12.02.1963
Efri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2051)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) ræddi hér í gær um þetta mál og m.a. um vaxtakjör stofnlánadeildar landbúnaðarins. Mér skildist á ræðu hv. þm., að honum þættu vextir stofnlánadeildarinnar sízt of háir. Hv. 11. þm. Reykv. ræddi um þessa hluti aftur á bak og áfram. Og þar sem ég fékk aldrei úr því skorið, hvað hann teldi hagfræðilega rétt að vextirnir væru, þá vildi ég mega varpa fram þeirri spurningu til hans, hvar hann telur, að vaxtamörkin eigi að vera, og hvað hann telur, að atvinnuvegir þjóðarinnar þoli háa vaxtabyrði. Ég er þeirrar skoðunar, að sú vaxtabyrði, sem atvinnuvegirnir búa nú við, sé allt of mikil. Og þetta hefur m.a. núv. hæstv. ríkisstj. viðurkennt. Hún hefur viðurkennt það á tvennan hátt, að mér finnst: Í fyrsta lagi með því að lækka vextina frá því, sem þeir voru í febrúar 1960 til áramótanna 1960 og 1961. Það sýndi sig þá þegar, að þeir vextir og sú vaxtabyrði, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði atvinnuvegunum að bera, ásamt hækkuðum vöxtum af öllum stofnlánum, var þeim um megn. Þess vegna neyddist hæstv. ríkisstj. til að lækka vexti af lánum í ársbyrjun 1961. Og í annan stað hefur hæstv. ríkisstj. gert annað, sem er viðurkenning á þessu ástandi varðandi vextina og atvinnuvegina. Hún hefur gagnvart báðum höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði, gripið til sérstakra aðgerða til þess að festa lausaskuldir til margra ára, vegna þess að það sýndi sig, að sú vaxtabyrði, sem atvinnuvegirnir greiddu af þessum lausaskuldum, voru svo háir, að það var útilokað, að til lengdar gætu atvinnuvegirnir þolað þá byrði. Þess vegna voru þessi lausaskuldalán lengd hjá þeim aðilum, sem höfðu lánað þau, hvort heldur voru kaupfélög, bankar, sparisjóðir eða aðrir aðilar. Þessi lán voru fest til 20 ára á nokkru lægri vöxtum en almennir víxlavextir voru á þeim tíma og eru nú.

