29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2033)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Fram. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum gera aths. við síðustu ræðu hv. 1. þm. Vestf. Hann var enn að rifja upp gamlar minningar um stjfrv., sem lagt var fyrir hér í marzmánuði 1956, um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hann hélt því enn fram, að það hefði verið sök framsóknarmanna, að það hefði ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu þá á þingi. Ég hef áður svarað þessu og sýnt fram á, að svo var ekki. Hv. þm. segir nú, að það muni hafa verið fyrir áhrif frá Alþb., sem hafi sett það skilyrði fyrir stjórnarsamvinnu eftir kosningar. Nú er það öllum kunnugt, að umr. um stjórnarmyndun með þátttöku Alþb. hófust ekki fyrr en eftir kosningarnar 1956, og má því ljóst vera, að þetta er ekki rétt.

Þá segir hv. þm., að ég hafi flutt brtt. til að rjúfa samninga um málið og fella frv. Ég bar fram eina brtt. um atriði, sem að mínum dómi var þýðingarmikið, og fékk hana samþykkta. En ég var vitanlega ekki að rjúfa neina samninga með þessu. Það var aldrei um það samið milli stjórnarflokkanna, að ekki mætti breyta stafkrók í frv. Og þetta sést bezt á því, að hv. 1. þm. Vestf. sjálfur, þáv. þm. Barð., bar fram 10 brtt. í Ed., eins og ég hef áður bent á.

Þá sagði hv. 1. þm. Vestf., að Framsfl. hefði engan áhuga fyrir málinu og hefði ekki haft fyrr eða síðar. Þetta hefði hann ekki átt að segja, því að þetta er vitanlega alrangt. Áhugi flokkanna í málinu sést á því, hve miklu þeir verja til þessara mála af fjármunum, þegar þeir eru í stjórn. Ég hef áður í þessum umr. vakið athygli á því, að framlögin nú hjá núv. stjórnarflokkum til atvinnubótasjóðs eru ekki að verðgildi nema um það bil 1/3 af þeirri fjárhæð, sem veitt var til atvinnuaukningar á tímum vinstri stjórnarinnar 1957–58. Af þessu geta menn markað áhuga flokkanna fyrir þessum málum.

Meiri hl. hv. fjhn. vill vísa þessu máli frá og hefur borið fram till. um það. E. t. v. verður dagskrártill. samþykkt af stuðningsmönnum stjórnarinnar, þó að órökstudd sé. En málið verður tekið upp á ný og borið fram til sigurs, þó að svo kunni að fara á þessu þingi, að því verði vísað frá. Það verður tekið upp á ný og borið fram til sigurs, vegna þess að þjóðin hefur þörf fyrir þær ráðstafanir, sem um ræðir í frv., ef hún ætlar að verða frjáls og fullvalda á komandi tímum.