961 vera um 180 þús. Það hafa bætzt, það sem af er öldinni, um 100 þús. manns við íslenzku þjóðina. Þessar 100 þús. eru allar í Kjalarnesþingi, eins og þær leggja sig. Á öllum hinum hluta landsins er sami mannfjöldi og var fyrir 60 árum, í upphafi aldarinnar. Og þegar verið er að ræða það vandamál, sem fylgir þessari þróun byggðarlagsins á Íslandi, þá er alveg nauðsynlegt fyrir okkur að athuga, hver sé orsökin. Næstu tvær aldirnar á undan, frá 1703–1901, hafði byggðin í landinu haldizt svo að segja óbreytt. Það hefur fækkað ofur lítið fólki 1700–1800, en ekki nema um 3000, og það hafði jafnvel fækkað hlutfallslega mest á Suðvesturlandi. Norðurland, Vestfirðir og Austurland allt að því héldu sér, þannig að þróunin á Íslandi fram að 1901 var þannig, að þetta vandamál kom ekki til um þessa miklu fólksflutninga á einn ákveðinn stað á landinu.

Hver er orsökin til þess, að sú gerbylting verður, sem einkennir þessa öld, þessi byggðabylting á Íslandi, sem einkennir þessi síðustu 60 ár? Orsökin liggur í þeim eiginleikum þess auðvaldsskipulags, sem verið hefur að vaxa hér upp á þessum tíma og hefur sett sitt mark á þróun þessarar aldar, að atvinnutækin hafa þjappazt saman á örfáum eða svo að segja einum stað. Það er lögmál í allri þróun auðvaldsskipulags, að byggðin þjappast saman á tiltölulega þrönga bletti, vegna þess að það er frá hreinu hagsmunalegu, hreinu peningalegu sjónarmiði séð tiltölulega ódýrast fyrir allan rekstur að hranna tækjunum saman á litlu svæði. M.ö.o.: ef það lögmál, sem býr í því þjóðfélagi, sem við köllum venjulega auðvaldsskipulag, fær að njóta sín óhindrað, það lögmál, að peningarnir og peningavaldið ráði þessu eitt saman, þá hrannast þetta saman á tiltölulega lítið svæði. Þetta er lögmál, sem hefur verið að verki í öllum auðvaldsþjóðfélögum, jafnt Englandi sem Tékkóslóvakíu, hvar sem auðvaldsskipulag þróaðist, var þetta einkenni þess. Hér eru náttúrlegar orsakir að verki líka. Það þarf alltaf að vera undirstaða í slíku. Gullkista Faxaflóa á líka sinn þátt þarna í. Samt hefur hún verið til allan tímann, en ekki samt haft þau áhrif hér fyrr á öldum, fyrr en þetta þjóðfélag peninganna kemur til. Ég held, að þetta sé það, sem við fyrst og fremst verðum að gera okkur ljóst, þegar við ætlum að ræða þetta vandamál dreifbýlisins eða vandamál þess, að öll byggð landsins skuli hrúgast saman á einn lítinn blett, — þá held ég, að við verðum fyrst af öllu að gera okkur ljóst, að þetta er orsökin. Það er sjálft peningavaldið, lögmál peninganna, sem gerir það að verkum, að hverjum einum, sem er að leggja í atvinnutæki, þykir svo praktískt að leggja í það á þeim stað, þar sem svo að segja allt er til fyrir: mannfjöldinn, göturnar og, ef um bát er að ræða og útgerð, frystihúsin, þ.e. þar sem öll þægindin eru, allar forsendurnar eru og bankavaldið á næsta leiti. M.