Þetta tvennt, lækkun vaxtanna frá og með ársbyrjun 1961 ásamt því að gripa til sérstakra ráðstafana gagnvart lausaskuldum, er viðurkenning hæstv. ríkisstj. á því, að atvinnuvegirnir þoldu ekki þessa vaxtabyrði. Og ég efast ekki um, að hv. 11. þm. Reykv., sem er hagfróður maður og réttlátur, ef pólitíkin blindar hann ekki um of, geti gefið þær skýringar á þessu, sem við getum sætt okkur við.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ) er ekki hér viðstaddur nú, en eigi að síður vil ég ræða nokkuð þau sjónarmið, sem komu fram hjá hv. þm. í ræðu hans hér í gær, ekki sízt vegna þess, að hv. þm. er bankastjóri þess banka landsins, sem hefur með að gera útlán úr stofnlánasjóðum landbúnaðarins, sem frv. þetta fjallar um, sem hér er til umr., auk þess sem þessi bankastjóri á að gæta þess, að bændastétt landsins finni hag sínum borgið gagnvart Búnaðarbankanum fremur en hjá öðrum lánastofnunum í landinu. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé meiri skylda Búnaðarbanka Íslands að veita bændum landsins fyrirgreiðslu umfram það, sem stofnlánasjóðirnir veita, en öðrum bönkum landsins, því að bankinn er fyrst og fremst stofnaður með það fyrir augum, að hann geti greitt úr fjárhagsörðugleikum bændastéttarinnar, hvernig svo sem þau vandamál eru vaxin.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði og það með réttu, — þar viðurkenndi hann það, sem við framsóknarmenn héldum fram fyrir ári, — að stofnlánadeild landbúnaðarins væri ekki þess megnug að veita svo há lán út á framkvæmdir bænda, að þeir slyppu við lausaskuldasöfnun. Hann sagði, að því miður hefði stofnlánadeildin ekki orðið þess megnug. En hæstv. ríkisstj. og hv. þm., sem tilheyra henni, héldu því hiklaust fram í fyrra, að þegar búið væri að lögfesta stofnlánadeildina og hún væri tekin til starfa, þá væri um leið fyrirbyggð lausaskuldasöfnun hjá bændum landsins. En bankastjórinn, hv. 6. þm. Norðurl. e., sem mjög er kunnugur þessum málum, viðurkenndi í ræðu sinni í gær, að slíkt hefði ekki tekizt. Og þó er svo komið hjá bændastétt landsins, að fjárfesting, einkum í byggingum, hefur minnkað verulega frá því, sem hefur verið á undanförnum árum. Ráðstafanir hæstv. ríkisstj. og viðreisnin svonefnda hafa haft þau áhrif á uppbyggingu sveitanna almennt í landinu. Og ef maður lítur á nokkrar tölur, sem teknar eru úr upplýsingum frá Efnahagsstofnun ríkisins, þá kemur þetta m.a. mjög greinilega í ljós. Varðandi útihús í sveitum og allt samkv. verðlagi, sem gilti árið 1954, þá voru það ár, byggð útihús í sveitum fyrir 50.6 millj. kr., árið 1955 fyrir 55.3 millj., 1956 fyrir 48 millj., 1957 fyrir 54 millj., 1958 fyrir 54.4 millj. og 1959 fyrir 53.2 millj. Svo koma þáttaskilin: 1960 er byggt fyrir 44.7 millj. og 1961 fyrir 41.1 millj. Þessar tölur tala sinu máli. Þær sýna þróun byggingarmála sveitanna hin síðari ár, og það eru 2 ár — takið eftir því — það eru 2 ár, sem skera sig mjög úr, árin 1960 og 1961, því að þá fer bygging útihúsa lækkandi úr 54.4 millj. kr, árið 1958 og niður í 41.1 millj. árið 1961, eða lækkunin er því sem næst 25%. Þarna hefur viðreisnin verið að verki og valdið því, að þær framfarir, sem átt hafa sér stað í sveitum landsins hin síðari ár, hafa gengið mjög til baka, síðan ráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. komu til framkvæmda.

Við getum litið á ýmsar aðrar hliðar þessa máls. Því hefur verið haldið fram og var haldið fram í umr. um stofnlánadeild landbúnaðarins í fyrra, að sú lánastofnun mundi einnig verulega bæta úr fyrir þeim, sem væru að hefja búskap í landinu, vegna þess að það ætti að veita fjölþættari lán úr þessum sjóðum eða stofnlánadeildinni en verið hafði áður hjá deildum Búnaðarbankans. En hefur tekizt með þessum ráðstöfunum og stofnun stofnlánadeildarinnar að glæða áhuga unga fólksins fyrir framkvæmdum og fyrir uppbyggingu í sveitum og fyrir því, að það vildi hefja búskap í sveitum? Ég held, að allar þær tölur, sem við höfum yfir slíkt, sýni hið gagnstæða. Og jafnvel þessi stofnlán eru svo óhagstæð, að unga fólkið hugsar sig áreiðanlega tvisvar um, áður en það hefur búskap, og það engu síður þótt það fái nú lán til 6 ára, sem nema 30% af kaupverði þeirra véla eða tækja, sem þarf að kaupa, þegar hefja skal búskap. En þetta er það eina, sem gert hefur verið af hálfu stofnlánadeildarinnar umfram það, sem áður þekktist hjá deildum Búnaðarbankans. Viðreisnin var fyrst og fremst fólgin í því að hækka verðlag mikið í landinu, og landbúnaðurinn hefur ekki sízt farið varhluta af þeim verðhækkunum, þar sem öll tæki til landbúnaðarins hafa hækkað um rúmlega 100% og það þrátt fyrir loforð og fyrirheit frá 1958 frá hæstv. landbrh. um það, að hann skyldi sjá til þess, að þeir skattar, sem þá væru á tækjum landbúnaðarins, skyldu fljótlega afnumdir, eftir að Sjálfstfl. kæmist til valda.

