12.02.1963
Efri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2054)

132. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. hefur rætt nokkuð þetta mál, og ég get þakkað honum fyrir það, að hann hefur í ræðu sinni upplýst mig um atriði, sem mér voru ekki áður kunn, að það hefði tekið hæstv. ríkisstj. tvö ár að sýna einhvern lit á því, að hún gæti staðið við gefin fyrirheit um að endurreisa stofnlánasjóðina, sem hún kallaði.

Annars hef ég aldrei skilið þetta málfar hjá hv. stjórnarsinnum, þegar þeir eru að tala um endurreisn. Þegar Framsfl. fer frá völdum, er skuldlaus eign stofnlánasjóða landbúnaðarins 100 millj. kr. En hvers vegna varð að endurreisa þessa sjóði, og hverjir voru við völd á því tímabili, sem sjóðþurrðin verður? Hverjir voru það, sem báru ábyrgðina á þeim málum? Hverjir voru það? Var það ekki Alþfl., og var það ekki Sjálfstfl.? Það er ekkert gert til að afla þessum sjóðum fjár, fyrr en leitað er í vasa bændanna sjálfra nú fyrir ári. Framsfl. er kennt um ástand sjóð. anna, eins og það er í ársbyrjun 1962, en framsóknarmenn fóru frá völdum í árslok 1958. Þetta er blekking, og þetta er ekki betri blekking en hv. þm. vildi vera láta, að ég hefði hér viðhaft áðan. Annars gat hv. þm. aldrei sannað það, hvaðan peningarnir kæmu í stofnlánadeildina, Hann vissi ósköp vel, sem var, að 2 kr. af hverjum 3 koma úr vasa bændanna sjálfra, og það er ekki svo mikið, að það komi ein króna á móti þremur frá ríkinu, vegna þess að í þessari einu krónu er sá hlutinn, sem kemur frá neytendunum og leggst á verðlagið til þeirra, svo að mér finnst, að orðin um þessa miklu endurreisn, sem hv. þm. talaði um í þessu sambandi, hefði hann gjarnan mátt spara sér, því að það er engin endurreisn að hverfa frá því að sjá sjóðum Búnaðarbankans fyrir nægjanlegu fé og að ríkið greiði þann vaxtamismun, sem kann að skapast, eins og verið hefur föst regla frá stofnun sjóðanna allt þangað til hin nýja landbúnaðarstefna öðlaðist gildi fyrir þátttöku hv, 10. landsk. og annarra stjórnarsinna.

Ég held, að hv. þm. eigi ekki að vera að tala um blekkingar, því að það væri hægt að nefna dæmi hér, þar sem hv. 10. landsk. hefur blekkt íslenzka bændur ekki minna heldur en hann vildi vera láta, að ég hefði gert í minni ræðu, því að í minni ræðu stenzt það fullkomlega, að það koma 2 kr. í þessa sjóði á móti einni krónu annars staðar að. En hv. þm. gæti minnzt þess, að hann lofaði því í ræðu hér á hv. Alþingi að létta byrðar á bændum landsins, en guggnaði við að standa við það, þegar á átti að herða, svo að ég held, að hann megi gjarnan hugleiða þetta. (BGuðm: Dæmi?) Já, ég get nefnt dæmi. Það var þegar verið var að ræða um tollskrárbreytingu, að þá lofaði hv. þm. því við 1. umr. hér í þessari hv. d., að hann mundi styðja það, að landbúnaðinum yrðu léttar byrðar í sambandi við skatta og aðflutningsgjöld af vélum og tækjum, en þegar til atkvgr. kom, gat hv. þm. ekki staðið við sín orð.

Þá minntist hv. 11. þm. Reykv. (ÓB) hér á nokkur atriði, sem ég vil gjarnan minnast nokkuð á. Ég spurði hv. þm. einnar spurningar, hvað hann teldi, að atvinnuvegirnir í landinu þyldu háa vexti, vegna þess að ég var búinn að færa sönnur á það, að atvinnuvegirnir þola hvorki stofnlánavaxtagreiðslurnar né aðra vexti, sem þeir verða að greiða af sínum skuldum. Og þetta hefur m.a. verið viðurkennt af hæstv. ríkisstj. á tvennan hátt: í fyrsta lagi með vaxtalækkuninni í ársbyrjun 1961 og í öðru lagi með því að setja sérstök lög um lausaskuldalán á lægri vöxtum en giltu af sjálfum lausaskuldunum. Þetta tel ég nægar sannanir fyrir því, að hæstv. ríkisstj. telur, að vextirnir séu of þung byrði á atvinnuvegunum.

Þá sagði hv. þm., að það væri ósköp þægilegt að bera fram frv. um afnám skatta og hækkun gjalda án þess að þurfa að gera nokkra grein fyrir tekjuöflun, sem ætti að mæta þeim útgjöldum, sem ríkissjóður yrði fyrir. Ég vil benda hv. þm, á það, að Framsfl. hefur tekizt að halda við hinni eðlilegu uppbyggingu í landbúnaðinum með því að afla almennra skatta í landinu til þeirra hluta, án þess að fara eingöngu í vasa bændanna sjálfra. Og ég get nefnt dæmi um þetta, að þegar lög um byggingar- og landnámssjóð eru sett 1929, þá er í fjárl. þess árs 2.4% af heildartekjum fjárl. varið til byggingar- og landnámssjóðs. En hvað voru þessi gjöld há á fjári. ársins sem leið, 1962? Fjárl. voru hátt á annan milljarð, og gjöldin á fjárl. til stofnlánadeildar landbúnaðarins voru um það bil jafnhá af hverjum 1000 kr. fjárl. og þau voru af hverjum 100 kr. fjárl. 1929. Þetta er nú reisnin. Og mér finnst að koma úr hörðustu átt, þegar um það er talað, að þetta frv. sé sýndarmennska ein, þegar horft er fram á það, að unga fólkið í þessu landi og fjöldi annarra getur ekki þrátt fyrir góðan vilja hafið búskap og haldið byggðinni við.