ö.o.: það er þarna lögmál að verki, sem, ef það fær að ráða blint, seiðir til sín atvinnutækin og seiðir þar af leiðandi til sín byggðina. Ég held, að þetta sé það, sem við verðum að horfast í augu við, þegar við ræðum um þetta. Við sjáum, að ýmislegt hefur verið gert á þessum 60 árum til þess að hafa áhrif í aðra átt, en hver er samt sem áður afleiðingin? Á Vestfjörðum hefur fækkað frá 1901 úr 12 þús. niður í rúm 10 þús. Á Norðurlandi hefur ofur lítið fjölgað, úr 20 upp í 30 þús. Það er allt saman, meira að segja með hinni tiltölulega stóru Akureyri og þeirri þróun, sem þar er. Á Austurlandi hefur svo að segja alveg staðið í stað, 10600 árið 1901, 10500 árið 1961. Á Suðurlandi, þegar Reykjaneskjördæmi er ekki talið þar með, þá voru þar 1901 rúm 13 þús., en nú 1961 16 þús. M.ö.o.: byggðin í landinu stendur í stað. Á Vesturlandi verður það sama uppi. Það er bara Kjalarnesþingið eitt, sem breytist. Og það er ekki nokkurt spursmál um það, að orsökin til þess er, að menn hafa flykkzt hingað til þess að njóta þeirra atvinnutækja, sem hér hefur verið komið upp. Og því, að atvinnutækjunum hefur verið komið hér upp, veldur að vísu sá náttúrlegi grundvöllur, sem gullkista Faxaflóa er, en ofan á það hrannast svo allt hitt, öll verzlunin, allt embættisbáknið, bankarnir, allt saman er staðsett hér, meginið af öllum æðri skólum landsins, allt saman verður til að skapa þessa samþjöppun. Undirstraumurinn er peningarnir og þeirra lögmál, en allt hitt dinglar á eftir, embættisskipulagið og allt annað þess háttar, allt saman fylgir í kjölfarið, og fólkið leitar eðlilega til þessa, stundum vegna atvinnu, stundum vegna gróðamöguleika, stundum vegna menntunar, en það er þetta lögmál, sem þarna er að verki. Og það, sem við verðum að gera okkur ljóst, ef okkur finnst þetta vera vandamál, sem ég býst við að við séum allir sammála um, og ef okkur finnst, að þetta sé atriði, sem við eigum að ráða við, þá verðum við að skilja þessa orsök. Þá verðum við að skilja, að það er sjálft þetta lögmál þessa peningaþjóðfélags, sem þarna er að verki, og þá verðum við að taka ráðin af þessu lögmáli, þá verðum við að stöðva það, að þetta lögmál fái að njóta sín, fái að hafa áhrif. Það þýðir m.ö.o., að við mennirnir sem hugsandi verur verðum að kryfja þetta til mergjar, og þá munum við komast að þeirri niðurstöðu, að við getum breytt þessari þróun, og það er það, sem við verðum vitandi vits að gera. Við verðum að horfast í augu við það, að við viljum ekki láta þessa þróun gerast áfram. Við álítum, að landið eigi að vera jafnar byggt, a.m.k. hvað fjórðungana snertir, að það sé ekki heppilegt fyrir okkar þjóðlíf, að um árið 2000, ef svona héldi áfram, þá yrðu 300–400 þús. á Íslandi og þá yrðu kannske 300 þús. af þeim hér í Kjalarnesþinginu.