Við skulum bregða upp ofur lítilli mynd af ungum hjónum, sem eru að hefja búskap. Þau eiga, eins og að líkum lætur, sjálf ákaflega litla fjármuni til að leggja fram við bústofnsmyndunina. Segjum, að þau kaupi þann bústofn, sem gert er ráð fyrir í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða og verðlagið er miðað við. Þá þarf að kaupa 10 nautgripi, sem mundu kosta ca. 60 þús. kr., og 140 ær, sem mundu kosta að haustlagi 84 þús. kr., og nýtízku dráttarvél með tækjum mundi vart kosta undir 156 þús. kr., þannig að þarna er fjárfesting strax í upphafi eingöngu varðandi bústofn og vélakaup upp á 300 þús. kr.

Hvernig bætir stofnlánadeild landbúnaðarins úr fyrir þessum hjónum? Jú, þau geta fengið út á vélarnar kannske 40 þús. kr. lán til 6 ára, og vextir af því láni mundu verða 2600 kr. Þá eru eftir 260 þús. kr., sem vart mundu fást með vöxtum undir sem næst 10%, eða eins og víxlavextir eru með stimpilgjaldi og öllum tilheyrandi kostnaði. Og vextir af þessum 260 þús. mundu verða 26 þús. kr. Þarna er þá strax komin vaxtagreiðsla upp á 28600 kr., eingöngu vegna bústofns- og vélakaupa. Eftir er þá jarðnæðið með tilheyrandi húsakynnum og öllu öðru, sem til búrekstrar þarf, og mundi vaxtagreiðsla, ef um kaup á jarðnæði væri að ræða, verða allmikil. En jafnvel þó að þessi ungu hjón væru svo heppin, að þau fengju jarðnæði með húsakynnum gefins eða leigt með mjög vægu verði, væru þau hreint ekki vel sett eftir sem áður. Það hefur verið um það rætt, að þetta væri nú ekki svo mikið, vegna þess að það væri gert ráð fyrir miklum vaxtagreiðslum í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins og neytendurnir, sem keyptu afurðirnar, mundu þar af leiðandi taka á sig verulegan hluta af vaxtagreiðslunum. En hvað er það há upphæð í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, sem gert er ráð fyrir að fari til greiðslu vaxta af skuldum? Það eru 6200 kr. Aðrir vextir, sem reiknað er með í verðlagsgrundvellinum, eru vextir af eigin fé í búinu.

Þetta sýnir bezt, hvað það er mikil fjarstæða að halda því fram, að það sé með verðlagsgrundvellinum nokkur leið til að rétta þessu fólki þá hjálparhönd, sem verður að gera, ef landið á að byggjast í framtíðinni. Það verður að grípa til annarra ráða, ef slíkt á að takast. Og ég held, að það verði seint, sem hægt verður að koma öllum vaxtagreiðslum og ekki sízt fyrir þá, sem eru að hefja búskap, inn í verðlagsgrundvallarverðið, vegna þess að það er svo mikið af skuldum enn þá í landbúnaðinum, sem er á lægri vöxtum en þeir vextir, sem gilda nú í dag. Það hefði kannske verið einhver möguleiki, ef vaxtafóturinn hefði ekki breytzt svo ýkja mikið frá því, sem var, þegar vextirnir voru lægri. En þróun þessara mála hefur verið sú hjá hæstv. ríkisstj., að allir vextir, bæði af stofnlánum og af almennum lánum, hafa stórhækkað og gert þar af leiðandi öllum, sem þurfa að fjárfesta, mjög þungt fyrir fæti, og á það ekki sízt við um einstaklinga.

Það er nú enginn hæstv. ráðherra hér inni, en eigi að síður vil ég minnast nokkuð á gerðir ríkisstj. í sambandi við þessi mál, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur keppzt við og hennar fylgdarlið að hæla viðreisninni. Ég vil segja: Það þarf bæði kjark og þor til þess, ekki sízt þegar gömlu loforðin eru hugleidd, þau að afnema alla þá skatta, sem kallaðir voru framsóknarskattar, á vélum og tækjum til landbúnaðarins. En í staðinn fyrir að standa við þau gefnu fyrirheit hafa þessi tæki hækkað um 100% rúmlega í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Þetta finnst mér sannast að segja vera mjög vítaverð framkoma. Síðan kemur hæstv. ríkisstj. ásamt sínu fríða föruneyti og lögfestir það að taka af bændum á árunum 1962–1975 hvorki meira né minna en 618 millj. kr., eða sem næst 1 kr. á móti hverri 1 kr., sem kemur annars staðar að, ekki frá ríkinu eingöngu, heldur einnig frá neytendum. Og þetta heitir að byggja sjóði landbúnaðarins upp af ríkisins hálfu. Slíkt hefur ekki þekkzt fyrr, enda sér það á, að bændur landsins eru mjög tvístígandi nú um það, hvort þeir eigi að halda áfram búskap eða ekki, og mundu margir hætta, ef þeir eygðu einhverja möguleika á því að sjá fram á, að þeir fengju eitthvað fyrir sínar eignir í sveitunum. En eins og kom fram berlega í gær í þessum umr. og ekki sízt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., bankastjóra Búnaðarbankans, þá er mjög illa fyrir þeim málum séð og hefur á engan hátt verið leiðrétt í tíð hæstv. núverandi ríkisstjórnar.