Ef við viljum ekki láta þessa þróun halda áfram, verðum við að grípa þarna inn í. Og hvað þýðir það, á hvern hátt verðum við að grípa þarna inn í? Við verðum sjálfir, mennirnir, að taka að okkur að stjórna þessari þróun, og það þýðir fyrst af öllu að stjórna sjálfri þróun atvinnulífsins. Það þýðir m.ö.o. að taka ákvarðanir um, hvar atvinnutæki þjóðarinnar skuli staðsett, ráða því sjálfir, hvernig byggðarlagið þróast, en taka auðvitað tillit til náttúrlegra skilyrða. Við færum ekki að staðsetja atvinnutækin, t.d. hraðfrystihúsin og bátana, þar, sem enginn fiskur væri. Það hefur svo sem ekki vantað fiskinn, hvorki fram undan Snæfellsnesi né Vestfjörðum, og vantar hann ekki heldur yfirleitt fyrir norðan núna. En engu að síður hrannast öll útgerðarfyrirtækin hér, og meira að segja á útgerðarstöðum, þar sem jafnvel beztu fiskimiðin eru í grennd, þar verða menn jafnvel að flýja með bátana, vegna þess að það vantar í landi aðstöðu til þess að taka á móti auknum bátaflota. Þetta þýðir, að þjóðfélagið sjálft verður að ákveða þessa þróun, en láta ekki peningana sem vald í þjóðfélaginu ákveða þetta blint. Það þýðir, að hér á Alþingi verður að taka ákvarðanir um, á hvern hátt þróunin skuli gerast í byggðum landsins, og það þýðir í fyrsta lagi að ákveða, hvar atvinnutækin skuli vera staðsett með réttu tilliti til fiskimiða og allrar aðstöðu, en með tilliti til þessa líka að þjappa ekki byggðinni allri saman á einn einasta blett.

Þá þurfum við að koma okkur niður á það, hvernig við viljum hafa þessa þróun. Það var fyrir 18 árum mín till., þegar um þessi mál var rætt, að það yrði reynt að koma upp í hverjum af fjórðungum landsins allstórum bæjum, t.d. á Snæfellsnesi yrði stefnt beint að því að koma upp einum bæ, sem væri með — skulum við segja — 5–10 þús. íbúa og ætti fyrir sér að vaxa. Á Vestfjörðum yrði líka einbeitt þannig að einum af litlu bæjunum, sem þar eru. Á Norðurlandi og Austurlandi yrði farið að á sama máta. Við einbeittum okkur að því að skapa allstóra bæi, sem síðan hnoða utan um sig. Einn slíkur bær þýðir, þegar það er orðinn bær upp á ein 10 þús., að þar er hægt að hafa — við skulum segja bara í sambandi við sjávarútveginn sem okkar atvinnugrundvöll, — þar er hægt að hafa flestallar þær tegundir af fiskverkunarstöðvum, sem við þurfum á að halda, ekki aðeins hraðfrystihús, saltfiskverkun, skreið og annað slíkt, heldur líka fiskimjölsverksmiðjur og annað þess háttar, og skipuleggja þetta þannig, að það væri frá upphafi sem allra praktískast. Eins og menn vita, hefur það stundum gerzt svo hrapallega, þegar menn hafa verið að reyna að koma upp einhverju slíku að menn hafa kannske farið í smábæ eins og Ólafsvík að koma jafnvel upp tveimur fiskimjölsverksmiðjum. Menn hafa deilt og rifizt um það, hverjir ættu að eiga þetta og reka þetta, og jafnvel endað með því, að það var á endanum ekki til einu sinni aðstaða til þess að geta tekið á móti svo stórum bátum þar, að þeir gætu almennilega lagzt þar að bryggju, að þeir gætu fengið þar nóg af fólki, og jafnvel tilhneiging komin upp til að flýja burt með stærstu og nýjustu bátana, vegna þess að það var ekki skipulagt fyrir fram af stórhug og framsýni, að hverju skyldi stefnt í þessu, en einhver smáhreppapólitík í hvert skipti eða smáhagsmuna mótsetningar stundum, t.d. kannske á milli kaupfélaga og einstakra atvinnurekenda og annarra slíkra um, hver fengi valdið yfir viðkomandi tæki. Ef við hefðum stefnt að því fyrir tveimur áratugum að koma upp a.m.k. einum stórum bæ á hverju af þessum svæðum, sem ég nefndi, bæ, sem hefði 5–10 þús. manns og ætti fyrir sér að vaxa, þá hefði slíkur bær hnoðað utan um sig sjálfur. Við sjáum það t.d. með Akureyri, sem er eini bærinn, sem hefur ofur lítið getað þróazt í þessa átt og átt samt erfitt. En hvernig var líka búið að Akureyri? Eftir að Akureyri fékk sína 4 nýsköpunartogara, liðu 10 ár, þangað til búið var að koma upp hraðfrystihúsi á Akureyri. Það kostaði sífellda baráttu, það sem átti að koma undireins, samtímis. Og þannig hefur alltaf skort á þetta hjá okkur. Jafnvel þó að á þetta hafi verið bent og fyrir þessu barizt, þá hefur skort heildarstjórnina á þessari þróun, en það er hún ein, sem getur afstýrt því, að þetta blinda lögmál peninganna fái að ráða svona áfram, fái að umróta svona áfram þjóðfélaginu eins og það hefur gert fram að þessu, svona blint, með þeim afleiðingum, sem allir eru svo hálfhræddir við, þegar að þessu kemur, þegar í ljós kemur, hvað orðið er.

Eina ráðið til að koma í veg fyrir þetta er, að þjóðfélagið sem slíkt setji sér ákveðna áætlun um, hvernig það ætlar að byggja þetta upp, hvernig það ætlar að byggja upp atvinnulífið, marki þetta til alllangs tíma, til 5 ára, til 10 ára og jafnvel lengri tíma, til þess þannig að ráða alveg við og stjórna því, hvernig þessi þróun skuli gerast. Það þýðir, að mennirnir sem slíkir taki valdið af peningunum, að mannsvitið taki við af því blinda lögmáli, sem þarna er að valda vandræðum. Við sósíalistar köllum þetta áætlunarbúskap. Við höfum reynt hvað eftir annað að sannfæra menn um, að þetta væri eina leiðin til þess að ráða við þessa blindu þróun, sem við horfum þarna upp á. Ef farið hefði verið að okkar till., mundu slíkir bæir hafa verið komnir upp nú þegar, í staðinn fyrir að skapa hjá okkur hér í Reykjavík og hér í grenndinni raunverulega nýjan 3–4 þús. manna bæ á hverju ári, sem er bara byggður við hina bæina. Hver einstaklingur í þjóðfélaginu, hver einstakur atvinnurekandi, sem byrjar, tekur ákvörðun út frá sínum hagsmunum, út frá því, sem hann heldur að komi sér að gagni peningalega séð. Ég veit, að það voru meira að segja freistingar, sem til allrar hamingju viðkomandi atvinnurekendur réðu þó við, — það voru freistingar hjá einu af stærstu fyrirtækjunum á Akureyri, súkkulaðiverksmiðjunni Lindu, til að flytja allt saman hingað suður. Í staðinn hafa þeir ráðizt í stóra byggingu á Akureyri, og það er ákaflega gott út af fyrir sig. En ég nefni þetta bara sem dæmi, hvað tilhneigingin er mikil. Við vitum það, að fyrir mann, sem framleiðir súkkulaði, er helmingurinn af öllum hans markaði hér í Reykjavík og í grennd. Það sparar honum svo og svo mikinn flutningskostnað, ef hann væri hér, í stað þess að byggja norður á Akureyri. Öll þessi svokölluðu hagrænu lögmál ýta undir þetta, ef hver einstaklingur ákveður þetta frá sínu einkahagsmunasjónarmiði. En svo framarlega sem þjóðfélagið grípur þarna inn í og stuðlar að annarri skynsamlegri þróun og skynsamlegri þróun en þessari, þá er hægt líka að fullnægja þessum hagsmunasjónarmiðum, en bara ekki gera það blint.