Það er enginn vafi á því, að þessi nýja stefna, sem tekin hefur verið upp í landbúnaðarmálum af hæstv. núv. ríkisstj., veldur bændum landsins þungum búsifjum, — mjög þungum. Og ég efast ekki um, að hæstv. ríkisstj. og hennar lið fær sinn dóm fyllilega frá bændum landsins í þessu máli á komandi vori, enda ekki seinna vænna að sýna, hvert stefnir í þessum málum. Það er útilokað mál með 6½% vöxtum að ætlast til þess, að lánsupphæðin ein fari í vaxtagreiðslur á 15 árum. Búskapurinn er ekki svo arðvænlegur, að hann geti risið undir slíku. Og það er líka útilokað að ætla landbúnaðinum að greiða enn þá hærri vexti af öllum þeim lausaskuldum, sem kunna að safnast vegna framkvæmdanna. Látum vera, þegar til slíkra ráða er gripið að safna í svona sjóði frá bændanna hálfu, eins og þessum 618 millj., ef bændurnir hefðu sjálfir haft einhverja íhlutun um ráðstöfun á þessu fjármagni, en það hafa þeir alls ekki. Þarna er bankastjórn, sem er óháð bændum og bændasjónarmiðum, sem ræður um útlánastarfsemi þess fjár, sem kemur frá bændunum sjálfum. Þessi stefna er algerlega gagnstæð því, sem ríkt hefur í þessum málum, vegna þess að það voru áður ríkið og almenningur í landinu, sem byggðu upp sjóði Búnaðarbankans og studdu að eflingu landbúnaðarins í landinu, en ekki eingöngu bændastéttin sjálf, eins og henni er nú ætlað, jafnframt því sem mjög er að henni þrengt á ýmsum öðrum sviðum, þar sem þátttaka hins opinbera hefur á margan hátt farið mjög rýrnandi í því, er styður að landbúnaðinum hin síðari ár.

Það, sem ég tel að mundi mjög bæta um fyrir bændastéttinni, er fyrst og fremst það að lækka vexti stofnlána og einnig lækka vexti af öðrum lánum, samhliða því sem lánstíminn yrði lengdur, og einnig, að létt yrði af 1% gjaldinu til stofnlánadeildarinnar. Þetta allt til samans mundi nema nokkrum tugum og hundruðum milljóna til bændastéttarinnar á komandi árum. Og verði þetta gert, efast ég ekki um, að það rofi eitthvað til hjá bændastéttinni á næstunni, samhliða því sem ieiðrétt yrðu og færð í fyrra horf þau framlög, sem ríkið hefur greitt vegna umbóta í landinu samkv. jarðræktarlögum, og verðlag landbúnaðarafurða fengist leiðrétt frá því, sem nú er. En ef þessu heldur áfram, sem verið hefur nú hin síðustu ár, þá ber ég mikinn kvíðboga fyrir því, að allt of miklar eyður kunni að skapast í byggingu sveitanna, og öll uppbygging er það dýr og kostnaðarsöm, að ég veit ekki, hvort við mundum nokkurn tíma megnugir þess að rétta við eftir þá eyðileggingu, sem af því mundi hljótast. Af þeim sökum höfum við framsóknarmenn lagt þetta frv. hér fram, til þess að reyna að létta þær þungu byrðar á bændastéttinni, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur á þær lagt með viðreisninni og viðreisnarráðstöfununum á undanförnum árum.