Ég held, að það, sem við þyrftum einmitt að taka ákvarðanir um, væri stórfelld þjóðaráætlun um slíka uppbyggingu, þar sem við gengjum út frá því að stjórna þróuninni í þá átt, að atvinnutækin skuli staðsett mjög fjölbreytt, allt frá togurum og stórum bátum upp í hraðfrystihús og fiskiðjuver, niðursuðuverksmiðjur, fiskimjölsverksmiðjur og annað slíkt og menningarmiðstöðvar. Ég segi þetta ekki eingöngu með tilliti til þess, hvernig sveitirnar eru að tæmast hjá okkur vegna þessarar þróunar. Litlu kauptúnin og þorpin fara að fara sömu leiðina og hafa sums staðar farið hana þegar. Það er dreifbýlið sem slíkt, sem er allt í hættu. Bæir, sem voru eins og fjórði eða fimmti hlutinn úr Reykjavík um aldamótin, hafa dregizt þannig aftur úr, að þeir eru nú kannske ekki nema fertugasti hluti hennar. Þetta er heildarþjóðfélagslegt vandamál, sem við verðum að glíma við. Og ég veit um ágæta útgerðarbæi, eins og t.d. Ólafsvík og aðra slíka, að þeir eiga í baráttu upp á líf og dauða út af þessum málum. Nú þegar bátarnir eru að stækka upp í það að verða yfirleitt 100–200 tonn, þegar þeir útheimta þess vegna miklu betri aðstöðu og allt slíkt, þá er þetta orðið svo brýnt, að tilhneigingarnar til þess að flýja hingað suður verða gífurlega sterkar, ef það er ekki ráðizt af hálfu þjóðfélagsins í stórfelldar ráðstafanir, sem gerbreyta þessari þróun, ef við tökum ekki völdin af peningunum og þeirri þróun, sem peningarnir skapa, og stjórnum út frá vilja mannanna sjálfra og hvernig við viljum hafa þetta, hvernig við, þjóðfélagið í heild, viljum hafa þetta, en ekki láta bara þá blindu peninga stjórna okkur og ráða því, hvernig við byggjum landið.

Þetta er vandamál, eins og ég gat um, sem hefur einkennt alla þessa öld. Þetta er ekki bara síðan í styrjöldinni, þó að þeir taki réttilega hér upp, þeir framsóknarmenn, sem þetta flytja, í sinni grg. samanburð 1940–1961. Það er alveg sama þróunin 1901–1940, hún bara gerist heldur hægar. Það er samsvarandi þróun, sem gerist þá á 40 árum, sem síðan hefur gerzt á 20 árum. En þróunin er alveg sú sama, tilhneigingin alveg sú sama, stöðvunin í fjórðungunum utan Kjalarnesþings sú sama. Á þessari öld hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að reyna að ýmsu leyti að sporna við þessu. Menn hafa fundið snemma til þessa og verið ýmislegt að reyna að gera. Framsfl. hefur sjálfur verið meira eða minna í stjórn helminginn af öllu þessu tímabili, og ég veit, að hann hefur verið fullur af vilja til þess að reyna að viðhalda þessu dreifbýli. Og það eru fleiri en hann. Það hafa verið gerðar af því opinbera, líka þegar Framsfl. hefur verið í stjórnarandstöðu, stórfelldar ráðstafanir til þess einmitt að gera þetta, en þetta hefur allt saman ekkert dugað. Það voru af hálfu Framsfl. t.d., þegar hann var hvað valdamestur hér á fjórða tug aldarinnar, gerðar miklar endurbætur viðvíkjandi vegum og símum og öllu öðru slíku í landinu til þess að reyna að gera sveitina miklu byggilegri, sem þá var samsvarandi því, sem síðan hefur verið reynt að gera með rafmagninu. Engu að síður hefur þróunin orðið sú, að sveitafólkið, sem var meiri hlutinn í okkar landi í upphafi þessarar aldar, er nú líklega að komast niður í það að vera 12–13%. Þessi borgabylting, þessi byggðabylting gerist hjá okkur hraðar en í nokkru öðru þjóðfélagi í kringum okkur.

Af hálfu nýsköpunarstjórnarinnar, þegar hún var, voru gerðar tilraunir til þess að ráða á vissan máta við þetta. Það voru teknar þær ráðstafanir í samráði við bæjarfélög víða úti um land að reyna að koma upp togaraútgerð. Áður hafði togaraútgerð aðeins verið í Reykjavík, Hafnarfirði og Patreksfirði. Það voru gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að gera svo og svo mörgum bæjarfélögum og áhugasömum og duglegum og efnuðum mönnum úti um allt land mögulegt að eignast togara. Það voru alveg sérstaklega frjálslyndar fjárhagslegar ráðstafanir, og það voru staðsettir togarar á Vestfjörðum, á Austurlandi, Norðurlandi og líka í bæjum syðra utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Hver hefur orðið samt sem áður þróunin? Þróunin hefur orðið sú, að svo að segja aðeins á Akureyri eru þessir togarar enn eftir, aðeins örlitið eftir annars staðar. Ég man eftir því, að einn af stórkapítalistunum í Reykjavík sagði, þegar þessar ráðstafanir voru gerðar þá: Þeir skulu að lokum allir koma til okkar, togararnir. — Hann þekkti svo sem það lögmál, sem að verki er í því þjóðfélagi, þar sem peningarnir eru látnir drottna, og þegar peningarnir voru síðan látnir vera það eina, sem drottnaði, nokkru síðar, þá varð þróunin þessi. Þessi hrakspá rættist.

Á tímum vinstri stjórnarinnar var ráðstafað ákaflega miklu af vélbátum út um allt land og ýtt undir það að reyna að efla þar sjávarútveginn, ekki aðeins með bátum, heldur líka með ýmiss konar fiskiðjuverum. Og það tókst að stöðva þá eða afnema það hættulega ástand, sem þá hafði ríkt, meðan helmingaskiptastjórnin sællar minningar, íhaldið og Framsókn, hafði setið að völdum í 6 ár, sem þýddi, að það var að verða atvinnuleysi úti um allt land og fólkið að flýja þaðan. Það tókst að stöðva þá hörmulegu þróun og blása nokkru lífi aftur í dreifbýlið úti um allt land. Og þegar síðan sú ráðstöfun, sem vinstri stjórnin gerði viðvíkjandi landhelginni, útfærsla landhelginnar, hjálpaði til að auka aflann úti um allt land aftur, hefur þetta nú orðið grundvöllur að því, að afkoman úti um allt land er betri en hún var á tímum helmingaskiptastjórnarinnar. Engu að síður heldur sama þróunin áfram. Meira að segja á Siglufirði, þar sem verið hefur ágætis atvinna undanfarin ár og líka að vetrinum nokkurn veginn sæmilegt, þá flytur fólkið burt. Af þeim stöðum, sem hafa yfir að ráða a.m.k. að sumrinu til einhverjum mestu auðæfum Íslands, þaðan flýr fólkið. Þessi þróun er svo harðvítug, svo ásækin, að það er alveg greinilegt, að þarna þarf til að koma heildarstjórn á þjóðarbúskapnum sjálfum, ef við eigum nokkuð að ráða við þetta.

Það er lagt til í þessu frv., að stofnaður skuli jöfnunarsjóður, hann skuli fá vissar tekjur og hann skuli leggja fram til lána og til slíks ákveðnar upphæðir á ári. Það er hægt skv. þessu að fá kannske 20–30 millj. á ári til ráðstöfunar. Hvernig er hins vegar sjálfur aðbúnaðurinn í þjóðfélaginu, ef við lítum á það sem heild? Ég þori að vísu ekki að taka neinar tölur um okkar þjóðartekjur nú í augnablikinu, þetta er svo afskaplega misjafnt útreiknað, en ef við bara förum nokkur ár aftur í tímann, 5 ár, þá var seinast reiknað með 7000 millj. kr., og af þeim 7000 millj. kr. fóru í fjárfestingu 2300 millj. kr. eða þriðji parturinn. M.ö.o.: þjóðin ráðstafar á hverju ári um 2300 millj. kr. í fjárfestingu: í atvinnutæki, í íbúðarhús, í samgöngutæki, bíla og annað slíkt.

Það er þessi ráðstöfun, sem stjórnar því, hvernig landið er byggt. Það er þessi staðsetning þessara tækja og húsa, sem keypt eru fyrir 2300 millj. kr., miðað við verðlag 1957 eða 1958, — það er þetta, sem ræður því, hvernig þróunin í landinu verður. Ef við ætlum að ráða við vandamál dreifbýlisins, verðum við að ráða við það, hvernig þessari fjárfestingu er varið, hvernig þessum þriðjungi þjóðarteknanna, hvernig þessum 2300 millj. kr. er varið, a.m.k. í höfuðatriðum. Þetta er vandamálið, sem við stöndum frammi fyrir. Ef við þorum ekki að taka þetta vandamál fyrir og reynum að hafa heildarstjórn á þessari þróun af hendi þjóðfélagsins sjálfs, þá höldum við áfram að horfa upp á þetta. Þá gerum við kannske á næstu árum og áratugum smáráðstafanir, við samþykkjum kannske svona frv. og segjum: Þarna hafið þið 20–30 millj., þarna hafið þið 1% til þess að ráða fjárfestingu. — Við skellum kannske nokkrum stórum vélbátum einhvers staðar úti á landi og lögum kannske hafnaraðstæður fyrir þá. En þetta segir allt saman ekki neitt. Þetta er ósköp gott út af fyrir sig og fallegt o.s.frv., en það er bara engin lausn á vandanum, sem liggur fyrir okkur. Annaðhvort verðum við að ráða við þetta eða við verðum eins og leiksoppar í höndum þessarar þróunar, eins og við höfum verið í 60 ár.

Þetta er ekki vandamál, sem við einir reynum. Það verður tilfinnanlegra fyrir okkur, vegna þess að það gerist hraðar hjá okkur en annars staðar. Það verður líka tilfinnanlegra fyrir okkur vegna þess, að við erum sérkennilegri þjóð en nokkur önnur þjóð jafnvel í Evrópu, og það er tilfinnanlegra, að slíkri þjóð sé kippt upp með rótum og hent hér á útnesin. En aðrar þjóðir hafa sama vandamálið. Ég hef ofur lítið kynnt mér þetta vandamál í Tékkóslóvakíu. Í Tékkóslóvakíu var með þróun kapítalismans þar nákvæmlega sama upp á teningnum. Í Bæheimi hrannaðist saman á 19. öldinni og framan af 20. öldinni svo að segja allur stóriðnaður landsins, meginið af öllu því, sem byggt var af nýjum verksmiðjum og öllu öðru slíku, var þarna, og Bæheimur var ágætt iðnaðarland. Slóvakía aftur á móti, þ.e.a.s. eystri hluti Tékkóslóvakíu, var dreifbýli. Það varð sífellt fámennara og fámennara. Þar bjuggu menn í sveitunum, og unga fólkið tíndist burt til Bæheims og Mæris, og smám saman var Slóvakía að tæmast, en Bæheimur að verða því þéttbyggðari og kolarykið yfir námubæjunum því svartara.

Þegar sósíalisminn komst á í Tékkóslóvakíu, var það eitt hið fyrsta, sem tekið var fyrir, að gerbreyta þessari þróun. Í Slóvakíu er t.d. meginið af öllum beztu fallvötnum Tékkóslóvakíu. Það var ráðizt í stórkostleg raforkuver í Slóvakíu. Það voru byggð í sambandi við raforkuverin gífurleg iðjuver, sem þýddi, að mannfjöldinn hélzt í Slóvakíu og tók að fjölga þar, m.ö.o.: með því, að þjóðfélagið sjálft gegnum sitt þing og sína stjórn tekur þau völd í sínar hendur af peningunum að ráða, hvar atvinnutækin í landinu séu staðsett, og ráða þar með þróun byggðarlagsins. Og nú hefur þessari þróun verið snúið við. Nú hafa í dreifbýlinu, sem áður var, verið skapaðar stórar iðnaðarmiðstöðvar, vegna þess að þarna er þjóðarbúskapur, sem er rekinn samkv. áætlun með sósíalistísku sniði.

Þetta er það eina, sem við getum gert til þess að ráða við þessa þróun. Við þurfum ekki hér á Íslandi endilega að koma á sósíalisma til þess, vegna þess að ef við tökum slíka heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, þá hefur íslenzka ríkið án þess að afnema með öllu kapítalisma eða koma á sósíalisma það mikil tök á okkar atvinnulífi, bankarnir eru hér ríkisbankar og afskipti þjóðfélagsins og ríkisins af atvinnulífinu meiri en í nokkru öðru kapítalistísku landi Evrópu, þannig að við getum ráðið við þessa þróun, ef við aðeins gerum okkur ljóst, hverjar orsakir hennar eru, og ráðumst á orsakirnar sjálfar, látum ekki peningalögmálið stjórna þessu alveg blint, heldur búum til okkar áætlanir um það, hvernig við viljum þróa byggðina í landinu, og undirstaðan að byggðinni eru sjálf atvinnutækin.

Það hefði verið ánægjulegt, fyrst maður á annað borð er að ræða svona hluti hér, að sjá þá framkvæmdaáætlun, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað mjög mikið og við nú þegar erum að heyra um að eigi að gera einhverjar ákveðnar ráðstafanir, — nokkur hundruð milljónum króna, þ. á m. erlendum lánum, sem tekin eru, skuli varið til þess að byggja upp okkar atvinnulíf og þjóðlíf á vissum svæðum, og þar með meina ég: vissum þjóðlífssvæðum, en ekki landfræðilega séð. Það hefði verið gaman að geta rætt slíkt og tekið það nokkuð til meðferðar, að hve miklu leyti slík framkvæmdaáætlun slíkrar ríkisstj. kæmi eitthvað inn á að ráða við þessi vandamál, sem hér eru fyrir. Ég er því miður hræddur um, að það felist ekki í slíkri framkvæmdaáætlun. Ég er því miður hræddur um, að þar felist aðeins í, að það skuli kannske reyna á næsta ári að setja svona marga milljónatugi í hús, svona marga milljónatugi í vegi, svona marga milljónatugi í hafnir. En að það sé búin út nákvæm áætlun um, hvar þetta skuli gert, það veit ég ekki til enn þá, hefur okkur ekki enn þá verið sagt, en það er einmitt það, sem hefði átt að leggja hér fyrir Alþingi, ef það var ætlunin að koma með einhverja slíka áætlun. Hér var einmitt ástæðan til þess að stjórna þróun þessarar byggðar.

Mönnum finnst kannske einkennilegt, að ég, sem er þm. Reykv., skuli ræða þetta mál svona. En ég vil greinilega taka það fram, að ég álit, að þetta vandamál dreifbýlisins sé ekki síður vandamál fyrir Reykvíkinga og þá, sem búa hér í þéttbýlinu. Það er eitt af því, sem veldur ákaflega miklu um allt braskið, dýrtíðina og öll þau vandræði í Reykjavík og hér í kringum okkur, það er einmitt, hvað allt hrannast hingað suður. Það yrði miklu auðveldara að ráða við þá hluti, ef ekki væri slík öfugþróun sem því miður er í okkar þjóðfélagi. Þess vegna álít ég, að í sambandi við þetta vandamál dreifbýlisins sé um heildarþjóðfélagslegt vandamál að ræða, sem verði ekki ráðið við, svo að vel sé, nema gripið sé fyrir orsakirnar að því og við sameinumst sjálfir um, að mennirnir taki í sínar hendur, þjóðfélagið taki í sínar hendur stjórnina á þjóðarbúskapnum og þar með á þróun byggðarlagsins, en láti þetta ekki ráðast af þeirri tilviljun, hvernig peningalögmálið verkar á hverjum tíma.

Það frv., sem hér er um að ræða, er út af fyrir sig góðra gjalda vert, það sem það nær. En það ræður ekki við það vandamál, sem við erum að ræða um, og það er slæmt, að þeir einmitt, sem að því standa, skuli ekki á sínum tíma hafa notað þau tækifæri, sem voru, til þess að ráða við þetta vandamál, til þess að taka það róttækt, því að öðruvísi er ekki hægt að ræða það.